Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 52. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 52  —  52. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Flm.: Árni Johnsen, Lúðvík Bergvinsson, Guðni Ágústsson, Ólöf Nordal,


Kjartan Ólafsson, Björk Guðjónsdóttir, Grétar Mar Jónsson,
Bjarni Harðarson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Jón Gunnarsson, Herdís Þórðardóttir.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      5. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað orðanna „framkvæmd við útgáfu leyfa, skilyrði fyrir leyfum og innheimtu og ákvörðun löggæslukostnaðar“ í 7. mgr. kemur: framkvæmd við útgáfu leyfa og skilyrði fyrir leyfum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var áður flutt á 135. löggjafarþingi (510. mál).
    Samkvæmt 33. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, er meginreglan sú að allur kostnaður af starfsemi lögreglunnar greiðist úr ríkissjóði. Fjárveitingavaldinu ber því að tryggja að nægilegt fé sé veitt til löggæslumála ár hvert svo að unnt sé að halda uppi lögum og allsherjarreglu í landinu. Í 1. mgr. 34. gr. laganna var þar til í júlí 2007 að finna ákvæði sem heimilaði lögreglu að innheimta sérstakan löggæslukostnað af skemmtistöðum ef það væri metið svo að aukinnar löggæslu væri þörf.
    Töluverðar deilur hafa oft sprottið af innheimtu sérstaks löggæslukostnaðar og ungmennafélög hafa m.a. verið krafin um háar fjárhæðir vegna landsmóta. Heimild lögreglustjóra til að binda skemmtanaleyfi skilyrðum um aukna löggæslu og greiðslu löggæslukostnaðar byggðist þá á hæpinni lagastoð.
    Vorið 2007 voru samþykkt á Alþingi ný lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, og tóku þau gildi 1. júlí það ár. Með 28. gr. laganna var 1. mgr. 34. gr. lögreglulaga felld úr gildi. Í 17. gr. nýju laganna er nú skýrar en áður kveðið á um að leyfi þurfi fyrir skemmtunum og hátíðum og er þar talið upp í dæmaskyni að það gildi um útihátíðir, útitónleika, skóladansleiki og tjaldsamkomur. Aðeins virðist gert ráð fyrir að einkasamkomur falli utan við gildissviðið. Í samræmi við það er í 5. mgr. greinarinnar ákvæði sem heimilar að það skilyrði sé sett fyrir veitingu skemmtanaleyfis að leyfishafi greiði þann kostnað sem leiðir af aukinni löggæslu umfram venjubundna löggæslu á sama tíma. Lagastoð fyrir innheimtu löggæslukostnaðar hefur því verið treyst.
    Flutningsmenn telja að meginreglan eigi að vera sú að hið opinbera greiði allan kostnað af þeirri löggæslu sem lögreglan telur nauðsynlega á hverjum tíma. Lögreglustjóri á að meta hversu mikillar löggæslu er þörf og þeir sem standa fyrir samkomum eru ekki í aðstöðu til að meta slíkt eða andmæla mati lögreglustjóra. Ljóst er að greiðsla löggæslukostnaðar kemur illa niður á starfi ungmennasambanda og íþróttafélaga sem hafa reglulega staðið fyrir útihátíðum og tjaldsamkomum á sumrin, að ekki sé minnst á skólaskemmtanir.
    Mjög mikillar mismununar gætir í þessum efnum um allt land og segja má að hugdettur ráði oft hvort löggæslugjald er innheimt eða ekki. Til að mynda eru engar gjaldtökur af hálfu ríkisins á stærstu samkomum landsins eins og á stórhátíðum í Reykjavík, Akureyri og reyndar í flestum byggðarlögum landsins sem standa að útihátíðum. Aðeins örfá sýslumannsembætti landsins rukka löggæslukostnað.
    Þessi mismunun er óeðlileg og ósanngjörn fyrir utan það að fremur ætti að verðlauna fólk sem vill standa fyrir útihátíðum á Íslandi en refsa því. Þetta bitnar á þeim sem minna mega sín en hinir sleppa. Árið 1998 ákvað fjárlaganefnd Alþingis að leggja til ákveðið fjármagn á ári sem átti að dekka þennan kostnað (þá alls um 7 millj. kr.). Alþingi samþykkti þetta og þannig gekk það fyrir sig í tvö ár, en þá tók dómsmálaráðuneytið til sinna ráða og úthlutaði þessum peningum að eigin geðþótta og síst til þeirra sem voru rukkaðir um löggæslugjald. Þar með hvarf þessi fjárlagaliður inn í heildarpakka ráðuneytisins og þeir sem á brann sátu óbættir hjá garði.
    Niðurfelling þessarar gjaldtöku er einfalt réttlætismál. Af þeim sökum er lagt til að heimild lögreglu í 5. mgr. 17. gr. laganna til að krefjast greiðslu löggæslukostnaðar verði felld brott ásamt heimild til að kveða nánar á um framkvæmd við innheimtu og ákvörðun löggæslukostnaðar í reglugerð.