Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 94. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 245  —  94. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um niðurlagningu úrskurðarnefnda á sviði siglingamála.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Unni Gunnarsdóttur og Ólaf Pál Vignisson frá samgönguráðuneyti.
    Umsagnir bárust frá Siglingastofnun Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, ríkislögreglustjóra, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Landssambandi björgunarsveita, Félagi skipstjórnarmanna, Persónuvernd, Hafnasambandi sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, tollstjóranum í Reykjavík, Umhverfisstofnun, Olíufélaginu hf., Olíudreifingu ehf., Eyþingi – sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum og Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.
    Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að leggja niður tvær sjálfstæðar úrskurðarnefndir á sviði siglingamála en það er liður í þeirri stefnu að fækka skuli sjálfstæðum úrskurðarnefndum. Er það gert til að auka ráðdeild í meðferð ríkisfjármála auk þess sem það er í samræmi við þá meginreglu að ráðherra fari með yfirstjórn stjórnarmálefna.
    Nefndin ræddi þá tilhögun sem lögð er til í frumvarpinu og fjallaði m.a. um hvort breytingin geti haft í för með sér takmörkun á kæruleiðum fyrir hlutaðeigandi aðila. Nefndin telur svo ekki vera heldur miði breytingin fremur að hagræðingu og einföldun í skipulagi stjórnsýslu. Nefndin telur að breytingin samræmist meginreglunni um að ráðherra sem æðra sett stjórnvald beri ábyrgðina og því eðlilegt að úrskurðarvaldi í málum sem þessum sé hans.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Á eftir 3. gr. komi ný grein sem orðist svo:
    Í stað orðanna „farbannsnefndar skv. 24. og 25. gr.“ í 27. gr. laganna kemur: ráðuneytis.

    Ármann Kr. Ólafsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 2. des. 2008.



Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form., frsm.


Ólöf Nordal.


Herdís Þórðardóttir.



Karl V. Matthíasson.


Árni Þór Sigurðsson.


Árni Johnsen.



Helga Sigrún Harðardóttir.


Guðjón A. Kristjánsson.