Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 169. máls.
Prentað upp.

Þskj. 204  —  169. mál.
Leiðréttur texti.




Frumvarp til laga

um niðurfellingu laga um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, nr. 80/1966, með síðari breytingum, og um ráðstöfun eigna Kísilgúrsjóðs.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)



1. gr.

    Kísilgúrsjóði skal slitið og starfsemi hans lögð niður við gildistöku laga þessara.

2. gr.

    Iðnaðarráðherra er heimilt að ráðstafa eignum sjóðsins með samningi við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf. Samningurinn skal hafa það að markmiði að efla atvinnulíf og nýsköpun í Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppi og Norðurþingi.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, nr. 80/1966, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Í frumvarpinu er lagt til að Kísilgúrsjóði verði slitið og starfsemi hans lögð niður. Einnig er lagt til að lög um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, nr. 80/1966, verði felld úr gildi. Þetta er lagt til í ljósi þess að kísilgúrverksmiðjan hætti starfsemi í nóvember 2004 og tekjur sjóðsins af námagjaldi eru engar. Starfsemi sjóðsins er því háð eigin tekjum og framlögum á fjárlögum. Í frumvarpinu er auk þess lagt til að iðnaðarráðherra verði veitt heimild til að ráðstafa eignum sjóðsins með samningi við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf. Gert er ráð fyrir að samningurinn hafi það að markmiði að efla atvinnulíf og nýsköpun í þeim sveitarfélögum sem áttu verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi Kísilgúrverksmiðjunnar. Við vinnslu frumvarpsins var haft samráð við fjármálaráðuneyti og Ríkisendurskoðun.

II. Um starfsemi Kísilgúrsjóðs.
    Kísiliðjan hf. við Mývatn var stofnuð 13. ágúst 1966 með stofnsamningi íslenska ríkisins og bandaríska fyrirtækisins John-Manville Corporation. Verksmiðjan starfaði frá upphafi samkvæmt lögum nr. 80/1966, um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, en starfsemi verksmiðjunnar var hætt í nóvember 2004.
    Hinn 7. apríl 1993 var námaleyfi Kísiliðjunnar hf. endurnýjað. Í námaleyfinu var mælt fyrir um stofnun sjóðs sem ætlað var að standa undir kostnaði við undirbúning aðgerða til að efla atvinnulíf í þeim sveitarfélögum sem áttu verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi Kísiliðjunnar og skyldi ráðstöfunarfé sjóðsins vera tiltekinn hluti af námagjaldi verksmiðjunnar.
    Í kjölfar námaleyfisins frá 1993 þótti æskilegt að renna styrkari stoðum undir nefndan sjóð og með lögum nr. 17/1995, um breytingu á lögum nr. 80/1966, um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, var stofnaður sérstakur sjóður, Kísilgúrsjóður, sem skyldi hafa það hlutverk að kosta undirbúning aðgerða til þess að efla atvinnulíf í þeim sveitarfélögum sem áttu verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi framleiðslufélagsins. Ráðstöfunarfé sjóðsins skyldi skv. 2. mgr. 2. gr. laganna samanstanda af 20% af námagjaldi kísilgúrverksmiðjunnar til ársins 2001 en frá árinu 2002 til og með ársins 2010 skyldi það vera 68% af námagjaldinu ásamt allt að 20% af tekjum ríkisins sem eiganda framleiðslufélagsins samkvæmt heimildum í fjárlögum hverju sinni. Tekjur sjóðsins árið 1995 voru 10.161.858 kr. og var samið við Sparisjóð Mývetninga um að annast ávöxtun fjármuna sjóðsins. Einnig var gerður samstarfssamningur við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf. um að starfa fyrir sjóðstjórnina.
    Með lögum nr. 15/2001 voru gerðar tvenns konar breytingar á starfsemi sjóðsins. Annars vegar að fulltrúi kísilgúrverksmiðjunnar skyldi ekki sitja í stjórn sjóðsins og hins vegar var ákvæðum um ráðstöfunarfé sjóðsins breytt. Ákvæði um að ráðstöfunarfé skyldi vera 68% af námagjaldi til og með árinu 2010 var breytt þannig að það gilti þangað til kísilgúrvinnslu yrði hætt. Einnig var felld út hlutfallstala á framlagi á fjárlögum og bætt við nýjum lið þar sem gert var ráð fyrir öðrum tekjum.
    Árið 1995 var framlag ríkissjóðs 8,7 millj. kr. en eftir það 5 millj. kr. á ári til og með árinu 2007 og ekki virðist hafa verið gert ráð fyrir neinum framlögum eftir þann tíma. Námagjaldið var öll árin fram að 2001 á bilinu 700 til 800 þús. kr. á ári. Árin 2002 til 2004 hækkaði námagjaldið í rúmar 2 millj. kr. ár hvert.
    Reglugerð um starfsemi og tilgang sjóðsins var gefin út þann 29. mars 1995 og er hún nr. 205/1995. Hinn 21. maí 2001 var gefin út ný reglugerð, nr. 476/2001, sem kemur í stað hinnar eldri. Einnig eru í gildi reglur nr. 850 um fjárveitingar úr Kísilsjóði sem iðnaðarráðuneytið gaf út 5. nóvember 2001. Við gildistöku laga þessara munu bæði reglugerð nr. 476/2001 og reglur nr. 850/2001, sem settar eru með stoð í lögum nr. 80/1966, falla úr gildi.
    Stjórn sjóðsins hefur úthlutað úr sjóðnum tvisvar á ári, vor og haust, 2,5–3 millj. kr. í hvert skipti. Við hverja úthlutun hafa verið á bilinu 15 til 25 umsóknir til að vinna úr og samanlögð upphæð umsókna langt yfir getu sjóðsins. Að stærstum hluta hafa úthlutanir verið í formi styrkja en þó er nokkuð um að sjóðurinn hafi keypt hlutabréf, oftast í nýstofnuðum fyrirtækjum og dæmi eru um hlutafjárkaup við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Talsvert hefur verið veitt af styrkjum til ferðaþjónustufyrirtækja. Af verkefnum í ferðaþjónustu sem styrkt hafa verið og lagt til hlutafé má nefna Baðfélag Mývatnssveitar, en að því verkefni kom sjóðurinn og gerði félaginu kleift að vinna faglega að frumundirbúningi. Sjóðurinn hefur einnig stutt uppbyggingu hvalaskoðunar á Húsavík, bæði með styrkjum og hlutafé í fyrirtækjum. Nú síðustu árin hefur sjóðurinn stutt NPP verkefnið „Snow Magic“ sem vinnur að uppbyggingu afþreyingar fyrir ferðamenn utan háannatíma. Af öðrum stærri verkefnum má nefna að sjóðurinn hefur stutt Atvinnuþróunarfélagið við undirbúning orkufreks iðnaðar við Skjálfanda.

III. Staða Kísilgúrsjóðs.
    Samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 2. gr. laganna eru tekjur sjóðsins nú 68% af námagjaldi Kísilgúrverksmiðjunnar og framlag á fjárlögum. Þar sem Kísilgúrverksmiðjan hefur verið lögð niður og framlag á fjárlögum fellt niður eru tekjur sjóðsins nú eingöngu fjármagnstekjur og hagnaður af sölu hlutabréfa.
    Á árinu 2006 námu tekjur sjóðsins 5,5 millj. kr. Sparisjóður Þingeyinga annaðist ávöxtun fjármuna sjóðsins og voru fjármagnstekjur hans á árinu 567 þús. kr. Staða á bankabók Kísilgúrsjóðs í árslok 2006 var 16,667 millj. kr. Söluhagnaður af sölu hlutabréfa nam 10,546 millj. kr. Rekstrarkostnaður sjóðsins nam 728 þús. kr. og eigið fé í árslok var 25,222 millj. kr. Á árinu 2006 hélt stjórn Kísilgúrsjóðs fjóra fundi í tengslum við tvennar úthlutanir. 34 umsóknir bárust um styrki, samtals að fjárhæð 16,403 millj. kr. og ein umsókn barst um styrk/hlutafé að fjárhæð 500 þús. kr. Stjórnin samþykkti á árinu 2006 alls 24 umsóknir um styrki, samtals að fjárhæð 6,5 millj. kr.
    Á árinu 2007 hafði Kísilgúrsjóður einungis fjármagnstekjur og námu þær 1,826 millj. kr. Staða á bankabók Kísilgúrsjóðs í árslok var 13,619 millj. kr. Sölutap af sölu hlutabréfa nam 191 þús. kr. Rekstrarkostnaður sjóðsins nam 652 þús. kr. og eigið fé í árslok var 21,225 millj. kr. Á árinu 2007 hélt stjórn Kísilgúrsjóðs tvo fundi og samþykkti hún alls 15 umsóknir um styrki, samtals að fjárhæð 5,1 millj. kr. Styrkirnir, ásamt tveimur ógreiddum styrkjum frá árinu áður, voru greiddir á árinu áður utan tveggja styrkja, alls að fjárhæð 4,8 millj. kr.
    Staðan á bankabók sjóðsins 16. september 2008 var 14.782.100 kr. með áunnum vöxtum. Á árinu 2008 hafa verið greiddar eftirstöðvar af tveimur styrkjum frá úthlutun stjórnar vorið 2007, samtals 700 þús. kr., og eru þá engar skuldbindingar sjóðsins útistandandi.
    Kísilgúrsjóður á einnig hlutabréf í eftirtöldum félögum:

Hlutafé Nafnverð Bókfært verð
Hvalamiðstöðin ehf. 500.000 597.444
Baðfélag Mývatnssveitar ehf. 950.000 1.085.343
Höfðaver ehf. 1.000.000 1.122.766
Tækifæri ehf. 3.000.000 3.217.548
Eldá ehf. 750.000 851.658
Mývatnsstofa ehf. 500.000 500.000
6.700.000 7.374.759

    Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf. hefur annast móttöku styrkumsókna, reikningshald og fjárumsýslu fyrir Kísilgúrsjóð í samræmi við samstarfssamning þar um en stjórn sjóðsins hefur stýrt úthlutunum og samþykkt styrkumsóknir. Atvinnuþróunarfélagið hefur lýst yfir miklum áhuga á að taka við fjármunum sjóðsins og sjá um ráðstöfun þeirra og hefur Héraðsnefnd Þingeyinga einnig tekið undir þau sjónarmið að best sé að þessir fjármunir renni til Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og að stjórn félagsins setji reglur um hvernig þeir nýtist best til atvinnuþróunar.

IV. Samantekt.
    Með vísan til framangreindrar umfjöllunar um starfsemi og starfsgrundvöll Kísilgúrsjóðs er ekki talið réttlætanlegt að halda starfsemi sjóðsins áfram og er þetta frumvarp því lagt fram.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um að Kísilgúrsjóði verði slitið og starfsemi hans lögð niður við gildistöku laganna. Breytingarnar eru lagðar til í ljósi þess að kísilgúrverksmiðja við Mývatn hefur hætt starfsemi og tekjur sjóðsins af námagjaldi eru því engar.

Um 2. gr.


    Í greininni er gert ráð fyrir að iðnaðarráðherra öðlist heimild til að ráðstafa eignum Kísilgúrsjóðs með samningi við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf.
    Samningurinn skal hafa það að markmiði að nýta eignir Kísilgúrsjóðs til að efla atvinnulíf og nýsköpun á því svæði sem varð fyrir mestum áhrifum af því að starfsemi Kísilgúrverksmiðjunnar var hætt.

Um 3. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um gildistöku laganna og brottfall laga nr. 80/1966, um kísilgúrverksmiðju við Mývatn. Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um niðurfellingu laga um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, nr. 80/1966, með síðari breytingum, og um ráðstöfun eigna Kísilgúrsjóðs.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að Kísilgúrsjóði verði slitið, starfsemi hans lögð og að iðnaðarráðherra verði heimilt að ráðstafa eignum sjóðsins með samningi við Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hf. Markmið þess samnings verður að efla atvinnulíf í Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppi og Norðurþingi. Helstu eignir Kísilgúrsjóðs eru bankainnistæður og hlutabréf. Staðan á bankabók sjóðsins 16. september 2008 var 14,8 m.kr. og bókfært virði hlutabréfa 7,4 m.kr.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að gjaldfæra þurfi útgjöld á rekstrarreikning ríkissjóðs.