Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 190. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 234  —  190. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á kjörum og réttindum námsmanna.

Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir,


Álfheiður Ingadóttir, Atli Gíslason.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að gera úttekt á kjörum og réttindum námsmanna. Vinnu við áætlunina skal lokið 1. apríl 2009.
    Markmið úttektarinnar verði:
     a.      að kanna rétt námsmanna sem veikjast eða lenda í slysi og geta ekki stundað nám til opinberrar aðstoðar og námslána,
     b.      að kanna rétt námsmanna til fæðingarorlofs, sérstaklega með tilliti til kvenna sem veikjast á meðgöngu og geta af þeim sökum ekki skilað fullnægjandi námsárangri,
     c.      að skoða þann framfærslugrunn sem miðað er við í úthlutun námslána og endurskoða hann með nýrri framfærslurannsókn.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi var áður flutt á 135. löggjafarþingi af varaþingmanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Auði Lilju Erlingsdóttur, ásamt Katrínu Jakobsdóttur og Kolbrúnu Halldórsdóttir. Hún er nú endurflutt lítið breytt.
    Árið 2006 stunduðu um 17 þúsund einstaklingar nám á háskólastigi á Íslandi. Þessi stóri hópur er fjölbreyttur og með margvíslegar þarfir. Helmingur hópsins á það þó sameiginlegt að byggja framfærslu sína á námslánum.
    Samkvæmt núverandi framfærslugrunni LÍN er gert ráð fyrir að einstaklingur eyði 570 þús. kr. á ári í húsnæði, hita og rafmagn, eða um 47 þús. kr. á mánuði. Á höfuðborgarsvæðinu eru slík kostakjör á leiguhúsnæði vandfundin. Það er mat flutningsmanna að tími sé kominn til að framkvæma nýja metnaðarfulla framfærslurannsókn meðal námsmanna og að miðað verði við þá könnun við úthlutun námslána.
    Til að hljóta námslán þarf að uppfylla ýmsar kröfur hvað varðar námsárangur og námsframvindu. Því geta veikindi, slys eða meðganga og fæðing veikt fjárhagsstöðu margra námsmanna. Því er nauðsynlegt að kanna réttindi og kjör námsmanna og kortleggja ástandið til að geta bætt það. Sem dæmi má nefna að þegar námsmenn eignast börn fá þeir fæðingarstyrk. Til að fá fæðingarstyrk þarf námsmaður að skila 75% námsárangri í a.m.k. 6 mánuði af síðustu 12 mánuðum. Þessi krafa gerir það að verkum að ef námsmaður verður veikur á meðgöngunni og nær ekki að skila tilskildum námsárangri fær viðkomandi ekki þennan fæðingarstyrk sem námsmaður, heldur flokkast hann utan vinnumarkaðar. Sú upphæð sem þá er um að ræða dugar ekki fyrir framfærslu.
    Það er mat flutningsmanna þessarar þingsályktunartillögu að mikil þörf sé á að greina vandann á þessu sviði og í framhaldinu finna á honum lausnir.