Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 175. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 246  —  175. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur, Guðmund Jóhann Árnason og Ögmund Hrafn Magnússon frá fjármálaráðuneyti, Jónu Björk Guðnadóttur og Kjartan Gunnarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Signýju Sigurðardóttur frá Samtökum verslunar og þjónustu, Gunnar Val Steinsson og Bergþór Karlsson frá Samtökum ferðaþjónustu, Runólf Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Özur Lárusson frá Bílgreinasambandinu og Úlfar Steindórsson frá Toyota á Íslandi.
    Lagt er til í frumvarpinu að heimilt verði að endurgreiða vörugjald og virðisaukaskatt af áður skráðu vélknúnu ökutæki sem er afskráð og flutt úr landi, að nánar greindum skilyrðum.
    Þeir sem komu á fund nefndarinnar voru almennt sammála tilgangi frumvarpsins. Fram kom sú gagnrýni að gildistími þess væri allt of stuttur og kynni að valda óðagoti við útflutning auk þess sem sumir töldu að reglur frumvarpsins væru eðlilegar og ættu að gilda til frambúðar. Gerðar voru athugasemdir við afskriftaviðmið (fyrningarstuðul) er liggur til grundvallar útreikningi á endurgreiðslu og talið að það endurspeglaði ekki nægilega vel raunverulegt verðfall á bifreiðum. Einnig voru gagnrýnd tilmæli frumvarpsins um sérstaka ástandsskoðun tollstjóra og heimild til töku gjalds vegna hennar.
    Meiri hlutinn bendir á að sú ráðstöfun sem í frumvarpinu felst er tímabundin og til komin vegna sérstakra aðstæðna í efnahagsmálum þjóðarinnar. Ætlunin er að auka möguleika eigenda bifreiða á að koma þeim í verð með tilheyrandi öflun gjaldeyristekna sem ætla má að verði varið til niðurgreiðslu skulda, enda tóku margir gengislán til bílakaupa. Hefur einnig verið vísað til þess að frumvarpið liðki fyrir endurnýjun íslenska bílaflotans og sé þar af leiðandi til hagsbóta fyrir umhverfið.
    Meiri hlutinn leggur til að gildistími frumvarpsins verði lengdur til og með 31. desember 2009. Er það gert til samræmis við þá breytingu sem nefndin lagði til í tengslum við afgreiðslu laga nr. 132/2008, um breytingu á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald.
    Fram kom á fundum nefndarinnar að fyrningarstuðull frumvarpsins feli í sér að heimild til endurgreiðslu er ekki lengur til staðar fimm árum eftir nýskráningu ökutækis. Meiri hlutinn gerir ekki athugasemdir við það þar sem flest gengistryggð lán voru til kaupa á nýlegum bifreiðum.
    Meiri hlutinn telur einnig rétt að hnykkja á því að áður en ráðist verður í innheimtu skoðunargjalds liggi skýrt fyrir hvernig útreikningi þess sé háttað og hvort þörf sé á slíku gjaldi en um innheimtu þess gildir heimildarákvæði.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað orðanna „til 1. apríl 2009“ í 3. efnismgr. 1. og 2. gr. komi: til og með 31. desember 2009.

    Ögmundur Jónasson, Bjarni Benediktsson og Gunnar Svavarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og gerir fyrirvara við álitið.

Alþingi, 2. des. 2008.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Birkir J. Jónsson.



Lúðvík Bergvinsson.


Rósa Guðbjartsdóttir.