Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 63. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 63  —  63. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Flm.: Guðjón A. Kristjánsson, Grétar Mar Jónsson, Jón Magnússon.



1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Þrátt fyrir önnur ákvæði þessara laga er öllum þeim íslenskum ríkisborgurum sem hafa tilskilin réttindi til skipstjórnar og vélstjórnar, ef þess er krafist vegna stærðar vélar viðkomandi báts, að stunda fiskveiðar á eigin bát með tveimur sjálfvirkum handfærarúllum á tímabilinu 1. apríl til 1. október ár hvert. Báturinn skal vera undir 30 brúttórúmlestum að stærð og uppfylla skilyrði um sjálfvirka tilkynningarskyldu. Báturinn skal hafa viðurkennt haffæri. Á hverjum bát mega vera tveir menn í áhöfn og er hámarksfjöldi sjálfvirkra rúlla þá fjórar rúllur á tvo menn. Að fimm árum loknum skal skoðuð reynslan af þessum veiðum með tilliti til þess hvort setja eigi viðbótartakmarkanir sem taki eingöngu til veiðisvæða bátanna og fjölda veiðidaga.
    Veiðar þessara báta eru ekki reiknaðar til aflamarks og hafa ekki áhrif á heildarúthlutun aflamarks til annarra fiskiskipa.

2. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Það hefur löngum verið réttur Íslendinga við sjávarsíðuna að fá að róa til fiskjar og útróðrajarðir voru líklegri til þess að brauðfæða fólkið og gefa tekjur en þær jarðir sem illa lágu við fiskislóð. Útróðraréttur var metinn sem verðmæti í jörðum og talinn til hlunninda. Í gömlum lögum var öllum tryggður veiðiréttur í fjörðum og flóum. Þannig orðað að rétt ættu menn til fiskveiði sinnar nema síldveiði sem öllum væri heimilt að stunda hvar sem væri. Landsmenn áttu þannig allir tryggan forgang til botnfiskveiða næst sínum byggðum. Með þessu frumvarpi verður þeim sem rétt hafa til þess að stjórna skipum veittur þessi veiðiréttur á nýjan leik.