Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 94. máls.

Þskj. 101  —  94. mál.



Frumvarp til laga

um niðurlagningu úrskurðarnefnda á sviði siglingamála.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




Breyting á lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa,
nr. 76/2001, með síðari breytingum.

1. gr.

    13. gr. laganna orðast svo:
    Ákvörðunum Siglingastofnunar Íslands samkvæmt lögum þessum má skjóta til samgönguráðherra. Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum.

Breyting á lögum um eftirlit með skipum, nr. 47/2003.


2. gr.

    24. gr. laganna orðast svo:
    Útgerðarmaður og skipstjóri geta kært farbann til samgönguráðherra. Telji ráðherra að sérkunnáttu þurfi til að skera úr um málið getur hann kvatt til einn eða tvo ráðgjafa sem hafa slíka sérkunnáttu. Um málsmeðferð að öðru leyti fer samkvæmt stjórnsýslulögum. Málshöfðun til ógildingar á úrskurði ráðuneytis frestar ekki réttaráhrifum hans.

3. gr.

    25. gr. laganna fellur brott.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu. Í frumvarpinu er lagt til að tvær sjálfstæðar úrskurðarnefndir á sviði siglingamála verði lagðar niður en það er liður í framkvæmd þeirrar stefnu að fækkað skuli sjálfstæðum úrskurðarnefndum. Það horfir til aukinnar ráðdeildar í meðferð ríkisfjármuna auk þess sem það er í samræmi við meginreglu um að ráðherrar fari með yfirstjórn stjórnarmálefna.
    Frumvarp þetta var lagt fram á 133. löggjafarþingi 2006–2007 en náði ekki fram að ganga.
    Í frumvarpinu eru annars vegar lagðar til breytingar á 13. gr. laga nr. 76/2001, um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, og hins vegar á 24. gr. laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum. Í báðum tilvikum eru breytingarnar þess efnis að kæruheimild vegna ákvarðana Siglingastofnunar Íslands er flutt frá sjálfstæðri úrskurðarnefnd til ráðuneytisins. Báðar úrskurðarnefndirnar eiga það sameiginlegt að hafa verið verkefnalausar síðan á árinu 2002 en fengið afar fá mál til úrlausnar fram að þeim tíma.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lögð er til breyting á 13. gr. laganna þess efnis að ákvarðanir Siglingastofnunar Íslands samkvæmt lögunum verði kæranlegar til samgönguráðherra í stað úrskurðarnefndar siglingamála. Í núgildandi lögum er kærufrestur fjórar vikur frá því að aðila var var tilkynnt um ákvörðunina. Með breytingu á lögunum er framangreindur kærufrestur lengdur til samræmis við ákvæði stjórnsýslulaga. Vísast að öðru leyti til almennra athugasemda við frumvarpið.

Um 2. og 3. gr.


    Lögð er til breyting á 24. gr. laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, þess efnis að ákvörðun Siglingastofnunar um farbann megi skjóta til samgönguráðherra til úrskurðar. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að nefndarmenn búi yfir sérþekkingu á sviði siglinga eða skipatækni og því er lagt til að ráðherra verði heimilað að leita til slíkra ráðgjafa við úrlausn ágreinings um farbann. Þá er talin ástæða til að halda inni reglunni um að málshöfðun til ógildingar á úrskurði um farbann fresti ekki réttaráhrifum hans.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um niðurlagningu
úrskurðarnefnda á sviði siglingamála.

    Með frumvarpinu er lagt til að tvær úrskurðarnefndir á sviði siglingamála verði lagðar niður. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 13. gr. laga nr. 76/2001, um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, og hins vegar á 24. gr. laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum hefur það í för með sér óverulega lækkun á útgjöldum ríkissjóðs.