Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 50. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 50  —  50. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001.

Flm.: Höskuldur Þórhallsson, Guðni Ágústsson, Valgerður Sverrisdóttir,


Magnús Stefánsson, Siv Friðleifsdóttir, Birkir J. Jónsson, Bjarni Harðarson.



1. gr.

    Í stað 2. málsl. 2. mgr. 23. gr. laganna koma þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Auglýst skal opinberlega eftir umsóknum um stöðu bankastjóra. Sé um að ræða stöðu formanns bankastjórnar skal það tekið fram. Bankastjórar skulu hafa háskólamenntun, reynslu og þekkingu á peningamálum og öðrum efnahagsmálum.

2. gr.

    Við 24. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fundargerðir vaxtaákvarðanafunda bankastjórnar Seðlabankans skulu birtar opinberlega í kjölfar ákvörðunar bankastjórnar um stýrivexti hverju sinni. Gerð skal grein fyrir forsendum ákvörðunarinnar og þeim markmiðum sem eiga að nást með henni.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Markmiðið með því frumvarpi sem hér er lagt fram er að tryggja að faglega sé staðið að ráðningu seðlabankastjóra og að ákvarðanir við beitingu stjórntækja Seðlabanka Íslands í peningamálum séu teknar á faglegum forsendum. Verulegu máli skiptir fyrir trúverðugleika og ímynd bankans hvernig staðið er að skipan seðlabankastjóra. Það má engum blandast hugur um að þeir sem eru skipaðir í embætti séu ekki aðeins hæfir til að gegna því heldur séu þeir hæfastir í hópi þeirra sem völ er á. Trúverðugleiki hvers seðlabanka er honum afar mikilvægur. Því má enginn vafi leika á því að Seðlabankinn sé sjálfstæður og starfi á faglegum forsendum.
    Gerð er tillaga um að stöður seðlabankastjóra verði auglýstar og að gerð verði krafa um reynslu og þekkingu á sviði peninga- og efnahagsmála. Einnig er nauðsynlegt að viðkomandi hafi háskólapróf á þessum sviðum. Með þessu er komið til móts við harða gagnrýni um að ákvarðanir seðlabankastjóra séu teknir á öðrum forsendum en faglegum á tímum þar sem sífellt meiri krafa er gerð um markvissa og faglega stjórnun peningamála.
    Eitt af markmiðum með setningu laganna um Seðlabanka Íslands var að auka sjálfstæði bankans og gera honum kleift að vinna markvisst og faglega að stjórnun peninga- og efnahagsmála landsins. Ljóst er að slíkum markmiðum verður ekki náð nema eining og samstaða ríki um bankann og að tryggt verði að bankanum verði stjórnað af faglega hæfum einstaklingum. Einnig verða ákvarðanir sem þar eru teknar að njóta trausts almennings og fjármála- og efnahagslífsins. Frumvarpið naut víðtæks stuðnings á Alþingi enda voru með því gerðar sömu kröfur um gagnsæi, fagleg vinnubrögð og sjálfstæði Seðlabankans og gerðar eru til annarra seðlabanka víðs vegar um heiminn.
    Ákvarðanir í peningamálum eru að verulegu leyti orðnar faglegt viðfangsefni þar sem bankinn stefnir að ákveðnu verðbólgumarkmiði en gengi krónunnar ræðst af markaði. Það er því til samræmis við þær kröfur að gerð er tillaga um að færustu sérfræðingar í peningamálum séu við stjórn bankans. Við þessu hafa flestir seðlabankar heims brugðist enda eru flestir seðlabankastjórar heimsins menntaðir hagfræðingar.
    Í 2. mgr. núgildandi 23. gr. laga um Seðlabanka Íslands er fjallað um skipun seðlabankastjóra. Þar segir m.a. að forsætisráðherra skipi formann bankastjórnar Seðlabankans og aðra bankastjóra til sjö ára í senn. Ekki er skylt að auglýsa þessi embætti til umsóknar. Ljóst er að forsætisráðherra er veitt skipunarvaldið án nokkurs aðhalds frá Alþingi, ríkisstofnunum eða fjármálamarkaðinum. Ekki eru gerðar sérstakar kröfur til umsækjenda í lögunum né þarf að fara fram sérstakt mat á þeim sem ætlað er að gegni starfinu. Í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, er sérstaklega tekið fram í 5. tölul. 6. gr. að almenn skilyrði til skipunar eða ráðningar í starf á vegum ríksins er að hlutaðeigandi starfsmaður hafi almenna menntun og þar að auki þá sérmenntun sem lögum samkvæmt er krafist eða eðli málsins samkvæmt verður að heimta til óaðfinnanlegrar rækslu starfans. A.m.k. sömu kröfur hlýtur að þurfa að gera til ráðningar seðlabankastjóra en þó eru engar slíkar kröfur uppi. Gamlar venjur byggðar á gömlum sjónarmiðum og forsendum eiga ekki lengur við.
    Í ályktunum síðasta flokksþings Framsóknarflokksins frá árinu 2007 er sérstakleg kveðið á um að afnema beri pólitískar ráðningar seðlabankastjóra. Þá tóku ráðherrar og þingmenn flokksins þá ákvörðun er flokkurinn sat í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili að óska þess að seðlabankastjóri yrði faglega ráðinn.
    Við upphaf 136. löggjafarþings árið 2008 eru blikur á lofti í íslensku efnahagslífi. Þegar frumvarpið er lagt fram 3. október mælist verðbólga um 14%, stýrivextir eru 15,5% og skuldatryggingaálag ríkisins mælist um 600 punktar. Gengi íslensku krónunnar hefur aldrei verið veikara og gengisvísitalan mælist 207 stig. Má segja að gengi krónunnar hafi verið í frjálsu falli undanfarnar vikur og mánuði. Áður en löggjafarþingið var sett hafði Seðlabankinn forustu í þjóðnýtingu eins stærsta banka landsins, Glitnis. Ákvörðunin er ekki bara umdeild út frá stöðu Glitnis heldur einnig út frá því hvernig staðið var að ákvörðuninni. Það má hins vegar engum dyljast að svo stór ákvörðun sem snertir allt fjármálalíf þjóðarinnar sé eingöngu tekin út frá faglegum forsendum en ekki pólitískum. Í raun á það ekki að gerast að spurningar vakni um hvort hagfræðingar Seðlabankans hafi verið með í ráðum við ákvörðunina. Það er því enn brýnni nauðsyn nú að frumvarp þetta nái fram að ganga.
    Einnig er lagt til í frumvarpi þessu að birtar verði fundargerðir vaxtaákvarðanafunda bankastjórnar Seðlabankans. Í fundargerð skuli gerð grein fyrir forsendum ákvörðunarinnar og þeim markmiðum sem eiga að nást með henni. Flutningsmenn þessa frumvarps telja að það sé nauðsynlegt fyrir fjármálalífið að það fái upplýsingar um á hvaða grunni þessar ákvarðanir séu teknar. Gagnrýnt hefur verið af hálfu fjármálafyrirtækja að forsendur og markmið stýrivaxtaákvarðana séu ekki uppi á borðinu. Sú breyting sem hér er lögð til er fyrst og fremst sett fram til að auka tiltrú á Seðlabankanum og auka gagnsæi stýrivaxtaákvarðana bankans. Um leið fengi bankinn nauðsynlegt aðhald og málefnaleg umræða mundi aukast. Það er mat flutningsmanna þessa frumvarps að trúverðugleiki bankans hvað varðar stjórn peningamála verði ekki tryggður nema jafn stórar ákvarðanir og þessar séu uppi á borðinu.