Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 158. máls.

Þskj. 184  —  158. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 122. gr. laganna skal aðilum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum heimilt að óska eftir því að fyrirkomulag gjalddaga aðflutningsgjalda vegna uppgjörstímabilsins september til október 2008 verði sem hér segir:
     1.      Þriðjungi af aðflutningsgjöldum á uppgjörstímabilinu skuli skila eigi síðar en 17. nóvember 2008.
     2.      Þriðjungi af aðflutningsgjöldum á uppgjörstímabilinu skuli skila eigi síðar en 15. desember 2008.
     3.      Þriðjungi af aðflutningsgjöldum á uppgjörstímabilinu skuli skila eigi síðar en 5. janúar 2009.
    Vextir vegna greiðslufrests aðflutningsgjalda sem veittur er skv. 2. og 3. tölul. 1. mgr., þ.e. frá 17. nóvember til 15. desember 2008 og frá 17. nóvember til 5. janúar 2009, skulu vera almennir meðaltalsvextir, sbr. II. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, á viðkomandi tímabili.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarpi því sem hér er lagt fram er ætlað að taka á aðkallandi vanda fyrirtækja vegna komandi gjalddaga aðflutningsgjalda fyrir uppgjörstímabilið september til október, en sá gjalddagi er 17. nóvember 2008. Með því er verið að bregðast tímabundið við brýnni þörf á gjaldaaðlögun fyrirtækja vegna þess gengisfalls, samdráttar og verðbólgu sem ríkir í íslensku efnahagslífi um þessar mundir.
    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lögin sem kveður á um að aðilum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum, þ.e. aðilum sem eru í virðisaukaskattsskyldri starfsemi, verði heimilt að óska eftir því að fyrirkomulagi gjalddaga aðflutningsgjalda vegna uppgjörstímabilsins september til október 2008 verði breytt á eftirfarandi hátt: Í stað þess að gjalddaginn sé 17. nóvember verði veittur gjaldfrestur á þann hátt að 1/3 aðflutningsgjalda fyrir uppgjörstímabilið komi til greiðslu 17. nóvember, 1/3 verði frestað um einn mánuð til 15. desember 2008 og því sem eftir stendur (1/3) frestað til 5. janúar 2009. Dagsetningin 5. janúar 2009 er lögð til með hliðsjón af því að gjalddagi aðflutningsgjalda fyrir uppgjörstímabilið nóvember til desember er 15. janúar 2009 og verður því ekki um skörun að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá Fjársýslu ríkisins má gera ráð fyrir að aðflutningsgjöld á gjalddaga 17. nóvember 2008 nemi að óbreyttu um 18 milljörðum króna.
    Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að vextir af gjaldfrestinum, þ.e. frá 17. nóvember til 15. desember 2008 og frá 17. nóvember til 5. janúar 2008, verði almennir meðaltalsvextir, sbr. II. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, á viðkomandi tímabili en ekki dráttarvextir. Að öðru leyti gilda ákvæði 125. gr. tollalaga um vexti á vangreidd aðflutningsgjöld.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á tollalögum,
nr. 88/2005, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er lagt til að þeir aðilar sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum geti óskað eftir greiðsluaðlögun vegna næsta gjalddaga, sem er 17. nóvember nk. Frumvarpinu er þannig ætlað að taka á aðkallandi vanda fyrirtækja vegna aðflutningsgjalda fyrir uppgjörstímabilið september til október á þessu ári. Með frumvarpinu er verið að bregðast tímabundið við þörf fyrirtækja á frekari greiðslufresti vegna gengisfalls, samdráttar og verðbólgu sem ríkir í íslensku efnahagslífi um þessar mundir. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að hægt verði að óska eftir dreifingu aðflutningsgjalda þannig að 1/3 hluti komi til greiðslu 17. nóvember 2008, 1/3 hluti 15. desember 2008 og 1/3 hluti 5. janúar 2009. Dagsetningin 5. janúar 2009 er valin með hliðsjón af því að gjalddagi aðflutningsgjalda fyrir uppgjörstímabilið nóvember til desember 2008 er 15. janúar 2009 og því verður ekki um skörun að ræða. Álögð aðflutningsgjöld á þessu ári skerðast ekki vegna þessarar aðlögunar frá því sem gert var ráð fyrir og ekki verður um tekjutap að ræða þar sem gert er ráð fyrir því að sá hluti gjaldanna sem frestast beri almenna meðalvexti, sbr. II. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Hins vegar munu innheimt aðflutningsgjöld lækka á þessu ári sem nemur þeim hluta sem frestast fram yfir áramót.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.