Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 161. máls.

Þskj. 189  —  161. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

(Lögð fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta áform um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á grundvelli fyrirliggjandi viljayfirlýsingar íslenskra stjórnvalda.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Í kjölfar bankahrunsins í byrjun október 2008 ákvað ríkisstjórnin eins og kunnugt er að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fjárhagslega fyrirgreiðslu. Viðræður fulltrúa Íslands og sjóðsins um fyrirkomulag samstarfsins hafa staðið yfir um nokkurt skeið og unnin hefur verið ítarleg efnahagsáætlun með það að markmiði að koma á efnahagslegum stöðugleika að nýju. Birtist sú áætlun í bréfi fjármálaráðherra og formanns bankastjórnar Seðlabankans til stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 3. nóvember sl., sbr. breytingar á 9. tölul. yfirlýsingarinnar sem gerðar voru 15. nóvember sl. (sjá fylgiskjal).
    Meginmarkmið efnahagsáætlunar ríkisstjórnarinnar eru í fyrsta lagi að endurvekja traust á íslenskum efnahag og ná stöðugu gengi krónunnar með markvissum og öflugum aðgerðum, í öðru lagi að styrkja stöðu ríkissjóðs og í þriðja lagi að endurreisa íslenskt bankakerfi.
    Gert er ráð fyrir að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins taki ákvörðun miðvikudaginn 19. nóvember næstkomandi um fjárhagslega fyrirgreiðslu til íslenskra stjórnvalda á grundvelli fyrirliggjandi áætlunar. Samstarf Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins felur í sér lánveitingu frá sjóðnum að andvirði rúmlega 2 milljarða Bandaríkjadala sem greidd verður út í áföngum. Jafnframt er gert ráð fyrir láni annars staðar frá að fjárhæð 3 milljarðar Bandaríkjadala.



Fylgiskjal.


VILJAYFIRLÝSING
um áform íslenskra stjórnvalda
vegna fjárhagslegrar fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.


     1.      Í kjölfar hamfaranna á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði stendur þjóðarbúskapur Íslendinga frammi fyrir svo alvarlegri fjármálakreppu að slíks eru fá dæmi. Til viðbótar almennu vantrausti á fjármálamarkaði gróf mikil skuldsetning fjármálageirans og þörf fyrir erlenda lánsfjármögnun enn frekar undan trausti á íslensku bönkunum þar til fjármálakreppan felldi þrjá stærstu banka landsins sem samanlagt stóðu fyrir um 85% af bankakerfinu. Fallið leiddi til mjög snöggra breytinga á verðmæti lykileigna á sama tíma og gjaldeyrismarkaðurinn heima fyrir þornaði upp og alvarleg röskun varð á greiðslumiðlun til og frá landinu. Þjóðarbúskapurinn er nú á leið inn í tímabil mikils samdráttar, stóraukins fjárlagahalla og mikillar aukningar opinberra skulda – um 80% af vergri landsframleiðslu. Þetta endurspeglar þann mikla kostnað sem hlýst af endurskipulagningu bankakerfisins.
     2.      Þótt hagkerfið sé sveigjanlegt getur aðlögunin að þessu áfalli orðið bæði harkaleg og kostnaðarsöm. Íslenskt efnahagslíf hefur löngum getað unnið fljótt úr áföllum, aðallega með því að draga mjög úr innflutningi og treysta þannig viðskiptajöfnuð, en í ljósi þess hve mikinn hnekki traust á hagkerfinu hefur beðið er hugsanlegt að mikið fjármagnsflæði úr landi geti leitt til verulegrar viðbótarlækkunar á gengi krónunnar. Þar sem hagkerfið er mjög skuldsett gæti slíkt valdið stórskaða á efnahag þjóðarinnar allrar og miklum samdrætti í efnahagslífinu. Fyrstu verkefni okkar eru því að koma aftur á starfhæfu bankakerfi og tryggja stöðugleika krónunnar. Til lengri tíma litið er verkefnið að lækka hinar miklu skuldir hins opinbera með viðvarandi aðhaldi í ríkisfjármálum.

Endurskipulagning bankakerfisins og endurskoðun gjaldþrotalaga.

     3.      Við höfum hrundið í framkvæmd víðtækri áætlun til að takast á við þá erfiðleika í bankakerfinu sem alþjóðlega lánsfjárkreppan hefur magnað. Með neyðarlögum, sem samþykkt voru 6. október 2008, veitti Alþingi Fjármálaeftirlitinu (FME) víðtækt vald sem FME hefur notað til að grípa inn í starfsemi þriggja stærstu bankanna. Þessir bankar höfðu einnig fjölda útibúa og dótturfélaga, aðallega í nokkrum Evrópulöndum.
     4.      Sú stefna að grípa beint inn í starfsemi bankanna helgast af þeirri þörf að tryggja áframhaldandi innlenda bankastarfsemi og koma bankageiranum niður í þá stærð sem getur samræmst umfangi hagkerfisins. Til að ná þessu markmiði var hverjum bankanna þriggja skipt upp í nýjan banka og gamlan banka. Nýju bankarnir tóku meðal annars yfir innlenda bankastarfsemi sem fjármögnuð er af innlendum innstæðueigendum. Innan gömlu bankanna eru viðskipti í erlendum útibúum og dótturfélögum sem aðallega voru fjármögnuð með útgáfu skuldabréfa og erlendum innstæðum. Afleiðusamningar voru skildir eftir í gömlu bönkunum. Fjármálaeftirlitið leysti stjórnir bankanna þriggja frá störfum og setti skilanefndir í þeirra stað auk þess sem hópar löggiltra endurskoðenda frá þremur af helstu alþjóðlegu endurskoðunarfyrirtækjunum voru skipaðir til að stjórna bráðabirgðamati á gæðum eigna. Af þessu tilefni voru tilskildar fjárhæðir settar á afskriftareikninga í nýju bönkunum til að færa virði lána til samræmis við væntanlegt markaðsvirði þeirra.
     5.      Ákveðið skipulag er komið á við skil yfirteknu bankanna og leiðir til að hámarka heimtur eigna með gagnsæjum hætti. Stefna okkar að þessu leyti hefur verið útfærð nánar að undanförnu. Virtur bankasérfræðingur var skipaður til að stýra endurskipulagningu bankanna. Sérfræðingurinn starfar á vegum forsætisráðherra og ber ábyrgð á að þróa, innleiða og skýra frá heildstæðri aðgerðaáætlun um endurskipulagningu bankanna. Til að samræma stefnu og aðgerðir stjórnvalda hefur verið skipuð nefnd sem bankasérfræðingurinn stýrir og í eiga sæti fulltrúar frá forsætisráðuneyti, Fjármálaeftirliti, Seðlabanka, fjármálaráðuneyti og viðskiptaráðuneyti.
     6.      Næsta skref í endurskipulagningunni er önnur umferð mats á bæði nýju og gömlu bönkunum til að tryggja að uppskiptin hafi ekki áhrif á heimtur upp í kröfur lánardrottna. Virt alþjóðlegt endurskoðunarfyrirtæki verður ráðið til að hafa yfirumsjón með framkvæmdinni og aðstoða Fjármálaeftirlitið við að móta aðferðir í samræmi við alþjóðlegar kjörvinnureglur sem beitt verður við matið. Aðferðafræðin á að liggja fyrir 15. nóvember 2008 en eftir það verða ótengd alþjóðleg endurskoðunarfyrirtæki ráðin til sjálfrar matsvinnunnar sem á að vera lokið fyrir lok janúar 2009. Endurskoðunarfyrirtækin sem hafa yfirumsjón með framkvæmdinni munu staðfesta ekki síðar en 15. febrúar 2009 að matið hafi farið fram í samræmi við fyrirliggjandi aðferðafræði og taka lokaákvörðun um matið. Hluti af framkvæmdinni er einnig mat á því hvort stjórnendur og helstu hluthafar hafi gerst sekir um afglöp í rekstri eða misnotkun á bönkunum.
     7.      Að lokinni síðari umferð verðmætamats verða nýju bankarnir þrír endurfjármagnaðir þannig að eiginfjárhlutfall þeirra verði a.m.k. 10%. Heildarfjárhæð nýs hlutafjár er talin verða að nema 385 milljörðum kr. Hlutafjárframlagið verður í formi ríkisskuldabréfa sem gefin verða út á markaðskjörum og verður það lagt fram fyrir lok febrúar 2009. Í samræmi við almennar reglur við útgáfu leyfis fyrir nýja banka og til að hafa eftirlit með traustum rekstrargrunni þeirra mun Fjármálaeftirlitið fara yfir rekstraráætlanir sérhvers nýs banka. Þessar rekstraráætlanir til fimm ára munu lýsa bankaþjónustu, stofnfjármögnun, starfsliði, hagnaðarvæntingum og útibúaneti. Við áformum að selja eiginfjárframlag ríkisins um leið og jafnvægi kemst á og markaðsskilyrði leyfa.
     8.      Ríkisstjórnin er ákveðin í að tryggja hámörkun á virði endurheimtra eigna. Í því skyni er áformað að gömlu bankarnir verði settir í greiðslustöðvun í samræmi við gjaldþrotalög og lög um fjármálafyrirtæki, en skilanefndir halda áfram að vinna samkvæmt þeim til að hámarka virði eigna undir umsjá aðstoðarmanns við greiðslustöðvun en skipan hans hlýtur staðfestingu dómstóla. Til að tryggja hámarksheimtur eigna verður ráðinn ráðgjafi sem mun aðstoða við að ljúka gerð áætlunar um heimtur eigna fyrir lok nóvember 2008.
     9.      Við höfum einsett okkur að koma á traustu og gagnsæju ferli í samskiptum við innlánshafa og lánveitendur hinna yfirteknu banka. Unnið er skipulega að sambærilegu samkomulagi við alla þá erlendu aðila sem hagsmuna eiga að gæta gagnvart Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta hér á landi í samræmi við lagaramma EES. Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innstæðutryggingakerfisins gagnvart öllum tryggðum innlánshöfum. Þetta byggist á þeim skilningi að unnt verði að forfjármagna þessar kröfur fyrir tilstyrk viðkomandi erlendra ríkja og að jafnt Ísland sem þessi ríki séu staðráðin í að efna til viðræðna á næstu dögum með það að markmiði að ná samkomulagi um nánari skilmála vegna þessarar forfjármögnunar. Enn fremur viðurkennum við að það sé lykilatriði í réttlátri meðferð gagnvart innstæðueigendum og kröfuhöfum á hendur yfirteknu bönkunum að nýju bankarnir greiði sannvirði fyrir þær eignir sem fluttar voru frá gömlu bönkunum. Við höfum komið upp gagnsæju ferli þar sem tvö teymi sjálfstæðra endurskoðenda sjá um að meta sannvirði eigna. Almennt munum við tryggja að meðferð á innstæðueigendum og lánardrottnum sé sanngjörn, jöfn og án mismununar og í samræmi við gildandi lög.
     10.      Í framhaldinu munum við endurskoða alla regluumgjörð fjármálastarfsemi og framkvæmd bankaeftirlits til að efla viðbúnað gegn hugsanlegum fjármálakreppum í framtíðinni. Við munum ráða reyndan bankaeftirlitsmann til að fara yfir regluverkið og starfshætti við bankaeftirlit og leggja til nauðsynlegar breytingar. Þessi ráðgjafi mun einkum beina sjónum að reglum um lausafjárstýringu, lán til tengdra aðila, stórar einstakar áhættur, krosseignatengsl og hagsmunalegt sjálfstæði eigenda og stjórnenda. Hafi fyrrverandi yfirstjórnendur og helstu hluthafar í yfirteknu bönkunum gerst sekir um afglöp í rekstri eða misnotkun á bönkunum eiga þeir ekki að gegna sambærilegu hlutverki næstu þrjú árin. Mat þetta, sem gert verður opinbert, á að liggja fyrir í lok mars 2009. Við munum ræða fyrir fram sérhverja breytingu á áformum okkar í þessu efni við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
     11.      Við munum fara yfir lagarammann um gjald- og greiðsluþrot þannig að taka megi á niðurfærslu skulda og heimtu eigna í bönkum, fyrirtækjum og hjá heimilum. Setja þarf sérlög um gjald- og greiðsluþrot banka (aðskilin frá almennum gjaldþrotalögum) til að leysa úr óvissu um lagalega stöðu yfirtekinna banka og koma á samræmdri umgjörð um eftirlit með skuldaskilahlið bankagjaldþrota. Ferlið við gjaldþrot fyrirtækja hefur reynst tiltölulega skilvirkt undir venjulegum kringumstæðum en nú verður að skilgreina það nánar svo það geti líka falið í sér að lánardrottnar og lífvænleg fyrirtæki semji sín á milli utan dómstóla. Sér í lagi er brýnt að tryggja mögulega aðkomu eigenda tryggðra skuldabréfa að áætlunum um endurskipulagningu fyrirtækja og að auðvelda nýja fjármögnun við endurreisn fyrirtækja.

Stefnan í opinberum fjármálum.

     12.      Úrlausn bankakreppunnar mun leggja þungar fjárhagslegar byrðar á hið opinbera. Samkvæmt bráðabirgðamati má ætla að vergur kostnaður ríkisins vegna innstæðutrygginga og endurfjármögnunar bæði viðskiptabankanna og Seðlabankans geti numið um 80% af landsframleiðslu. Hreinn kostnaður verður eitthvað lægri að því gefnu að fjármunir endurheimtist með sölu á eignum gömlu bankanna. Við þetta bætist kostnaðurinn af auknum halla hins opinbera upp í 13,5% af landsframleiðslu eins og reikna má með árið 2009 vegna samdráttar í kjölfar bankakreppunnar. Í heild má gera ráð fyrir að vergar skuldir hins opinbera aukist úr 29% af landsframleiðslu í lok árs 2007 í 109% af landsframleiðslu í árslok 2009. Bankakreppan mun því setja hinu opinbera verulegar skorður og leggja auknar byrðar á almenning á næstu árum.
     13.      Við áformum að láta sjálfvirka sveiflujöfnun ríkisfjármála virka til fulls á árinu 2009.
Til að auka ekki frekar á samdráttinn áformum við að leyfa fjárlagahallanum að aukast í takt við aukin útgjöld og lægri tekjur vegna hagsveiflunnar, en vegna mikillar fjármögnunarþarfar og stóraukinnar skuldsetningar ríkissjóðs hyggjumst við draga verulega úr fyrri áformum um slaka í ríkisfjármálum á árinu 2009 og halda þeim í lágmarki. Fari svo að tekjur fari fram úr áætlun hyggjumst við leggja þá fjármuni til hliðar og draga úr hallanum sem því nemur. Við eigum von á að aukin kaup lífeyrissjóða á ríkisskuldabréfum dragi úr þeim þrýstingi á fjármagnsmarkaði sem leiðir af stóraukinni fjármögnunarþörf ríkissjóðs. Opinber umsvif verða háð ársfjórðungslegu þaki á hreinar lántökur og samkomulag um fjárlög ársins 2009 er lykilskilyrði fyrir lokum á fyrstu endurskoðun á stuðningsfjármögnuninni.
     14.      Við ætlum okkur að hrinda í framkvæmd metnaðarfullri áætlun um ríkisfjármálin. Fyrsta skref þessarar áætlunar kemur til framkvæmda með fjárlögum ársins 2010. Við áformum aðgerðir til að minnka halla á hagsveifluleiðréttum frumjöfnuði ríkissjóðs um 2–3% á ári yfir áætlunartímabilið með það að markmiði að hagsveifluleiðréttur frumjöfnuður verði orðinn jákvæður árið 2011 og jákvæður um 3,5–4% miðað við landsframleiðslu árið 2012. Undirbúningur þessarar áætlunar hefst þegar á þessu ári og verða megináherslur afmarkaðar fyrir árslok, en heildarútfærsla mun liggja fyrir um mitt næsta ár. Markverð framför á þessu sviði verður lykilskilyrði í tengslum við ársfjórðungslega endurskoðun áætlunarinnar. Íslenskt þjóðfélag hefur sýnt ábyrgð í ríkisfjármálum eins og sést á því hve skuldir hins opinbera eru litlar við upphaf kreppunnar. Þessi stefna hefur notið almenns stuðnings í samfélaginu. Sala á hlut ríkisins í nýju bönkunum getur lækkað skuldir hins opinbera verulega og dregið úr þörf fyrir aðhald í ríkisfjármálunum.
     15.      Í því skyni að auka traust á getu ríkisins til að standa undir skuldum ætlum við að treysta ramma ríkisfjármála. Í ár var fjögurra ára áætlun í ríkisfjármálum í fyrsta sinn lögð fyrir Alþingi um leið og frumvarp til fjárlaga. Enn fremur munum við skilgreina sjálfbærni opinberra skulda og móta stefnu varðandi ríkisskuldir. Engu síður er okkur ljóst að meira þarf til að bæta núverandi umgjörð. Við munum því fara vandlega yfir núverandi umgjörð ríkisfjármála og leggja fram tillögur þar að lútandi sem einnig munu ná til þess hvernig fjármál sveitarfélaga verði betur samræmd áformum í ríkisfjármálum. Niðurstöður þessarar yfirferðar verða til umræðu við fyrstu endurskoðun þessarar fjárhagsaðstoðar. Framfarir í endurbótum á umgjörð ríkisfjármála verður skilyrði fyrir lokum á ársfjórðungslegri endurskoðun í tengslum við fjárhagsaðstoðina.
     16.      Hið opinbera mun ekki taka á sig frekari skuldbindingar vegna bankakreppunnar.
Því miður munu lífeyrissjóðirnir, innlendir peningamarkaðssjóðir, ýmsir erlendir lánardrottnar og fleiri aðilar verða fyrir umtalsverðu tapi í kjölfar hruns viðskiptabankanna. Þar sem skuldir hins opinbera eru þegar miklar er mikilvægt að leggja ekki frekari byrðar á hið opinbera með því að það taki slík töp á sínar herðar.

Stefnan í peninga- og gengismálum.

     17.      Brýnasta verkefni Seðlabanka Íslands er að tryggja stöðugleika krónunnar og búa í haginn fyrir styrkingu gengisins. Á síðustu dögunum fyrir bankakreppuna lækkaði gengi krónunnar mjög hratt. Þegar bankarnir hrundu leiddi það til þess að innlendi gjaldeyrismarkaðurinn lokaðist og krónan féll enn hraðar á erlendum gjaldeyrismarkaði. Gengisfallið og aukin verðbólga sem af því leiddi hefur haft alvarleg áhrif á hag heimila og fyrirtækja vegna þess að stór hluti skulda þeirra er gengisbundinn eða vísitölutryggður. Til að koma í veg fyrir öldu gjaldþrota og auka enn á þann samdrátt sem þegar er kominn fram teljum við það vera forgangsverkefni að Seðlabanki Íslands komi á stöðugleika í gengi krónunnar.
     18.      Við höfum sérstakar áhyggjur af því að gengi krónunnar verði fyrir skammtímaþrýstingi þegar búið verður að koma á eðlilegum gjaldeyrismarkaði. Þótt við teljum að gengi krónunnar sé nú mjög undir raunvirði hennar hefur hrun bankanna þriggja rýrt traust á gjaldmiðlinum og áhættan af verulegu útflæði fjármagns er töluverð. Þetta á sérstaklega við vegna þeirrar óvissu sem ríkir um lausafjárstöðu hins nýendurreista bankakerfis. Við þurfum þess vegna að grípa til sértækra aðgerða til að mæta þessari skammtímaáhættu. Þessum aðgerðum er lýst í næsta lið; næsti liður þar á eftir fjallar um stefnuna í peningamálum þegar endurunnið traust getur leyft okkur að nota hefðbundin tæki við stjórn peningamála.
     19.      Sé litið til mjög skamms tíma ætlum við að beita eftirfarandi blöndu af hefðbundnum og óhefðbundnum aðgerðum til að koma í veg fyrir fjármagnsútflæði:
         –        Að hækka stýrivexti í 18%. Við erum tilbúin til að hækka stýrivextina enn frekar, en erum meðvituð um að hækkun stýrivaxta nægir ekki ein og sér til að koma í veg fyrir fjármagnsútflæði undir núverandi kringumstæðum sem eru mjög sérstakar.
        –        Að beita miklu aðhaldi í aðgangi bankanna að lánum frá Seðlabankanum. Við hyggjumst herða á reglum um lausafjárstýringu, sérstaklega aðgang að lausu fé í því skyni að Seðlabankinn geti haft meira frumkvæði við stjórnun grunnfjár; og við höfum hækkað vaxtamun á lausafjáraðgangi til að koma í veg fyrir að dregið verði um of á mikið lausafé eftir þessum farvegi. Við höfum þrengt skilgreiningu á þeim tryggingum sem Seðlabankinn tekur gildar – nýútgefin ótryggð bankabréf verða ekki lengur tekin gild. Reynist það nauðsynlegt erum við reiðubúin til að aðlaga reglur um stjórnun grunnfjár enn frekar, svo sem með því að breyta grunnviðmiðum fyrir meðaltal gjaldeyrisforða og veðviðmið. Til að byrja með munum við leyfa litla sem enga aukningu í lánum frá Seðlabanka.
         –        Við erum reiðubúin til að nota gjaldeyrisforðann til að koma í veg fyrir of miklar sveiflur í gengi krónunnar. Þótt við séum ekki með gengismarkmið og séum tilbúin að leyfa genginu að nálgast jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar erum við meðvituð um að of miklar sveiflur gengis eru óæskilegar og erum því reiðubúin til að nýta gjaldeyrisforðann til að styðja við markaðinn ef þörf krefur. Geta okkar til þess hefur aukist við það að gjaldeyrisforðinn hefur verið styrktur, svo sem rætt er hér að neðan.
         –        Við erum reiðubúin að beita tímabundnum gjaldeyrishöftum á fjármagnsviðskipti. Við gerum okkur ljóst að slík höft hafa talsverð neikvæð áhrif og hyggjumst afnema þau svo fljótt sem auðið er. Þau eru nauðsynleg til bráðabirgða þar til við höfum tryggt að stjórntæki peningamálastefnu okkar séu rétt stillt til að fást við mikla óvissu og skort á trausti í kjölfar bankahrunsins.
     20.      Við gerum ráð fyrir að traust verði brátt endurvakið þannig að vextir geti lækkað í kjölfarið. Þetta afturhvarf til eðlilegs ástands getur hafist um leið og krónan verður stöðugri á gjaldeyrismarkaðnum, gjaldeyrismarkaður mætir þörf fyrir alla eftirspurn eftir gjaldeyri vegna viðskipta við útlönd og ekki er lengur nauðsynlegt að styðja við markaðinn með því að draga á gjaldeyrisforðann. Við gerum ráð fyrir að ná þessu marki fljótlega að því gefnu að viðskiptajöfnuðurinn snúist hratt í afgang, krónan sé enn undir raunvirði, skilameðferð bankanna verði ekki til þess að gjaldeyrir flæði úr landinu á næsta ári og – umfram allt – með þeirri áætlun og þeim stuðningi annarra þjóða sem lýst er í þessari viljayfirlýsingu. Þetta mun gera okkur kleift að slaka á hömlum á lánveitingum Seðlabankans og smám saman reiða okkur aftur á stýrivexti sem aðalstjórntæki peningamála innan ramma sveigjanlegrar gengisstefnu. Í þessu efni reiknum við með að krónan styrkist fljótt og að verðbólga á ársgrundvelli verði komin í 4,5% við lok ársins 2009 og að krónan styrkist enn frekar og verðbólgan haldi áfram að hjaðna árið 2010.
     21.      Fínstilling stjórntækja peningamálastefnunnar er erfið vegna óvenjumikillar óvissu um stöðu peningamála. Vegna óvissu um endurskipulagningu bankakerfisins, heildarlausafjárstöðu og stöðugleika helstu peningastærða hyggjumst við skoða heildartölur peningamála við lok október með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins strax og þær liggja fyrir og leggja tillögur að breytingum á áætluninni um stjórn peningamála fyrir framkvæmdastjórn sjóðsins gerist þess þörf. Áætlanir okkar hafa að geyma ársfjórðungsleg þök á hreinar innlendar eignir og ársfjórðungslegt lágmark á hreina gjaldeyrisstöðu Seðlabanka Íslands.
     22.      Gjaldeyrishöftin sem komið var á tímabundið 10. október síðastliðinn til að mæta snöggu gengisfalli krónunnar og þrýstingi á gjaldeyrisforðann verða afnumin á tímabili áætlunarinnar. Þessi höft ná til takmarkana á gjaldeyrisviðskiptum vegna fjármagnsflutninga. Af þeim sökum hafa myndast vanskil á gjaldeyrisgreiðslum hjá einkaaðilum. Eftirfylgnin á því lykilmarkmiði að styrkja viðskiptajöfnuðinn svo að efla megi gjaldeyrisforðann og koma aftur á frjálsu gjaldeyrisflæði gegnum bankakerfið styður við afnám gjaldeyrishaftanna þannig að hægt verði að hreinsa upp erlend vanskil einkaaðila. Meðan á þessu stendur biðjum við um tímabundið samþykki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir þessum gjaldeyrishöftum í samræmi við stefnumið sjóðsins á þeim grundvelli að þau hafa verið sett á af greiðslujafnaðarástæðum og fela ekki í sér mismunun. Enn fremur skuldbindum við okkur til að leggja ekki á frekari höft á gjaldeyrisviðskipti né að koma á fjölgengisfyrirkomulagi.

Stefna í kjaramálum.

     23.      Mikilvægt er að ná þjóðarsátt sem er samrýmanleg við þjóðhagsleg áform þessarar áætlunar. Sagan sýnir að stefnan í kjaramálum hér á landi hefur verið mjög skilvirk. Fyrri kjarasamningar hafa stutt þjóðhagslega aðlögun þegar þess hefur verið þörf. Aðilar vinnumarkaðarins hafa viðurkennt nauðsyn þess að gera kjarasamninga sem samrýmast þeirri alvarlegu stöðu sem nú er uppi.

Utanaðkomandi fjármögnun.

     24.      Hrun bankakerfisins hefur leitt af sér talsverða þörf fyrir erlent lánsfé. Við gerum ráð fyrir að þessi þörf sé 24 milljarðar Bandaríkjadala á tímabilinu til loka ársins 2010. Þar af eru um 19 milljarðar vanskil vegna skulda yfirteknu bankanna þriggja, svo og fjármagn til að gera upp nauðsynlegar greiðslur tengdar erlendum innstæðum, en afgangurinn er sjóðsþörf að fjárhæð 5 milljarðar Bandaríkjadala. Við gerum ráð fyrir að 2 milljarðar Bandaríkjadala fáist með láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem skilur eftir afgangsfjárþörf er nemur 3 milljörðum Bandaríkjadala. Við gerum ráð fyrir að þetta bil verði brúað með tvíhliða lánssamningum og munum ljúka viðræðum þess efnis áður en stjórn sjóðsins tekur mál okkar fyrir. Mat á því hvernig gengur að mæta fjárþörf okkar verður hluti af ársfjórðungslegum endurskoðunum okkar og sjóðsins.

Aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

     25.      Með tilliti til hinnar sérstöku fjármögnunarþarfar okkar förum við fram á fjárstuðningsáætlun fyrir tímabilið frá nóvember 2008 til nóvember 2010 að fjárhæð 1,4 milljarðar SDR sem jafngildir 1190% af kvóta okkar. Áætlun okkar er byggð á þeirri stefnu og markmiðum sem lýst er í þessari viljayfirlýsingu. Við teljum að sú stefna sem hér er mörkuð sé fullnægjandi til að ná markmiðum áætlunarinnar, einkum hvað varðar það að endurreisa traust á íslenskt efnahagslíf. Við erum samt sem áður reiðubúin að grípa til frekari ráðstafana gerist þess þörf. Ísland mun eiga samráð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um slíkar ráðstafanir og áður en stefnumið þessarar viljayfirlýsingar verða endurskoðuð í samræmi við stefnu sjóðsins um slíkt samráð. Við munum eiga náið samráð við sjóðinn í samræmi við stefnu sjóðsins að þessu leyti.
     26.      Okkur er ljóst mikilvægi þess að ljúka í fyrsta skipti öryggisúttekt á Seðlabanka Íslands fyrir fyrstu ársfjórðungslegu endurskoðun áætlunarinnar. Í þeim tilgangi mun Seðlabankinn taka á móti sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem framkvæma mun slíka úttekt. Seðlabankinn mun veita allar nauðsynlegar upplýsingar í því sambandi fyrir fyrstu endurskoðunina.
     27.      Við veitum Alþjóðagjaldeyrissjóðnum leyfi til að birta þessa viljayfirlýsingu um áform okkar og tilheyrandi viðhengi, svo og skýrslu starfsliðs sjóðsins um sama efni.


Virðingarfyllst,


    Davíð Oddsson     Árni M. Mathiesen

    formaður bankastjórnar     fjármálaráðherra
    Seðlabanka Íslands