Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 175. máls.

Þskj. 212  —  175. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum,
eldsneyti o.fl., og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Heimilt er að endurgreiða vörugjald af áður skráðu vélknúnu ökutæki sem hefur verið afskráð og flutt úr landi enda sé ástand ökutækisins í samræmi við eðlilega notkun og aldur að mati tollstjóra. Fjárhæð endurgreiðslu skal miða við það vörugjald sem greitt var við innflutning ökutækisins. Sú fjárhæð skal lækka um 2% fyrir hvern byrjaðan mánuð fyrstu 12 mánuðina eftir nýskráningu ökutækisins og 1,5% fyrir hvern byrjaðan mánuð eftir það þar til 100% fyrningu er náð.
    Tollstjóra er heimilt að innheimta skoðunargjald vegna skoðunar á notuðum ökutækjum sem flytja á úr landi skv. 1. mgr. Gjald þetta skal standa straum af launakostnaði tollstarfsmanna og aksturskostnaði vegna framkvæmdar skoðunarinnar.
    Heimild til endurgreiðslu vörugjalds skv. 1. mgr. gildir til 1. apríl 2009. Tollstjórinn í Reykjavík annast endurgreiðslu.
    Ráðherra skal í reglugerð setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis, svo sem nánari skilyrði fyrir endurgreiðslu, um ástand ökutækja, um gögn sem leggja þarf fram með umsókn um endurgreiðslu og um eftirlit og kæruheimildir.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Heimilt er að endurgreiða virðisaukaskatt af áður skráðu vélknúnu ökutæki sem hefur verið afskráð og flutt úr landi enda sé ástand ökutækisins í samræmi við eðlilega notkun og aldur að mati tollstjóra. Fjárhæð endurgreiðslu skal miða við þann virðisaukaskatt sem greiddur var við innflutning ökutækisins. Sú fjárhæð skal lækka um 2% fyrir hvern byrjaðan mánuð fyrstu 12 mánuðina eftir nýskráningu ökutækisins og 1,5% fyrir hvern byrjaðan mánuð eftir það þar til 100% fyrningu er náð. Hafi eigandi hins útflutta ökutækis fengið virðisaukaskatt af því endurgreiddan í formi innskatts skapast ekki réttur til endurgreiðslu.
    Tollstjóra er heimilt að innheimta skoðunargjald vegna skoðunar á notuðum ökutækjum sem flytja á úr landi skv. 1. mgr. Gjald þetta skal standa straum af launakostnaði tollstarfsmanna og aksturskostnaði vegna framkvæmdar skoðunarinnar.
    Heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts skv. 1. mgr. gildir til 1. apríl 2009. Tollstjórinn í Reykjavík annast endurgreiðslu.
    Ráðherra skal í reglugerð setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis, svo sem nánari skilyrði fyrir endurgreiðslu, um ástand ökutækja, um gögn sem leggja þarf fram með umsókn um endurgreiðslu og um eftirlit og kæruheimildir.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til tímabundnar breytingar á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem heimila endurgreiðslu virðisaukaskatts og vörugjalda af notuðum ökutækjum sem eru afskráð og flutt úr landi. Verulega hefur dregið úr sölu nýrra og notaðra bifreiða hérlendis á síðustu mánuðum og nú er svo komið að verulegur fjöldi ónotaðra ökutækja hefur safnast upp. Frumvarpi þessu er því ætlað að greiða fyrir sölu notaðra bifreiða úr landi sem auka mun gjaldeyristekjur þjóðarbúsins til skemmri tíma, jafnframt því að ýta undir það að hjól atvinnulífsins fari að snúast á ný. Auk þess má reikna með að frumvarpið flýti fyrir fjölgun vistvænna ökutækja í umferðinni.
    Ef frumvarpið verður að lögum verður heimilt að endurgreiða vörugjald og virðisaukaskatt af afskráðum ökutækjum sem flutt eru úr landi fram til 1. apríl 2009. Endurgreiðslan tekur mið af þeirri fjárhæð sem greidd var í vörugjöld og virðisaukaskatt við innflutning ökutækis að teknu tilliti til aldurs þess. Þannig lækkar viðmiðunarfjárhæð endurgreiðslu um 2% fyrir hvern byrjaðan mánuð, fyrstu 12 mánuðina eftir skráningu ökutækisins, og 1,5% fyrir hvern mánuð eftir það. Samkvæmt frumvarpinu hafa eigendur ökutækja sem notið hafa innskattsréttar af ökutækjum sínum ekki rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts. Í frumvarpinu er einnig lagt til að tollstjórum verði veitt heimild til gjaldtöku vegna eftirlits með ökutækjum sem flutt eru úr landi, en tollstjórinn í Reykjavík mun annast endurgreiðslurnar.
    Gert má ráð fyrir að breytingin kunni að kosta ríkissjóð 1,5–2 milljarða kr. í beinum endurgreiðslum en á móti vega óbein áhrif aukinnar veltu og veltuskatta af þeim gjaldeyri sem fæst fyrir bifreiðaútflutninginn. Áætlað er að allt að 5.000 bifreiðar verði fluttar úr landi á næstu mánuðum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með 1. mgr. er lagt til að heimilt verði að endurgreiða vörugjald af vélknúnum ökutækjum sem eru afskráð og flutt úr landi. Til að koma í veg fyrir misnotkun er lagt til að ákveðnar kröfur verði gerðar til ástands ökutækjanna sem nánar verða skilgreindar í reglugerð. Ef frumvarpið verður að lögum er gert ráð fyrir að tollstjórinn í Reykjavík annist endurgreiðsluna en tollstjórar í viðkomandi umdæmum hafi eftirlit með því að ökutækin hafi verið afskráð og meti ástand þeirra við útflutning. Í greininni er lagt að endurgreiðslan verði miðuð við það vörugjald sem greitt var við innflutning ökutækisins að teknu tilliti til fyrninga. Tollstjórinn í Reykjavík hefur upplýsingar um hversu mikið var greitt í aðflutningsgjöld af öllum gjaldskyldum ökutækjum sem flutt hafa verið til landsins og tollafgreidd.
    Í 2. mgr. er tollstjóra veitt heimild til gjaldtöku vegna skoðunar á notuðum ökutækjum sem flytja skal úr landi. Slík heimild er nauðsynleg þar sem fyrirséð er að töluverð vinna fari í að meta og kanna ástand ökutækja í samræmi við ákvæði 1. mgr. Gjald þetta skal standa straum af launakostnaði tollstarfsmanna og aksturskostnaði vegna framkvæmdar skoðunarinnar.
    Í 3. mgr. kveðið á um að heimild til endurgreiðslu gildi til 1. apríl 2009 og að tollstjórinn í Reykjavík annist endurgreiðsluna.
    Í 4. mgr. er lagt til fjármálaráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd endurgreiðslunnar.

Um 2. gr.


    Með 1. mgr. er lagt til að virðisaukaskattur verði endurgreiddur af áður skráðum vélknúnum ökutækjum sem eru afskráð og flutt úr landi. Gert er ráð fyrir að endurgreiðslan komi til með að miðast við að sá virðisaukaskattur sem greiddur var við innflutning á ökutækinu verði endurgreiddur að teknu tilliti til fyrninga. Lagt er til að hafi eigandi ökutækis fengið virðisaukaskatt endurgreiddan í formi innskatts skapist ekki réttur til endurgreiðslu.
    Í 2. mgr. er tollstjóra veitt heimild til gjaldtöku vegna skoðunar á notuðum ökutækjum sem flytja skal úr landi. Slík heimild er nauðsynleg þar sem fyrirséð er að töluverð vinna fari í að meta og kanna ástand ökutækja í samræmi við ákvæði 1. mgr. Gjald þetta skal standa straum af launakostnaði tollstarfsmanna og aksturskostnaði vegna framkvæmdar skoðunarinnar.
    Í 3. mgr. kveðið á um að heimild til endurgreiðslu gildi til 1. apríl 2009 og að tollstjórinn í Reykjavík annist endurgreiðsluna.
    Í 4. mgr. er lagt til fjármálaráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd endurgreiðslunnar.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 29/1993,
um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., og lögum nr. 50/1988,
um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að endurgreiddur verði hluti virðisaukaskatts og vörugjalds af notuðum vélknúnum ökutækjum sem eru seld eða flutt úr landi fram til 1. apríl 2009. Á undanförnum misserum hefur myndast mikið ójafnvægi á markaði fyrir nýjar og notaðar bifreiðar. Velta hefur dregist verulega saman, auk þess sem dregið hefur hratt úr innflutningi frá því sem verið hefur undanfarin ár. Er nú svo komið að um 5.000 ótollafgreiddar nýjar bifreiðar eru í landinu og um 8–10 þúsund óseldar notaðar bifreiðar. Stór hluti óseldra notaðra bíla hefur verið tekinn sem greiðsla upp í nýjar bifreiðar og er í eigu bifreiðaumboðanna en um 3.000 eru nýlegar bifreiðar sem bílaleigur hyggjast endurnýja fljótlega. Með frumvarpinu er hugmyndin að greiða fyrir sölu notaðra bifreiða úr landi og rjúfa þannig þá kyrrstöðu sem upp er komin í sölu á nýjum bifreiðum. Með því móti kynni einnig að vera aflað gjaldeyris fyrir þjóðarbúið til skemmri tíma litið sem gæti numið í kringum 10 milljörðum króna eftir því hversu mikill útflutningurinn verður. Þess skal þó getið að samkvæmt frumvarpinu er endursala á bifreið til útlanda ekki skilyrði fyrir endurgreiðslu heldur einungis flutningur úr landi.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir því að virðisaukaskattur og vörugjöld sem greidd voru af bifreiðum við tollafgreiðslu þeirra myndi endurgreiðslugrunn. Endurgreiðsluhlutfallið lækki með aldri bílsins frá tollafgreiðsludegi. Þannig er gert ráð fyrir að grunnurinn lækki um 2% fyrir hvern byrjaðan mánuð fyrstu 12 mánuðina og um 1,5% á mánuði eftir það, þar til fyrning hefur náðst að fullu rúmum 5 árum eftir tollafgreiðslu. Endurgreiðsla virðisaukaskatts nær ekki til þeirra ökutækja sem hafa notið innskatts en í slíkum tilfellum yrðu vörugjöld endurgreidd eftir sömu reglum og að ofan greinir.
    Gert er ráð fyrir að endurgreiðslur af þessum toga verði ekki dregnar frá skatttekjunum á tekjuhlið ríkissjóðs heldur færðar sem útgjöld á gjaldahlið þar sem um er að ræða útborganir vegna gjaldheimtu fyrri ára. Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir því að kostnaður ríkissjóðs gæti orðið á bilinu 1,5 til 2,0 milljarðar króna. Þetta mat byggist á því að um 5.000 ökutæki verði flutt úr landinu á gildistíma laganna. Á móti kemur að þessi útflutningur ætti að liðka fyrir sölu þeirra bifreiða sem fluttar hafa verið til landsins, en ekki tollafgreiddar. Tekjur ríkissjóðs af þesum innflutningi verði þannig meiri en ella hefði orðið. Ekki er gert ráð fyrir þessum útgjöldum í gildandi fjárlögum eða frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2009.