Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 23. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 98  —  23. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á vatnalögum, nr. 20/2006, og endurskoðun þeirra.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fengið á sinn fund Guðjón Axel Guðjónsson, skrifstofustjóra í iðnaðarráðuneyti.
    Á 132. löggjafarþingi var frumvarp til nýrra vatnalaga samþykkt sem lög frá Alþingi, sbr. lög nr. 20/2006. Við umfjöllun um frumvarpið í þinginu varð að samkomulagi að gildistöku laganna yrði frestað til 1. nóvember 2007 og jafnframt var iðnaðarráðherra falið að skipa nefnd sem taka skyldi til skoðunar samræmi laganna við önnur lagaákvæði íslensks réttar sem varða vatn og vatnsréttindi.
    Með lögum nr. 133/2007 var gildistöku vatnalaga, nr. 20/2006, frestað á ný til 1. nóvember 2008.
    Í samræmi við samkomulag þingflokka hinn 15. mars 2006 var skipuð vatnalaganefnd í janúar 2008. Sú nefnd skilaði niðurstöðum sínum og tillögum til iðnaðarráðherra 15. september sl. ásamt ýtarlegri skýrslu um vatnsréttindi og vatnalöggjöf. Einróma samstaða var í nefndinni um að leggja til að endurskoðun færi fram á vatnalögum, nr. 20/2006. Lagði vatnalaganefnd jafnframt til að gildistöku laganna yrði frestað tímabundið meðan nefnd sem skipuð yrði á vegum iðnaðarráðherra, og í samráði við umhverfisráðherra og forsætisráðherra, ynni að endurskoðun laganna í samræmi við tillögur vatnalaganefndar.
    Með frumvarpinu er lagt til að fresta gildistöku vatnalaga, nr. 20/2006, til 1. júlí 2010. Jafnframt er gert ráð fyrir að skipuð verði nefnd á vegum iðnaðarráðherra í samráði við umhverfisráðherra og forsætisráðherra sem muni vinna að endurskoðun laganna í samræmi við tillögur vatnalaganefndar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Guðni Ágústsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. okt. 2008.



Kristján Þór Júlíusson,


varaform., frsm.


Einar Már Sigurðarson.


Guðmundur Magnússon.



Herdís Þórðardóttir.


Guðmundur Steingrímsson.


Rósa Guðbjartsdóttir.



Björk Guðjónsdóttir.


Grétar Mar Jónsson.