Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 53. máls.

Þskj. 53  —  53. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum um verðbréfaviðskipti,
nr. 108/2007, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)
1. gr.

    99. gr. laganna orðast svo:
    Með verðbréfum er í þessum kafla átt við verðbréf sem atkvæðisréttur fylgir, jafnvel þótt nýting atkvæðisréttarins falli niður, og fjármálagerninga sem veita rétt til að afla þegar útgefinna slíkra verðbréfa.
    Ákvæði þessa kafla gilda um yfirtöku sem tekur til útgefanda með skráðar höfuðstöðvar á Íslandi hvers verðbréf hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi.
    Þau ákvæði kafla þessa sem fjalla um upplýsingar sem veittar skulu starfsmönnum þess útgefanda sem yfirtökutilboð tekur til, sbr. 5. mgr. 104. gr., skulu gilda gagnvart stjórn útgefanda með skráðar höfuðstöðvar á Íslandi sem hefur fengið flokk verðbréfa tekinn til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan EES, en ekki á Íslandi. Sama á við gagnvart þessum útgefendum varðandi þau ákvæði kaflans sem tengjast félagarétti og þau ákvæði hans sem heimila stjórn að grípa til hvers kyns aðgerða sem geta komið í veg fyrir yfirtökutilboðið. Ákvæði kafla þessa taka ekki til yfirtöku á útgefanda með skráðar höfuðstöðvar á Íslandi sem hefur eingöngu fengið verðbréf tekin til viðskipta á verðbréfamarkaði utan EES.
    Um yfirtökutilboð sem tekur til útgefanda með skráðar höfuðstöðvar í öðru ríki innan EES og sem hefur fengið flokk verðbréfa tekinn til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi gilda eingöngu þau ákvæði kaflans sem fjalla um endurgjald þegar um er að ræða skyldubundið yfirtökutilboð og þau ákvæði sem fjalla um málsmeðferð tilboðsins. Ákvæði kaflans gilda ekki ef viðkomandi útgefandi hefur einnig fengið flokk verðbréfa tekinn til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í því ríki þar sem höfuðstöðvar þess eru skráðar.
    Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. gilda ákvæði kaflans ekki ef útgefandi hefur fengið flokk verðbréfa tekinn til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í öðru ríki innan EES en því þar sem höfuðstöðvar hans eru skráðar, áður en verðbréf hans eru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi. Ef verðbréf útgefanda eru samtímis tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi og í öðru ríki EES en því þar sem höfuðstöðvar þess eru skráðar skal útgefandi ákveða reglur hvors ríkisins skulu gilda um hann varðandi endurgjald þegar um er að ræða skyldubundið yfirtökutilboð og þau ákvæði sem fjalla um málsmeðferð tilboðsins og tilkynna það til viðkomandi skipulegs verðbréfamarkaðar og lögbærs yfirvalds áður en viðskipti hefjast.
    Ákvæði þessa kafla gilda um yfirtökutilboð sem tekur til útgefanda með skráðar höfuðstöðvar í ríki utan EES sem hefur fengið flokk verðbréfa tekinn til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eingöngu á Íslandi, en ekki öðrum verðbréfamörkuðum.
    Um yfirtökutilboð sem tekur til útgefanda með skráðar höfuðstöðvar í ríki utan EES sem hefur fengið flokk verðbréfa tekinn til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi og öðrum verðbréfamörkuðum gilda eingöngu þau ákvæði kaflans sem fjalla um endurgjald þegar um er að ræða skyldubundin yfirtökutilboð og þau ákvæði sem fjalla um málsmeðferð tilboðsins.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 100. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Hafi aðili beint eða óbeint náð yfirráðum í félagi þar sem flokkur verðbréfa hefur verið tekinn til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði skal sá aðili eigi síðar en fjórum vikum eftir að hann vissi eða mátti vita um tilboðsskyldu eða niðurstaða um hana lá fyrir gera öðrum hluthöfum félagsins yfirtökutilboð, þ.e. tilboð um að kaupa hluti þeirra í félaginu. Með yfirráðum er átt við að aðili og þeir sem hann er í samstarfi við:
                  1.      hafi samanlagt eignast a.m.k. 33% atkvæðisréttar í félaginu,
                  2.      hafi á grundvelli samnings við aðra hluthafa rétt til að ráða yfir sem nemur a.m.k. 33% atkvæða í félaginu, eða
                  3.      hafi öðlast rétt til þess að tilnefna eða setja af meiri hluta stjórnar í félaginu.
     b.      1. tölul. 3. mgr. orðast svo: Hjón, aðilar í staðfestri samvist, aðilar í skráðri sambúð og börn hjóna eða aðila í staðfestri samvist eða skráðri sambúð.
     c.      Við 3. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Bein eða óbein tengsl á milli aðila innan eða utan þess félags sem í hlut á, hvort sem um er að ræða rík hagsmunatengsl eða persónuleg tengsl, reist á skyldleika, tengdum eða vináttu, eða tengsl reist á fjárhagslegum hagsmunum eða samningum, sem líkleg eru til að leiða til samstöðu aðila um að stýra málefnum félagsins í samráði hvor eða hver við annan þannig að þeir ráði yfir því.
     d.      4. mgr. orðast svo:
                  Tilboðsskylda skv. 1. mgr. hvílir á þeim aðila samstarfs sem eykur við hlut sinn þannig að mörkum 1. mgr. sé náð. Ef sá aðili samstarfs sem eykur við hlut sinn er ekki höfuðaðili samstarfsins getur Fjármálaeftirlitið í undantekningartilfellum tekið ákvörðun um að yfirtökuskyldan færist yfir á höfuðaðila samstarfsins. Fjármálaeftirlitið getur heimilað að aðrir megi einnig standa að tilboði einir sér eða með þeim sem er tilboðsskyldur samkvæmt þessari málsgrein, enda sé um það sótt eigi síðar en tveimur vikum eftir að sá er tilboðsskyldur er vissi eða mátti vita um þá skyldu eða úrlausn um tilboðsskyldu lá fyrir. Skulu þá aðilar bera óskipta ábyrgð á tilboðinu og efndum þess.
     e.      Við 5. mgr. bætast tveir nýir málsliðir svohljóðandi: Sótt skal um slíka undanþágu í síðasta lagi tveimur vikum eftir að aðili vissi eða mátti vita um tilboðsskylduna og ekki síðar en tveimur vikum eftir að úrlausn um hana lá fyrir. Heimilt er að sækja sérstaklega um frest á því að selja hluti sem eru umfram þau mörk er greinir í 1. mgr. á meðan mál er til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu samkvæmt þessari málsgrein.
     f.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Nú fer aðili og þeir sem hann er í samstarfi við með yfirráð í félagi þegar verðbréf þess eru tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, og verður hann þá ekki tilboðsskyldur samkvæmt þessari grein, enda auki hann ekki atkvæðisrétt sinn í félaginu umfram næsta margfeldi af fimm. Þetta gildir þó ekki ef viðkomandi aðili missir yfirráðin en nær þeim að nýju.

3. gr.

    Á eftir 100. gr. laganna kemur ný grein, 100. gr. a, svohljóðandi:
    Nú hyggst hluthafi, eða annar aðili, kaupa hluti í félagi eða gera aðra samninga eða ráðstafanir sem leiða mundu til skyldu hans til að gera yfirtökutilboð samkvæmt lögum þessum, og getur hann þá með skriflegri og rökstuddri beiðni til Fjármálaeftirlitsins óskað eftir því að verða leystur undan tilboðsskyldu í tiltekinn tíma. Skilyrði þess að slíkt leyfi megi veita eru að markmið umsækjanda sé að forða félagi frá alvarlegum fjárhagsvanda eða taka þátt í endurskipulagningu félags vegna fjárhagsvanda þess og stjórn félagsins sé því samþykk.
    Fjármálaeftirlitið skal afgreiða umsókn skv. 1. mgr. svo fljótt sem auðið er og ekki síðar en tveimur vikum frá því umsóknin og gögn sem hún er reist á berast því.
    Fjármálaeftirlitið getur bundið leyfi samkvæmt þessari grein skilyrðum, t.d. um hámark hluta eða um atkvæðisrétt eða um skyldu til að selja hluti fyrir tiltekin tímamörk.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 101. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Ákvæði þessa kafla gilda einnig fyrir valfrjáls tilboð. Með valfrjálsu tilboði er átt við tilboð sem beint er til allra hluthafa viðkomandi félags án þess að um tilboðsskyldu sé að ræða skv. 1. mgr. 100. gr. Í valfrjálsu tilboði er tilboðsgjafa ekki skylt að fylgja ákvæðum 2. og 4. mgr. 103. gr. um skilmála í yfirtökutilboði.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                  Tilboðsgjafa sem gerir valfrjálst tilboð er heimilt að takmarka tilboð sitt þannig að það taki einungis til hluta hlutafjár eða atkvæðisréttar viðkomandi félags, að því tilskildu að tilboðið hafi ekki í för með sér að tilboðsskylda stofnist skv. 100. gr. Við takmarkað tilboð samkvæmt þessari málsgrein skal gefa öllum hluthöfum eða eigendum atkvæðisréttar kost á að afhenda verðbréf sín eða atkvæðisrétt í réttu hlutfalli við hlutafjáreign sína eða atkvæðisrétt.
     c.      5. mgr. orðast svo:
                  Ef tilboðsgjafi hefur náð yfirráðum í félagi í kjölfar valfrjáls tilboðs í alla hluti allra hluthafa í viðkomandi félagi ber viðkomandi ekki skylda til að gera yfirtökutilboð í samræmi við 100. gr. hafi hann fylgt ákvæðum 2.–4. mgr. 103. gr. um skilmála í tilboðinu. Sama gildir ef tilboðsgjafi hefur eignast meira en 9/10 hlutafjár í félagi eða ræður yfir samsvarandi atkvæðamagni í kjölfar valfrjáls tilboðs.

5. gr.

    Við 102. gr. laganna bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitið getur krafið þann aðila sem íhugar eða er skyldugur til að gera yfirtökutilboð um að gera innan tilgreinds frests opinberlega grein fyrir fyrirætlunum sínum ef það telur að orðrómur um yfirvofandi yfirtökutilboð hafi óeðlileg áhrif á verðmyndun verðbréfa útgefanda.
    Nú er gert opinbert að aðili íhugi að gera yfirtökutilboð og skal hann þá birta lokaákvörðun um hvort hann hyggist leggja fram yfirtökutilboð innan sex vikna, í samræmi við ákvæði 1. mgr. Ef slík ákvörðun er ekki tekin innan þess frests jafngildir það opinberri yfirlýsingu um að aðili hyggist ekki gera yfirtökutilboð.
    Nú lýsir aðili því yfir opinberlega að hann hyggist ekki gera yfirtökutilboð og er honum og aðilum í samstarfi við hann þá ekki heimilt að leggja fram slíkt tilboð í sex mánuði frá því yfirlýsing var birt eða að gera nokkuð það er kann að gera hann, eða aðila sem hann er í samstarfi við, tilboðsskyldan skv. 100. gr.
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að veita undanþágu frá tímamörkum 3. mgr. og frá 4. mgr. ef sérstakar ástæður mæla með því.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 103. gr. laganna:
     a.      Orðin „skv. 100. gr.“ í 2. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðanna „skv. 2. mgr.“ í 3. mgr. kemur: samkvæmt yfirtökutilboði.
     c.      Við 1. málsl. 6. mgr. bætist: sbr. þó 2. mgr. 108. gr.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 104. gr. laganna:
     a.      2. tölul. 2. mgr. orðast svo: kaup eða sölu eigin verðbréfa eða verðbréfa í dótturfélögum.
     b.      Á eftir 1. málsl. 5. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Hver stjórnarmaður skal einnig gera grein fyrir því hvort hann og aðilar honum fjárhagslega tengdir hyggjast samþykkja tilboðið, ef við á.
     c.      Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sama skylda hvílir á stjórn útgefanda með skráðar höfuðstöðvar á Íslandi sem hefur fengið flokk verðbréfa tekinn til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan EES, en ekki á Íslandi.

8. gr.

    Við 106. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Fjármáleftirlitið hefur þó heimild til að veita undanþágu frá þessari grein í þeim tilvikum sem viðurkenning stjórnvalda berst eftir að gildistíma tilboðs lýkur og sérstakar ástæður mæla með því að tilboðið eigi að haldast í gildi þrátt fyrir ákvæði 1. mgr.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 109. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Frá upphafi tilboðstímabils og fram að því tímamarki þegar upplýsingar um niðurstöður tilboðs eru birtar gilda ekki reglur um birtingu flöggunartilkynninga, sbr. IX. kafla, reglur um rannsóknarskyldu og tilkynningarskyldu fruminnherja, sbr. 125. og 126. gr., eða reglur um birtingu upplýsinga um viðskipti stjórnenda, sbr. 127. gr. Eftir að upplýsingar um niðurstöðu tilboðs hafa verið birtar skulu tilkynningarskyldir aðilar hins vegar birta tilkynningar um flöggun fyrir lok næsta viðskiptadags eftir að niðurstöður tilboðs urðu opinberar og fruminnherjar senda regluverði tilkynningu um viðskipti sín innan eins viðskiptadags, og skal útgefandi þá samdægurs tilkynna um viðskiptin til Fjármálaeftirlitsins.
     b.      Í stað 2. málsl. 2. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ef tilboðsgjafi kýs að falla frá skilyrðum sínum skal farið með slíkt í samræmi við ákvæði 107. gr. Ekki er hægt að falla frá skilyrðum innan þriggja viðskiptadaga frá lokum tilboðstímabils.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 110. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „hlutafjár eða atkvæðisréttar“ í 1. og 3. mgr. kemur: hlutafjár og atkvæðisréttar.
     b.      Í stað orðsins „hluthafanum“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: tilboðsgjafa og/eða aðila í samstarfi.
     c.      3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Skilmála fyrir innlausn og matsgrundvöll innlausnarverðs skal greina í tilkynningunni.
     d.      Í stað orðsins „hlutabréf“ í 2. mgr. kemur: verðbréf.

11. gr.

     Á eftir 3. málsl. 1. mgr. 111. gr. laganna kemur nýr málsliður er orðast svo: Sama gildir ef aðili fylgir ekki skilyrðum skv. 3. mgr. 100. gr. a eða brýtur gegn 4. mgr. 102. gr.

12. gr.

    Fyrirsögn X. kafla laganna verður: Yfirtaka.

13. gr.

    Við 112. gr. laganna bætist: sem tekur til útgefanda sem hefur fengið flokk verðbréfa tekinn til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 113. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „hlutafélagsins“ í 1. tölul. 1. mgr. kemur: félagsins; og í stað orðsins „hlutabréf“ í 7. og 12. tölul. sömu málsgreinar kemur, í viðeigandi falli: verðbréf.
     b.      Á eftir 2. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
                  Tilboðsyfirlit skal vera á íslensku. Fjármálaeftirlitið getur þó heimilað að tilboðsyfirlit sé á ensku ef sérstakar ástæður mæla með því.
                  Tilboðsyfirlit sem samþykkt hefur verið í einu EES-ríki og uppfyllir skilyrði 3. mgr. skal viðurkennt sem fullgilt hérlendis. Fjármálaeftirlitið getur þó farið fram á að meiri upplýsingum sé bætt inn í tilboðsyfirlitið ef um er að ræða atriði sem eiga sérstaklega við hérlendis um formsatriði sem þarf að uppfylla varðandi samþykki tilboðs og uppgjör fyrir yfirtekna hluti, sem og varðandi skattaleg atriði tengd tilboðinu.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 141. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „6. mgr. 100. gr.“ í 27. tölul. kemur: 8. mgr. 100. gr.
     b.      Í stað orðanna „102. gr. um tilkynningu um tilboð“ í 28. tölul. kemur: 1. mgr. 102. gr. um tilkynningu um tilboð og 4. mgr. 102. gr. um bann við að gera yfirtökutilboð.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 145. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „6. mgr. 100. gr.“ í 9. tölul. kemur: 8. mgr. 100. gr.
     b.      Í stað orðanna „102. gr. um tilkynningu um tilboð“ í 10. tölul. kemur: 1. mgr. 102. gr. um tilkynningu um tilboð og 4. mgr. 102. gr. um bann við að gera yfirtökutilboð.

17. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Nú átti eigandi hlutafjár meira en 33% atkvæðisréttar í félagi sem var skráð á skipulegum verðbréfamarkaði við gildistöku laga þessara og er hann þá ekki tilboðsskyldur skv. 100. gr. laganna, enda auki hann ekki við hlut sinn. Sama gildir hafi aðili á grundvelli samstarfs við aðra hluthafa rétt til að ráða yfir sem nemur 33% atkvæða í félaginu við gildistöku laga þessara.

18. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru gerðar tillögur að breytingum á nokkrum þáttum laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, er varða yfirtöku. Núgildandi reglur um yfirtökur voru settar með lögum nr. 31/2005 sem m.a. innleiddu ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/25/EB um yfirtökutilboð (hér eftir nefnd yfirtökutilskipunin). Reynslan hefur leitt í ljós að reglurnar eru erfiðar í framkvæmd þar sem þær eru ekki nægilega skýrar sem og hefur það leitt til ágreinings um túlkun þeirra. Til að bregðast við þessari réttaróvissu skipaði viðskiptaráðherra nefnd í nóvember 2007 til þess að fara yfir yfirtökureglur og gera eftir atvikum tillögur að breytingum á þeim. Auk þess var nefndinni ætlað að gera tillögur að innleiðingu 11. gr. yfirtökutilskipunarinnar en hún var undanskilin við innleiðingu tilskipunarinnar 2005.
    Í nefndina voru skipuð Björg Finnbogadóttir, lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu, formaður, Hákon Már Pétursson, lögfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu, Helgi Sigurðsson, framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupþings, fyrir hönd Samtaka fjármálafyrirtækja, og Viðar Már Matthíasson, prófessor og formaður yfirtökunefndar.
    Á starfstíma sínum fór nefndin í gegnum íslenska löggjöf um yfirtökur með hliðsjón af skipunarbréfi nefndarinnar og tilskipun ESB, sem og lög og reglur í nágrannalöndum okkar. Var það niðurstaða nefndarinnar að gera þyrfti nokkrar breytingar á yfirtökukafla laganna um verðbréfaviðskipti. Þá var það niðurstaðan að ekki væri þörf á því að innleiða 11. gr. yfirtökutilskipunarinnar.
    Eftir að nefndin skilaði af sér voru frumvarpsdrögin ásamt séráliti fulltrúa Fjármálaeftirlitsins send hagsmunaaðilum til umsagnar. Í frumvarpsdrögunum var ekki gert ráð fyrir að yfirtökumörkum laganna yrði breytt en í sérálitinu voru færð rök fyrir því að rétt væri að lækka yfirtökumörkin úr 40% í 33%. Að teknu tilliti til umsagna voru gerðar nokkrar breytingar á frumvarpinu. Helstu breytingar sem lagðar eru til á gildandi rétti eru eftirfarandi:
     1.      Yfirtökuskylda miðist við 33% í stað 40% nú, sbr. 2. gr. frumvarpsins.
     2.      Fjármálaeftirlitið geti í undantekningartilfellum fært tilboðsskyldu frá þeim er eykur við hlut sinn yfir á höfuðaðila samstarfsins, sbr. 2. gr. frumvarpsins.
     3.      Kveðið verði á um gildissvið laganna með tilliti til erlendra félaga í lagatexta í stað reglugerðar, sbr. 1. gr. frumvarpsins.
     4.      Kveðið verði á um það með nánari hætti en nú er hvenær aðilar teljast vera í samstarfi, sbr. 2. gr. frumvarpsins.
     5.      Lögfest verði svonefnt björgunarákvæði sem felur í sér að við sérstakar aðstæður geti aðili farið yfir yfirtökumörk án þess að verða tilboðsskyldur, sbr. 3. gr. frumvarpsins.
     6.      Fjármálaeftirlitið geti krafið aðila um að gera grein fyrir því hvort að hann hyggst gera yfirtökutilboð ef það telur að orðrómur um yfirvofandi yfirtökutilboð hafi óeðlileg áhrif á verðmyndun verðbréfa útgefanda, sbr. 5. gr. frumvarpsins.
     7.      Stjórnarmönnum verði gert að gera grein fyrir því hvort þeir og aðilar þeim fjárhagslega tengdir hyggjast taka yfirtökutilboði og að yfirlýsing þeirra verði bindandi, sbr. 7. gr. frumvarpsins.
     8.      Flöggunar- og innherjatilkynningar séu birtar í beinu framhaldi af birtingu upplýsinga um niðurstöður tilboðs, og samhliða ef kostur er, sbr. 9. gr. frumvarpsins.

Viðmið yfirtökuskyldu.
    Í 100. gr. gildandi laga er mælt fyrir um að yfirtökuskylda myndist þegar aðili hafi náð yfirráðum í félagi og miðast yfirráð við að aðili og þeir sem hann er í samstarfi við hafi samanlagt eignast a.m.k. 40% atkvæðisréttar í félaginu. Í frumvarpinu er lögð til breyting á þessu, þannig að yfirtökuskylda miðist við 33% en ekki 40% eins og verið hefur. Breytingin byggist á tillögu minni hluta nefndarinnar en meiri hlutinn taldi ekki ástæðu til að gera breytingar á mörkum tilboðsskyldu.
    Af þeim upplýsingum sem nefndin aflaði í starfi sínu má glöggt sjá að það er rík tilhneiging hjá nágrannalöndum Íslands að lækka mörk tilboðsskyldu. Má segja að Ísland sé enn eitt örfárra landa þar sem yfirtökumörk eru hærri en 33%.
    Nefndin lét gera hagfræðilega úttekt sem m.a. fólst í því að kanna hver þróun á eignarhaldi hlutafjár hefði verið hér á landi og hvort sjá mætti áhrif þess að í mörgum félögum eru margir hlutir í eigu sama aðila eða tengdra aðila. Í úttektinni kemur m.a. fram að í ellefu af tuttugu stærstu félögum sem hafa hlutabréf tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi fer einstakur hluthafi (einstaklingar eða félög) með 25% atkvæðisréttar eða meira og þar af sjö með yfir 1/3 atkvæða. Þetta sýnir að samþjöppun á eignarhaldi er algengari en dreift eignarhald á hlutabréfamarkaði hér á landi. Þá er talsvert mikil samþjöppun á milli þessara 20 hlutafélaga þar sem einstakir hluthafar eigi stóra hluti eða yfir 20% í fleiri en einu félagi og í sumum tilvikum í mörgum félögum. Því þyki ekki ólíklegt að tengsl og samstarf sé milli þessara fjárfesta og að farið sé yfir tilboðsmörk án þess að gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð. Þá þykir ljóst að stórir hluthafar á Íslandi geti auðveldlega farið með yfirráð án þess að hafa öðlast 40% atkvæðaréttar. Að þessu leyti þykir skorta á minnihlutavernd og ætti að huga að lækkun hlutfalls við myndun yfirtöku. Hins vegar þykir ljóst að lægra prósentuhlutfall geti gert meiri skaða en gagn ef reglur um yfirtökur eru ekki skýrar og ef eftirlit með hlutabréfamarkaðnum er óskilvirkt þannig að hægt sé að skjóta sér undan tilboðsskyldu með því að skrá hluti á mismunandi lögaðila eða að ákveðnir stjórnendur geti haft með sér samráð um að stjórna félagi. Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar sem ætlað er að skýra þær reglur sem gilda um yfirtökur en með þeim breytingum er hægt að koma í veg fyrir þau neikvæðu áhrif sem annars gætu orðið með lækkun yfirtökumarka.

Skylda til að gera yfirtökutilboð.
    Samkvæmt núgildandi lögum hvílir tilboðsskylda á þeim aðila samstarfs sem eykur við hlut sinn þannig að mörkum 1. mgr. 100. gr. er náð. Texti núgildandi ákvæðis er skýr að þessu leyti, en í greinargerð með lögunum er hins vegar tekið fram að Fjármálaeftirlitið geti heimilað að annar aðili innan eða utan samstarfshópsins geri tilboð í stað þess aðila sem er tilboðsskyldur skv. 4. mgr. 100. gr. Þótt sú regla sé einföld í framkvæmd, að miða við að eingöngu sá er eykur hlut sinn verði tilboðsskyldur, getur reglan verið ósanngjörn og stundum óheppileg og því er kveðið á um það í frumvarpinu að í undantekningartilfellum geti Fjármálaeftirlitið tekið ákvörðun um að tilboðsskylda færist frá þeim sem eykur við hlut sinn yfir á höfuðaðila samstarfsins. Með höfuðaðila samstarfsins er átt við þann aðila samstarfshópsins sem ræður yfir mestu hlutafé. Rétt þykir einnig að kveða á um það í lagatextanum að Fjármálaeftirlitið geti heimilað að aðrir en hluthafar megi einnig standa að tilboði með þeim sem er tilboðsskyldur. Nauðsynlegt er í því sambandi að taka líka af skarið um það að ábyrgð á slíku tilboði sé óskipt (in solidum).
    Í núgildandi lögum er ekki kveðið á um réttarstöðu aðila er eiga yfir yfirtökumörkum við töku verðbréfa til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Rétt þykir að kveða á um að viðkomandi verði undanþeginn tilboðsskyldu í slíkum tilvikum en ef þeir missa yfirráð en ná þeim aftur síðar verða þeir tilboðsskyldir.

Gildissvið ákvæða um yfirtökur.
    Samkvæmt 99. gr. laganna um verðbréfaviðskipti gilda ákvæði X. kafla þeirra um yfirtöku í hlutafélagi sem fengið hefur einn eða fleiri flokka hlutabréfa tekna til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi. Samkvæmt núgildandi lagaákvæði er ráðherra heimilt í reglugerð að kveða á um undanþágur frá ákvæðum þessa kafla varðandi erlend hlutafélög. Nefndin leggur til að umrædd reglugerðarheimild verði felld úr gildi og kveðið verði á um gildissvið laganna með tilliti til erlendra félaga í 99. gr. laganna. Er það í samræmi við markmið með breytingum á lögunum 2003 að lögfesta yfirtökureglur í heild sinni og hverfa frá því fyrirkomulagi að hafa þær að hluta í reglugerð.
         
Samstarf aðila.
    Í frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á 100. gr. laganna þannig að kveðið verði með víðtækari hætti en í gildandi lögum á um hvenær aðilar teljast vera í samstarfi. Rökin fyrir breytingunni eru þau að erfitt hefur reynst að fullnægja sönnunarkröfum gildandi laga um það hvenær samstarf milli aðila telst vera með þeim hætti að það leiði til yfirtökuskyldu. Það hefur gert þeim aðilum sem sinna eftirliti á þessu sviði erfitt um vik.

Tilkynning um hugsanlegt yfirtökutilboð.
    Í frumvarpinu er lagt til að aðila kunni að verða skylt að gera opinberlega grein fyrir því hvort hann sé að íhuga að gera yfirtökutilboð í félag. Er það gert með hliðsjón af einni af meginreglum yfirtökutilskipunarinnar, þ.e. að yfirtökutilboð hindri ekki rekstur félags lengur en sanngjarnt er. Ljóst er að það getur komið sér mjög illa fyrir rekstur félags ef óvissa ríkir um hvort yfirtökutilboð verði lagt fram. Slík óvissa kemur einnig í veg fyrir eðlilega verðmyndun á verðbréfum félagsins. Það verður einnig að teljast ósanngjarnt gagnvart hluthöfum félagsins og öðrum fjárfestum ef slík óvissa heldur félagi „í gíslingu“ í langan tíma. Sambærilega reglu má finna í öðrum Evrópuríkjum, svo sem Frakklandi og Bretlandi (e. put up or shut up principle). Reglan er nátengd reglum um meðferð innherjaupplýsinga og markaðsmisnotkun.

Yfirlýsing stjórnarmanna.
    Kveðið er á um það í frumvarpinu að stjórnarmönnum verði gert að gera grein fyrir því hvort þeir og aðilar þeim fjárhagslega tengdir hyggjast taka yfirtökutilboði og að yfirlýsing þeirra verði bindandi. Þessar upplýsingar munu renna frekari stoðum undir álit stjórnarinnar á tilboðinu. Þá eru þetta verðmætar upplýsingar fyrir marga hluthafa, enda sýnir þetta betur en nokkuð annað hvort stjórnarmönnum finnist tilboðsverðið hagstætt eða ekki. Er þessi regla mikilvæg í ljósi ákvæða frumvarpsins um að allar innherjatilkynningar skuli birtar í lok tilboðstímabils, sbr. 1. mgr. 109. gr. laganna.

Birting flöggunar- og innherjatilkynninga.
    Lagt er til að flöggunar- og innherjatilkynningar séu birtar í beinu framhaldi af birtingu upplýsinga um niðurstöður tilboðs, og samhliða ef kostur er. Núgildandi fyrirkomulag hefur þótt erfitt í framkvæmd og virðist ekki nauðsynlegt með hliðsjón af þeim verndarhagsmunum sem slíkum tilkynningum er ætlað að tryggja, enda um sérstakar aðstæður að ræða.

Lögfesting björgunarákvæðis.
    Lagt er til að lögfest verði svonefnt björgunarákvæði sem felur í sér að við sérstakar aðstæður geti aðili farið yfir yfirtökumörk án þess að verða tilboðsskyldur. Þetta á við þegar aðgerðir sem leiða til aukningar hluta e.t.v. umfram yfirtökumörk eru hluti af aðgerðum til að bjarga félagi í fjárhagserfiðleikum eða hluti af endurskipulagningu félags sem á í fjárhagserfiðleikum. Eðlilegt er að slík heimild sé í lögum þannig að þess sé kostur að ráðast í slíkar aðgerðir án þess að sá sem eykur hlut sinn við slíkar aðgerðir eigi á hættu að verða tilboðsskyldur. Verðlækkun á mörkuðum hefur sýnt að slík heimild í lögum getur verið mikilvæg. Þar sem hún felur í sér veigamikla undantekningu frá meginreglum er nauðsynlegt að sótt sé um slíka undanþágu fyrir fram og Fjármálaeftirlitið hafi um það að segja hvort og hvernig þetta megi gerast. Þá er einnig mikilvægt að stjórn umrædds félags styðji björgunaraðgerðirnar, fyrir hönd annarra hluthafa.

11. gr. yfirtökutilskipunarinnar.
    Eitt af hlutverkum nefndarinnar samkvæmt skipunarbréfi hennar var að meta hvort, og þá með hvaða hætti, 11. gr. yfirtökutilskipunarinnar skyldi innleidd í íslenskan rétt, sem var undanskilin við innleiðingu tilskipunarinnar 2005. Í 11. gr. er hin svokallaða ógildingaregla en reglunni er ætlað að fella niður ýmsar takmarkanir á framsali hlutabréfa og meðferð atkvæðisréttar við tilteknar aðstæður. Samkvæmt 12. gr. sömu tilskipunar hefur hvert aðildarríki val um hvort reglan sé innleidd eða ekki. Hvert aðildarríki verður þó að tryggja að félögum innan þeirra lögsögu sé heimilt að kveða á um, að eigin frumkvæði, í samþykktum sínum að reglan gildi gagnvart því. Niðurstaða nefndarinnar var sú að ekki væri þörf á því að innleiða 11. gr. tilskipunarinnar. Er það í samræmi við framkvæmd flestra ríkja vegna innleiðingar ákvæðisins. Þá telur nefndin ekkert í íslenskum rétti því til fyrirstöðu að félög taki regluna upp í samþykktir sínar að eigin frumkvæði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr. er lögð til breyting á gildissviði X. kafla verðbréfaviðskiptalaga og kveðið á um lagaskil. Með ákvæðinu er gert ráð fyrir að gildissvið kaflans verði fært til samræmis við ákvæði 2. mgr. 4. gr. yfirtökutilskipunarinnar. Samkvæmt ákvæði tilskipunarinnar getur einn útgefandi í ákveðnum tilvikum fallið undir lögsögu tveggja lögbærra yfirvalda og þurft að fylgja tilteknum ákvæðum hvors ríkis um sig. Á þetta við þegar viðkomandi útgefandi hefur eingöngu tekið verðbréf til viðskipta í öðru ríki EES en því þar sem höfuðstöðvar þess eru skráðar. Lögsaga hvors lögbærs yfirvalds tekur þá til tiltekinna hluta reglnanna, þ.e. reglunum er skipt í tvo flokka.
    Í fyrri flokkinn falla þau ákvæði sem fjalla um upplýsingar sem veittar skulu starfsmönnum félagsins sem tilboðið tekur til og þau ákvæði sem tengjast félagarétti, einkum hvað skuli teljast yfirráð og hvers kyns undanþágur frá skyldu til að gera yfirtökutilboð, sem og þau ákvæði sem heimila stjórn að grípa til hvers kyns aðgerða sem geta komið í veg fyrir yfirtökutilboðið (útgefanda, með skráðar höfuðstöðvar í ríki innan EES, ber ávallt að fylgja reglum heimaríkis síns sem falla undir þennan flokk).
    Í seinni flokkinn falla þau ákvæði kaflans sem fjalla um endurgjald þegar um er að ræða skyldubundið yfirtökutilboð og þau ákvæði sem fjalla um málsmeðferð tilboðsins (útgefandi getur þurft að fylgja þeim ákvæðum gistiríkis sem falla í þennan flokk). Í fylgiskjali I má sjá töflu með dæmum til frekari skýringar.
    Ákvæði 2. og 3. mgr. 99. gr. fjalla um útgefendur með skráðar höfuðstöðvar á Íslandi, 4. og 5. mgr. fjalla um útgefendur með skráðar höfuðstöðvar í öðru ríki EES og 6. og 7. mgr. fjalla um útgefendur með skráðar höfuðstöðvar utan EES.
    Í 1. mgr. 1. gr. frumvarps þessa er kveðið á um að hugtakið verðbréf í þessum kafla beri að skilja þrengra en það er skilgreint í 2. gr. laganna, að því leyti að eingöngu er átt við verðbréf sem atkvæðisréttur fylgir, jafnvel þótt nýting hans falli niður, og fjármálagerninga sem veita rétt til að afla þegar útgefinna slíkra verðbréfa. Er þetta í samræmi við hugtakanotkun yfirtökutilskipunarinnar og eðli máls. Þá er þetta í auknu samræmi við flöggunarreglur. Með orðalaginu „jafnvel þótt nýting hans falli niður“ er m.a. verið að vísa í eigin hluti félags og verðbréf sem geymd eru á safnreikningum. Fjármálagerningar sem veita rétt til að afla verðbréfa sem bera atkvæðisrétt eru t.d. heimildarskírteini og kaupréttarsamningar.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ákvæði kaflans gildi um útgefendur með skráðar höfuðstöðvar á Íslandi sem hafa flokk verðbréfa tekinn til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi og er það sambærileg regla og nú gildir, nema hvað allur vafi er tekinn af því að kaflinn gildi ekki eingöngu um hlutabréf, sbr. umfjöllun hér að framan, auk þess sem kaflinn er ekki einskorðaður við hlutafélög, heldur alla útgefendur sem hafa verðbréf sem bera atkvæðisrétt tekin til viðskipta á Íslandi, í samræmi við yfirtökutilskipunina.
    Í 3. mgr. 1. gr. er fjallað um íslenska útgefendur sem eingöngu hafa tekið verðbréf til viðskipta í öðru ríki EES en Íslandi. Um slíka útgefendur gilda eingöngu þau ákvæði kaflans sem falla undir fyrri flokkinn hér að framan. Útgefandi lýtur eftirliti Fjármálaeftirlitsins hvað þær reglur varðar. Hvað varðar þær reglur sem falla undir síðari flokkinn hér að framan skal fylgja reglum og lúta eftirliti þess ríkis þar sem verðbréfin hafa verið tekin til viðskipta. Það skal tekið fram að ef íslenskur útgefandi hefur einnig tekið verðbréf til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi, þá gilda eingöngu íslenskar yfirtökureglur um hann. Þá skal einnig bent á að ef íslenskur útgefandi hefur eingöngu verðbréf tekin til viðskipta á verðbréfamarkaði utan EES þá fellur hann utan gildissviðs þessa kafla.
    Í 4. mgr. 1. gr. er fjallað um útgefendur frá öðrum ríkjum EES. Slíkur útgefandi fellur eingöngu undir gildissvið kaflans að því er varðar þær reglur sem falla undir síðari flokkinn hér að framan, og eingöngu ef hann hefur ekki verðbréf tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í heimaríki sínu.
    Í 5. mgr. 1. gr. er kveðið á um hvaða reglur sem falla í síðari flokkinn hér að framan eigi að gilda þegar útgefandi frá öðru ríki EES, sem hefur ekki verðbréf tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í heimaríki sínu, hefur tekið verðbréf til viðskipta í fleiri en einu gistiríki.
    Í 6. og 7. mgr. 1. gr. er fjallað um gildissvið kaflans gagnvart útgefendum með skráðar höfuðstöðvar í ríki utan EES. Þess skal sérstaklega getið að yfirtökutilskipunin tekur ekki til slíkra útgefanda og hafa reglur innan EES ekki verið samræmdar með tilliti til slíkra útgefenda. Því er hverju aðildarríki eftirlátið að ákveða hvort og að hvaða marki yfirtökureglur þess gilda um slíka útgefendur. Hér er lagt til að íslenskar yfirtökureglur gildi fullum fetum um útgefendur frá ríkjum utan EES, en aðeins ef viðkomandi útgefandi hefur eingöngu verðbréf tekin til viðskipta á verðbréfamarkaði hér á landi. Ef útgefandi hefur verðbréf tekin til viðskipta í öðru ríki skulu eingöngu þær reglur sem falla undir síðari flokkinn hér að framan gilda. Þetta þýðir að ef ekki er kveðið á um tilboðsskyldu í því ríki þar sem útgefandi hefur skráðar höfuðstöðvar og verðbréf tekin til viðskipta á verðbréfamarkaði, þá mun eingöngu reyna á ákvæði kaflans þegar um valfrjáls tilboð er að ræða, og þá eingöngu þau ákvæði sem fjalla um málsmeðferð tilboðsins.

Um 2. gr.


    Með greininni eru lagðar til breytingar á 100. gr. laganna. Í 1. mgr. 100. gr. laganna er kveðið á um tilboðsskyldu og í frumvarpinu er lögð til sú breyting að tilboðsfrestur hefjist þegar aðili vissi eða mátti vita um tilboðsskyldu eða frá því að niðurstaða Fjármálaeftirlitsins um hana lá fyrir í stað þess að hann hefjist þegar yfirráðum er náð eins og kveðið er á um í núgildandi lagaákvæði.
    Lagt er til að mörk tilboðsskyldu verði lækkuð úr 40% í 33%. Í hagfræðilegri úttekt sem nefndin lét gera kom í ljós að samþjöppun á eignarhaldi á íslenskum markaði var talsvert mikil og því þörf á að auka minnihlutavernd. Um breytinguna vísast að öðru leyti til umfjöllunar í almennum athugasemdum við frumvarp þetta.
    Lögð til breyting á 1. tölul. 3. mgr. 100. gr. laganna en þar er orðið „ófjárráða“ fellt út þar sem það þykir þrengja ákvæðið of mikið. Lagt er til að nýr töluliður bætist við 3. mgr. 100. gr. laganna og verði 5. tölul. þannig að samstarf skuli talið vera fyrir hendi þegar um er að ræða bein eða óbein tengsl á milli aðila utan þess félags sem í hlut á, hvort sem um er að ræða rík hagsmunatengsl eða persónuleg tengsl, reist á skyldleika, tengdum eða vináttu, eða tengsl reist á fjárhagslegum hagsmunum eða samningum sem líklegir eru til að leiða til samstöðu aðila um að stýra málefnum félagsins í samráði hvor eða hver við annan, þannig að þeir ráði yfir því. Ástæða þess að tillaga um slíka reglu er sett er sú að tengslaregla gildandi laga er ómarkviss og hefur í framkvæmd hentað illa. Alkunna er að eigna- og hagsmunatengsl eru hér afar mikil, án þess að fullnægt sé kröfum gildandi reglna. Reglan miðar við að slík tengsl, ef þau eru þess eðlis og nægilega náin til þess að líklegt sé að þau leiði til samstöðu aðila um að stýra málefnum félags, sé eðlilegt að meðhöndla eins og um samstarf um að ná yfirráðum sé að ræða. Með samningum er átt við hvers konar samninga sem leiða til þess að aðili kemst hjá yfirtökuskyldu. Má þar nefna t.d. framvirka samninga eða afleiðusamninga. Ástæða þess að þörf er talin á tilvísun þessari er að unnt er að nota slíka samninga til þess að fara á svig við meginreglur um yfirtökuskyldu, t.d. með því að semja við þriðja aðila um að hann fari tímabundið með eignarhald án þess að nýta atkvæðisrétt þann sem fylgir viðkomandi eignarhaldi. Ónýttur atkvæðisréttur kann að nýtast þeim sem er við mörk yfirtökuskyldu sem hefði hann í reynd farið með hann sjálfur.
    Í 4. mgr. 100. gr. laganna er mælt fyrir um að tilboðsskylda skv. 1. mgr. hvíli á þeim aðila samstarfs sem eykur við hlut sinn þannig að mörkum 1. mgr. sé náð. Þótt sú regla sé einföld í framkvæmd, að miða við að eingöngu sá er eykur hlut sinn verði tilboðsskyldur, getur sú regla verið ósanngjörn og stundum óheppileg og því er kveðið á um það í frumvarpinu að í undantekningartilfellum geti Fjármálaeftirlitið tekið ákvörðun um að tilboðsskylda færist frá þeim sem eykur við hlut sinn yfir á höfuðaðila samstarfsins. Með höfuðaðila samstarfsins er átt við þann aðila samstarfshópsins sem ræður yfir mestu hlutafé. Þessu til viðbótar er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti heimilað að aðrir en hluthafar megi einnig standa að tilboði ásamt þeim sem tilboðsskyldur er, sé sótt um það eigi síðar en tveimur vikum eftir að úrlausn um tilboðsskyldu lá fyrir. Skulu þá tilboðsgjafar bera óskipta ábyrgð á tilboðinu og efndum þess. Samkvæmt núgildandi lögum er ekkert sem bannar að aðrir en hluthafar megi einnig standa að tilboði saman og í greinargerð með lögunum er tekið fram að Fjármálaeftirlitið geti heimilað að annar aðili innan eða utan samstarfshópsins geri tilboð í stað þess aðila sem er tilboðsskyldur. Rétt þykir að kveða á um það í lagatextanum sjálfum.
    Í 5. mgr. 100. gr. laganna er kveðið á um að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að veita undanþágu frá tilboðsskyldu skv. 1. mgr. ef sérstakar ástæður mæla með því. Hægt er að setja skilyrði fyrir undanþágunni, t.d. varðandi frest sem viðkomandi hefur til að selja hluti sem eru umfram leyfileg mörk og meðferð atkvæðisréttar á því tímabili. Lagt er til að til viðbótar verði því bætt við að sótt skuli um slíka undanþágu í síðasta lagi tveimur vikum eftir að aðili vissi eða mátti vita um tilboðsskylduna eða úrlausn um hana lá fyrir. Heimilt verði að sækja sérstaklega um frest á því að selja hluti sem eru umfram þau mörk er greinir í 1. mgr. á meðan mál er til úrlausnar hjá Fjármálaeftirlitinu. Í gildandi lögum er heimild til þess að leita samþykkis Fjármálaeftirlitsins til þess að þurfa ekki að gera tilboð. Þessi undantekning hefur aðeins verið talin eiga við um mjög afmörkuð tilvik, t.d. þegar aðili hefur eignast hluti við arf eða skipti og það yrði ósanngjarnt að ætla honum að gera yfirtökutilboð og það yrði einnig ósanngjarnt að ætla honum að selja strax þá hluti sem eru umfram yfirtökumörk, t.d. vegna aðstæðna á mörkuðum. Í slíkum tilvikum er ekki óeðlilegt að veitt sé undanþága frá skyldu til að gera yfirtökutilboð jafnvel þótt aðili selji sig ekki niður fyrir mörkin. Gera verður á hinn bóginn þær kröfur að sótt sé um innan skamms frests eins og gerð er tillaga um. Það er jafnframt eðlilegt að slík mál séu undir stjórn Fjármálaeftirlitsins og að undanþágu frá meginreglunni um tilboðsskyldu séu sett takmörk.
    Lagt er til að nýrri 7. mgr. verði bætt við 100. gr. þar sem fjallað er um þau tilvik þegar aðili á yfir yfirtökumörkum við skráningu. Rétt þykir að kveða á um að viðkomandi verði undanþeginn tilboðsskyldu í slíkum tilvikum, svo framarlega sem hann fer ekki yfir næsta margfeldi af fimm, en ef þeir fara undir yfirtökumörk og yfir þau aftur verði þeir tilboðsskyldir.

Um 3. gr.


    Eins og áður segir er lagt er til að ný grein, 100. gr. a, komi inn í lögin þar sem lögfest verði svonefnt björgunarákvæði sem felur í sér að við sérstakar aðstæður geti aðilar farið yfir yfirtökumörk án þess að verða tilboðsskyldir. Þetta á við þegar aðgerðir sem leiða til aukningar hluta umfram yfirtökumörk eru hluti af aðgerðum til að bjarga félagi í fjárhagserfiðleikum eða hluti af endurskipulagningu félags sem á í fjárhagserfiðleikum. Eðlilegt er að slík heimild sé í lögum þannig að þess sé kostur að ráðast í slíkar aðgerðir án þess að sá sem eykur hlut sinn við slíkar aðgerðir eigi á hættu að verða tilboðsskyldur. Verðlækkun á mörkuðum hefur sýnt að slík heimild í lögum getur verið mikilvæg. Þar sem hún felur í sér veigamikla undantekningu frá meginreglum er nauðsynlegt að sótt sé um slíka undanþágu fyrir fram og Fjármálaeftirlitið hafi um það að segja hvort og hvernig þetta megi gerast. Þá er einnig mikilvægt að stjórn umrædds félags styðji björgunaraðgerðirnar, fyrir hönd annarra hluthafa.

Um 4. gr.


    Í núgildandi lögum segir í 1. mgr. 101. gr. að ákvæði kaflans gildi einnig fyrir valfrjáls tilboð. Í 2. mgr. 103. gr. sem fjallar um lágmarksverð í tilboði er þó eingöngu vísað til 100. gr. sem fjallar um skyldubundin yfirtökutilboð. Rétt þykir að gera réttarstöðuna skýrari að þessu leyti og kveða með afdráttarlausum hætti á um það að í valfrjálsu tilboði sé tilboðsgjafa ekki skylt að fylgja þeim ákvæðum sem snúa að verði og greiðsluformi, sbr. núgildandi 2. og 4. mgr. 103. gr. Tilboðsgjafa er þó ætíð frjálst að fylgja þessum ákvæðum.
    Í 5. mgr. 101. gr. kemur fram að hafi tilboðsgjafi náð yfirráðum í félagi í kjölfar valfrjáls tilboðs í alla hluti allra hluthafa beri honum ekki að gera skyldubundið yfirtökutilboð. Eins og réttarstaðan er nú má færa rök fyrir því að unnt sé að gera valfrjálst yfirtökutilboð án þess að fylgja ákvæðum um lágmarksverð, en losna jafnframt við skyldu til að gera skyldubundið tilboð. Heppilegra er að tengja þetta lagalega hagræði við þá stöðu þegar valfrjálst yfirtökutilboð er gert í samræmi við ákvæði um lágmarksverð, sbr. til hliðsjónar réttarástand í Noregi. Hins vegar hafa tilboðsgjafar þó alltaf kost á því að setja það skilyrði í valfrjálsa tilboðinu að þeir nái að minnsta kosti 90% atkvæðisréttar, en geti að öðrum kosti fallið frá því. Nái tilboðsgjafi því marki má enn fremur gera ráð fyrir því að hluthöfum hafi þótt tilboðsverðið sanngjarnt og eðlilegt. Við það að 90% mörkunum sé náð getur tilboðsgjafi í framhaldinu beitt innlausn í samræmi við 110. gr. laganna, en sé það gert innan þriggja mánaða frá lokum tilboðstímabils skal verð sem boðið var í valfrjálsa tilboðinu teljast sanngjarnt innlausnarverð.

Um 5. gr.


    Í greininni er lagt til að í 102. gr. laganna verði kveðið á um að aðila kunni að verða skylt að gera opinberlega grein fyrir því hvort hann sé að íhuga að gera yfirtökutilboð í félag. Er ákvæðið samið með hliðsjón af einni af meginreglum yfirtökutilskipunarinnar, þ.e. að yfirtökutilboð hindri ekki rekstur félags lengur en sanngjarnt er, sbr. (f) lið 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Ljóst er að það getur komið sér mjög illa fyrir rekstur félags ef óvissa ríkir um hvort yfirtökutilboð verði lagt fram. Slík óvissa kemur einnig í veg fyrir eðlilega verðmyndun á verðbréfum félagsins. Það verður einnig að teljast ósanngjarnt gagnvart hluthöfum félagsins og öðrum fjárfestum ef slík óvissa heldur félagi „í gíslingu“ í langan tíma. Sambærilega reglu má finna í öðrum Evrópuríkjum, svo sem Frakklandi og Bretlandi (e. put up or shut up principle). Reglan er nátengd reglum um meðferð innherjaupplýsinga og markaðsmisnotkun.
    Í 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins er fjallað um hvenær aðila ber að birta tilkynningu um fyrirætlanir sínar. Þar segir að Fjármálaeftirlitið geti krafið aðila sem það hefur ástæðu til að ætla að sé að undirbúa yfirtökutilboð um að gera opinberlega grein fyrir fyrirætlunum sínum ef það telur að orðrómur um yfirvofandi yfirtökutilboð hafi áhrif á eðlilega verðmyndun á hlutum félags. Fjármálaeftirlitið getur því einungis beitt þessari heimild ef ljóst er að orðrómur um hugsanlegt yfirtökutilboð er kominn á kreik. Heimildin virkar því einnig fyrirbyggjandi. Hún hvetur aðila sem eru að íhuga að gera yfirtökutilboð til að tryggja trúnað um slíkt og gæta þess að upplýsingar leki ekki til óviðkomandi. Hér er einnig rétt að minna á að útgefanda sem veit af undirbúningi yfirtökutilboðs ber að gæta þess að innherjalistar séu uppfærðir með tilliti til þessara upplýsinga. Þá veitir reglan Fjármálaeftirlitinu ákveðið úrræði ef grunur leikur á um að orðrómur um hugsanlega yfirtöku sé blekking til að hafa ólögmæt áhrif á verð fjármálagerninga.
    Í 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ef það er gert opinbert að aðili sé að íhuga að leggja fram yfirtökutilboð skuli hann taka ákvörðun um slíkt innan sex vikna. Það skal tekið fram að 2. mgr. 5. gr. er ekki einskorðuð við tilkynningar sem gerðar eru á grundvelli 1. mgr. 5. gr. Því gildir sama regla ef aðili birtir opinberlega að eigin frumkvæði að hann sé að íhuga að leggja fram yfirtökutilboð. Þá nær reglan einnig til þess þegar slík fyrirætlun hefur verið gerð opinber, jafnvel þótt það hafi ekki verið að frumkvæði málsaðila. Er þetta 1. mgr. 5. gr. til fyllingar. Þá er það lagt að jöfnu við yfirlýsingu um að aðili hyggist ekki gera yfirtökutilboð ef aðili birtir ekki lokaákvörðun sína innan sex vikna.
    Í 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um réttaráhrif þess þegar aðili lýsir því yfir opinberlega að hann hyggist ekki gera yfirtökutilboð í félag. Í slíkum tilvikum skal aðila vera óheimilt að skipta um skoðun og leggja fram yfirtökutilboð næstu sex mánuði. Þá skal aðila og aðilum í samstarfi með honum vera óheimilt að aðhafast nokkuð það sem kann að gera hann tilboðsskyldan skv. 100. gr. laganna. Ef aðili brýtur gegn ákvæði þessu er Fjármálaeftirlitinu heimilt að grípa til úrræða skv. 111. gr. laganna. Þá varðar brot viðurlögum skv. XV. kafla laganna.
    Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. frumvarpsins er Fjármálaeftirlitinu heimilt að veita undanþágu frá tímamörkum 3. mgr. og frá 4. mgr. 102. gr. laganna ef sérstakar ástæður mæla með því. Ljóst er að sex vikur kunna stundum að vera of skammur frestur til að undirbúa yfirtökutilboð. Það verður þó að hafa í huga að það er á ábyrgð þess sem undirbýr yfirtökutilboð að tryggja að slíkar upplýsingar leki ekki út, og er undanþágan því þröng. Sem dæmi um sérstakar ástæður sem gætu gefið tilefni til að veita undanþágu skv. 4. mgr. 5. gr. frumvarpsins má nefna ef stjórn þess félags sem yfirtökutilboð tekur mælir með yfirtökutilboði, ef fram hefur komið annað yfirtökutilboð og aðili hyggst leggja fram samkeppnistilboð eða ef um er að ræða björgunaraðgerð skv. 3. gr. þessa frumvarps.

Um 6. gr.


    Felld er niður tilvísun til 100. gr. í 2. mgr. 103. gr. laganna en í 1. mgr. 101. gr. laganna kemur skýrt fram að ekki beri að fylgja 2. og 4. mgr. 103. gr. í valfrjálsu tilboði, sbr. 4. gr. frumvarpsins. Í 3. mgr. 103. gr. laganna er gerð sú breyting að í stað tilvísunar í 103. gr. laganna er vísað til yfirtökutilboðs. Þá er lagt til að 6. mgr. 103. gr. verði breytt þannig að við bætist tilvísun í 2. mgr. 108. gr. þar sem gildistími yfirtökutilboðs getur orðið lengri en tíu vikur ef samkeppnistilboð er lagt fram.

Um 7. gr.


    Í fyrsta lagi er lagt til að í 2. tölul. 2. mgr. 104. gr. laganna komi orðið verðbréf í staðinn fyrir hlutabréf þar sem réttara er að tala um verðbréf sem bera atkvæðisrétt í samræmi við e-lið 1. mgr. 2. gr. yfirtökutilskipunarinnar (e. transferable securities carrying voting rights in a company).
    Í öðru lagi lögð til sú breyting á 5. mgr. 104. gr. að í greinargerð stjórnar félags sem yfirtökutilboð tekur til, þar sem fram kemur rökstutt álit stjórnarinnar á tilboðinu og skilmálum þess, skulu stjórnarmenn gera grein fyrir því hvort þeir, og aðilar fjárhagslega tengdir þeim, hyggist samþykkja tilboðið og skal sú yfirlýsing vera bindandi. Þetta á augljóslega eingöngu við ef viðkomandi stjórnarmaður eða aðilar honum tengdir eru hluthafar í félaginu. Stjórnarmönnum er heimilt að færa sérstök rök fyrir afstöðu sinni. Þessar upplýsingar munu renna frekari stoðum undir álit stjórnarinnar á tilboðinu. Þá eru þetta verðmætar upplýsingar fyrir marga hluthafa, enda sýnir þetta betur en nokkuð annað hvort stjórnarmönnum finnist tilboðsverðið hagstætt eða ekki. Er þessi regla mikilvæg í ljósi ákvæða frumvarpsins um að allar innherjatilkynningar skuli birtar í lok tilboðstímabils, sbr. 1. mgr. 109. gr. laganna.

Um 8. gr.


    Lagt er til að Fjármálaeftirlitinu sé veitt svigrúm til þess að framlengja gildistíma tilboðsins þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 106. gr. ef sérstakar ástæður mæla með því . Má þar t.d. nefna ef samþykki um virkan eignarhlut berst rétt eftir að tilboðsfresti lýkur. Í slíkum tilvikum kann að vera eðlilegt að veita meira svigrúm en ákvæði 1. mgr. 106. gr. gerir ráð fyrir.

Um 9. gr.


    Í a-lið greinarinnar er lagt er til að flöggunar- og innherjatilkynningar séu birtar í beinu framhaldi af birtingu upplýsinga um niðurstöður tilboðs, og samhliða ef kostur er. Núgildandi fyrirkomulag hefur þótt erfitt í framkvæmd og virðist ekki nauðsynlegt með hliðsjón af þeim verndarhagsmunum sem slíkum tilkynningum er ætlað að tryggja, enda um sérstakar aðstæður að ræða.
    Í b-lið greinarinnar er lögð til breyting á núgildandi 2. mgr. 109. gr. laganna. Lagt er til að aðili sem hefur lagt fram skilyrt yfirtökutilboð þurfi ekki að afturkalla slíkt tilboð sérstaklega ef skilyrði þess voru ekki uppfyllt. Er þetta í samræmi við almennar reglur samningaréttar. Þetta breytir þó engu um skyldu aðila til að upplýsa um niðurstöður tilboðs. Þá er kveðið á um að aðili geti ekki fallið frá skilyrðum sem ekki voru uppfyllt eftir að niðurstöður tilboðs hafa verið gerðar opinberar (þ.e. innan þriggja viðskiptadaga). Að lokum er kveðið á um að ef aðili kýs að falla frá fyrri skilyrðum skuli farið með slíkt sem breytingu á tilboði. Ákvæði 107. gr. laganna fjallar um breytingar á tilboði. Verður að telja að það hafi ávallt í för með sér hagstæðari skilmála fyrir aðra hluthafa þegar fallið er frá skilyrðum í yfirtökutilboði. Hins vegar kunna slík skilyrði að vera ákvörðunarástæða einhverra hluthafa og því eðlilegt að hluthöfum sé gefinn kostur á að endurskoða fyrri afstöðu sína og að tilboðstími sé því framlengdur í a.m.k. tvær vikur.

Um 10. gr.


    Lagt er til að orðalag 1. og 3. mgr. 110. gr. laganna verði fært til samræmis við 15. og 16. gr. tilskipunarinnar, sem eru upphafleg fyrirmynd núverandi ákvæðis, þannig að kveðið verði á um að tilboðsgjafi og hluthafar geti krafist innlausnar eingöngu ef tilboðsgjafi hefur eignast 9/10 hlutafjár og atkvæðisréttar. Við innleiðingu yfirtökutilskipunarinnar urðu þau mistök að kveðið var á um að tilboðsgjafi og hluthafar gætu krafist innlausnar ef tilboðsgjafi eignaðist 9/10 hlutafjár eða atkvæðisréttar í félagi. Í frumvarpinu segir að fari tilboðsgjafi fram á innlausn innan þriggja mánaða frá lokum tilboðstímabils skuli verð sem boðið var í tilboði teljast sanngjarnt innlausnarverð nema ákvæði 3. mgr. 103. gr. eigi við en í þeirri grein segir að hafi tilboðsgjafi eða aðili sem hann er í samstarfi við greitt hærra verð en samkvæmt yfirtökutilboði á tilboðstímabili skuli hann breyta yfirtökutilboði og bjóða það verð.
    Orðalagi 2. mgr. 110. gr. er breytt og lagt til að í stað orðsins hlutabréf komi orðið verðbréf þar sem réttara er að tala um verðbréf sem bera atkvæðisrétt í samræmi við e-lið 1. mgr. 2. gr. yfirtökutilskipunarinnar (e. transferable securities carrying voting rights in a company).
    Í 3. mgr. 110. gr. er kveðið á um að hafi tilboðsgjafi og aðilar sem hann er i samstarfi við skv. 100. gr. laganna eignast meira en 9/10 hlutafjár og atkvæðisréttar í félagi í yfirtökutilboði geti hver einstakur af minni hluta hluthafa krafist innlausnar hjá tilboðsgjafanum.
    Ákvæði IV. kafla hlutafélagalaga, nr. 30/1995, gilda um innlausn í þeim tilfellum sem um getur í 110. gr. verðbréfaviðskiptalaganna, eftir því sem við á.

Um 11. gr.


    Lagt er til að Fjármálaeftirlitið geti beitt þeim úrræðum sem kveðið er á um í greininni í fleiri tilvikum en þegar aðili sinnir ekki tilboðsskyldu eins og núverandi lög gera ráð fyrir. Lagt er til að Fjármálaeftirlitið geti fellt niður atkvæðisrétt aðila, þvingað niðursölu og beitt dagsektum ef aðili fylgir ekki þeim skilyrðum sem honum voru sett við veitingu undanþágu skv. 3. mgr. nýrrar 100. gr. a, eða ef aðili brýtur gegn 4. mgr. 102. gr., þ.e. ef aðili verður tilboðsskyldur þrátt fyrir að hafa lýst því yfir að hann ætlaði ekki að gera yfirtökutilboð.

Um 12. gr.


    Lagt til að fyrirsögn X. kafla verðbréfaviðskiptalaganna verði „Yfirtaka“ og er það í meira samræmi við efni kaflans.

Um 13. gr.


    Í 112. gr. laganna er kveðið á um að ákvæði XI. kafla gildi um tilboðsyfirlit sem skylt er að útbúa og birta opinberlega í tengslum við yfirtökutilboð. Í frumvarpinu er lagt til að bætt verði við greinina að átt sé við yfirtökutilboð sem taka til útgefanda sem hefur fengið flokk verðbréfa sem bera atkvæðisrétt tekinn til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði á Íslandi. Er þessi breyting gerð í samræmi við þá breytingu sem gerð er á gildissviðsákvæði yfirtökukafla laganna almennt.

Um 14. gr.


    Í a-lið er lagt til að í 1., 7. og 12. tölul. 1. mgr. 113. gr. laganna komi annars vegar orðið félag í staðinn fyrir hlutafélag og hins vegar orðið verðbréf í staðinn fyrir hlutabréf þar sem réttara er að tala um verðbréf sem bera atkvæðisrétt í samræmi við e-lið 1. mgr. 2. gr. yfirtökutilskipunarinnar (e. transferable securities carrying voting rights in a company) og kafli laganna verði ekki einskorðaður við hlutafélög, heldur alla útgefendur sem hafa verðbréf sem bera atkvæðisrétt tekin til viðskipta á Íslandi, í samræmi við yfirtökutilskipunina.
    Lagt er til að tvær nýjar málsgreinar bætist við á eftir 2. mgr. 113. gr. Í fyrsta lagi er lagt til að kveðið verði skýrt á um þá meginreglu að tilboðsyfirlit skuli vera á íslensku. Þó er nauðsynlegt að hægt sé að veita undanþágur ef slíkt er of íþyngjandi miðað við þá verndarhagsmuni sem í húfi eru. Hér kann að skipta máli hversu margir hluthafar í félaginu hafa íslensku að móðurmáli. Þessa reglu skal því ekki skilja á þann hátt að öll tilboðsyfirlit geti verð á ensku ef Fjármálaeftirlitið hefur einu sinni samþykkt að tilboðsyfirlit megi vera á ensku. Fjármálaeftirlitið metur slíkt í hverju tilviki, en vitaskuld með hliðsjón af jafnræðisreglunni.
    Í öðru lagi er lagt til að tilboðsyfirlit sem samþykkt hefur verið í einu EES-ríki og uppfyllir skilyrði 3. mgr. skuli viðurkennt sem fullgilt hérlendis. Fjármálaeftirlitið getur þó farið fram á að meiri upplýsingum sé bætt inn í tilboðsyfirlitið ef um er að ræða atriði sem eiga sérstaklega við hérlendis um formsatriði sem þarf að uppfylla varðandi samþykki tilboðs og uppgjör fyrir yfirtekna hluti, sem og varðandi skattaleg atriði tengd tilboðinu. Hér er um að ræða innleiðingu á síðari hluta 2. mgr. 6. gr. yfirtökutilskipunarinnar.

Um 15. og 16. gr.


    Gerðar eru breytingar á lagatilvísunum auk þess sem bætt er við tilvísun í 4. mgr. 102. gr.

Um 17. gr.


    Hér er lagt til að kveðið verði á um það í bráðabirgðaákvæði að aðili sem á meira en 33% atkvæðisréttar í félagi sem var skráð á skipulegum verðbréfamarkaði við gildistöku laganna sé ekki tilboðsskyldur auki hann ekki við hlut sinn. Sama gildir hafi aðili á grundvelli samstarfs við aðra hluthafa rétt til að ráða yfir sem nemur 33% atkvæða í félaginu við gildistöku laganna.

Um. 18. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um gildistöku laganna.Fylgiskjal I.


Gildissvið X. kafla laga um verðbréfaviðskipti.


    Eftirfarandi tafla sýnir gildissvið kaflans gagnvart útgefendum sem hafa verðbréf sem bera atkvæðisrétt tekin til viðskipta á skipulegum markaði.

Félag Gildissvið
Íslenskt félag eingöngu skráð á markað á Íslandi. Fellur undir gildissvið kaflans í heild.
Íslenskt félag skráð á markað á Íslandi og í öðru ríki. Fellur undir gildissvið kaflans í heild.
Íslenskt félag eingöngu skráð á markað í öðru EES-ríki. Eingöngu þau ákvæði kaflans gilda sem fjalla um upplýsingar sem veittar skulu starfsmönnum félagsins sem tilboðið tekur til og þau ákvæði sem tengjast félagarétti, einkum hvað skuli teljast yfirráð og hvers kyns undanþágur frá skyldu til að gera yfirtökutilboð, sem og þau ákvæði sem heimila stjórn að grípa til hvers kyns aðgerða sem geta komið í veg fyrir yfirtökutilboðið.
Íslenskt félag eingöngu skráð á markað í ríki utan EES. Fellur utan gildissviðs kaflans í heild.
EES-félag skráð á markað á Íslandi og í heimaríki sínu. Fellur utan gildissviðs kaflans í heild.
EES-félag eingöngu skráð á markað á Íslandi. Eingöngu þau ákvæði kaflans gilda sem fjalla um endurgjald þegar um er að ræða skyldubundið yfirtökutilboð og þau ákvæði sem fjalla um málsmeðferð tilboðsins.
EES-félag fyrst skráð á markað á Íslandi og síðar í öðru EES-ríki (ekki heimaríki). Eingöngu þau ákvæði kaflans gilda sem fjalla um endurgjald þegar um er að ræða skyldubundið yfirtökutilboð og þau ákvæði sem fjalla um málsmeðferð tilboðsins.
EES-félag fyrst skráð á markað í öðru EES-ríki (ekki heimaríki) og síðar á Íslandi. Fellur utan gildissviðs kaflans í heild.
EES-félag skráð samtímis á markað á Íslandi og í öðru EES-ríki (ekki heimaríki). Útgefandi ákveður reglur hvors ríkis um endurgjald þegar um er að ræða skyldubundið yfirtökutilboð og þau ákvæði sem fjalla um málsmeðferð tilboðsins, skulu gilda um hann, og tilkynna það til viðkomandi skipulegs verðbréfamarkaðar og lögbærs yfirvalds áður en viðskipti hefjast.
Félag frá ríki utan EES eingöngu skráð á markað á Íslandi. Fellur undir gildissvið kaflans í heild.
Félag frá ríki utan EES skráð á markað á Íslandi og í öðru ríki. Eingöngu þau ákvæði kaflans gilda sem fjalla um endurgjald þegar um er að ræða skyldubundið yfirtökutilboð og þau ákvæði sem fjalla um málsmeðferð tilboðsins.

Skýringar:
Íslenskt félag: Félag með höfuðstöðvar skráðar á Íslandi.
Skráð á markað: Félag hefur verðbréf sem bera atkvæðisrétt tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði.
Heimaríki: Það ríki þar sem höfuðstöðvar félagsins eru skráðar.Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum
um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nokkrum þáttum laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, er varða yfirtöku með það að markmiði að gera reglur sem að því snúa skýrari og auðveldari í framkvæmd. Helstu breytingar eru meðal annars þær að gert er ráð fyrir að yfirtökuskylda í félagi skuli miðast við 33% í stað 40% eins og verið hefur, að Fjármálaeftirlitið geti í undantekningartilfellum fært tilboðsskyldu frá þeim er eykur við hlut sinn á höfuðaðila samstarfsins en það er sá aðili samstarfshópsins sem ræður yfir mestu hlutafé, að stjórnarmenn verði að gera grein fyrir því með bindandi hætti hvort þeir og aðilar þeim fjárhagslega tengdir hyggjast taka yfirtökutilboði og að síðustu er gert ráð fyrir að lögfest verði svonefnt björgunarákvæði sem felur það í sér að við sérstakar aðstæður geti aðili farið yfir yfirtökumörk án þess að verða tilboðsskyldur.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.