Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 59. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 59  —  59. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um prófessorsembætti á sviði byggðasafna og byggðafræða.

Flm.: Árni Johnsen, Bjarni Harðarson, Lúðvík Bergvinsson, Guðni Ágústsson,


Grétar Mar Jónsson, Björk Guðjónsdóttir, Kjartan Ólafsson, Atli Gíslason.


    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að hlutast til um að Háskóli Íslands stofni til prófessorsembættis á sviði byggðasafna og byggðafræða sem verði tengt Byggðasafninu á Skógum undir Eyjafjöllum.

Greinargerð.


    Mikilvægi byggðasafna á Íslandi er óumdeilt. Þau eru allt í senn, menningarsöfn, sögusöfn og verkfærasöfn. Þau eru spegilmynd lífsins í landinu. Það segir í gömlu máltæki að því sem þú segir mér gleymi ég en það sem þú sýnir mér muni ég. Byggðasafnið tryggir skilvirkni hvors tveggja.
    Byggðasöfnin eru mikilvæg fyrir þekkingu landsmanna á lífinu í landinu í gegnum tíðina, þróun búsetu, lífsháttum og öllu sem lýtur að mannlegu samfélagi Íslendinga. Það skiptir miklu að þau séu sett upp af alúð og tillitssemi og af mikilli vandvirkni.
    Þá eru byggðasöfnin snar þáttur í ferðaþjónustu nútímans og erlendir ferðamenn sækja þau heim í sífellt meiri mæli. Vönduðustu söfn landsins í þessum efnum eru á heimsmælikvarða og það er mikilvægt fyrir framtíðina að hlúa að uppbyggingu þeirra með eins skilvirkum hætti og kostur er og nýta til þess nútímatækni hverju sinni í bland við safngripina sjálfa.
    Byggðasafnið í Skógum er eitt öflugasta byggðasafn landsins. Það nýtur þess að hafa byggst upp undir forustu Þórðar Tómassonar, einhvers mesta safnamanns Íslandssögunnar, sem sinnti því af fádæma ósérhlífni og krafti, og þess að hafa byggst upp í nánum tengslum við grasrótina í landinu, fólkið sjálft í starfi og leik.