Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 69. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 69  —  69. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skattaívilnanir vegna rannsókna- og þróunarverkefna.

Flm.: Höskuldur Þórhallsson, Bjarni Harðarson, Birkir J. Jónsson.



    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að hefja nú þegar undirbúning þess að heimila skattaívilnanir vegna kostnaðar sem fyrirtæki leggja í vegna rannsókna og þróunar. Miðað verði við skilgreind og afmörkuð verkefni og ákveðið hámark sett á endurgreiðslufjárhæð hvers árs.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður flutt á 135. löggjafarþingi (14. mál).
    Skattaívilnanir til rannsókna og þróunar hafa um nokkurt skeið tíðkast í mörgum ríkjum OECD sem óbein leið til að hvetja fyrirtæki til fjárfestinga í rannsóknum og þróun. Markmiðið er m.a. að efla nýsköpun í atvinnulífinu sem leitt getur til efnahagslegra framfara og bættrar samkeppnisstöðu viðkomandi þjóða.
    Í dag veita 18 af 30 OECD-ríkjum einhvers konar skattaívilnanir vegna rannsókna og þróunar en það gerðu um 12 ríki árið 1996. Meðal þeirra sem hafa farið þessa leið eru Norðmenn. Árið 2002 var skattalögum þar breytt þannig að lögaðilar sem stunda rannsóknir og þróun fengu heimild til frádráttar frá tekjuskattsstofni, allt að 20%, að uppfylltum tilteknum skilyrðum og upp að tilteknu þaki. Í lögunum er lögð áhersla á að þeir sem njóti þessara heimilda stundi vel skilgreind og afmörkuð rannsókna- og þróunarverkefni með skýrum markmiðum um árangur.
    Norðmenn hafa farið þá leið að fela Rannsóknarráði Noregs (Norges forskningsråd) að meta hvort verkefnin uppfylli skilgreiningu skattyfirvalda og jafnframt að meta hvort framtaldir kostnaðarliðir teljist viðurkenndur rannsókna- og þróunarkostnaður. Skattkerfið er síðan notað til að miðla greiðslum þannig að þau fyrirtæki sem greiða tekjuskatt fá afslátt en þau sem ekki greiða skatt fá endurgreiðslu. Þetta gerir kerfið sérstaklega áhugavert fyrir lítil og vaxandi fyrirtæki sem eru ekki enn farin að greiða tekjuskatta, m.a. vegna mikils þróunarkostnaðar.
    Komið hefur fram að norsk fyrirtæki eru afar ánægð með kerfið og að um helmingur samþykktra verkefna er á vegum lítilla fyrirtækja með færri en 10 starfsmenn. Kerfið hefur komið mikilli hreyfingu á nýsköpunarstarf norskra fyrirtækja og um 80% þátttakenda telja að verkefni þeirra hefðu ekki komist á legg án þessa stuðnings. Um 50% telja að verkefnin hafi aukið verðgildi fyrirtækja sinna, rúm 60% telja að kerfið hafi aukið einbeitingu þeirra í nýsköpun og þróun. Þá telja tæp 50% kerfið hafa hvatt til samstarfs við önnur fyrirtæki og stofnanir. Sérstaka athygli vekur að 25% norskra útrásarfyrirtækja virðast nýta sér kerfið.
    Fjölgun vellaunaðra starfa í fyrirtækjum sem gera verðmæti úr þekkingu er háð öflugu nýsköpunarstarfi. Mikilvægt er því að fyrirtæki efli rannsóknir og nýsköpun. Til þess að svo megi verða þarf að búa atvinnulífi hér á landi hagstæð starfsskilyrði en jafnframt þurfa fyrirtækin stuðning fyrstu starfsárin til rannsókna- og þróunarstarfs. Sá stuðningur þarf að öðru jöfnu að vera sambærilegur þeim sem veittur er fyrirtækjum í samkeppnislöndunum.