Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 96. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 137  —  96. mál.




Svar



félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Magnússonar um frítekjumark örorkulífeyrisþega.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur ráðherra undirbúið breytingar á ákvæðum um frítekjumark örorkulífeyrisþega, þegar ákvæði um 100 þús. kr. frítekjumark þessa hóps á mánuði falla úr gildi? Ef svo er, hverjar eru þær breytingar?

    Ákvæði þetta, sem sett var í lög um almannatryggingar til bráðabirgða, kveður á um að á tímabilinu 1. júlí 2008 til 1. janúar 2009 geti örorkulífeyrisþegi valið um að hafa 100 þús. kr. frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar. Markmið ákvæðisins er að hvetja einstaklinga til vinnu og gera örorkulífeyrisþegum kleift að afla sér aukinna tekna af atvinnu án þess að bætur frá Tryggingastofnun ríkisins skerðist.
    Í athugasemdum með frumvarpinu kom fram að í ljósi fyrirhugaðra breytinga á örorkulífeyriskerfinu með áherslu á starfshæfnismat og starfsendurhæfingu gildi hækkun frítekjumarks örorkulífeyrisþega til bráðabirgða þar til nýtt kerfi með nýjar viðmiðunarreglur hafi verið tekið upp. Framkvæmdanefnd forsætisráðherra vinnur að tillögu um endurskoðað örorkumat sem byggist m.a. á markmiðum um starfshæfnismat og eflingu starfsendurhæfingar með áherslu á að skoða frekar getu fólks til starfa en vangetu. M.a. í ljósi efnahagsástandsins og fjölmargra verkefna sem því tengjast hefur dregið úr líkum á því að vinnu framkvæmdanefndar forsætisráðherra verði lokið fyrir 1. janúar 2009. Stjórnvöld munu tryggja að lagt verði fyrir Alþingi frumvarp til laga sem tryggir að umrætt bráðabirgðaákvæði almannatryggingalaga um 100 þús. kr. frítekjumark verði framlengt þar til nýtt örorkumatskerfi liggur fyrir.