Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 119. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 172  —  119. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.



    Málinu var vísað til nefndarinnar að lokinni 2. umræðu, hún hefur fjallað um málið á ný og fengið á sinn fund Áslaugu Árnadóttur frá viðskiptaráðuneytinu, Andra Árnason hæstaréttarlögmann og Rúnar Guðmundsson frá Fjármálaeftirlitinu, Einar Jónsson frá skilanefnd Landsbanka Íslands, Jóhannes Rúnar Jóhannsson frá skilanefnd Kaupþings og Steinunni Guðbjartsdóttur frá skilanefnd Glitnis. Þá kom einnig á fund nefndarinnar Markús Sigurbjörnsson formaður réttarfarsnefndar.
    Eftir umræðu í nefndinni leggur meiri hluti hennar til frekari breytingar á frumvarpinu.
    Í fyrsta lagi leggur meiri hlutinn til að við frumvarpið bætist tvö ný ákvæði sem verða 5. og 6. mgr. 98. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Í þeim felst annars vegar að óheimilt verði að höfða dómsmál gegn fjármálafyrirtæki meðan á greiðslustöðvun þess stendur, nema mælt sé sérstaklega fyrir um heimild til þess í lögum eða um sé að ræða opinbert mál og refsiviðurlaga sé krafist. Í öðru lagi er lagt til ákvæði sem heimilar að meðferð dómsmáls sem höfðað hefur verið á hendur fjármálafyrirtæki frestist, meðan á greiðslustöðvun þess fjármálafyrirtækis stendur, nema mælt sé sérstaklega fyrir um heimild til þess í lögum eða um sé að ræða opinbert mál og refsiviðurlaga sé krafist. Markmið með breytingum þessum er að tryggja að fjármálafyrirtæki í greiðslustöðvun þurfi ekki að óttast málshöfðun íslenskra eða erlendra kröfuhafa meðan á greiðslustöðvuninni stendur og unnið er að því að tryggja verðmæti eigna fyrirtækisins. Orðalag ákvæðisins er sótt í 116. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem að hluta til áþekk regla gildir um þrotabú.
    Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til viðbót við 3. mgr. 103. gr. laganna á þann hátt að frestdagur við gjaldþrotaskipti geti einnig miðast við tímamark greiðslustöðvunar á grundvelli 3. mgr. 98. gr eða við heimild til nauðasamninga á grundvelli 27. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. 103. gr. mun þannig fela í sér sérreglu um tímamark frestdags fjármálafyrirtækja. Gerir ákvæðið, með breytingum þessum, og breytingum á þskj. 140, ráð fyrir að frestdagur markist af hverju því tímamarki sem fram kemur í greininni og að ef ekkert þeirra tilvika eigi við skuli miða frestdag við þann dag sem héraðsdómara berst krafa Fjármálaeftirlits skv. 1. eða 2. mgr. 102. gr. laganna. Er með þessum viðbótum reynt að tryggja að frestir til riftunar og skuldajöfnuðar tapist síður, að frestdagur fjármálafyrirtækja verði afmarkaður skýrlega og að hann komi fram sem fyrst, en það er sérstaklega mikilvægt í tilfellum þar sem Fjármálaeftirlitið hefur tekið yfir stjórn á fjármálafyrirtæki.
    Í þriðja lagi leggur meiri hlutinn til nýtt ákvæði til bráðabirgða sem felur í sér að í þeim fjármálafyrirtækjum sem Fjármálaeftirlitið hefur skipað skilanefnd á grundvelli 100. gr. a. skuli miða frestdag við gildistöku laga þessara. Er þessu ákvæði þannig ætlað að taka af tvímæli um að frestdagur í þessum tilfellum sé ekki afturvirkur.
    Þá ræddi nefndin einnig á fundum sínum ábendingu frá skilanefnd Landsbanka Íslands um að réttaráhrif greiðslustöðvunar eins og þau eru skilgreind í 19..22. gr. laganna um gjaldþrotaskipti o.fl. séu ekki nægilega skýr og ákveðin til þess að vekja erlendum kröfuhöfum traust um að fjármálafyrirtækin muni geta unnið að nýrri skipan fjármála og endurreisn eigna sinna í greiðslustöðvunarferlinu. Eftir umræður við viðskiptaráðneyti og Fjármálaeftirlitið er það mat meiri hlutans að heimildir í 20. og 21. gr. laganna um gjaldþrotaskipti tryggi nægilega slík úrræði fjármálafyrirtækja undir greiðslustöðvun, þar á meðal ráðstafanir á eignum fyrirtækis ef slíkt er nauðsynlegt til þess að varna tjóni, þar á meðal fjárhagslegu tjóni.
    Á fundi nefndarinnar kom auk þess fram sú athugasemd að betra kynni að vera að setja í lögin um fjármálafyrirtæki sérstakan kafla um greiðslustöðvun fjármálafyrirtækja. Í ljósi þess að brýnir hagsmunir eru í húfi telur meiri hlutinn að óhjákvæmilegt sé að setja í lögin þau ákvæði sem í breytingartillögu þessari felast. Meiri hlutinn beinir því hins vegar til ráðuneytisins að hlutast til um gerð frumvarps sem feli í sér heildstæð ákvæði um greiðslustöðvun fjármálafyrirtækja, er skapi fyllri og skýrari umgjörð um slíkt ástand til lengri tíma litið.
    Á grundvelli framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Guðjón A. Kristjánsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu með fyrirvara.


Alþingi, 13. nóv. 2008.



Ágúst Ólafur Ágústsson,


form., frsm.


Guðfinna S. Bjarnadóttir.


Birgir Ármannsson.



Árni Páll Árnason.


Birkir J. Jónsson.


Jón Gunnarsson.



Björk Guðjónsdóttir.


Höskuldur Þórhallsson,


með fyrirvara.