Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 119. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 139  —  119. mál.




Nefndarálit



um frv. til breyt. á l. um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jónínu S. Lárusdóttur og Áslaugu Árnadóttur frá viðskiptaráðuneyti, Andra Árnason hæstaréttarlögmann og Rúnar Guðmundsson frá Fjármálaeftirlitinu, Einar Jónsson frá skilanefnd Landsbanka Íslands, Jóhannes Rúnar Jóhannsson frá skilanefnd Kaupþings og Steinunni Guðbjartsdóttur frá skilanefnd Glitnis. Auk þeirra komu á fund nefndarinnar Eva Bryndís Helgadóttir frá laganefnd Lögmannafélags Íslands, Jóna Björk Guðnadóttir frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Benedikt Bogason frá réttarfarsnefnd.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sem nauðsynlegar eru til að auðvelda ferlið sem fram undan er hjá þeim fjármálafyrirtækjum sem Fjármálaeftirlitið hefur tekið yfir stjórn á, á grundvelli laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008.
    Ákvæði frumvarpsins miða í fyrsta lagi að því að heimila skiptastjóra þrotabús fjármálafyrirtækis að annast áfram tiltekna leyfisbundna starfsemi þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi afturkallað starfsleyfi fjármálafyrirtækis.
    Í öðru lagi miða breytingarnar að því að lengja fresti og auðvelda tilkynningu fyrir aðstoðarmann fyrirtækis sem veitt hefur verið greiðslustöðvun.
    Loks er í frumvarpinu ákvæði til bráðabirgða sem heimilar frestun fyrirtöku þrátt fyrir að greiðslustöðvun hafi verið veitt fyrir gildistöku laganna.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi að tímamörk greiðslustöðvunar skv. 98. gr. laga um fjármálafyrirtæki verði lengd enn frekar og heimild til greiðslustöðvunar fjármálafyrirtækis verði veitt til tólf vikna í stað sex eins og frumvarpið felur í sér, að héraðsdómari skuli taka greiðslustöðvun fyrir að nýju innan níu mánaða í stað sex mánaða frá því að hann féllst á framlengingu greiðslustöðvunar skv. 17. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., og auk þess að framlenging greiðslustöðvunar geti staðið lengst í 24 mánuði í stað 12 eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Nefndinni barst athugasemd frá skilanefnd Landsbanka Íslands þar sem lagðar eru til breytingar á frumvarpinu, m.a. á þann hátt að skilanefnd fjármálafyrirtækja verði falið að sinna hlutverki aðstoðarmanns skuldara sem gert er ráð fyrir í III. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Nefndin ræddi þessa tillögu skilanefndar Landsbanka Íslands. Misjöfn sjónarmið komu fram í um umræðunum, m.a. um stöðu og hlutverk aðstoðarmanns við greiðslustöðvun og eins um hlutverk, hlutlægni og starfsskilyrði skilanefndanna sem skipaðar eru af Fjármálaeftirlitinu. Niðurstaða meiri hlutans var sú að eðlilegast væri að halda í hið hefðbundna ferli við greiðslustöðvun samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., m.a. til að tryggja eins litlar breytingar á ferlinu og hægt er. Meiri hlutinn leggur þó til að aðstoðarmaður við greiðslustöðvun muni ekki bera fulla skaðabótaábyrgð á framkvæmdum fjármálafyrirtækjanna á greiðslustöðvunartíma. Þessi breyting þykir nauðsynleg til að tryggja stöðu þess einstaklings sem tekur að sér hlutverk aðstoðarmanns og eins að hæfir aðilar fáist í hlutverk aðstoðarmanns við greiðslustöðvun fjármálafyrirtækjanna en hefðbundin starfsábyrgðartrygging lögmanna og löggiltra endurskoðenda, sem hæfir eru til starfa aðstoðarmanna samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., mun tæpast nægja til tryggingar fyrir hugsanlegum skaðabótakröfum í tilfelli fjármálafyrirtækja sem Fjármálaeftirlitið hefur tekið yfir stjórn á. Tillaga meiri hlutans felst þannig í því að við 2. gr. frumvarpsins bætist ákvæði sem tryggir að skaðabótaábyrgð aðstoðarmanns stofnist einungis ef viðkomandi hefur sannanlega, af ásetningi eða með stórkostlegu gáleysi, brotið af sér í starfi.
    Þá leggur meiri hlutinn til breytingar á 3. mgr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki þannig að miða skuli frestdag fjármálafyrirtækis við það tímamark er Fjármálaeftirlitið skipaði því skilanefnd á grundvelli 100. gr. a laganna. Ákvæði laganna mælir nú aðeins fyrir um að frestdagur skuli miðast við það tímamark þegar Fjármálaeftirlitið veitti fjármálafyrirtæki frest í samræmi við 4. mgr. 86. gr. til þess að auka eiginfjárgrunn sinn en að annars skuli miða við þann dag sem héraðsdómara barst krafa Fjármálaeftirlitsins um slit félags skv. 1. eða 2. mgr. 102. gr. laganna. Með þessari tillögu er reiknað með að réttaráhrif frestdags í tilfellum fjármálafyrirtækja þar sem skilanefnd hefur verið skipuð miðist við þann dag þegar skilanefnd er skipuð. Með þessari breytingu er tryggt að heimildir gjaldþrotaskiptalaga til riftunar gerninga tapist ekki þegar skilanefndir eru skipaðar í fjármálafyrirtækjum.
    Að lokum leggur meiri hlutinn til breytingu sem felur í sér nýtt ákvæði til bráðabirgða. Í því felst að þegar Fjármálaeftirlitið leitar eftir heimild til greiðslustöðvunar eða framlengingu greiðslustöðvunar fyrir fjármálafyrirtæki skuli slík heimild veitt án tillits til 4. eða 6. tölul. 2. mgr. 12. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Með þessu er átt við að þegar dómari tekur afstöðu til þess hvort skilyrði til greiðslustöðvunar fjármálafyrirtækjanna eru uppfyllt þá skuli 4. og 6. tölul. 2. mgr. 12. gr. ekki eiga við.
    Breytingartillögum meiri hlutans er ætlað að auðvelda enn frekar ferli við gjaldþrot og greiðslustöðvun fjármálafyrirtækja undir stjórn Fjármálaeftirlitsins og telur meiri hlutinn að frumvarpið og breytingarnar á því verði til þess að hámarka eins og kostur er verðmæti eigna fjármálafyrirtækjanna og að framkvæmdin verði þannig til hagsbóta fyrir kröfuhafa fjármálafyrirtækjanna ásamt því að skapa aftur traust á íslenskt fjármálalíf.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Höskuldur Þórhallsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Jón Magnússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 10. nóv. 2008.



Ágúst Ólafur Ágústsson,


form., frsm.


Guðfinna S. Bjarnadóttir.


Birgir Ármannsson.



Árni Páll Árnason.


Birkir J. Jónsson.


Jón Gunnarsson.



Björk Guðjónsdóttir.