Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 194. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 241  —  194. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skyldu lánastofnana í meirihlutaeigu ríkisins til að leita tilboða í innleyst fyrirtæki og/eða rekstrareiningar.

Flm.: Grétar Mar Jónsson, Guðjón A. Kristjánsson, Jón Magnússon.


    


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hlutast, með tilmælum og lagasetningu, til um að lánastofnunum í meirihlutaeigu ríkisins verði jafnan skylt að leita tilboða við sölu á fyrirtækjum sem lánastofnunin innleysir að hluta eða í heild, svo og við sölu á einstökum rekstrareiningum viðkomandi rekstraraðila. Skal jafnan tekið hæsta tilboði enda séu viðunandi tryggingar lagðar fram fyrir greiðslu kaupverðs.

Greinargerð.


    Við hrun íslenska bankakerfisins hefur fjöldi fyrirtækja og rekstrareininga komist á forræði skilanefnda bankanna eða stjórna nýju bankanna, sem urðu til eftir hrun þeirra eldri. Nú er m.a. unnið að því að ákveða hvað gera skuli við innleystar eignir sem bankarnir hafa tekið í sína vörslu. Það hlýtur að vera keppikefli að hámarka verðið sem fæst fyrir þessar eignir. Að undanförnu hafa borist fréttir af því að skilanefndir ætli sér að selja einstakar eignir án þess að bjóða þær út á almennum markaði, m.a. berast fréttir af því að einstaklingar sem höfðu með þessar eignir að gera með einum eða öðrum hætti gangi nú fyrir þegar endursala þeirra er ákveðin. Slíkt er að mati flutningsmanna andstætt góðu viðskiptasiðferði. Með þessari aðferð er sniðgengin sú leið að leita eftir hæsta verði, auk þess sem áhugasömum kaupendum er mismunað.
    Með þessari þingsályktunartillögu er leitast við að koma í veg fyrir að ríkissjóður Íslands verði af umtalsverðum upphæðum með því að reyna ekki að lágmarka þann skaða sem þegar er orðinn í efnahagsfárinu.