Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 80. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 83  —  80. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl.

Frá minni hluta viðskiptanefndar.



    Minni hluti viðskiptanefndar hefur kynnt sér og rannsakað efni þessa frumvarps eins og kostur er á skömmum tíma og við afar sérstakar aðstæður. Málið er borið fram af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar þegar komið er í mikið óefni í fjármálalífi landsmanna og engir góðir kostir eru í boði. Verkefni Alþingis og ríkisstjórnar er, við þessar þröngu aðstæður, að lágmarka skaðann fyrir almenning og þjóðarbúið eins og framast er unnt. Ekki skiptir síður miklu máli að reyna að tryggja framtíðarhagsmuni landsmanna, þannig að byrðarnar verði ekki þyngri á herðum komandi kynslóða en óumflýjanlegt er. Því miður er þegar ljóst að margir verða fyrir skaða vegna ríkjandi ástands til viðbótar þeim áföllum sem þegar eru orðin.
    Minni hlutinn telur miklu skipta að aðilar máls, þeir sem hér hafa um vélað, sæti viðskiptalegri og siðferðilegri, lagalegri og pólitískri ábyrgð. Ljóst er að hlutur allra helstu málsaðila hlýtur að koma til rækilegrar skoðunar. Benda má á í þessu sambandi þá opinberu rannsókn sem þegar er hafin í Bandaríkjunum vegna framferðis og hruns fjármálastofnana þar.
    Vinstri hreyfingin – grænt framboð, og stjórnarandstaðan öll, hefur undanfarna daga og vikur boðið ríkisstjórninni samstarf og aðstoð við að leysa úr aðsteðjandi stórvandræðum sem öllum mátti ljóst vera að væru í vændum. Sú útrétta samstarfs- og sáttahönd hefur enn ekki verið þegin og ríkisstjórnin því væntanlega talið sig einfæra um og fullfæra að ráða fram úr vandanum. Afrakstur þeirrar ráðsmennsku og verkstjórnar ríkisstjórnarinnar sér nú stað í þessum neyðarlögum.
    Með því að ríkisstjórnin hefur kosið að vinna ein að undirbúningi málsins, þó að væntanlegt efni þess væri kynnt fyrir forustumönnum stjórnarandstöðunnar á síðustu stundu og á sama degi og það er afgreitt, hlýtur hún, þ.e. ríkisstjórnin og meiri hluti hennar, að bera ábyrgð á því. Það er einnig ljóst að miklu skiptir hvernig heimildir samkvæmt frumvarpinu, ef að lögum verður, verða nýttar. Framkvæmdin og hvernig þar til tekst verður því aðalatriði málsins og þar sem hún verður að óbreyttu á ábyrgð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar getur minni hlutinn eðli málsins samkvæmt ekki borið ábyrgð á slíku fyrir fram og munu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs því sitja hjá við endanlega afgreiðslu málsins.
    Framsal valds til fjármálaráðherra og þá ekki síður til Fjármálaeftirlitsins er, samkvæmt frumvarpinu, gríðarlega víðtækt og það og fleiri ákvæði frumvarpsins kunna að ganga fram á ystu brún gagnvart ýmsum stjórnarskrárvörðum réttindum.
    Minni hlutinn vill taka fram að hann styður heilshugar ákvæði frumvarpsins um að Íbúðalánasjóði verði heimilt að taka yfir íbúðalán viðskiptabanka og sparisjóða. Reyndar liggur slíkt frumvarp þegar fyrir þinginu flutt af þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.
    Minni hlutinn telur að margt bendi til þess, því miður, að aðgerðir af því tagi sem frumvarpið væntanlega er fyrirboði að sé illskásti neyðarkosturinn í stöðunni og til þess fallinn að leita leiða til að lágmarka skaðann sem stórkostlegt andvaraleysi og mistök fjölmargra innlendra ábyrgðaraðila, að viðbættri hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, er að leiða yfir þjóðina. Af þessum sökum m.a. og með vísan til þess að óumflýjanlegt er nú orðið að bregðast hratt við studdu þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að málið yrði tekið fyrir með afbrigðum og fengi skjóta afgreiðslu, en sitja hins vegar hjá við endanlega afgreiðslu þess eins og áður sagði með vísan til ofangreinds rökstuðnings.
    Jón Magnússon er áheyrnarfulltrúi í viðskiptanefnd og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 6. okt. 2008.



Steingrímur J. Sigfússon.