Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 114. máls.

Þskj. 123  —  114. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 116 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Í stað hlutfallstölunnar „20%“ í 3. mgr. kemur: 33%.
     b.      Í stað orðanna „og úthafsrækju“ í 4. mgr. kemur: úthafsrækju og humars.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að heimild til flutnings aflamarks í botnfiski frá einu fiskveiðiári til þess næsta á eftir verði aukin úr 20% í 33%. Enn fremur að heimilt verði að veiða 5% umfram aflamark í humri á einu fiskveiðiári sem dregst frá heimildum næsta árs á eftir.
    Í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006 eru ákvæði um heimildir til þess að fresta nýtingu hluta aflamarks milli ára og í 4. mgr. sömu greinar eru tilgreindar þær heimildir sem eru til þess að veiða umfram aflamark hvers fiskveiðiárs enda dregst umframafli frá við úthlutun á því næsta. Þessar heimildir til flutnings aflamarks milli fiskveiðiára miðast við úthlutað aflamark til hvers fiskiskips.
    Heimildir til þess að flytja ákveðið hlutfall aflaheimilda milli fiskveiðiára hefur verið í lögum frá upphafi kvótakerfisins. Slík heimild hefur verið talin heppileg til þess að auka sveigjanleika fiskveiðistjórnarkerfisins og koma í veg fyrir bæði brottkast og að grípa þurfi til viðurlaga vegna umframafla. Þá er hún fallin til hagkvæmari nýtingar einstakra fiskstofna. Markaðsaðstæður og sveiflur í úthlutun einstakra tegunda geta auk þess gert það æskilegt að hafa þennan möguleika til flutnings milli fiskveiðiára. Heimild til að fresta nýtingu aflaheimilda milli ára hefur verið ríkari en heimild til veiða fyrir fram og styðst það við þá staðreynd að stofn gefur að jafnaði meira af sér þegar veiðum úr honum er frestað. Fiskifræðileg rök hníga því að auknum geymslurétti.
    Í núgildandi ákvæði er heimilt að geyma þannig milli ára 20% af botnfiskheimildum en hér er lagt til að sú heimild verði aukin í 33% eins og áður segir. Beiðni um slíka breytingu hefur borist frá útgerðarmönnum smærri og stærri skipa sem m.a. hafa bent á að heppilegt gæti verið að nýta slíka heimild í ýsu þar sem líklegt megi telja að leyfilegur ýsuafli dragist saman á næsta ári. Gæti það komið sér vel að geyma meira frá þessu fiskveiðiári til þess næsta. Hið sama gildir um aðrar tegundir. Eru vandfundin rök sem mæla gegn þessari breytingu.
    Í 3. mgr. 11. gr. laganna er ákvæði um heimild til að fresta nýtingu 20% aflamarks í humri milli ára en hins vegar er ekki ákvæði í 4. mgr. um að veiða megi úr þessum stofni fyrir fram eins og gildir almennt. Ástæðan fyrir þessu er trúlega sú að þegar gildandi ákvæði voru sett var ástand humarstofnsins með þeim hætti að ástæða þótti til að fara mjög gætilega í veiðum á honum. Nú er ástand þessa stofns talið gott og því ástæða til að opna þessa heimild með sama hætti og almennt gildir.
    Gert er ráð fyrir að lögin öðlist þegar gildi og gætu því aðilar flutt 33% af botnfiskaflamarki frá yfirstandandi fiskveiðiári til þess næsta, eins gætu humarbátar á næstu humarvertíð nýtt heimild til umframveiði.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116 10. ágúst 2006,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

    Markmið frumvarpsins er að auka heimild til flutnings aflamarks í botnfiski frá einu fiskveiðiári til þess næsta úr 20% í 33% og að jafnframt verði heimilt að veiða 5% umfram aflamark í humri á einu fiskveiðiári sem mun dragast frá heimildum næsta árs á eftir.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.