Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 119. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 160  —  119. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr.,11. nóv.)



1. gr.


    Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein sem verður 3. mgr., svohljóðandi:
    Þrátt fyrir afturköllun starfsleyfis skv. 6. tölul. 1. mgr. er þeim sem annast skiptastjórn þrotabús fjármálafyrirtækis heimilt, með samþykki og undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins, að annast áfram tiltekna leyfisbundna starfsemi að svo miklu leyti sem hún er nauðsynleg vegna bústjórnar og ráðstöfunar hagsmuna þrotabús.

2. gr.

    Við 98. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Veiti héraðsdómari fjármálafyrirtæki heimild til greiðslustöðvunar skv. 12. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. skal heimildin veitt til ákveðins dags og stundar innan tólf vikna frá uppkvaðningu úrskurðarins. Fallist héraðsdómari á framlengingu greiðslustöðvunar skv. 17. gr. sömu laga skal þing haldið til að taka málefnið fyrir á ný innan níu mánaða frá því að beiðni um framlengingu var lögð fram á dómþingi. Héraðsdómari getur þó aldrei heimilað greiðslustöðvun í lengri tíma en alls 24 mánuði talið frá því þinghaldi þegar heimild var veitt skv. 1. málsl. Fundarboð skv. 2. mgr. 13. gr. og tilkynning skv. 5. mgr. 17. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. telst fullnægjandi ef hún er birt í að minnsta kosti tveimur dagblöðum hér á landi og í hverju þeirra ríkja þar sem útibú hafa verið rekin.
     Lögmaður eða löggiltur endurskoðandi sem ráðinn hefur verið af fjármálafyrirtæki til að aðstoða við að koma nýrri skipan á fjármál þess, sbr. 10. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, skal ekki vera skaðabótaskyldur vegna ákvarðana og aðgerða sinna sem aðstoðarmaður nema um sé að ræða brot af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.

3. gr.

     3. mgr. 103. gr. laganna orðast svo:
    Þegar ákvæði laga um gjaldþrotaskipti o.fl. miða réttaráhrif við frestdag skal við skipti á búi fjármálafyrirtækis frestdagur miðast við það tímamark er Fjármálaeftirlitið veitti því frest að hætti 4. mgr. 86. gr. eða skipaði því skilanefnd á grundvelli 100. gr. a, en ef hvorugt af þessu er undanfari skipta skal miðað við þann dag sem héraðsdómara berst krafa Fjármálaeftirlitsins skv. 1. eða 2. mgr. 102. gr.

4. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Leiti fjármálafyrirtæki eftir heimild til greiðslustöðvunar eða framlengingar greiðslustöðvunar samkvæmt kröfu Fjármálaeftirlitsins á grundvelli 100. gr. a skal slík heimild veitt án tillits til ákvæða 4. og 6. tölul. 2. mgr. 12. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Ef heimild til greiðslustöðvunar hefur verið veitt á grundvelli 2. mgr. 98. gr. laganna fyrir gildistöku laga þessara, en fundur með lánardrottnum skv. 1. mgr. 13. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. hefur enn ekki farið fram, er héraðsdómara heimilt að fenginni rökstuddri beiðni skuldara að fresta þegar ákveðinni fyrirtöku en þó ekki til lengri tíma en kveðið er á um í 1. málsl. 3. mgr. 98. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga þessara. Skal héraðsdómari fallast á beiðni um frest nema hann telji hana augljóslega tilefnislausa. Fallist héraðsdómari á beiðni skuldara skal hann framlengja greiðslustöðvunina með úrskurði skv. 4. mgr. 17. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.