Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 152. máls.

Þskj. 176  —  152. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á ýmsum lögum vegna kolvetnisstarfsemi.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. ÞÁTTUR
Breytingar á löggjöf iðnaðarráðuneytis.
I. KAFLI
Breyting á lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      4. mgr. orðast svo:
                   Rannsóknir merkja í lögum þessum mat á stærð, legu og vinnslueiginleikum kolvetnisgeymis með borun leitarholna og borholumælingum auk leitar að kolvetni með jarðeðlisfræðilegum aðferðum.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Leyfishafi merkir í lögum þessum skráður aðili hér á landi sem fengið hefur leyfi til leitar, rannsóknar og/eða vinnslu kolvetnis skv. III. og IV. kafla.

2. gr.

    3. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    3. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Iðnaðarráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari skilyrði fyrir veitingu leyfis til leitar að kolvetni.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Orkustofnun veitir leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis á tilteknum svæðum. Slíkt leyfi felur í sér einkarétt leyfishafa til rannsókna og vinnslu. Einungis má veita slíkt leyfi aðilum sem að mati Orkustofnunar hafa nægilega sérþekkingu, reynslu og fjárhagslegt bolmagn til að annast þessa starfsemi. Nánar skal kveðið á um skyldur og rannsóknarkvaðir leyfishafa í rannsóknar- og vinnsluleyfi.
     b.      3. mgr. fellur brott.
     c.      7. mgr. orðast svo:
                  Leyfishafi skal árlega greiða til ríkissjóðs gjald fyrir afnot af rannsóknarsvæði. Fyrstu sex ár sem leyfi er í gildi skal leyfishafi greiða árlega 10.000 kr. fyrir hvern ferkílómetra sem leyfið tekur til en þar á eftir hækkar gjaldið árlega um 10.000 kr. fyrir hvern ferkílómetra. Gjaldið skal þó aldrei vera hærra en 150.000 kr. árlega fyrir hvern ferkílómetra.

5. gr.

    Á eftir 8. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, 8. gr. a og 8. gr. b, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
    
    a. (8. gr. a.)

Þátttaka ríkisins.


    Iðnaðarráðherra er heimilt að ákveða um þátttöku íslenska ríkisins í vinnslu kolvetnis samkvæmt lögum þessum.
    Ákveði iðnaðarráðherra að íslenska ríkið taki þátt í vinnslu kolvetnis skal hann beita sér fyrir stofnun hlutafélags með það að markmiði að gæta hagsmuna íslenska ríkisins vegna þátttöku þess. Öll hlutabréf í hlutafélaginu skulu ávallt vera eign ríkissjóðs. Skal iðnaðarráðherra annast undirbúning að stofnun hlutafélagsins í samráði við fjármálaráðherra. Hlutafélaginu er óheimilt að starfa sem vinnslufyrirtæki.
    Hlutafélagi skv. 2. mgr. skal eingöngu vera heimilt að starfa á landgrunni Íslands. Hlutafélaginu er þó heimilt að starfa á þeim svæðum utan landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunns Íslands sem íslenska ríkið á rétt á hlutdeild í samkvæmt alþjóðasamningum eða öðrum heimildum.

    b. (8. gr. b.)

Stjórn hlutafélagsins.


    Ríkissjóður Íslands skal vera eigandi alls hlutafjár í hlutafélaginu við stofnun þess. Iðnaðarráðherra fer með eignarhlut ríkisins í félaginu.
    Stjórn hlutafélagsins skal skipuð fimm mönnum. Þeir skulu kosnir á aðalfundi ár hvert.
    Tilgangi og verkefnum hlutafélagsins skal nánar lýst í samþykktum þess. Samþykktum félagsins má breyta á hluthafafundi samkvæmt almennum reglum.
    Ákvæði laga um hlutafélög gilda um félagið ef ekki er kveðið á um annað í lögum þessum.

6. gr.

    Við 1. mgr. 9. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Umsækjandi skal leggja fram viðeigandi uppdrætti.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „iðnaðarráðherra“ í 5. mgr. kemur: Orkustofnunar.
     b.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Skilyrði leyfisveitingar er að stofnað sé sérstakt félag hér á landi um þessa starfsemi umsækjanda. Íslenskt útibú félags sem skráð er í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum telst sérstakt félag í skilningi laga þessara. Tilgangur og starfsemi félagsins skal vera bundin við leit, rannsóknir og/eða vinnslu kolvetnis, sbr. ákvæði laga þessara.
             Hver umsækjandi getur eingöngu fengið úthlutað einu leyfi skv. IV. kafla.

8. gr.

    9. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna fellur brott.

9. gr.

    Í stað orðsins „hann“ í 1. mgr. 20. gr. laganna kemur: stofnunin.

10. gr.

    2. mgr. 24. gr. laganna orðast svo:
    Orkustofnun skal gefa iðnaðarráðherra árlega skýrslu um framkvæmd leitar, rannsókna og vinnslu.

11. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. a laganna:
     a.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, 1. og 2. mgr., svohljóðandi:
                  Umsækjandi um leyfi til leitar að kolvetni skal greiða til Orkustofnunar 150.000 kr. umsóknargjald.
                  Umsækjandi um leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis skal greiða til Orkustofnunar 150.000 kr. umsóknargjald.
     b.      1. mgr., er verður 3. mgr., orðast svo:
                  Til að standa undir kostnaði af undirbúningi og útgáfu leyfa samkvæmt lögum þessum skal greiða gjöld til leyfisveitanda:
              1.      Fyrir leyfi til leitar að kolvetni með rannsóknir og vinnslu að markmiði, sbr. 4. gr., skal greiða 600.000 kr.
              2.      Fyrir leyfi til rannsókna kolvetnis, sbr. 7. gr., skal greiða 850.000 kr.
              3.      Fyrir leyfi til vinnslu kolvetnis, sbr. 7. gr., skal greiða 1.350.000 kr.
     c.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Gjaldtaka vegna umsókna, útgáfu leyfa og eftirlits.

12. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þar til reglugerð hefur verið sett með stoð í 3. mgr. 6. gr. halda reglur um veitingu leyfa til leitar að kolvetni, nr. 553/2001, gildi sínu.

2. ÞÁTTUR
Breytingar á löggjöf umhverfisráðuneytis.
II. KAFLI
Breyting á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum.
13. gr.

    Við 1. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: að annast gerð og framkvæmd skipulagsáætlana á hafsvæðinu og landgrunninu utan netlaga og innan efnahagslögsögunnar vegna rannsókna og vinnslu kolvetnis, þar með talið leyfisveitingar vegna bygginga og mannvirkjagerðar þar. Við skipulagsáætlunargerð þessa skal stofnunin leita umsagna Hafrannsóknastofnunarinnar, Siglingamálastofnunar, Umhverfisstofnunar og Orkustofnunar. Skipulagsstofnun sendir skipulagsáætlun til umhverfisráðherra þegar gerð hennar er lokið. Skipulagsáætlun samkvæmt þessari grein, eða breyting á henni, er háð staðfestingu umhverfisráðherra og öðlast hún gildi þegar staðfesting hefur verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Umhverfisráðherra setur að fengnum tillögum Skipulagsstofnunar reglugerð um gerð skipulagsáætlunar samkvæmt þessari grein. Þá setur ráðherra reglugerð um gjald vegna gerðar skipulagsáætlunar að fengnum tillögum Skipulagsstofnunar. Gjaldið má eigi vera hærra en þarf til að standa straum af kostnaði við gerð skipulagsáætlana og skal greiðast af þeim aðilum sem hljóta byggingar- eða framkvæmdarleyfi samkvæmt lögum þessum.

14. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvarðanir Skipulagsstofnunar um útgáfu leyfa skv. 27. gr. a og 43. gr. a er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

15. gr.

    Á eftir 27. gr. laganna kemur ný grein, 27. gr. a, svohljóðandi:
    Þegar um er að ræða framkvæmdir í nýtingar- eða rannsóknarskyni sem haft geta áhrif á hafsbotninn utan netlaga en innan íslenskrar efnahagslögsögu og landgrunnsmarka skal afla framkvæmdarleyfis Skipulagsstofnunar. Áður en Skipulagsstofnun tekur ákvörðun um hvort leyfi verður veitt skal stofnunin leita umsagna Hafrannsóknastofnunarinnar, Brunamálastofnunar, Orkustofnunar, Umhverfisstofnunar og Siglingamálastofnunar. Skipulagsstofnun hefur eftirlit með leyfisskyldri framkvæmd samkvæmt ákvæðum þessarar greinar. Um þvingunarúrræði og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum VI. og VII. kafla eftir því sem við getur átt.
    Umhverfisráðherra setur að fengnum tillögum Skipulagsstofnunar reglugerð þar sem kveðið skal á um nauðsynleg gögn og upplýsingar sem fylgja þurfa umsókn um framkvæmdarleyfi. Ráðherra setur og reglugerð um tilhögun eftirlits að fengnum tillögum Skipulagsstofnunar.

16. gr.

    Á eftir 43. gr. laganna kemur ný grein, 43. gr. a, svohljóðandi:
    Á hafsbotninum utan netlaga og innan efnahagslögsögu og landgrunnsmarka er óheimilt að grafa grunn, reisa mannvirki eða breyta því nema að fengnu leyfi Skipulagsstofnunar. Áður en Skipulagsstofnun tekur ákvörðun um veitingu leyfis skal leita umsagna Hafrannsóknastofnunarinnar, Orkustofnunar, Siglingamálastofnunar, Brunamálastofnunar og Umhverfisstofnunar. Skipulagsstofnun hefur eftirlit með leyfisskyldri starfsemi samkvæmt þessari grein. Um þvingunarúrræði og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum VI. kafla.
    Umhverfisráðherra setur að fengnum tillögum Skipulagsstofnunar og Brunamálastofnunar reglugerð þar sem kveðið skal á um nauðsynleg gögn og upplýsingar sem fylgja verða umsókn um byggingarleyfi. Ráðherra setur og reglugerð um tilhögun eftirlits að fengnum tillögum Skipulagsstofnunar.

17. gr.

    Á eftir 53. gr. laganna kemur ný grein, 53. gr. a, svohljóðandi:
    Skipulagsstofnun er heimilt að innheimta gjöld fyrir eftirlit og leyfisveitingu til framkvæmda eða bygginga utan netlaga og innan efnahagslögsögu og landgrunnsmarka. Gjaldupphæð má eigi vera hærri en nemur rökstuddum kostnaði við eftirlit, útgáfu leyfa, útmælingu, úttektir, nauðsynlega gagnaöflun eða aðra verkþætti sem standa í eðlilegum tengslum við leyfisveitingu til framkvæmdaraðila og greiðist af leyfishafa.

III. KAFLI
Breyting á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998,
með síðari breytingum.

18. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Lögin ná einnig til starfsemi og framkvæmda í efnahagslögsögunni vegna leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis.

19. gr.

    Á eftir 6. gr. a laganna kemur ný grein, 6. gr. b, svohljóðandi:
    Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi fyrir atvinnurekstur vegna leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis sem getur haft í för með sér mengun í hafi eða á hafsbotni innan efnahagslögsögu og landgrunnsmarka. Áður en Umhverfisstofnun tekur ákvörðun varðandi leyfisumsókn skal stofnunin afla umsagna Hafrannsóknastofnunarinnar, Orkustofnunar og Brunamálastofnunar. Umhverfisstofnun annast eftirlit með hollustuháttum og mengunarvörnum vegna starfsleyfisskyldrar starfsemi samkvæmt þessari grein. Ráðherra setur reglugerð samkvæmt tillögum Umhverfisstofnunar um framkvæmd hollustuhátta- og mengunarvarnaeftirlits varðandi mannvirki sem reist eru vegna leitar, rannsókna eða vinnslu kolvetnis í jörðu.

20. gr.

    Á eftir 21. gr. laganna kemur ný grein, 21. gr. a, svohljóðandi:
    Umhverfisstofnun er heimil gjaldtaka vegna leyfisveitinga og eftirlits samkvæmt ákvæðum 6. gr. Upphæð gjalds má þó ekki nema hærri fjárhæð en samsvarar þeim kostnaði sem hlýst af því að veita slík leyfi og vinnu sem stendur í eðlilegum tengslum við það.

21. gr.

    Við 2. mgr. 32. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvörðun Umhverfisstofnunar um útgáfu leyfis skv. 6. gr. b er heimilt að kæra til umhverfisráðherra. Um aðrar ákvarðanir Umhverfisstofnunar fer skv. 31. gr.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000,
með síðari breytingum.

22. gr.

    Við c-lið 2. tölul. 2. viðauka við lögin bætist nýr liður, vi. liður, svohljóðandi: Vinnsla og rannsóknarboranir vegna kolvetnis utan netlaga og innan efnahagslögsögu og landgrunnsmarka.

V. KAFLI
Breyting á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004,
með síðari breytingum.

23. gr.

    Við 7. tölul. 3. gr. laganna bætist nýr málsliður, 2. málsl., svohljóðandi: Til losunar telst og það þegar mengandi efni vegna starfsemi eða framkvæmda við rannsóknir og vinnslu kolvetnis losnar í hafið.

24. gr.

    Við A-lið viðauka I við lögin bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Rannsóknir og vinnsla kolvetnis innan efnahagslögsögunnar.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000, með síðari breytingum.
25. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Lögin ná einnig til starfsemi og framkvæmda utan netlaga og innan efnahagslögsögu og landgrunnsmarka vegna leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis.

26. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
    Um eldvarnaeftirlit varðandi mannvirki vegna leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis í íslenskri efnahagslögsögu og innan landgrunnsmarka fer samkvæmt ákvæðum þessarar greinar eftir því sem við getur átt. Brunamálastofnun annast framkvæmd eldvarnaeftirlits og setur um það reglur sem hljóta skulu staðfestingu ráðherra.

27. gr.

    Á eftir 13. gr. laganna kemur ný grein, 13. gr. a, svohljóðandi:
    Mannvirki innan efnahagslögsögu og landgrunnsmarka sem eru fyrirhuguð eða tilkomin vegna leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis skulu háð sérstöku öryggismati sem framkvæmt er af notanda mannvirkis og staðfest af Brunamálastofnun. Öryggismat þetta skal endurskoða að jafnaði á fimm ára fresti. Umhverfisráðherra setur að fengnum tillögum Brunamálastofnunar reglugerð um útfærslu og framkvæmd öryggismats, svo og þau gögn og upplýsingar sem nauðsynlegar verður að telja til að matið byggist á öruggum forsendum. Í reglugerð þessari skal einnig kveðið á um hlutverk slökkviliða vegna eld- eða sprengihættu í þessu sambandi.
    Brunamálastofnun er heimil gjaldtaka vegna eldvarnaeftirlits, öryggismats og endurskoðunar öryggismats. Gjaldið má þó ekki vera hærra en nemur rökstuddum kostnaði við gerð eða endurskoðun öryggismats og framkvæmd eldvarnaeftirlits.

28. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001, skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004, og lögum um brunavarnir, nr. 75/2000. Með lögum nr. 49/2007 voru gerðar talsverðar breytingar á lögum nr. 13/2001 þar sem m.a. Orkustofnun var falið leyfisveitingarvald samkvæmt lögunum. Að auki var við lögin bætt gjaldtökuheimildum sem og öðrum breytingum með það að markmiði að hefja undirbúning að útgáfu leyfa til rannsókna og vinnslu kolvetnis. Til að tryggja faglegan framgang starfsins þar sem nyti við þverfaglegrar sérfræðiþekkingar var komið á formlegum samstarfsvettvangi og vinnuhópar settir á laggirnar. Tók frumvarp það sem varð að lögum nr. 49/2007 mið af þessu samstarfi ráðuneyta og fagaðila á vettvangi kolvetnis. Hins vegar var ljóst að frekari breytinga var þörf á bæði löggjöf iðnaðarráðuneytis sem og umhverfisráðuneytis og eru með frumvarpi þessu lagðar til breytingar á löggjöf ráðuneytanna beggja. Við undirbúning frumvarpsins hefur verið haft samráð við fjármálaráðuneyti og umhverfisráðuneyti.

II. Efni frumvarps til breytinga á kolvetnislögum og helstu ástæður breytinga.
    Frá gildistöku laga nr. 49/2007 hafa iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun leitað frekari aðstoðar og upplýsinga frá ráðgjöfum sem starfa á vettvangi olíumála og búa yfir viðamikilli sérþekkingu á þessu sviði. Á grundvelli þeirra upplýsinga og ráðlegginga sem borist hafa er það mat stjórnvalda að ákvæði laga nr. 13/2001 megi færa til enn betri vegar.
    Breytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpi þessu snúa einna helst að lagfæringum á texta laganna einkum með það að markmiði að gera hann enn skýrari og að eyða óþarfa endurtekningum. Að auki eru í frumvarpinu lagðar til breyttar útfærslur á gjaldtökuákvæðum laganna. Loks er lagt til að við lögin verði bætt ákvæði sem tekur til þátttöku íslenska ríkisins þegar kemur að vinnslu kolvetnis.
    Mikilvægt er að eyða öllum þeim óvissuþáttum sem kunna að vera til staðar í texta laga nr. 13/2001 áður en útboð á leyfum hefst árið 2009. Með því er verið að tryggja hagsmuni íslenska ríkisins sem eiganda kolvetnis í landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunni Íslands, en um leið að tryggja réttaröryggi þeirra sem seinna meir munu óska eftir leyfi til leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis á grundvelli laganna.

III. Breytingar á umhverfislöggjöf.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til ákveðnar breytingar á skipulags- og byggingarlögum, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um mat á umhverfisáhrifum, lögum um brunamál og lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda. Forsendur breytingartillagna eru þær að fyrirhugað er að bjóða út rannsóknir og vinnslu kolvetnis af hálfu íslenska ríkisins í íslenskri efnahagslögsögu. Í gildandi lögum er til að mynda ekki að finna ákvæði um hvaða stofnun fari með skipulagsvald utan netlaga þar sem skipulagsvaldmörk sveitarfélaga liggja, en grundvallarréttur ríkisins í þessum efnum er tryggður í lögum nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Samkvæmt þeim lögum hefur íslenska ríkið fullveldisrétt innan íslensku efnahagslögsögunnar og landgrunnsins að því er varðar rannsóknir, hagnýtingu, verndun og stjórnun auðlinda, lífrænna og ólífrænna, á hafsbotni og í honum, sbr. a-lið 1. mgr. 4. gr. laganna. Sömuleiðis hefur íslenska ríkið lögsögu á svæðinu að því er varðar byggingu mannvirkja og afnot af þeim, vísindalegar rannsóknir og verndun hafsins, sbr. b-lið 4. gr. laganna. Á landgrunninu, sem náð getur út fyrir 200 sjómílna afmörkun efnahagslögsögunnar, sbr. 5. gr. laganna, þá nær hagnýtingarrétturinn einnig þangað, sbr. 6. gr. laganna. Lög þessi hafa þó ekki að geyma ákvæði um hlutverk eða valdheimildir einstakra stjórnvalda í þessu sambandi, og meðal annars þess vegna verður að telja breytingar þær sem mælt er fyrir um í frumvarpinu nauðsynlegar.
    Vegna sérstöðu þess svæðis sem frumvarpið tekur til eru ákvæði um álitsumleitan hlutaðeigandi stjórnsýslustofnana mikilvæg og birtast í ýmsum greinum laganna. Rétt þykir einnig að taka fram að við skýringu þeirra ákvæða sem hér er lagt til að verði að lögum ber að hafa þau meginmarkmið sem birtast í núgildandi löggjöf og þá grundvallarhagsmuni sem þeim er ætlað að vernda að leiðarljósi, sbr. svo sem 1. gr. skipulags- og byggingarlaga og 1. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sérstöðu svæðisins eða landfræðilegri legu þessa hluta íslenska yfirráðasvæðisins er þannig hvorki ætlað draga úr gildi þessara markmiða né vernd umræddra grundvallarhagsmuna, eins og þau birtast í eldri lagaákvæðum.
    Við samningu frumvarpsins var meðal annars haft til hliðsjónar fyrirkomulag það sem við lýði er í Noregi, en sem kunnugt er hafa umsvif þar verið talsverð í þessum efnum um nokkuð langa hríð.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lögð til breyting á skilgreiningu á rannsókn til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 49/2007 en þar var m.a. bætt við núgildandi lög skilgreiningu á leit að kolvetni. Skv. 1. tölul. 4. mgr. 2. gr. laganna eru rannsóknir m.a. skilgreindar sem leit að kolvetni og þykir því ástæða til að greina á skýrari hátt á milli skilgreininga á annars vegar leit og hins vegar rannsóknum. Hafa verður hugfast að við rannsóknir fer einnig fram leit að kolvetni en þó með ólíkum hætti heldur en gerist almennt við leit, þ.e. samkvæmt leyfi til leitar að kolvetni. Af þeirri ástæðu þykir ekki rétt að fella tilvísun til leitar að kolvetni út úr skilgreiningu á rannsóknum heldur er lögð til nánari skilgreining á því hvers konar leit fer fram samkvæmt rannsóknum.
    Í greininni er lagt til að leyfishafi verði skilgreindur sem sá aðili sem fengið hefur leyfi til leitar, rannsóknar og/eða vinnslu kolvetnis skv. III. og IV. kafla og skráður er hér á landi. Í þessu felst sú breyting að gert er ráð fyrir að leyfishafi sé skráður hér á landi svo tryggt sé að viðkomandi aðili hafi skattalega heimilisfesti hér á landi. Í 3. og 7. gr. frumvarpsins er að finna breytingartillögur sem lúta að skilyrðum fyrir útgáfu leyfis.

Um 2. gr.


    Með lögum nr. 47/2007 var iðnaðarráðherra veitt heimild til að fela Orkustofnun að veita leyfi og taka aðrar stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna. Frá því að lög nr. 47/2007 voru samþykkt hefur umsýsla kolvetnismála færst frá iðnaðarráðuneyti til Orkustofnunar þótt yfirstjórn samkvæmt lögunum sé eftir sem áður í höndum iðnaðarráðherra. Í ljósi þessa þykir ástæða til að fella út úr lögunum fyrrgreinda heimild iðnaðarráðherra og þá sérstaklega þar sem sú heimild hefur að fullu verið nýtt af hálfu iðnaðarráðherra.

Um 3. gr.


    Í greininni er lagt til að iðnaðarráðherra verði heimilt að setja nánari skilyrði um leit að kolvetni í reglugerð í stað reglna líkt og núgildandi lög kveða á um. Með því að veita iðnaðarráðherra umrædda reglugerðarheimild er unnt að einfalda regluverk þannig að í einni reglugerð verði settur rammi um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Slíkt fyrirkomulag er til einföldunar á stjórnsýslu kolvetnismála.
    Samkvæmt aðgerðaáætlun um Einfaldara Ísland, sem samþykkt var í ríkisstjórn 17. október 2006, var gert ráð fyrir að hvert ráðuneyti setti sér langtímaáætlun um einföldun opinberra reglna og stjórnsýslu. Iðnaðarráðuneytið setti sér slíka áætlun í september 2007 og samkvæmt áætlun ráðuneytisins var stefnt að því að taka umræddar reglur nr. 553/2001 til endurskoðunar til samræmis við breytingar sem orðið hafa á lögum nr. 13/2001 og samhliða setningu reglugerðar í stað reglna mun fara fram endurskoðun á núgildandi reglum.

Um 4. gr.


    Í greininni er í fyrsta lagi lagt til að 3. mgr. laganna verði felld brott og tilheyrandi ákvæði hennar sameinuð 1. mgr. laganna. Breyting þessi felur í sér að óþarfa tvítekningu er eytt úr ákvæðum 7. gr. núgildandi laga en að öðru leyti er ekki hróflað við efnislegu innihaldi viðeigandi málsgreina.
    Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á gjaldtöku svonefndra svæðisgjalda. Í núgildandi lögum er kveðið á um að leyfishafi rannsóknar- og vinnsluleyfa skuli fyrstu sex ár sem leyfi er í gildi greiða árlega 50.000 kr. fyrir hvern ferkílómetra sem leyfið tekur til en þar á eftir hækkar gjaldið um 10.000 kr. árlega en þó þannig að gjaldið verði aldrei hærra en 150.000 kr. árlega fyrir hvern ferkílómetra. Ástæða þessara breytinga er að núverandi svæðisgjald er fullhátt í upphafi miðað við það sem gerist annars staðar. Er því ástæða til þess að lækka umrætt gjald til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum okkar og þar af leiðandi að draga ekki úr áhuga þeirra sem hug hafa á að sækja hér um rannsóknarleyfi samkvæmt lögum þessum.
    Að auki er lögð til sú breyting að í stað þess að innheimta svæðisgjöld vegna rannsóknar- og vinnsluleyfa nái umrætt gjald einungis til rannsóknarleyfa. Ástæða þessa er að samkvæmt þeirri leið sem nú er höfð í huga varðandi skattlagningu á vinnslu kolvetnis verður væntanlega lagt á stighækkandi framleiðslugjald í upphafi og síðar sérstakur kolvetnisskattur. Þykir þar af leiðandi óeðlilegt að handhafi vinnsluleyfis greiði að auki svæðisgjald fyrir vinnsluleyfi. Álíka fyrirkomulag viðgengst í nágrannalöndum okkar, t.d. í Færeyjum, þar sem sama leið er farin í skattlagningu.
    Tilgangur svæðisgjalds er m.a. að fá fyrirtækin til að skila til baka svæðum sem ekki er ætlunin að nýta á næstunni þannig að úthluta megi þeim svæðum að nýju. Hvorugur aðili, hvorki íslenska ríkið né leyfishafi, hefur hag af því að vinnslusvæði sé skilað meðan þar er stunduð vinnsla á annað borð. Svæðisgjaldið ætti því aðeins að ná til rannsóknarsvæða og lækka úr 50.000 kr. árlega á hvern ferkílómetra niður í 10.000 kr. árlega á hvern ferkílómetra í upphafi. Ákvæði um hækkun þess með tímanum og efstu mörk haldist hins vegar óbreytt.

Um 5. gr.


    Í greininni er lagt til að við lögin verði bætt tveimur ákvæðum er kveða á um heimild til að koma á laggirnar félagi vegna þátttöku ríkis í vinnslu kolvetnis samkvæmt lögum þessum. Þess ber þó að gæta að ekki er lagt til að íslenska ríkið taki beint þátt í vinnslu á kolvetni heldur er um að ræða að gæta hagsmuna íslenska ríkisins er varða auðlindina sjálfa sem og fjárhagslega hagsmuni ríkisins af vinnslu kolvetnis.
    Markmið þessa breytinga er að veita iðnaðarráðherra heimild til koma á fót félagi sem kemur fram fyrir hönd íslenska ríkisins, og á ábyrgð og áhættu ríkisins, til að fara með réttindi ríkisins og skyldur ríkisins komi til þátttöku þess í kolvetnisstarfsemi og viðskiptum þeim tengdum. Er um ræða fyrirkomulag í anda þess sem gerist í nágrannalöndum okkar, t.d. Petoro AS í Noregi, þar sem komið er á fót sérstöku ríkisfyrirtæki til að fara með hagsmunagæslu ríkisins. Ólíkt StatoilHydro í Noregi tekur Petoro AS ekki beinan þátt í vinnslu kolvetnis heldur er einungis um fyrirtæki að ræða sem gætir ríkishagsmuna.
    Lagt er til að iðnaðarráðherra verði veitt heimild til að kveða á um þátttöku íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi. Í ljósi þess að kolvetnisstarfsemi er áhættusöm starfsemi, og þá sérstaklega fjárhagslega, þykir rétt að iðnaðarráðherra sé heimilt að kveða á um þátttöku íslenska ríkisins í slíkri starfsemi og því ekki um skyldu að ræða. Með slíku móti er það mat hverju sinni hvort hagsmuna íslenska ríkisins, eða auðlinda þess, sé gætt með eða án þátttöku íslenska ríkisins. Að sama skapi er lagt til að iðnaðarráðherra verði í samráði við fjármálaráðherra falið það verkefni að stofna félag til að gæta hagsmuna íslenska ríkisins í umræddri starfsemi. Rétt þykir að ákvörðun um stofnun félagsins sé tekin í samráði við fjármálaráðherra þar sem tilgangur félagsins er að miklu leyti að gæta fjárhagslegra hagsmuna íslenska ríkisins. Þá er í ákvæðinu áréttað að félaginu er ekki ætlað að starfa sem vinnslufyrirtæki og skal það ávallt vera að fullu í eigu íslenska ríkisins. Þá er tekinn allur vafi af því að félaginu er með öllu óheimilt að starfa sem vinnslufyrirtæki.
    Lagt er til að mörk þess svæðis sem félaginu er ætlað að starfa á verði afmörkuð í lögum og í frumvarpinu er kveðið á um að félaginu sé óheimilt að starfa út fyrir mörk hins íslenska landgrunns. Þó er lögð til sú undantekning að félaginu sé heimilt að starfa utan þeirra marka á þeim svæðum þar sem íslenska ríkið á rétt til nýtingar á auðlindum samkvæmt alþjóðlegum samningum, tvíhliða eða fjölþjóðlegum, og sem dæmi má nefna réttindi til handa íslenska ríkinu samkvæmt samkomulagi við Noreg um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen frá árinu 1981.
    Er í greininni einnig kveðið á um að öll hlutabréf félagsins verða í eigu íslenska ríkisins við stofnun þess og lagt er til að iðnaðarráðherra fari með eignarhlut ríkisins í félaginu. Skv. 29. gr. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, skulu ríkisaðilar í A-hluta hverju sinni afla heimildar í lögum, m.a. til að selja eignarhluti í félögum. Af þessum sökum getur ekki komið til sölu á hlutum ríkisins í hlutafélaginu nema með sérstakri heimild Alþingis. Þá er kveðið á um í greininni að stjórn félagsins skuli skipuð fimm mönnum. Með hliðsjón af tilgangi félagsins og hagsmunum þess er rétt að umræddir stjórnarmenn verði skipaðir sameiginlega af forsætisráðherra, iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra samkvæmt samkomulagi þeirra á milli. Jafnframt er í greininni gert ráð fyrir að nánar sé kveðið á um tilgang félagsins í samþykktum þess. Tilgangi félagsins má síðan breyta á hluthafafundi samkvæmt almennum reglum. Með því gefst nauðsynlegt svigrúm til að laga hlutverk félagsins að aðstæðum hverju sinni.
    Loks eru í greininni nauðsynlegar undanþágur frá ákvæðum hlutafélagalaga, m.a. með tilliti til þess að ríkissjóður er eini stofnandi og hluthafi félagsins í upphafi. Að öðru leyti en fram kemur í greininni skulu ákvæði hlutafélagalaga gilda um hlutafélagið.

Um 6. gr.


    Í greininni er lögð til breyting á núverandi 9. gr. laganna á þann hátt að núgildandi 9. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna verði hér eftir hluti 1. mgr. 9. gr. Þykir rétt að þær kröfur sem gerðar eru til umsækjanda um leyfi samkvæmt lögum þessum um að leggja fram uppdrætti sé getið í 9. gr. laganna sem kveður á um umsóknir um slík leyfi. Að sama skapi felur þessi breyting í sér að 9. tölul. 1. mgr. 11. gr. fellur brott.

Um 7. gr.


    Í greininni er lögð til breyting til lagfæringar á orðalagi 5. mgr. 10. gr. laganna og til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 49/2007.
    Í greininni er lagt til að gert verði að skilyrði leyfisveitingar að stofnað sé sérstakt félag hér á landi um starfsemi umsækjanda. Íslenskt útibú félags sem skráð er í aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum telst sérstakt félag. Þá er gerð krafa um að tilgangur og starfsemi félagsins skuli vera bundin við leit, rannsóknir og/eða vinnslu kolvetnis. Þetta er lagt til í þeim tilgangi að afmarka starfsemi þess aðila sem verður skattskyldur aðili. Hver leyfishafi getur eingöngu fengið úthlutað einu leyfi skv. III. kafla laganna.

Um 8. gr.


    Í greininni er lagt til að 9. tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna falli brott, þ.e. að töluliðurinn verði þess í stað hluti af 1. mgr. 9. gr. laganna, sbr. 6. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.


    Í greininni er lögð til breyting til lagfæringar á orðalagi 1. mgr. 20. gr. laganna og til samræmis við þær breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 49/2007.

Um 10. gr.


    Í greininni er lögð til breyting á 2. mgr. 24. gr. laganna með það að markmiði að eyða óþarfa tvítekningu sem er í núgildandi ákvæði laganna til samræmis við 1. mgr. ákvæðisins. Felur breyting þessi í sér að 1. málsl. 2. mgr. 24. gr. falli brott enda er um að ræða orðalag sem einnig er kveðið á um í 1. mgr. Að auki er lögð til breyting á orðalagi núgildandi 2. málsl. 2. mgr. 24. gr., þ.e. að Orkustofnun gefi iðnaðarráðherra árlega þá skýrslu sem kveðið er á um í málsgreininni.

Um 11. gr.


    Í greininni eru lagðar til þrenns konar breytingar á núgildandi ákvæðum 30. gr. a laganna. Í fyrsta lagi er lagt til að heiti ákvæðisins verði breytt á þá vegu að það taki einnig til gjaldtöku vegna umsókna, en núgildandi heiti vísar eingöngu til gjaldtöku vegna útgáfu leyfa og eftirlits.
    Í öðru lagi, og til samræmis við breytt heiti ákvæðisins, er lagt til að við núgildandi ákvæði verði bætt tveimur nýjum málsgreinum er taka til umsóknargjalds vegna leyfa til rannsókna og vinnslu á kolvetni. Gjaldtaka samkvæmt núgildandi 1. mgr. 30. gr. a laganna tekur eingöngu til útgáfu leyfa en engar hömlur í formi gjaldtöku eru settar við innihaldsrýrum og undirstöðulitlum umsóknum. Álag á stjórnsýsluna vegna umsókna sem fá ekki framgang fæst því ekki bætt. Til að ráða bót á þessu er lagt til að skipt verði upp gjaldi fyrir útgáfu leyfa til leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis í tvennt, þ.e. í umsóknargjald og leyfisgjald, sem staðið gæti undir móttöku og skráningu umsóknar, könnun á hæfni viðkomandi umsækjanda og ákvörðunartöku um leyfið. Leyfisgjöld fyrir útgáfu leyfa til leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis yrðu þá samsvarandi lægri. Er í greininni lögð til sú breyting að umsækjanda um framangreind leyfi beri að greiða 150.000 kr. í umsóknargjald.
    Loks er í þriðja lagi lagt til í greininni að gjöld vegna útgáfu leyfa til leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis lækki til samræmis við framangreinda tillögu um umsóknargjald, þ.e. gjöld þessi vegna útgáfu leyfa lækki að höfuðstól um 150.000 kr. Hér er ekki um að ræða að íslenska ríkið verði af tekjum heldur er lagt til að umræddu gjaldi verði dreift á tvo gjaldliði, þ.e. umsóknargjald og gjald vegna útgáfu leyfa. Gjöld vegna útgáfu leyfa til leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis yrðu þá samsvarandi lægri, eða 600.000 kr., 850.000 kr. og 1.350.000 kr. Þá er að auki lögð til breyting á uppsetningu töluliða á þann veg að í stað tveggja töluliða verði þeir þrír, þ.e. gjöld vegna útgáfu leyfa til leitar, rannsóknar eða vinnslu kolvetnis falli undir sérstakan tölulið.

Um 12. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 13. gr.


    Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, er ekki kveðið á um skipulagsvald þeirra stofnana sem undir lögin falla á hafsvæðinu umhverfis Ísland. Til að taka af allan vafa viðvíkjandi hagsmunum og réttindum íslenska ríkisins sem eiganda auðlinda á landgrunninu og innan mengunar- og efnahagslögsögu Íslands eru sett ákvæði um skipulagsrétt og leyfisveitingarvald Skipulagsstofnunar á umræddu svæði. Þá er gert ráð fyrir að Skipulagsstofnun setji reglugerð um nánari útfærslu skipulags og framkvæmd í reglugerð og gjaldtöku vegna gerðar skipulagsáætlunar.

Um 14. gr.


    Rétt þótti að kveða sérstaklega á um kæruheimild vegna ákvarðana Skipulagsstofnunar um leyfisútgáfu skv. 27. gr. a og 43. gr. a frumvarpsins.

Um 15. gr.


    Kveðið er á um leyfisskyldu framkvæmda í greininni og skylda Skipulagsstofnunar til að afla umsagna í því samhengi lögbundin. Þá er gert ráð fyrir því að Skipulagsstofnun setji reglugerð varðandi gögn þau er fylgja verða umsókn á grundvelli greinarinnar.

Um 16. gr.


    Í greininni er kveðið á um leyfisskyldu vegna mannvirkjagerðar og tilfæringa á hafsbotni og álitsumleitunarskylda Skipulagsstofnunar lögbundin í því sambandi. Þá er kveðið á um reglugerðarsetningu varðandi nauðsynleg gögn og upplýsingar sem fylgja verða umsókn um byggingarleyfi á grundvelli greinarinnar.

Um 17. gr.


    Til að taka af allan vafa um kostnaðarþætti vegna þeirrar stjórnsýslu sem samfara er leyfisveitingum og vinnu vegna þeirra er hér sett gjaldtökuheimild. Líkt og orðalag greinarinnar ber með sér þá er um þjónustugjald að tefla.

Um 18. gr.


    Hér eru ákvæði um gildissvið laganna og ná þau þannig til starfsemi í efnahags- og mengunarlögsögunni og innan landgrunnsmarka vegna leitar, rannsóknar og vinnslu kolvetnis.

Um 19. gr.


    Hér er kveðið á um veitingu starfsleyfis vegna starfsemi og framkvæmda varðandi leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis sem getur haft í för með sér mengun í hafi eða á hafsbotni. Þá er kveðið á um skyldu Umhverfisstofnunar til að leita umsagna hjá þeim stofnunum sem tilgreindar eru í greininni.

Um 20. gr.


    Rétt þykir að taka af vafa um heimild Umhverfisstofnunar til að standa undir kostnaði við leyfisveitingar og vinnu sem þeim tengist. Líkt og orðalag greinarinnar ber með sér er um að tefla þjónustugjald.

Um 21. gr.


    Rétt þykir að árétta ákvæði um kæruheimild vegna þeirra ákvarðana Umhverfisstofnunar sem getið er um í greininni.

Um 22. gr.


    Vegna þeirra hættu og áhrifa sem verið geta samfara starfsemi eins og rannsóknum og borunum á landgrunninu þótti rétt að gera slíkar framkvæmdir tilkynningarskyldar enda ávallt viðbúið að rask verði af starfsemi sem þessari. Í þessu sambandi þykir og rétt að árétta mikilvægi álitsumleitana Skipulagsstofnunar frá viðeigandi stofnunum áður en ákvörðun um matsskyldu er tekin, ekki hvað síst með tilliti til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í þessu sambandi ber að taka fram að málsmeðferð þessi svo og mat á umhverfisáhrifum, þegar svo ber undir, er hugsað sem liður í leyfisveitingarferli Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum nr. 73/1997.

Um 23. gr.


    Sökum þeirra hættueiginleika er telja verður fólgna í framkvæmdum vegna vinnslu og rannsókna kolvetnis í eða við hafsbotn má ætla að upp geti komið mengunarvaldandi atvik, mögulega bráðamengandi, sbr. skilgreiningu í 3. gr. laganna. Vegna þess þykir brýnt að tryggja að starfsemi þessi sé viðbragðsáætlanaskyld eftir ákvæðum 18. gr. laganna og því nauðsynlegt að bæta þessum ákvæðum við 1. viðauka þar.

Um 24. gr.


    Vegna þeirrar efnisafmörkunar sem hugtakið losun hefur samkvæmt gildandi lögum þykir rétt að kveða á um að þegar mengandi efni vegna starfsemi eða framkvæmda við vinnslu kolvetnis losna í hafið falli það innan hugtaksskilgreiningar losunar. Oft getur verið um tefla afar hættuleg og hugsanleg stórskaðleg efni sem notuð eru við rannsóknir þessa og vinnslu. Hin nýju ákvæði hafa einkum þýðingu við skýringu 12. gr. laganna þar sem kveðið er á um tilkynningarskyldu vegna losunar, varps og mengunar á hafi.

Um 25. gr.


    Vegna þeirrar bruna- og sprengihættu sem skapast getur við meðferð þeirra tækja og efna sem notuð eru við rannsóknir og vinnslu kolvetnis á og við hafsbotninn er aðkoma Brunamálastofnunar að þessum málum tryggð með útvíkkun gildissviðs laganna.

Um 26. gr.


    Vegna leitar, vinnslu og rannsókna og kolvetnis skal Brunamálastofnun annast eldvarnaeftirlit eftir því sem þörf er á og unnt er. Tæknilega kann það að vera fyrirhafnarmeira og tímafrekara en þegar eldvarnaeftirlit á landi er viðhaft af augljósum ástæðum, en hafa ber til hliðsjónar ferli það sem mælt er fyrir um í sambandi við eldvarnaeftirlit í gildandi ákvæðum.

Um 27. gr.


    Til að tryggja að gert sé öryggismat eru ákvæði þessarar greinar sett. Brunamálastofnun annast gerð þess og staðfestingu. Með reglugerð samkvæmt greininni skal útfæra nánar gerð og framkvæmd þessa mats. Þá er hér gert ráð fyrir gjaldtökuheimild til þess að tryggja að unnt sé fyrir stofnunina að mæta þeim kostnaði sem hlýst af vinnu í tengslum við gerð öryggismats.

Um 28. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.




Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum
vegna kolvetnisstarfsemi.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem heyra undir iðnaðarráðuneytið og umhverfisráðuneytið vegna kolvetnisstarfsemi.
    Með lögum nr. 49/2007 voru gerðar talsverðar breytingar á lögum nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, þar sem Orkustofnun var meðal annars falið leyfisveitingarvald en auk þess var bætt við gjaldtökuheimildum og fleiri breytingum með það að markmiði að hefja undirbúning að útgáfu leyfa til rannsókna og vinnslu kolvetnis. Í þessu frumvarpi er lagt til að felld verði niður gildandi lagaákvæði um innheimtu á svæðisgjöldum af vinnsluleyfishöfum þar sem nú er gert ráð fyrir að farin verði sú leið í skattlagningu á vinnslu kolvetnis að leggja á stighækkandi framleiðslugjald í upphafi og síðar sérstakan kolvetnisskatt. Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að lækka svæðisgjöld sem rannsóknarleyfishafar greiða og er þá tekið mið af sambærilegri gjaldtöku hjá nágrannalöndum okkar. Tekjur af gjaldinu munu ráðast af fjölda leyfisveitinga en verða varla verulegar. Sé tekið dæmi um úthlutun á 200 ferkílómetra rannsóknarsvæði þá mun gjaldið skila 2 m.kr. á ári fyrstu sex árin og hækka síðan eftir það. Þá er lagt til að umsækjandi um leyfi til leitar eða rannsókna á kolvetni greiði Orkustofnun 150.000 kr. í umsóknargjald. Hljóti viðkomandi leyfi til leitar greiðir hann 600.000 kr. að auki, fyrir rannsóknarleyfi greiðir viðkomandi 850.000 kr. og fyrir vinnsluleyfi skal greiða 1.350.000 kr. Komi ekki til úthlutunar á sérleyfum er talið í ljósi reynslunnar að framangreind gjöld skili ríkissjóði óverulegum fjárhæðum á næstu árum en muni þó væntanlega standa undir kostnaði stofnunarinnar við meðhöndlun og afgreiðslu umsókna, eftirlit, frágang og varðveislu gagna. Loks má nefna að í frumvarpinu er gert ráð fyrir heimild til þess að ríkið stofni hlutafélag um þátttöku í vinnslu kolvetnis. Ef til þess kæmi væri tilgangurinn með því eingöngu sá að félagið annaðist um að gæta hagsmuna íslenska ríkisins í tengslum við slíkar auðlindir. Ef af stofnun slíks félags yrði þyrfti að leggja því til hlutafé sem fært yrði til eignar í efnahagsreikningi ríkisins en ekki gjaldfært í rekstrarreikningi.
    Hvað breytingar á umhverfislöggjöf varðar er megintilgangur frumvarpsins að setja skýrari lagaumgjörð um skipulags-, mengunarvarna- og öryggismál í tengslum við rannsóknir, leit og vinnslu kolvetnis á hafsvæðunum umhverfis Ísland. Í því skyni eru í frumvarpinu lagðar til lagabreytingar til að víkka út hlutverk Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og Brunamálastofnunar þannig að þau taki einnig til starfsemi við rannsóknir, leit og vinnslu kolvetnis innan efnahagslögsögu og landgrunnsmarka Íslands. Í fyrsta lagi er lagt til að Skipulagsstofnun ákvarði um matsskyldu samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, annist gerð og framkvæmd skipulagsáætlana, veiti framkvæmdaleyfi og hafi eftirlit með leyfisskyldri starfsemi. Áætlað er að kostnaður stofnunarinnar við frumathugun á umhverfismatsskyldu einstakra framkvæmda geti verið allt að 0,5 m.kr. Teljist framkvæmd ekki matsskyld ber stofnunin sjálf kostnað af frumathugun. Að öðrum kosti ber framkvæmdaraðili kostnaðinn ásamt kostnaði við gerð matsáætlunar sem áætlað er að geti numið allt að 7 m.kr. við hverja matsgerð. Áætlað er að kostnaður við gerð skipulagsáætlunar geti numið 12 m.kr. fyrir hvert leitarsvæði og að kostnaður við hvert framkvæmdaleyfi og eftirlit með því verði 0,5 m.kr. á ári. Samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að innheimta gjöld á móti kostnaði við frumathugun og matsáætlun matsskyldra framkvæmda, gerð skipulagsáætlana, leyfisveitingar og eftirlit. Í öðru lagi er lagt til að Umhverfisstofnun veiti starfsleyfi og hafi eftirlit með starfsemi sem getur haft í för með sér mengun í hafi eða á hafsbotni. Áætlaður kostnaður við hvert starfsleyfi og eftirlit er 2 m.kr. á ári. Heimilt verður að innheimta gjöld á móti kostnaði við leyfisveitingar og eftirlit. Í þriðja lagi er lagt til að Brunamálastofnun annist eldvarnaeftirlit, staðfesti öryggismat vegna mannvirkja á svæðinu og endurskoði það mat reglulega. Áætlaður kostnaður við öryggismat hvers mannvirkis er 15 m.kr. og kostnaður við árlegt eldvarnaeftirlit 5 m.kr. Heimilt verður að innheimta gjöld á móti kostnaði við eldvarnaeftirlit og öryggismat.
    Að öðru leyti en hér hefur verið rakið má gera ráð fyrir að frumvarpið geti leitt til tímabundins aukins álags hjá stofnunum umhverfisráðuneytis vegna vinnu við reglugerðir og aukinnar vinnu við frumathuganir, umsagnir og aðra stjórnsýslu. Hvað reglugerðir varðar þá er í fyrsta lagi um að ræða reglugerð skv. 13. og 14. gr. frumvarpsins um nauðsynleg gögn og upplýsingar sem fylgja verða umsókn um framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi, í öðru lagi reglugerð skv. 18. gr. um framkvæmd hollustuhátta- og mengunarvarnaeftirlits varðandi mannvirki sem reist eru vegna leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis í jörðu og í þriðja lagi reglugerð skv. 26. gr. um útfærslu og framkvæmd öryggismats og þau gögn og upplýsingar sem nauðsynleg verður að telja til að matið byggi á öruggum forsendum, og ákvæði um hlutverk slökkviliða vegna eld- eða sprengihættu. Umhverfisráðuneytið áætlar að vinna við þessa reglugerðasmíð kosti 23 m.kr. Er þar bæði um að ræða vinnu innan viðkomandi stofnana og aðkeypta sérfræðivinnu. Þá áætlar umhverfisráðuneytið annan stjórnsýslukostnað allt að 15 m.kr. á ári. Munar mest um 10 m.kr. hjá Umhverfisstofnun, þar af 8 m.kr. sem m.a. leiðir af víðari skilgreiningu þess sem telst losun í sjó, skv. 1. mgr. 22. gr. frumvarpsins, og 2 m.kr. vegna vinnslu umsagna. Í því sambandi má minna á að stofnunin hefur 5 m.kr. framlag í fjárlögum 2008 til að undirbúa stjórnsýslu og byggja upp sérfræðiþekkingu um áhrif leitar og vinnslu olíu á hafi úti og í fyrirliggjandi frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2009 er sótt um 12,5 m.kr. fjárveitingu til þessarar uppbyggingar auk þess sem gert er ráð fyrir 5 m.kr. lokaframlagi til þess á árinu 2010. Þá áætlar ráðuneytið 3 m.kr. kostnað hjá Brunamálastofnun vegna vinnslu umsagna og 2 m.kr. kostnað hjá Skipulagsstofnun vegna vinnslu frumathugana um matsskyldu framkvæmda. Þannig gerir ráðuneytið í heildina tekið ráð fyrir 23 m.kr. tímabundnum kostnaði við reglugerðavinnu og 15 m.kr. varanlegum stjórnsýslukostnaði.
    Ljóst er að kostnaður ríkissjóðs mun að mestu ráðast af umfangi þeirrar starfsemi sem undir lögin kemur til með að falla, svo sem fjölda skipulagssvæða, mannvirkja og umsókna um framkvæmda-, byggingar- og starfsleyfi. Að stórum hluta er gert ráð fyrir að heimilt verði að innheimta gjöld á móti kostnaði og munu þær tekjur færast á tekjuhlið ríkissjóðs. Þó er gert ráð fyrir að tímabundinn kostnaður í upphafi geti orðið allt að 23 m.kr. og viðvarandi stjórnsýslukostnaður 15 m.kr. Ekki er gert ráð fyrir þessum kostnaði í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2009.