Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 101. máls.

Þskj. 108  —  101. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 30/2007, um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)



1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist nýr töluliður, 7. tölul., svohljóðandi: Frístundafiskiskip er hvert það skip, skrásett sem frístundafiskiskip samkvæmt lögum um skráningu skipa, sem í atvinnuskyni er leigt út til frístundaveiða.

2. gr.

    Á eftir 7. gr. laganna kemur ný grein, 7. gr. a, svohljóðandi:

Frístundafiskiskip.

    Sá sem er lögmætur handhafi skemmtibátaskírteinis til strand- eða úthafssiglinga eða handhafi annars sambærilegs erlends skírteinis að mati Siglingastofnunar Íslands hefur rétt til að annast stjórn frístundafiskiskips, enda hafi hann jafnframt fengið fullnægjandi kennslu á skipið, m.a. á björgunarbúnað þess, fjarskiptatæki, siglingakort og helstu undirstöðuatriði siglingafræði og siglingareglna.
    Sá sem gerir út frístundafiskiskip ber fulla ábyrgð á að stjórnendur frístundafiskiskipa hafi fullnægjandi réttindi á frístundafiskiskip og hafi auk þess fengið fullnægjandi kennslu á skipin áður en lagt er úr höfn og séu hæfir til þess að annast stjórn skipanna á öruggan hátt, með tilliti til öryggis mannslífa, eigna og umhverfis. Skal hann jafnframt vera í stöðugu fjarskiptasambandi við stjórnendur skipanna eftir að þeim er lagt úr höfn.
    Samgönguráðherra setur nánari reglur um frístundafiskiskip í reglugerð, m.a. um kennslu á skipin og þær kröfur sem gerðar eru til slíkrar kennslu og þeirra er sjá um að veita hana. Jafnframt skal ráðherra setja nánari reglur um stærð frístundafiskiskipa, afl og farsvið og um öryggiskröfur sem gerðar eru til frístundafiskiskipa, stjórnenda skipanna og þeirra er gera skipin út og fjarskiptasamband á milli þeirra og stjórnenda skipanna.

3. gr.

    Við 1. mgr. 18. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt skal greiða gjald vegna kostnaðar sem til fellur vegna próftöku samkvæmt lögum þessum.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarpið er samið í samgönguráðuneyti í samvinnu við Siglingastofnun Íslands og hagsmunaaðila. Tilgangur frumvarpsins er að efla öryggi áhafna frístundafiskiskipa. Frumvarp þetta var lagt fram á 135. löggjafarþingi 2007–2008 en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið er efnislega óbreytt frá því áður að því undanskildu að bráðabirgðaákvæði er var í frumvarpinu þegar það var lagt fram á 135. löggjafarþingi er ekki að finna í frumvarpi þessu.
    Starfsemi frístundafiskiskipa má rekja til ársins 2005. Á þeim tíma var ekki að finna heildstæða löggjöf um starfsemina, en í ljósi eðlis hennar, þar sem skip eru leigð ferðamönnum til sjóstangveiða, var litið svo á að starfsemin sem slík væri atvinnustarfsemi. Í ljósi þess voru gerðar kröfur til skipanna eins og um fiskiskip af sömu stærð væri að ræða. Hins vegar var litið svo á að áhöfnin lyti sömu lögmálum og áhöfn skemmtibáta þar sem um frístundaiðju væri að ræða og því þyrfti engin tilskilin réttindi til þess að stjórna frístundafiskiskipi.
    Frístundafiskiskip eru ekki sérstaklega skilgreind í lögum nr. 30/2007, um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, er tóku gildi 1. janúar 2008. Lögin höfðu til að mynda að geyma þau nýmæli að tilteknar kröfur voru gerðar til stjórnenda skemmtibáta. Í lögunum eru ýmsar tegundir skipa sérstaklega skilgreindar og eru skilgreiningar skipanna háðar því hvernig þau eru skráð í aðalskipaskrá Siglingastofnunar Íslands. Í ljósi þess að frístundafiskiskip er skráð sem slíkt í skipaskrána rúmast það ekki innan skilgreiningarhugtaka fiskiskipa og skemmtibáta og fellur því undir flokkinn önnur skip.
    Í byrjun árs 2008 skipaði samgönguráðherra starfshóp um heildarendurskoðun laga og reglugerða um frístundafiskiskip. Í skipunarbréfi til starfshópsins kom fram að markmiðið með vinnunni væri að einfalda reglugerðaumhverfi og stjórnsýslu frístundafiskiskipa og þar með að minnka skriffinnsku en um leið að treysta öryggi sæfarenda.
    Í starfshópinn voru skipuð Ólafur Páll Vignisson frá samgönguráðuneyti, formaður, Heiðar Kristinsson frá Siglingastofnun Íslands, Hrefna Gísladóttir frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Eyþór Björnsson frá Fiskistofu, Finnur Jónsson frá Sumarbyggð hf. og Elías Guðmundsson frá Hvíldarkletti ehf.
    Starfshópurinn er enn að störfum en ákvað í byrjun vinnu sinnar að fara yfir lög og reglur er lytu að hæfniskröfum stjórnenda frístundafiskiskipa. Í ljósi skilgreininga laganna má draga þá ályktun að frístundafiskiskip falli undir hugtakið önnur skip. Af þeim sökum verður að horfa til krafna um áhafnir slíkra skipa þannig að hægt sé að heimfæra þær kröfur yfir á áhafnir frístundafiskiskipa. Ljóst má vera að skemmtibátaskírteini á aðeins við um skemmtibáta eins og þeir eru skilgreindir í lögunum. Þær kröfur sem gerðar eru til annarra skipa eiga einungis við um þá sem starfa um borð í slíkum skipum. Ekki er því tekin afstaða til áhafnar á öðrum skipum þegar um frístundaiðju er að ræða líkt og í tilviki frístundafiskiskipa.
    Í ljósi framangreinds lagði starfshópurinn til að frístundafiskiskip yrðu sérstaklega skilgreind í lögunum auk þess sem gerðar væru ákveðnar kröfur um hæfi þeirra er mundu stjórna skipunum. Jafnframt lagði hópurinn til að ráðherra væri veitt heimild til þess að setja reglugerð um frístundafiskiskip til nánari útfærslu á fyrirmælum laganna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Frístundafiskiskip hafa ekki verið skilgreind í lögum áður. Lagt er til að skilgreiningin taki mið af skráningu í aðalskipaskrá Siglingastofnunar Íslands í samræmi við aðrar skilgreiningar laganna. Í því sambandi er það gert að skilgreiningarhugtaki að skipið sé ætlað til útleigu í frístundaveiði svo að það lúti þeim reglum er um þau skip gilda.

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. er orðuð sú meginregla að lögmætur handhafi skemmtibátaskírteinis til strand- eða úthafssiglinga hafi rétt til þess að stjórna frístundafiskiskipi. Hér er um að ræða lágmarkskröfur sem uppfylla þarf svo heimilt sé að stjórna þessum skipum.
    Í ljósi þess að frístundafiskiskip eru sérsmíðuð og stjórnkerfi skipanna er einfalt, auk þess sem með lögum þessum er gert ráð fyrir því að ráðherra setji í reglugerð nánari fyrirmæli um eftirlit með skipunum á sjó, um takmarkað farsvið þeirra og fleira, er talið forsvaranlegt út frá öryggi að þær lágmarkskröfur sem gerðar verða til stjórnenda skipanna verði með þeim hætti sem lagt er til, enda fái stjórnendur skipanna fullnægjandi kennslu á skipin, allan búnað þeirra og helstu undirstöðuatriði siglingafræði og siglingareglna.
    Í 2. mgr. er það áréttað að þeir sem gera út frístundafiskiskip beri ábyrgð á því að stjórnendur frístundafiskiskipa hafi fengið fullnægjandi kennslu á skipin og séu hæfir til þess að stjórna þeim. Þeim sem gerir út á frístundafiskiskip ber því að sjá til þess að stjórnendur hafi annars vegar fullnægjandi réttindi en jafnframt að viðkomandi fái kennslu á skipin. Í því sambandi er gert ráð fyrir því að útgerðarmaður muni sjá til þess að öllum kröfum til kennslu og náms sé fullnægt. Af þeim sökum ber útgerðarmaður ábyrgð á því að stjórnendur skipanna séu hæfir til þess að stjórna skipunum á öruggan hátt áður en lagt er úr höfn, enda telji hann að öryggi mannslífa, eigna eða umhverfis verði ekki stefnt í hættu. Hins vegar ber skipstjórinn eftir sem áður ábyrgð sem slíkur í samræmi við ákvæði siglingalaga og ákvæði þessara laga.
    Í 3. mgr. er að finna reglugerðarheimild fyrir ráðherra til þess að setja nánari fyrirmæli um skipin. Í því sambandi skal ráðherra útfæra hvað teljist vera fullnægjandi kennsla á hverjum tíma, en í því sambandi getur kennsla ekki talist fullnægjandi nema hún uppfylli þær kröfur sem lög og reglugerð setja. Kennsla getur því t.a.m. ekki talist fullnægjandi nema námið og námsefnið sé samþykkt af Siglingastofnun Íslands og kennslan sé undir eftirliti stofnunarinnar eða annarra er hún tilnefnir.
    Einnig ber ráðherra að setja nánari reglur um stærð, afl og farsvið skipanna, öryggiskröfur og fjarskiptasamband líkt og áskilið er í ákvæðinu, en líkt og fram kemur í 3. mgr. er ekki um tæmandi upptalningu að ræða sem ráðherra ber að setja reglur um.

Um 3. gr.


    Hér er gert ráð fyrir því að styrkja gjaldtökuheimildir Siglingastofnunar vegna þeirra breytinga sem lagðar eru til með frumvarpi þessu. Í því sambandi er gert ráð fyrir því að kostnaður sem hlýst vegna próftöku samkvæmt lögunum, skuli greiddur af þeim sem skipuleggja og sjá um próf og próftöku.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 30/2007, um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

    Markmið frumvarpsins er að auka öryggi sjófarenda, einkum þeirra sem stjórna svokölluðum frístundafiskiskipum, og um leið að skýra þær kröfur sem gerðar eru til stjórnenda skipanna. Í því sambandi er lagt til að stjórnendur þeirra þurfi að minnsta kosti að hafa sams konar réttindi og stjórnendur skemmtibáta. Gert er ráð fyrir að kostnaði sem til fellur vegna próftöku hjá Siglingastofnun Íslands verði mætt með gjaldtöku.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að útgjöld Siglingastofnunar Íslands aukist um allt að 1 m.kr. en að þeim útgjöldum verði mætt með þjónustugjöldum sem færast á tekjuhlið ríkissjóðs.