Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 139. máls.

Þskj. 154  —  139. mál.



Frumvarp til laga

um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.
Gildissvið og hlutverk.

    Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er þjóðbókasafn og bókasafn Háskóla Íslands. Safnið er þekkingarveita fyrir alla landsmenn sem heldur uppi virkri og fjölþættri upplýsingaþjónustu á sviði vísinda og fræða, stjórnsýslu og atvinnulífs og lista- og menningarmála.
    Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag og heyrir undir menntamálaráðherra. Safnið á jafnframt samstarf við aðra háskóla landsins.

2. gr.

Stjórn.


    Ráðherra skipar fimm menn í stjórn Landbókasafns Íslands – Háskólabókasafns til fjögurra ára í senn. Skal einn tilnefndur af háskólaráði Háskóla Íslands, einn af samstarfsnefnd háskólastigsins, einn af félagi bókasafns- og upplýsingafræðinga samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra og tveir án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna.
    Stjórn safnsins er forstöðumanni til ráðgjafar um stefnu safnsins og önnur málefni er varða starfsemi þess. Stjórnin veitir landsbókaverði umsagnir um árlegar starfs- og fjárhagsáætlanir og skipulag safnsins.
    Landsbókavörður situr fundi stjórnar með málfrelsi og tillögurétt.

3. gr.

Landsbókavörður.


    Ráðherra skipar landsbókavörð til fimm ára í senn, að fenginni umsögn stjórnar safnsins.
    Landsbókavörður ákveður skipulag safnsins, að fenginni umsögn stjórnar, og annast daglega stjórnun á starfsemi og rekstri þess. Hann ræður starfsmenn og er í fyrirsvari fyrir safnið. Hann ber ábyrgð á rekstri safnsins og að starfsemi þess sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.

4. gr.

Hlutverk og áherslur.


    Hlutverk sitt rækir Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn einkum með eftirfarandi hætti:
     1.      Að annast alhliða upplýsinga- og þekkingarmiðlun til almennings og fræðimanna með leiðsögn og aðgengi að upplýsingalindum í hvaða formi sem er.
     2.      Að sinna þörfum kennslu og rannsóknarstarfsemi háskóla landsins og annarri vísinda- og fræðslustarfsemi í landinu með fjölþættri upplýsinga- og þekkingarmiðlun.
     3.      Að annast framkvæmd samninga um aðgang að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum.
     4.      Að varðveita handritasöfn þau og einkaskjalasöfn sem stofnað hefur verið til og vinna að frekari söfnun íslenskra handrita og einkaskjala og samsvarandi efnis á nýrri miðlum.
     5.      Að þaulsafna íslenskum gögnum, m.a. með viðtöku skylduskila samkvæmt lögum, svo og að afla erlendra gagna er varða íslensk málefni, skrá þau, veita aðgang að þeim og varðveita til framtíðar.
     6.      Að veita aðstoð við rannsóknir á sviði bókfræði og bókasafns- og upplýsingafræði og veita upplýsingar um íslenska útgáfustarfsemi.
     7.      Að stuðla að samstarfi og samræmingu starfshátta bókasafna og veita þeim faglega ráðgjöf.
     8.      Að sinna öðrum þeim verkefnum sem tengjast beint starfsemi safnsins samkvæmt nánari ákvörðun landsbókavarðar í samráði við stjórn.

5. gr.

Samstarf við Háskóla Íslands og aðra háskóla.


    Samstarf Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Háskóla Íslands skal byggjast á sérstökum samstarfs- og þjónustusamningi.
    Safnið veitir öðrum háskólum landsins þjónustu eftir því sem nánar er ákveðið í þjónustusamningi við einstaka háskóla.

6. gr.

Fjárhagsmálefni.


    Kostnaður við rekstur Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafn greiðist úr ríkissjóði. Þá skal hluti af fjárveitingum til Háskóla Íslands renna árlega til safnsins samkvæmt sérstöku samkomulagi safnsins og háskólans.
    Heimilt er safninu að gera þjónustusamninga við stofnanir og aðra aðila um samstarf eða þjónustu.

7. gr.

Samningar.


    Landsbókaverði er heimilt að undangengnu útboði og að fenginni umsögn stjórnar Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns að gera þjónustusamninga um afmarkaða þætti í starfsemi safnsins. Þá er landsbókaverði heimilt, að fenginni umsögn stjórnar, að semja við aðrar stofnanir um að annast ákveðna þjónustu sem safninu er að lögum falið að rækja.
    Enn fremur getur Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn með samþykki menntamálaráðuneytis gert samkomulag við aðrar stofnanir um að litið sé á gagnakost þeirra sem hluta af safninu.

8. gr.

Gjaldtaka.


    Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni er heimilt að innheimta gjald fyrir þjónustu sína, svo sem útlánastarfsemi, millisafnalán, fjölföldun, gerð ljósmynda, sérfræðilega heimildaþjónustu og tölvuleitir. Heimildin nær einnig til innheimtu skilagjalds eða dagsekta. Landsbókavörður setur gjaldskrá um framangreinda gjaldtöku, að fenginni umsögn stjórnar, sem birt skal með aðgengilegum hætti.

9. gr.

Grisjun.


    Heimilt er að grisja efniskost safnsins og farga eða ráðstafa til annarra aðila því efni sem safnið telur sig ekki lengur þurfa á að halda. Landsbókavörður setur reglur um slíka grisjun að fengnu samþykki stjórnar bókasafnsins.

10. gr.

Reglugerð.


    Menntamálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

11. gr.

Gildistaka.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnfram falla úr gildi lög nr. 71/1994, um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Lög þessi fela ekki í sér breytingar á stöðu og réttindum starfsmanna Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 27. janúar 2006 skipaði menntamálaráðherra nefnd um endurskoðun laga um Þjóðskjalasafn Íslands, nr. 66/1985, annars vegar, og laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, nr. 71/1994, hins vegar.
    Var nefndinni falið að endurskoða framangreind lög og leggja m.a. mat á það hvernig verkaskiptingu á sviði skjalavörslu og miðlunar þekkingargagna yrði best háttað. Skyldi nefndin í þessu skyni fjalla um samstarf Þjóðskjalasafns Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns í víðu samhengi og skilgreina hlutverk þeirra m.a. með tilliti til tæknibreytinga, breytinga á starfsemi háskóla, breytinga á varðveislu og miðlun skjala og upplýsingagagna auk annarra þátta sem nefndin teldi að við ættu. Enn fremur var nefndinni ætlað að fara yfir það hvort til greina kæmi að sameina eða samþætta starfsemi stofnananna og skyldi nefndin skoða kosti þess og hvernig slíkt yrði útfært.
    Í nefndinni áttu sæti Anna Soffía Hauksdóttir, prófessor við verkfræðideild Háskóla Íslands, Guðbjörg Sigurðardóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu upplýsingasamfélagsins í forsætisráðuneytinu, Hörður Sigurgestsson, formaður stjórnar Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Ingvar Garðarsson, formaður stjórnarnefndar Þjóðskjalasafns, og Valur Árnason, skrifstofustjóri lögfræðisviðs menntamálaráðuneytisins, formaður.
    Nokkrir þættir réðu því að nefndarstarfið þróaðist með öðrum hætti en lagt var upp með. Staða Landbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Þjóðskjalasafns Íslands er um margt mjög ólík þegar litið er til aðstöðu og húsakosts, sem og stefnumörkunar og þróunar á undangengnum árum. Segja má að allir þessir þættir geri það að verkum að örðugt sé að fjalla með markvissum hætti um mögulega sameiningu eða náið samstarf þessara safna fyrr en búið er að þróa frekar ákveðna grundvallarþætti í starfsemi Þjóðskjalasafnsins.
    Nefndin telur þó raunhæft að skoða þann möguleika í framtíðinni að auka samstarf og jafnvel sameina þætti í starfsemi þessara safna á grundvelli þess meginhlutverks sem þau ættu bæði að sinna til framtíðar, að vera þekkingarveitur fyrir alla landsmenn. Í því felst að halda uppi virkri, fjölþættri og nútímalegri þjónustu á sviði vísinda og fræða, stjórnsýslu og atvinnulífs og lista- og menningarmála auk þess að sjá um varðveislu þess hluta safnkostsins sem ætlað er að varðveita til framtíðar.
    Við gerð þessa frumvarps hafði nefndin samráð við núverandi og fyrrverandi landsbókavörð og fulltrúa Háskóla Íslands. Þá tók nefndin mið af frumvarpstillögum annarrar nefndar sem menntamálaráðherra skipaði 24. júní 2003 og falið var að kanna hvort hagkvæmt væri að setja heildarlög sem tækju til allra tegunda bókasafna og skilgreina hlutverk og stöðu þeirra í safnakerfi landsins.
    Þær megináherslur sem hafðar voru að leiðarljósi við samningu frumvarpsins byggjast á eftirfarandi:
     1.      Nauðsyn þess að endurskilgreina hlutverk Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns í samræmi við gjörbreytt hlutverk bókasafna á 21. öldinni. Gildandi lög um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, nr. 71/1994, áttu rætur í sameiningu Landbókasafnsins og bókasafns Háskóla Íslands. Tilgangur þeirra var að búa til eitt bókasafn sem mundi þjóna jafnt sem þjóðbókasafn og bókasafn þjóðarháskólans, Háskóla Íslands. Frá þessum tíma hafa verið settir á stofn nokkrir háskólar og grundvallarbreyting orðið á háskólaumhverfinu í landinu sem taka þarf mið af.
     2.      Frá því að núverandi lög tóku gildi hefur upplýsingatækni haft mikil áhrif á samfélagið og aukið kröfur til þjónustu opinberra aðila, m.a. með tilkomu almenns aðgengis landsmanna að internetinu. Mikilvægt er að löggjöfin taki mið af þessari þróun. Landsaðgangur að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum (www.hvar.is) veitir nú landsmönnum aðgengi að texta 14.000 erlendra vísindatímarita og 12 gagnasafna auk greiningarskýrslna og rafbóka. Landskerfi bókasafna tengir saman rafrænar skrár flestra bókasafna í landinu (www.gegnir.is) og þar er einnig hýst þjóðbókaskrá landsins. Bæði þessi verkefni renna styrkum stoðum undir vísinda- og rannsóknastarfsemi í landinu. Þróun í upplýsingatækni hefur óhjákvæmilega áhrif á starfshætti og virkni bókasafna. Reikna má með enn frekari þróun og sífellt víðtækari þjónustu með nýrri tækni.
     3.      Þörf á að einfalda ákvæði gildandi laga um stjórnskipulag og rekstur safnsins til að auðvelda stjórnun þess og auka viðbragðsgetu á hverjum tíma þegar ný tækifæri skapast í starfseminni.
    Framangreindar áherslur birtast í einstökum ákvæðum frumvarpsins.
    Frá því að nefndin lauk störfum í byrjum þessa árs hefur frumvarpið verið til skoðunar í menntamálaráðuneytinu. Frumvarpið miðar að því að uppfæra einstök ákvæði gildandi laga til samræmis við þær breytingar sem orðið hafa og þar með að formgera betur hlutverk og viðfangsefni safnsins. Með frumvarpinu er þannig ekki verið að fela safninu ný viðfangsefni heldur að undirstrika ákveðnar áherslur í starfsemi þess og þróun næstu árin. Þá er í samræmi við reglur um ábyrgð forstöðumanna á rekstri og starfsemi ríkisstofnana kveðið nánar á um hlutverk stjórnar gagnvart ábyrgð landsbókavarðar á rekstri og starfsemi stofnunarinnar, sbr. 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Tekið er fram að stjórn stofnunarinnar skuli vera landsbókaverði til ráðgjafar og veita honum umsagnir í einstökum málum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að safnið haldi núverandi heiti sínu, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Vísar heitið bæði til þess hlutverks safnsins að vera þjóðbókasafn fyrir landið allt, auk þess að vera bókasafn Háskóla Íslands eins og er samkvæmt gildandi lögum. Jafnframt er við það miðað að safnið veiti öðrum háskólum landsins þjónustu á grundvelli þjónustusamningsins, sbr. 4. gr. frumvarpsins. Þá er hlutverki safnsins lýst þannig að það sé þekkingarveita fyrir alla landsmenn sem haldi uppi virkri og fjölþættri upplýsingaþjónustu á sviði vísinda og fræða, stjórnsýslu og atvinnulífs og lista- og menningarmála. Þannig er lögð áhersla á stöðu safnsins sem bókasafns fyrir alla landsmenn, háskóla-, vísinda- og fræðasamfélagið, stjórnsýslu ríkisins og atvinnulífið, auk lista- og menningarlífs.
    Tekið er fram í 2. mgr. að safnið sé háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag og heyri undir menntamálaráðherra. Í 1. gr. gildandi laga segir að safnið sé háskólastofnun og tekið fram í athugasemdum við umrætt ákvæði í frumvarpi því sem varð að gildandi lögum að með því sé lögð áhersla á náin starfstengsl bókasafnsins við Háskóla Íslands en annað meginhlutverk safnsins sé að vera háskólabókasafn. Frumvarp þetta byggist á sömu forsendum auk þess sem áður er getið um samstarf safnsins við aðra háskóla í landinu, sbr. 5. gr. frumvarpsins. Auk þess að vera þjóðbókasafn er tekið fram í 1. gr. að safnið sé bókasafn Háskóla Íslands eins og verið hefur samkvæmt gildandi lögum, en með þeim var ákveðið að allar bækur, handrit og önnur gögn Landsbókasafns Íslands og Háskólabókasafns skyldu verða eign Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns 1. desember 1994.

Um 2. gr.


    Samkvæmt greininni skipar menntamálaráðherra fimm menn í stjórn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns til fjögurra ára í senn. Tekið er fram að ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna. Samkvæmt gildandi lögum tilnefnir háskólaráð Háskóla Íslands tvo í stjórn. Hér er lögð til sú breyting að samstarfsnefnd háskólastigsins skv. 26. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla, tilnefni einn í samræmi við þá breytingu sem frumvarpið byggist á, að Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni er einnig ætlað að þjóna öðrum háskólum landsins en Háskóla Íslands. Þá er einnig lagt til að félag bókasafns- og upplýsingafræðinga tilnefni einn samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra.
    Í 3. mgr. er fjallað um hlutverk stjórnarinnar. Gert er ráð fyrir því að stjórn safnsins verði ráðgefandi fyrir landsbókavörð er það í samræmi við þau meginsjónarmið að það skuli vera forstöðumaður sem ber ábyrgð á starfsemi stofnunar, sbr. 38. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og ákvæði laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins. Þá er tekið fram í 4. mgr. að landsbókavörður sitji fundi stjórnar með málfrelsi og tillögurétt.

Um 3. gr.


    Hér er fjallað um skipun og hlutverk landsbókavarðar. Tekið er fram að ráðherra skipi landsbókavörð til fimm ára í senn, að fenginni umsögn stjórnar stofnunarinnar. Um hæfisskilyrði landsbókavarðar fer eftir 6. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Landsbókavörður ákveður skipulag stofnunarinnar, að fenginni umsögn stjórnar stofnunarinnar, og annast daglega stjórnun á starfsemi og rekstri hennar. Ákvæðið gerir þannig ráð fyrir samstarfi forstöðumanns og stjórnar safnsins um skipulag hennar, en horfið er frá því að ákveða í lögum eins og nú er, sbr. 5. gr. gildandi laga, að um deildarskiptingu safnsins svo og um safnaráð sé ákveðið í reglugerð. Í samræmi við þá áherslu frumvarpsins að einfalda ákvæði gildandi laga um stjórnskipulag og rekstur safnsins, til að auðvelda stjórnun þess og auka viðbragðsgetu á hverjum tíma þegar ný tækifæri skapast í starfseminni, er þessi breyting lögð til.

Um 4. gr.


    Í greininni er fjallað um meginverkefni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Tekið er fram að hlutverk sitt ræki Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn einkum með því að sinna eftirfarandi viðfangsefnum:
     1.      Að annast alhliða upplýsinga- og þekkingarmiðlun til almennings og fræðimanna með leiðsögn og aðgengi að upplýsingalindum í hvaða formi sem er. Í þessu felst að í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni verði lestraraðstaða fyrir almenning auk þess sem safnið miðli gögnum og upplýsingum um safnkostinn á internetinu. Enn fremur er hér á því byggt að til staðar sé í safninu starfsfólk sem veitir leiðsögn að þeim upplýsingalindum sem safnið hefur upp á að bjóða.
     2.      Að sinna þörfum kennslu og rannsóknarstarfsemi háskóla landsins og annarri vísinda- og fræðslustarfsemi í landinu með fjölþættri upplýsinga- og þekkingarmiðlun.
     3.      Að annast framkvæmd samninga um aðgang að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum en það hlutverk hefur safnið haft undanfarin ár samkvæmt sérstöku samkomulagi við menntamálaráðuneytið. Þykir rétt að lögfesta þetta hlutverk í frumvarpinu.
     4.      Að varðveita handritasöfn þau og einkaskjalasöfn sem stofnað hefur verið til og vinna að frekari söfnun íslenskra handrita og einkaskjala og samsvarandi efnis á nýrri miðlum.
     5.      Að þaulsafna íslenskum gögnum, m.a. með viðtöku skylduskila samkvæmt lögum, svo og að afla erlendra gagna er varða íslensk málefni, skrá þau, veita aðgang að þeim og varðveita til framtíðar.
     6.      Að veita aðstoð við rannsóknir á sviði bókfræði og bókasafns- og upplýsingafræði og veita upplýsingar um íslenska útgáfustarfsemi.
     7.      Að stuðla að samstarfi og samræmingu starfshátta bókasafna og veita þeim faglega ráðgjöf.
     8.      Að sinna öðrum þeim verkefnum sem tengjast beint starfsemi safnsins samkvæmt nánari ákvörðun landsbókavarðar í samráði við stjórn. Í samræmi við eðli safns á borð við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn kemur til margvísleg önnur starfsemi sem varðar beint hlutverk þess eða tengist tengslum þess út á við. Er því talið rétt að 8. tölul. geymi almennt orðalag þess efnis að safnið sinni öðrum þeim verkefnum sem tengjast beint starfsemi safnsins samkvæmt nánari ákvörðun landsbókavarðar í samráði við stjórn. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins ákveður landsbókavörður skipulag stofnunarinnar, að fenginni umsögn stjórnar, og skv. 3. mgr. 2. gr. frumvarpsins er stjórn safnsins landsbókaverði til ráðgjafar um stefnu safnsins. Eðlilegt þykir að ákvörðun um nánari verkefni safnsins sem tengjast beint starfsemi þess sé á hendi landsbókavarðar í samráði við stjórn safnsins.
    Í upptalningu ákvæðisins felast enn fremur megináherslur í starfsemi safnsins. Ákvæðið er ekki tæmandi og ljóst að starfræksla safnsins verður ekki nákvæmlega útfærð í lögum um safnið.
    Safnið hefur haft ýmis verkefni með höndum, svo sem rekstur landsskrifstofu fyrir alþjóðabókanúmerakerfi og samsvarandi númerakerfi annarra safngagna, auk þess sem safnið er landsmiðstöð fyrir millisafnalán. Þá hefur safnið annast rekstur varaeintakasafns utan Reykjavíkur og ýmsa starfsemi sem ætlað er að tryggja sem best viðhald og varðveislu safnkostsins og afritun gagna á aðra miðla eftir því sem við á, svo eitthvað sé nefnt. Ljóst er að safnið mun í vaxandi mæli taka þátt í fjölþjóðlegu samstarfi á sviði bókasafna og upplýsingamála, m.a. með það að markmiði að auðvelda þekkingarflæði til og frá landinu. Þá mun safnið hér eftir sem hingað til stuðla að fræðslu- og menningarstarfsemi, m.a. með því að standa að fyrirlestrahaldi, sýningum og listviðburðum.

Um 5. gr.


    Hér er það áréttað að samstarf Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Háskóla Íslands skal byggjast á sérstökum samstarfs- og þjónustusamningi. Jafnframt veitir safnið öðrum háskólum landsins þjónustu eftir því sem nánar er ákveðið í þjónustusamningi við einstaka háskóla.

Um 6. gr.


    Í greininni segir að kostnaður við rekstur bókasafnsins greiðist úr ríkissjóði, en jafnframt tekið fram að safninu sé heimilt að gera þjónustusamninga við aðrar háskóla- og fræðastofnanir, svo og aðra aðila. Er það í samræmi við þá áherslu sem frumvarpið byggist á að safnið veiti ekki aðeins Háskóla Íslands þjónustu heldur öðrum háskólum í landinu eftir því sem óskað er eftir. Þá er sérstaklega kveðið á um að hluti af fjárveitingum til Háskóla Íslands renni árlega til safnsins samkvæmt sérstöku samkomulagi milli safnsins og Háskóla Íslands, sbr. 1. mgr. 8. gr. gildandi laga.
    Í 2. mgr. er síðan að finna almenna heimild fyrir safnið til að gera þjónustusamninga við stofnanir og aðra aðila um samstarf eða þjónustu. Er hér bæði átt við þjónustusamninga milli safnsins og háskóla landsins sem fjallað er um í 5. gr. frumvarpsins sem og mögulega aðra þjónustusamninga við vísindastofnanir eða aðra aðila. Með ákvæðinu er lögð áhersla á að rammi um slíka þjónusta eða samstarf sé í formi þjónustusamnings hvort sem er við stofnanir eða einkaaðila.

Um 7. gr.


    Samkvæmt ákvæðinu er landsbókaverði heimilt að undangengnu útboði og að fenginni umsögn stjórnar Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns að gera þjónustusamninga um afmarkaða þætti í starfsemi safnsins. Um samninga sem gerðir eru með slíkum hætti gilda ákvæði 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins. Í gildandi lögum er kveðið á um heimild safnsins til að bjóða út vissa þætti í starfsemi þess. Hér er lagt til að heimildin verði orðuð með almennari hætti. Þá er landsbókaverði heimilt, að fenginni umsögn stjórnar, að semja við aðrar stofnanir um að annast ákveðna þjónustu sem safninu er að lögum falið að rækja og er þá einkum miðað við afmarkaða þjónustu sem ekki þykir ástæða eða skylda til að bjóða út.
    Enn fremur getur bókasafnið með samþykki menntamálaráðuneytis gert samkomulag við aðrar stofnanir um að litið sé á gagnakost þeirra sem hluta af gagnakosti safnsins. Er það í samræmi við ákvæði 3. mgr. 9. gr. gildandi laga.

Um 8. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um gjaldtökuheimildir safnsins. Þarfnast það ekki nánari skýringar.

Um 9.–11. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki nánari skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Hér er kveðið á um að verði frumvarp þetta að lögum muni það ekki fela í sér breytingar á stöðu og réttindum starfsmanna Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Þykir rétt að hafa slíkt ákvæði til að taka af allan vafa um réttarstöðu starfsmanna.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.

    Í frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að hlutverk og verkefni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafn verði aðlagað breyttu starfsumhverfi safnsins og verkefnum þess. Í öðru lagi eru tillögur um breytingar á stjórnkerfi sem auka stjórnunarumboð og ábyrgð forstöðumanns. Í þriðja og síðasta lagi eru lagðar til rýmri gjaldtökuheimildir.
    Að mati fjármálaráðuneytisins hafa tillögur um breytingar á hlutverki, verkefnum og stjórnkerfi óveruleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Auknar gjaldtökuheimildir gætu skilað safninu meiri tekjum en þar sem ekki liggur fyrir hvernig þær verða nýttar er ekki unnt að áætla fjárhæðir.