Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 107. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 254  —  107. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Marðar Árnasonar um hlut áliðju og ferðaþjónustu í þjóðarframleiðslu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er hlutur áliðju annars vegar og ferðaþjónustu hins vegar í þjóðarframleiðslu 1998– 2007, þ.e. virðisaukinn fyrir þjóðarbúið, að teknu tilliti m.a. til kostnaðar við aðföng og uppbyggingu hérlendis (svo sem virkjana, hótelbygginga o.s.frv.), þ.m.t. kostnaðar við lántöku erlendis og hagnaðar sem flyst úr landi?

    Hlutur rekstrar og fjárfestinga í áliðju nam frá 3% til 16% af innlendum þáttatekjum (sjá hugtök aftast í þessu svari) á tímabilinu 1998–2007. Að meðaltali var hlutfallið 8,1%. Hlutur rekstrar og fjárfestinga í ferðaþjónustu í heild nam 14% til 18% á tímabilinu 1998–2007. Á tímabilinu var hlutfallið að meðaltali 15,8%.

Hlutdeild vegna reksturs áliðju og ferðaþjónustu í hreinum innlendum þáttatekjum.
    Árin 1998–2007 jukust tekjur sem tengja má rekstri áliðju úr 9 milljörðum kr. í 44 milljarða kr. Áætlað hlutfall af hreinum innlendum þáttatekjum hækkaði úr 2% í rúm 5%. Á sama tíma má ætla að tekjur sem tengja má rekstri ferðaþjónustu hafa hækkað úr 55 milljörðum kr. í 145 milljarða kr. Hlutfall af hreinum innlendum þáttatekjum óx úr 13% í 17% á tímabilinu. Þar af eru tekjur sem tengjast erlendum ferðamönnum á milli 7% og 9% af hreinum innlendum þáttatekjum.

Tafla 1. Hlutdeild vegna reksturs áliðju og ferðaþjónustu
í hreinum innlendum þáttatekjum.

Hreinar
þjóðartekjur
Hreinar innlendar þáttatekjur alls Áliðja og virkjanir Áætlaður hluti af innlendum þáttatekjum Ferðaþjónusta Áætlaður hluti af innlendum þáttatekjum Þar af
þjónusta við erlenda
ferðamenn
Áætlaður hluti af innlendum þáttatekjum
1998 508 427 9 2% 55 13% 31 7%
1999 545 450 9 2% 62 14% 33 7%
2000 584 487 14 3% 71 14% 37 8%
2001 654 561 18 3% 81 14% 42 8%
2002 717 617 19 3% 84 14% 44 7%
2003 727 618 16 3% 87 14% 46 7%
2004 784 653 18 3% 99 15% 52 8%
2005 870 712 18 3% 110 16% 58 8%
2006 939 759 35 5% 124 16% 65 9%
2007 1.064 860 44 5% 145 17% 76 9%
Meðaltöl 3,3% 15% 7,9%
Heimildir: Útreikningar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, byggðir á tölum frá Hagstofu Íslands.

Hlutdeild fjárfestinga í áliðju og ferðaþjónustu í hreinum innlendum þáttatekjum.

    Tekjur sem tengjast fjárfestingum í áliðju og virkjunum tengdum þeim sveiflast frá 3 milljörðum kr. upp í 88 milljarða kr. á árunum 1998–2007 og fara úr 1% af hreinum innlendum þáttatekjum alls í 12% (sjá töflu 2). Fjárfestingar eru minni í ferðaþjónustu, en tekjur tengdar þessum fjárfestingum sveiflast frá 2 og upp í 8 milljarða króna, og eru lengst af nálægt 1% af hreinum innlendum þáttatekjum en 0,5% ef einungis er litið til þjónustu við erlenda ferðamenn.

Tafla 2. Innlendar þáttatekjur tengdar fjárfestingum í áliðju
og ferðaþjónustu (milljarðar kr. á verðlagi hvers árs).

Hreinar
þjóðartekjur
Hreinar innlendar þáttatekjur Áliðja og virkjanir Áætlaður hluti af innlendum þáttatekjum Ferðaþjónusta
alls
Áætlaður hluti af innlendum þáttatekjum Þar af
þjónusta við erlenda
ferðamenn
Áætlaður hluti af innlendum þáttatekjum
1998 508 427 13 3% 3 1% 2 0%
1999 545 450 6 1% 3 1% 2 0%
2000 584 487 7 1% 5 1% 3 1%
2001 654 561 5 1% 3 1% 2 0%
2002 717 617 3 1% 2 0% 1 0%
2003 727 618 14 2% 3 1% 2 0%
2004 784 653 29 4% 6 1% 3 1%
2005 870 712 68 10% 7 1% 4 1%
2006 939 759 88 12% 7 1% 4 1%
2007 1064 860 62 7% 8 1% 5 1%
Meðaltöl 4,8% 0,8% 0,5%
Heimildir: Útreikningar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, byggðir á tölum frá Hagstofu Íslands.

Hlutdeild áliðju og ferðaþjónustu í hreinum innlendum þáttatekjum.
    Í töflu 3 má sjá samanlögð áhrif áliðju annars vegar og ferðaþjónustu hins vegar í hreinum innlendum þáttatekjum. Hér eru tekin saman áhrif vegna rekstrar og fjárfestinga og taflan sýnir því heildarframlag hvorrar greinar fyrir sig.

Tafla 3. Heildaráhrif áliðju og ferðaþjónustu
(rekstur og fjárfestingar), hlutfall af heild.

Áliðja Ferðaþjónusta alls Ferðaþjónusta við erlenda ferðamenn
1998 5% 14% 7%
1999 3% 14% 7%
2000 4% 16% 9%
2001 4% 15% 8%
2002 4% 14% 7%
2003 5% 15% 7%
2004 7% 16% 9%
2005 12% 17% 9%
2006 16% 17% 10%
2007 12% 18% 10%
Meðaltöl 8,1% 15,8% 8,4%
Heimildir: Útreikningar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, byggðir á tölum frá Hagstofu Íslands.

Aðferðir og túlkun.
    Svar við fyrirspurninni er byggt á athugunum Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands en það er erfiðleikum bundið að meta hlut þessara ólíku atvinnugreina í þjóðarframleiðslu, sérstaklega þar sem ferðaþjónusta er ekki skilgreind sem sérstök atvinnugrein í tölum Hagstofu Íslands. 1 Einnig skiptir miklu máli hvort og hvernig tekið er tillit til fjárfestinga í útreikningunum. Af þessum sökum er svarið við fyrirspurn þessari í þrennu lagi. Fyrst er horft á þau áhrif sem rekstur í viðkomandi atvinnugreinum hefur í íslensku hagkerfi. Síðan er skoðað hvaða áhrif fjárfestingar í þessum greinum hafa á efnahagslífið. Að síðustu eru þessi áhrif tekin saman.
    Tölur um þjóðarframleiðslu eru hreinar (nettó) 2 en auk þess eru óbeinir skattar dregnir frá og framleiðslustyrkjum er bætt við, þar sem þessir liðir eru yfirleitt ekki flokkaðir niður á atvinnugreinar í íslenskum þjóðhagsreikningum. Það sem út kemur eru hreinar innlendar þáttatekjur sem eru það sama og hrein þjóðarframleiðsla nema hvað varðar framangreinda framleiðslustyrki og óbeinu skattana. Sökum þess að ekki er vitað hvernig framleiðslustyrkir og óbeinir skattar dreifast á atvinnugreinar er nauðsynlegt að notast við hreinar innlendar þáttatekjur í stað þjóðarframleiðslu. Þess má þó geta að ekki er um framleiðslustyrki að ræða í áliðnaði og ferðaþjónustu. Í framangreindum töflum 1–3 eru heildartölur bæði um þjóðartekjur og þáttatekjur sýndar til að draga fram muninn á þessum tveimur stærðum.
    Ferðaþjónusta er ekki skilgreind sem sérstök atvinnugrein í þjóðhagsreikningum, en Hagstofa Íslands hefur nýlega metið tekjur í greininni á árunum 2000–2006 ásamt útflutningstekjum af ferðamennsku á árunum 2000–2007. Hér er stuðst við þessar áætlanir. Framleiðsluvirði í ferðaþjónustu árin 1998 og 1999 var lauslega áætlað fyrir þessa samantekt. Jafnframt var áætlað sérstaklega hvert væri framleiðsluvirði í áliðju og ferðaþjónustu árið 2007 og gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum árin 1998 og 1999. Við það mat var einkum stuðst við útflutningstölur frá Hagstofu Íslands og Seðlabanka.
    Þar sem forsendur þessara útreikninga eru nokkuð flóknar er brugðið á það ráð að sýna fyrst niðurstöður þeirra, en láta nánari skýringar á hugtökum og aðferðum fylgja þar á eftir. Í eftirfarandi töflum má sjá niðurstöður útreikninganna en allar upphæðir eru á verðlagi hvers árs. Í þessari greiningu er litið til þess hvað áliðja og ferðaþjónusta leiða til mikilla umsvifa innlendra framleiðsluþátta. Stuðst er við svokallaða aðfanga- og afurðagreiningu. Tökum dæmi af áliðnaði til útskýringar: Starfsmenn í áliðnaði fá laun og verja þeim til kaupa á vörum og þjónustu. Þær vörur og sú þjónusta sem heimilin kaupa koma að hluta frá útlöndum og hverfa úr hagkerfinu, en hluti þeirra er innlendur. Innlendir framleiðendur sem heimilin kaupa af þurfa einnig að kaupa vörur og þjónustu. Það leiðir af sér enn meiri innlend umsvif. Rekstrarafgangur álvera fer að miklu leyti til eigenda fjármagnsins sem er að langmestu leyti erlent, en hluti verður eftir í landinu sem tekjuskattur. Þá má ætla að rekstrarafgangurinn sé nýttur að hluta í endurfjárfestingar hér á landi, en fjárfestingar eru meðhöndlaðar sérstaklega í þessari greiningu. Álver kaupa einnig erlend aðföng sem ekki koma frekar við sögu, en innlend aðföng þeirra eru einnig mörg. Þar munar mest um rafmagnið.
    Með afurða- og aðfangagreiningu er leitast við að rekja þessa þræði til enda og meta heildaráhrif tiltekinnar eftirspurnar á innlenda framleiðslu. Stuðst er við afurða- og aðfangatöflur, sem að stofni til eru frá Hagstofu Íslands, en hafa verið þróaðar áfram á Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Afurða- og aðfangatöflur frá árunum 2002 og 2003 eru grunnur útreikninganna. Niðurstaða greiningarinnar er sú að framleiðsluvirði áliðju megi margfalda með nálægt hálfum til þess að fá heildaráhrif á hreinar innlendar þáttatekjur, en framleiðsluvirði ferðaþjónustu megi margfalda með liðlega einum til að finna heildaráhrifin. Töluverð óvissa er um tölur fyrir báðar greinar, en munurinn á þeim liggur fyrst og fremst í því að mikið er notað af erlendum aðföngum í áliðju auk þess sem hlutur fjármagns, sem er að langmestu leyti erlent, er mikill við álframleiðslu. Álverð var hátt á árunum 2006–2008. Af þeim sökum jukust tekjur íslenskra orkufyrirtækja, því að orkuverð til stóriðju er tengt álverði. Áhrif þessa voru áætluð sérstaklega og því mati bætt við innlendar þáttatekjur áranna 2006 og 2007.
    Hafa ber í huga að þegar skoðuð eru umsvif sem tengjast viðskiptum Íslendinga eru líkur á tví- og jafnvel margtalningu þegar lögð eru saman umsvif sem tengjast mörgum atvinnugreinum. Auðveldara er að túlka áhrif útflutningstekna á efnahagsumsvif eða jafnvel á byggð hér á landi. Sérstaklega er því í þessari samantekt horft á greiðslur sem tengja má þjónustu við erlenda ferðamenn eins og sjá má í töflum 1 og 2.
    Óvissa er meiri þegar hlutur fjárfestinga er metinn en þegar reksturinn er skoðaður. Yfirleitt er hér ekki litið til þess hvaða kröfur fjárfestingar í áliðju og ferðaþjónustu gera um fjárfestingar í öðrum greinum, til dæmis íbúðarhúsnæði og gatnagerð. Með fjárfestingum í álverum eru þó taldar virkjanir á tímabilinu, enda fjárfestingarnar nátengdar. Virkjanir fyrir stóriðju eru ekki sérgreindar í hagtölum. Hér er gert ráð fyrir að fjárfesting í áliðju dreifist þannig að hún sé á hverju ári jöfn meðaltalsfjárfestingu þess árs og tveggja næstu ára. Þegar fjárfesting í ferðamennsku er áætluð er fylgt yfirliti Hagstofunnar um hlut atvinnugreina í þessari atvinnugrein. Fjárfestingum í flugvélum er sleppt. Reiknað er með að innlendur kostnaður við álvers- og virkjanaframkvæmdir sé um 40%, 3 en það er mun minna en í mannvirkjagerð almennt.

Hugtök.
     Þáttatekjur eru laun starfsmanna og tengd gjöld og tekjur af fjármagni. Hér er horft á hreinar þáttatekjur, það er án afskrifta fjármagns. Þáttatekjur renna ýmist til Íslendinga eða útlendinga. Grunnhugtakið sem unnið er með hér eru hreinar innlendar þáttatekjur. Það eru þær tekjur sem gera má ráð fyrir að komi í hlut íslenskra heimila. Til hreinna innlendra þáttatekna einstakra atvinnugreina eru hér taldar allar launatekjur hér á landi og tekjur af fjármagni sem er í íslenskri eigu. Ef bætt er við óbeinum sköttum og framleiðslustyrkir dregnir frá fást hreinar þjóðartekjur. Þegar auk þess er bætt við afskriftum fást vergar þjóðartekjur eða verg þjóðarframleiðsla. Verg þjóðarframleiðsla eða vergar þjóðartekjur eru þannig allar tekjur þjóðarinnar á tilteknu tímabili. Framleiðsluvirði er söluverð framleiðslunnar, að meðtöldum aðföngum.
Neðanmálsgrein: 1
    1     Rétt er að taka fram að hjá Hagstofu Íslands er ekki notast lengur við hugtakið þjóðarframleiðsla. Þess í stað er talað um þjóðartekjur. Hér eru þessi tvö hugtök notuð jöfnum höndum enda tákna þau það sama.
Neðanmálsgrein: 2
    2     Það þýðir að ekki er tekið tillit til afskrifta.
Neðanmálsgrein: 3
    3     Sjá: Hagfræðistofnun (2005): Þjóðhagsleg áhrif álverksmiðju Fjarðaáls í Reyðarfirði, www.alcoa. com/iceland/ic/pdf/2006_04_vidauki_11_ic.pdf og Kristján Már Sigurjónsson og Sigurður St. Arnalds: Kárahnjúkavirkjun, grein í Tæknivísi, 2003, www.karahnjukar.is/article.asp?ArtId=655&catID =340.