Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 124. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 134  —  124. mál.




Frumvarp til laga



um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, o.fl.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson, Atli Gíslason,


Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Jón Bjarnason,


Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Þuríður Backman.



1. gr.

Eftirlaunaréttur, lífeyrisiðgjald og greiðsla eftirlauna.


    Forseti Íslands, ráðherrar, alþingismenn og hæstaréttardómarar skulu meðan þeir gegna störfum greiða iðgjöld í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eftir þeim reglum sem um sjóðinn gilda.
    Iðgjaldagreiðslur skv. 1. mgr. skapa rétt til lífeyris úr A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í samræmi við greiðslurnar, samkvæmt almennum reglum sjóðsins og í samræmi við sérlög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.
    Hæstaréttardómurum, sem eiga aðild að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins við gildistöku laga þessara, er heimilt að greiða iðgjald til þeirrar deildar meðan þeir eru í starfi, enda fer þá um réttindi þeirra, maka þeirra og barna samkvæmt reglum deildarinnar.
    Hæstaréttardómarar sem fá lausn skv. 61. gr. stjórnarskrárinnar eiga þó ekki rétt til lífeyrisgreiðslna og makalífeyris samkvæmt lögum þessum.

2. gr.

Áunnin réttindi.


    Þeir sem heyra undir lög þessi en hafa áunnið sér rétt samkvæmt eldri lögum halda þeim réttindum sem þegar hafa myndast við gildistöku laga þessara.

3. gr.

Skerðing áunninna réttinda.


    Nú tekur sá sem réttindi á samkvæmt eldri lögum við nýju starfi og frestast þá réttur hans til greiðslna þannig að frá eftirlaunagreiðslum fram til 65 ára aldurs dregst sama upphæð og viðkomandi hefur í föst umsamin eða ákvörðuð laun. Hið sama gildir um þann sem er í starfi þegar hann öðlast rétt til eftirlauna samkvæmt áunnum réttindum.
    Skerðing greiðslna samkvæmt þessari grein fellur niður þegar látið er af starfi.

4. gr.

Breytingar á lögum um kjararáð, nr. 47/2006.


    Við ákvæði til bráðabirgða við lögin bætist ný málsgrein sem orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði laga þessara skal sá hluti heildarlauna forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara sem er umfram 450 þús. kr. á mánuði lækka sem nemur tuttugu af hundraði frá gildandi úrskurði og standa þannig til ársloka 2009.

5. gr.

Gildistaka.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2009, nema ákvæði 4. gr. sem öðlast þegar gildi.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 141/2003, um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, með síðari breytingum.

Greinargerð.


    Efni frumvarpsins skýrir sig að mestu sjálft. Með því eru lög nr. 141/2003, um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, felld úr gildi en þar var að finna ákvæði þess efnis að menn gætu verið í fullu starfi og jafnframt tekið full eftirlaun. Frumvarpið mælir hins vegar fyrir um að ef þeir sem lögin varða eru enn starfandi við 65 ára aldur dragist fjárhæð launa þeirra frá eftirlaunagreiðslum. Að öðru leyti er gert ráð fyrir því að áunnin réttindi haldi sér.
    Frumvarpið kveður einnig á um að frá og með næstu áramótum greiði forseti Íslands, ráðherrar, alþingismenn og hæstaréttardómarar iðgjöld í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og njóti eftir það réttinda samkvæmt þeim reglum sem þar gilda. Tímann fram til áramóta má nota til að undirbúa þessa breytingu eftir því sem slíks er yfirhöfuð þörf, svo einföld sem hún er.
    Þá er frumvarpinu einnig ætlað að breyta launum forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara þannig að sá hluti mánaðarlauna þeirra sem er umfram 450 þús. kr. lækki um 20% fram til loka ársins 2009.

Athugasemdir við einstakar greinar.


Um 1. gr.


    Hér er kveðið á um það hverja lögin varða. Þá er kveðið á um að forseti Íslands, ráðherrar, alþingismenn og hæstaréttardómarar skuli greiða iðgjöld í A-deild LSR og fá lífeyri sinn greiddan þaðan eftir þeim reglum sem um sjóðinn gilda. Ekki kæmi til sérstakra eftirlaunagreiðslna úr ríkissjóði heldur væri einungis um að ræða greiðslur úr sjóðnum.
    Er hér um að ræða þónokkra einföldun frá gildandi lögum. Ekki eru settar sérreglur um hvert starfsgildi eða áunnin réttindi þeirra heldur vísað í almennar og gildandi reglur um sjóðinn. Er því ekki þörf á sérreglu hvað varaþingmenn varðar og eiga lögin því jafnt við um alþingismenn sem tekið hafa fast sæti á Alþingi sem og varaþingmenn.
    Hæstaréttardómurum sem hafa greitt iðgjöld í B-deild LSR er með 3. mgr. tryggður réttur til áframhaldandi greiðslna í þá deild, kjósi þeir það. Er það í samræmi við gildandi lög.
    Í lokamálsgrein greinarinnar er tekið fram að þeir dómarar, sem fá lausn 65 ára eða eldri á grundvelli 61. gr. stjórnarskrárinnar, fái ekki lífeyri samkvæmt þessu frumvarpi. Er það í samræmi við lög nr. 141/2003. Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga segir að þetta sé í samræmi við ákvæði í 8. mgr. 24. gr. laga um LSR, B-deild, en þar segir að þeir sem fá greidd óskert laun er þeir láta af störfum fái ekki jafnframt lífeyrisgreiðslur frá B-deildinni. Ákvæði þetta er að stofni til frá 1973. Sambærilegt ákvæði er þó ekki um A-deild LSR en greininni er ætlað að ná einnig yfir hana.

Um 2. og 3. gr.


    Ákvæðunum er ætlað að tryggja að áunnin réttindi haldi sér, þó með þeirri undantekningu að ekki verður áfram hægt að fá greidd full eftirlaun úr ríkissjóði á sama tíma og sinnt er öðru starfi. Ef sá sem lögin varðar gegnir launuðu starfi koma launagreiðslur til skerðingar á eftirlaunagreiðslum.

Um 4. gr.


    Með greininni eru gerðar breytingar á skipan launamála þess hóps er lög um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara taka til. Er breytingin sú að frá og með gildistöku ákvæðisins, þ.e. frá og með næstu mánaðamótum þar á eftir, skuli sá hluti launa þessa hóps sem er umfram 450 þús. kr. á mánuði lækka um tuttugu af hundraði og haldast þannig út árið 2009. Er þetta gert til að tryggja að viðkomandi aðilar deili a.m.k. að þessu marki kjörum með þjóðinni á erfiðum tímum. Skoðun flutningsmanna er að eðlilegt sé að kjararáð hafi í framhaldinu af slíkri breytingu hliðsjón af þeim vilja Alþingis sem þannig er fram settur.
    Með heildarlaunum er átt við samanlögð grunnlaun og hvers kyns álagstengdar greiðslur sem tengjast þingfararkaupi, svo sem ráðherralaun, álagstengdar greiðslur til tiltekinna þingmanna o.s.frv. Lækkun þingfararkaups samkvæmt þessari grein verður svo sjálfkrafa til þess að laun sem miðuð eru við þingfararkaup lækka til samræmis.

Um 5. gr.


    Kveðið er á um gildistöku og að eldri lög um sama efni falli úr gildi. Gildistaka laganna er ákveðin 1. janúar 2009, nema 4. gr. sem öðlast gildi strax. Með því er gefið nægilegt svigrúm til að undirbúa breytingar á framkvæmd greiðslna ef þurfa þykir.