Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 137. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 218  —  137. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ágúst Geir Ágústsson frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, Gunnhildi Gunnarsdóttur og Einar Jónsson frá Íbúðalánasjóði, Benedikt Sigurðarson frá Búseta á Norðurlandi, Gísla Örn Bjarnhéðinsson frá Búseta í Reykjavík, Kjartan Gunnarsson frá viðskiptaráðuneytinu, Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Hauk Agnarsson frá NBI hf., Helga Bragason frá Nýja Kaupþingi, Odd Ólason frá Nýja Glitni, Gísla Jafetsson frá Sambandi íslenskra sparisjóða, Stefán Árna Auðólfsson frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Tómas N. Möller frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambandi Íslands, Byggðastofnun, umboðsmanni barna, Viðskiptaráði Íslands, Persónuvernd, Samtökum iðnaðarins, Félagsbústöðum, Búseta á Norðurlandi, Búseta í Reykjavík og Creditinfo Ísland.
         Frumvarpið er þáttur í aðgerðum sem félags- og tryggingamálaráðherra hefur gripið til vegna þeirrar stöðu sem er á vinnumarkaði og í efnahagslífi þjóðarinnar. Frumvarpinu ásamt fleiri aðgerðum er ætlað að rýmka heimildir og fjölga úrræðum sem Íbúðalánasjóður hefur til að koma til móts við lántakendur sem lenda í greiðsluvanda. Lagt er til að Íbúðalánasjóði sé heimilt að leigja eða fela öðrum að leigja það íbúðarhúsnæði sem sjóðurinn hefur yfirtekið á nauðungaruppboði. Þá er lögð til lenging úr 15 árum í 30 ár á hámarkslánstíma skuldbreytingarlána Íbúðalánasjóðs sem veitt eru vegna tímabundinna greiðsluerfiðleika lántaka.
    Við meðferð málsins ræddi nefndin einna helst sjónarmið varðandi útleigu íbúða þeirra sem Íbúðalánasjóður eignast, leiguverð þeirra, hámarkslánstíma sjóðsins og hvort rétt væri að skilyrða útleigu íbúðanna við að sjóðurinn hafi eignast þær á nauðungaruppboði. Þá ræddi nefndin einnig ýmis málefni tengd Íbúðalánasjóði sem ekki er tekið á í frumvarpinu, m.a. þau úrræði sem þegar hafa verið kynnt varðandi Íbúðalánasjóð og ekki kröfðust lagabreytinga og þau sem eru í undirbúningi.
    Fram kom í nefndinni að ekki sé ætlunin að Íbúðalánasjóður standi sjálfur í leigumiðlun heldur feli öðrum það með samningi. Nefndin telur mikilvægt að nýtt séu þau úrræði og þekking sem til er um viðhald og útleigu. Þá geti verið rétt að dreifa útleigu íbúða þannig að ekki verði einn aðili sem sjái um heildarútleigu og viðhald þeirra íbúða sem sjóðurinn kann að eignast. Horft verði til löggiltra leigumiðlana, húsnæðissamvinnufélaga, svo sem Búseta, og sveitarfélaganna, t.a.m. Félagsbústaða.
    Nefndin telur einnig mikilvægt að í reglugerð um útleigu íbúða sé kveðið á um ákveðin grunnskilyrði sem leigumiðlun þurfi að uppfylla til að Íbúðalánasjóði sé heimilt að fela henni útleigu fyrir sína hönd, m.a. sé rétt að kveða á um að leigumiðlun sé ekki á vanskilaskrá, skuldi ekki opinber gjöld, hafi skilað ársreikningi á tilsettum tíma og jafnvel að gert sé áhættumat á gjaldfærni miðlunarinnar á næstu mánuðum. Þá væri hægt að kveða á um að miðlunin þurfi að hafa verið starfrækt í tiltekinn tíma til að koma til álita varðandi samning um útleigu íbúða sjóðsins. Telur nefndin að slík skilyrði ættu að koma í veg fyrir misnotkun og tryggja að viðhald og útleiga íbúða sé í höndum trausts aðila.
    Hvað leiguverðið varðar telur nefndin að gæta þurfi að því að útleiga íbúða standi undir kostnaði en jafnframt sé fyrrum eiganda ekki gert ófært að greiða leigu. Í greinargerð kemur fram að Íbúðalánasjóður muni við útleigu miða við markaðsverð en á fundi nefndarinnar kom fram að engar tölur lægju fyrir um leiguverð á markaði utan þess að það hafi tekið að lækka. Nauðsynlegt er að tryggja Íbúðalánasjóði rekstrargrundvöll og því eðlilegt að leggja áherslu á að einungis er um skammtímaúrræði að ræða. Þannig verði sjóðnum gert kleift að selja íbúðir ef leiga þeirra reynist hærri en gengur og gerist en lántakendum jafnframt gert kleift að leita að hentugu húsnæði sem hefur í för með sér sem minnst hnjask eða óhagræði fyrir lántakendur og fjölskyldur þeirra.
    Lengingu á hámarkslánstíma skuldbreytingarlána Íbúðalánasjóðs úr 15 í 30 ár eru sett þau takmörk í lögum um húsnæðismál að hámarkslánstími lána hjá sjóðnum er 55 ár, sbr. 4. mgr. 48. gr. laganna. Ef þessu tímamarki er haldið til streitu getur það orðið til þess að ekki geti allir nýtt sér heimildina til skuldbreytingar í 30 ár. Þar sem það getur skipt einstaklinga sköpum í því efnahagsástandi sem nú ríkir að geta lengt í lánum sínum og með því lækkað greiðslubyrði leggur nefndin til að hámarkslánstími lána hjá sjóðnum verði færður í 70 ár. Nefndin telur nauðsynlegt að samhliða slíkri lengingu séu lántakendur uppfræddir um að kostnaður aukist mjög þó að greiðslubyrði léttist einungis lítillega. Ólíkt lánum Íbúðalánasjóðs hafa lán fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða ekki verið bundin hámarkslánsfjárhæð og eru því oft og tíðum mun hærri en lán þau sem sjóðurinn veitir. Nefndin telur eðlilegt að beina þeim tilmælum til annarra lánveitenda en Íbúðalánasjóðs að heimila sambærilega skuldbreytingu og frumvarpið mælir fyrir um. Nefndin telur það í samræmi við tilmæli ríkisstjórnarinnar um að veita lántakendum sömu úrræði og nú þegar eru til staðar og væntir þess að tilmælin muni einnig eiga við um þessa breytingu. Nefndin leggur áherslu á að fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir geri sitt til að koma til móts við lántakendur sína með breytingum á skilmálum lána og bendir í þessu samhengi á að nokkur lög hafa þegar verið sett til að greiða fyrir þessu, t.a.m. lög sem fella niður þinglýsingarkostnað og stimpilgjöld af skilmálabreytingum, sem og lög sem gera lántakendum kleift að óska einhliða eftir greiðslujöfnun á fasteignaveðlánum sínum. Nefndin leggur áherslu á að þessum lánveitendum verði gert að fara að fordæmi Íbúðalánasjóðs og veita lántakendum breytingar á skilmálum lána í samræmi við ákvæði frumvarpsins sem og breytingartillögu nefndarinnar. Að sama skapi sé eðlilegt að lántakendum sé ekki mismunað og lánveitendur hugi að því að útfæra einnig úrræðið sem kveðið er á um í 1. gr.
    Í frumvarpinu er það gert að skilyrði fyrir útleigu íbúða að sjóðurinn hafi eignast þær á nauðungaruppboði. Nauðungaruppboð er kostnaðarsöm aðgerð sem getur haft neikvæð áhrif á einstaklinga og fjölskyldur. Nefndin leggur áherslu á að allra leiða sé leitað til að aðstoða fólk í greiðsluerfiðleikum og m.a. séu einstaklingar aðstoðaðir við að minnka við sig, sé þess kostur. Í þessu sambandi lítur nefndin til þeirra úrræða sem kynnt hafa verið á síðustu vikum, lántakendum til hagsbóta, sem og frumvarps um greiðsluaðlögun sem ríkisstjórnin hefur sagt að sé væntanlegt. Augljóst er að stundum er nauðungaruppboð eina leiðin og það úrræði að geta leigt íbúð áfram fjölskyldum þá mjög kærkomið. Að sama skapi telur nefndin mikilvægt að horft sé til alvarleika slíkra aðgerða og eingöngu gripið til þeirra sem síðasta úrræðis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:    Við 2. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Í stað orðanna „55 ár“ í 4. mgr. kemur: 70 ár.

Alþingi, 24. nóv. 2008.Guðbjartur Hannesson,


form., frsm.


Ármann Kr. Ólafsson.


Ásta R. Jóhannesdóttir.Ögmundur Jónasson.


Árni Johnsen.


Pétur H. Blöndal.Jón Gunnarsson.


Birkir J. Jónsson.


Kristinn H. Gunnarsson.