Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 177. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 260  —  177. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu.

Frá 2. minni hluta utanríkismálanefndar.



    Annar minni hluti utanríkismálanefndar gagnrýnir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu máli harðlega. Mikið vantar upp á að málatilbúnaður sé ásættanlegur. Gildir það jafnt um aðdraganda málsins og það hvernig ríkisstjórnin hélt á málstað Íslands í deilum fyrst við Breta og Hollendinga og síðan Evrópusambandið sem og um það hvernig staðið var að samkomulagi við deiluaðilana og hvernig málið er nú borið fyrir Alþingi.
    Þegar ljóst varð eftir fall bankanna, einkum Landsbankans, að gríðarlegir fjármunir væru á svonefndum Icesave-reikningum í Bretlandi og Hollandi, og að einhverju leyti á bankareikningum víðar, höfðu talsmenn ríkisstjórnarinnar uppi stór orð um að ekki kæmi til greina að láta kúga Íslendinga til uppgjafar í Icesave-deilunni. Talað var um lagalegan ágreining sem Ísland ætti skýlausan rétt á að láta á reyna eftir lögformlegum leiðum fyrir gerðardómi eða dómstóli. Þegar ákveðið var að sækja um lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum varaði undirritaður strax sterklega við að í þeirri ákvörðun og því ferli sem Ísland lenti þar inn í gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fælist jafnframt baneitruð tenging yfir í hina óleystu deilu um Icesave-reikningana. Þessu var í fyrstu neitað og sagt að ekki kæmi til greina að láta kúga okkur til uppgjafar í því deilumáli til þess eins að geta leitað á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Allt var þetta síðan gefið eftir af ríkisstjórninni. Það sem menn hafa í þessu sambandi kallað „lausn“ er í raun ekkert annað en uppgjöf, ósigur, tap.
    Ríkisstjórnin í heild, viðkomandi ráðherrar sérstaklega, þ.e. forsætisráðherra, viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra, sem og Fjármálaeftirlit og Seðlabanki, bera á því mikla ábyrgð að umfang þessara innlánsreikninga varð slíkt sem raun ber vitni. Andvara- og aðgerðaleysi þessara aðila, svo ekki sé sagt bein vanræksla, er nú að valda íslenska þjóðarbúinu og skattgreiðendum komandi ára og jafnvel áratuga ómældum skaða. Ekki skal lítið gert úr ábyrgð bankanna sjálfra sem héldu áfram að safna innstæðum inn á reikningana löngu eftir að ljóst varð að í óefni stefndi. Ríkisstjórn og eftirlitsaðilar brugðust hins vegar augljóslega sínu hlutverki og þessir aðilar, ásamt bönkunum, og þá fyrst og fremst Landsbankinn, brugðust allir saman þjóðinni.
    Hin umsömdu viðmið til lausnar deilunni frá 16. nóvember 2008 virðast fela í sér, eftir því sem næst verður komist, að Ísland afsali sér réttinum til að fá skorið úr hinni lagalegu óvissu hvað varðar umfang ábyrgðar okkar á innlánsreikningunum. Spurningin er hvort Ísland hafi gert skyldu sína og fullnægt ákvæðum tilskipunar um innstæðutryggingar nr. 99/19/EB með því að setja á fót innlánstryggingarsjóð og láta greiða til hans 1% af hinum tryggðu innstæðum árlega eða hvort um lagalega eða þjóðréttarlega skuldbindingu er að ræða þar sem ríkissjóður Íslands sé bakábyrgur upp að lágmarkstryggingarupphæðinni, 20.887 evrum. Sé þetta réttur skilningur á 1. tölul. samkomulagsins, hinna umsömdu viðmiða, er ljóst að aldrei fæst úr því skorið hvort Ísland var eingöngu ábyrgt fyrir þeim fjármunum sem til staðar áttu að vera í innlánstryggingarsjóðnum eða hvort íslenska ríkið er bakábyrgt fyrir fjárhæðum sem geta numið allt að 630.640 milljörðum króna miðað við gengi á evru og pundi eins og það hefur verið að undanförnu. Upp í þá upphæð koma að líkindum allnokkrar eignir Landsbankans en hversu langt það hrekkur er enn óvíst. Einnig benda allar líkur til að kröfuhafar muni láta reyna á það ákvæði neyðarlaganna að færa innlánsreikninga fram fyrir í kröfuröð og getur það skipt stórum fjárhæðum, hundruðum milljarða, hver útkoman úr því verður.
    Í 2. tölul. samkomulagsins, eða hinna umsömdu viðmiða, sem birt eru sem fylgiskjal með tillögunni, er talað um að viðurkenning aðila, þ.e. deiluaðila, á hinni lagalegu stöðu, muni greiða fyrir samningaviðræðum um fjárhagsaðstoð við Ísland, þ.m.t. við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Í því felst að Ísland fallist í reynd (de facto) á að landið sé ábyrgt fyrir innlánstryggingu í útibúum íslenskra banka erlendis upp að 20.887 evrum. Síðan segir að samningaviðræður deiluaðila skuli fara fram með samhæfðum og samræmdum hætti og að tekið skuli tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt. Með öðrum orðum, að menn ætli inn í samninga við Evrópusambandið eða samninga undir forustu Evrópusambandsins við gagnaðila Íslands, þar sem menn hafa nú ekki fram að þessu átt góðu að mæta, með ekkert í farteskinu nema slík innihaldslítil orð á blaði.
    Það er mat undirritaðs að með því að undirrita samkomulagið eða hin umsömdu viðmið 18. nóvember sl. hafi Ísland tapað að verulegu leyti vígstöðu sinni eða samningsstöðu í þessu máli og sé nú í afar erfiðri stöðu nema að málið verði fært aftur á byrjunarreit, sem mundi að sjálfsögðu gerast ef Alþingi hafnaði því að veita stjórnvöldum galopið umboð til samninga á þessum grundvelli.
    Að sjálfsögðu er ljóst að málið er í hinu mesta óefni og að baki liggja jafnvel lítt dulbúnar hótanir Evrópusambandsins eða þeirrar blokkar sem myndaðist innan Evrópusambandsins í þessu máli um að beita okkur þvingunaraðgerðum. Látið hefur verið í það skína að einhver hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið verði settur í uppnám ef við föllumst ekki á að hverfa frá öllum hugmyndum um lögformlegan eða lagalegan úrskurðarfarveg í málinu og ganga til þessa pólitíska þvingunarsamkomulags sem Evrópusambandið er að knýja fram, samkomulag sem hlýtur að mega flokka sem ógildanlegan nauðasamning að lögum og þjóðarétti. Þetta eru að mati undirritaðs óásættanlegir afarkostir og ekki boðlegt að ætla að taka á íslenska ríkið, og þar með íslenska skattgreiðendur, á komandi árum skuldbindingar sem geta hlaupið á fleiri hundruðum milljarða króna, jafnvel numið heilum til einum og hálfum fjárlögum íslenska ríkisins eins og þau eru um þessar mundir, á jafnveikum forsendum og hér er lagt til.
    Þess ber að geta sérstaklega að þrátt fyrir undirritun samkomulagsins, hinna umsömdu viðmiða, 18. nóvember sl. stendur frysting breskra stjórnvalda á eignum Landsbankans á grundvelli hryðjuverkalaga enn og allt er óljóst um hvenær eða hvernig henni verður aflétt sem og hvað fyrir Bretum vakir með því að halda henni enn til streitu. Spurningin er hvort Bretar hyggjast hafa eignirnar í haldi til að fá mögulega upp í þá viðbótartryggingu sem bresk lög fela í sér gagnvart sparifjáreigendum (50.000 pund á reikning) og/eða hvort Bretar hyggjast nýta eignir Landsbankans til að bæta að einhverju leyti þeim stofnanafjárfestum, sveitarfélögum, líknarfélögum o.fl. aðilum sem áttu miklar innstæður á Icesave-reikningum, upp tapið. Loks getur skipt máli í þessu sambandi hvort ákvæði neyðarlaganna um að gera innlánsreikninga að forgangskröfum halda, eins og áður sagði.
    Mikil óvissa er því um alla stöðu málsins, bæði stærðargráðu ábyrgðanna sem í húfi geta verið, ekki síst í ljósi óvissu um raunverulegt verðmæti eigna Landsbankans, svo og vegna þess að enn hafa engar eiginlegar samningaviðræður farið fram milli deiluaðila eftir að samkomulagið var gert 16. nóvember sl.
    Það er því til mikils mælst, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að ríkisstjórnin skuli ætlast til þess að Alþingi veiti henni galopið samningsumboð til að leiða til lykta þetta mál sem getur falið í sér skuldbindingar til frambúðar fyrir íslenska ríkið svo nemi fleiri hundruðum milljarða króna á grundvelli ekki traustari gagna en enn er við að styðjast og í ljósi þess hversu málsatvik og málsaðstæður allar eru ótraustar.
    Annar minni hluti leggur því til að ríkisstjórninni verði falið að taka upp samningaviðræður við deiluaðilana að nýju á hreinu borði og leita eftir og sækja fast á um lögformlegan úrskurðarfarveg í deilumálinu og/eða samningsniðurstöðu á sanngjörnum forsendum. Í ljósi þessa leggur 2. minni hluti til að tillögunni verði vísað frá með svofelldri

RÖKSTUDDRI DAGSKRÁ:



     Með vísan til rökstuðnings hér að framan leggur 2. minni hluti til að Alþingi ákveði að aðhafast ekki frekar í málinu að svo stöddu og feli ríkisstjórninni að taka upp viðræður á nýjan leik og að málinu verði vísað frá og tekið fyrir næsta mál á dagskrá.

    Verði tillaga um rökstudda dagskrá ekki samþykkt mun koma til atkvæða varatillaga 2. minni hluta sem felur í sér skilyrta gildistöku samningsumboðs til ríkisstjórnarinnar og þá þannig að samningsumboð íslenskra stjórnvalda til að ganga til viðræðna um lausn deilunnar á grundvelli hinna umsömdu viðmiða stofnist ekki fyrr en Bretar hafa aflétt frystingu á eignum Landsbankans í Bretlandi á grundvelli hryðjuverkalaga og málin hafa skýrst hvað varðar verðmæti þeirra eigna sem til ráðstöfunar verða á móti skuldbindingunum.

Alþingi, 3. des. 2008.



Steingrímur J. Sigfússon.





Fylgiskjal I.

Lárus Blöndal og Stefán Már Stefánsson:

Ábyrgð ríkisins á innlánum.


(Morgunblaðið, 15. október 2008. Aðsent efni.)



    Í opinberri umræðu kemur fram að íslensk stjórnvöld séu langt komin að semja við Breta og Hollendinga um mörg hundruð milljarða króna skuldbindingar vegna starfsemi útibúa Landsbanka Íslands í þeim löndum. Við undirritaðir teljum nauðsynlegt að lagagrundvöllur sé skoðaður rækilega áður en slíkir samningar verða endanlegir.
    Með lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta var stofnaður sérstakur sjóður, Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta, sem er sérstök sjálfseignarstofnun. Hlutverk hans er að veita lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækja. Af aðfararorðum tilskipunar EB um innlánatryggingakerfi má draga þá meginályktun að innlánseigendur eiga að njóta jafnréttis með tilliti til greiðslna úr sjóðnum án tillits til þess hvar þeir eru búsettir innan EES.
    Greitt er úr sjóðnum ef viðskiptabanki er ekki fær um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðu. Lágmarkstrygging nemur nú rúmlega 20.000 ECU fyrir samanlögð innlán hvers innstæðueiganda. Segir í 7. gr. tilskipunarinnar að innlánatryggingakerfin tryggi að samanlögð innlán hvers innstæðueiganda séu tryggð að framangreindri fjárhæð.

A.
    Ljóst er samkvæmt framangreindu að aðildarríki tilskipunarinnar hafa tekið á sig þær skuldbindingar að koma á ákveðnu tryggingarkerfi samkvæmt skilmálum hennar. Þetta var gert hér á landi með fyrrgreindum lögum. Vegna þess hvernig greiðslum í sjóðinn er háttað, þ.e. að eign hans er miðuð við innstæðu á næstliðnu ári, gat sú staða komið upp að ekki væru til fjármunir í sjóðnum sem endurspegluðu raunmagn innstæðna á hverjum tíma.
    Við teljum að innlánstryggingarkerfin beri ábyrgð á skuldbindingum sínum með því fjármagni sem þar finnst en öðru ekki. Þessa niðurstöðu okkar byggjum við einkum á eftirfarandi:
    Við teljum augljóst að hlutverk Tryggingasjóðsins er ekki að takast á við allsherjar bankahrun eins og gerst hefur hér á landi. Ef svo hefði verið hefði þurft að greiða gífurlegar fjárhæðir inn í hann sem næmi mörgum tugum prósenta af heildarinnlánum. Styðst þessi niðurstaða við lokamálslið 24. málsgreinar aðfararorða tilskipunarinnar (en málsgreinin fjallar um fjármögnun innlánatryggingakerfa) þar sem gert er ráð fyrir að fjármögnunin megi ekki stefna stöðugleika viðkomandi bankakerfis í hættu. Því má segja að það ástand sem hér um ræðir sé eins konar force majeure tilvik.
    Ákveðnar reglur eru um inngreiðslur í sjóðinn samkvæmt lögum nr. 98/1999. Skal heildareign innstæðudeildar sjóðsins nema að lágmarki 1% af meðaltali tryggðra innstæðna í viðskiptabönkum og sparisjóðum á næstliðnu ári. Engar reglur eru um það í viðkomandi tilskipunum hvernig fjármagna eigi sjóðina. Ganga verður út frá því að þessar reglur íslenskra laga hafi verið tilkynntar viðkomandi yfirvöldum (hér Eftirlitsstofnun EFTA) í samræmi við fyrrgreinda tilskipun og er ekki kunnugt um að neinar athugasemdir hafi komið fram. Því má leggja til grundvallar að innleiðingin hafi verið rétt að þessu leyti.
    Í 3. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar er gert ráð fyrir því að lánastofnun hafi ekki fullnægt skyldum sínum og kveðið er á um aðgerðir í því sambandi. Má þá eftir atvikum útiloka viðkomandi lánastofnun frá markaðinum með skýru samþykki lögbærra yfirvalda en þá með minnst 12 mánaða fyrirvara. Ákvæðið sýnir að jafnvel þótt eitthvað hafi verið athugavert við innlánatryggingar umræddra útibúa Landsbankans á þessu ári, t.d. að skyldubundin framlög til Tryggingasjóðs hafi ekki verið greidd, hefði ekki ennþá verið unnt að koma viðurlögum í framkvæmd. Ekkert hefur hins vegar komið fram sem bendir til að eitthvað hafi verið athugavert við innlánatryggingar Landsbankans.
    Ef reglur tilskipunarinnar væru túlkaðar með þeim hætti að greiða ætti framangreindar fjárhæðir að fullu til innstæðueigenda hvernig sem á stæði gæti það bakað smáum ríkjum gífurlegar fjárhagslegar skuldbindingar sem settu fullveldisrétt þeirra í hættu. Slíkt getur hvorki verið tilgangur tilskipunarinnar né leitt af henni.
    Ábyrgð ríkissjóðs verður því ekki á því byggð að ákvæði umræddrar tilskipunar hafi verið brotin. Ábyrgð ríkisins í tengslum við fyrrgreinda tilskipun felst einungis í því að innleiða reglur um hana og að sjá að öðru leyti um að staðið sé við skuldbindingar samkvæmt tilskipuninni. Hafi vanhöld orðið á því getur ríkið orðið skaðabótaskylt ef reglunum um bótaábyrgð er að öðru leyti fullnægt. Ábyrgð ríkisins nær hins vegar ekki lengra en þetta. Þá er og athyglisvert að hvergi er í tilskipuninni kveðið á um sérstaka ábyrgð aðildarríkjanna á skuldbindingum Tryggingasjóðsins. Má ætla að slík ábyrgð hefði komið skýrt fram ef stefnt hefði verið að henni.

B.
    Með lögum um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. var gerð breyting á 10. gr. fyrrgreindra laga nr. 98/1999 og innleitt ákvæði sem segir efnislega að krafa Tryggingasjóðs njóti rétthæðar sem forgangskrafa. Svipuð breyting var gerð með fyrrgreindum lögum á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki þannig að við gjaldþrot fjármálafyrirtækis verða kröfur vegna innstæðna forgangskröfur. Líta má svo á að umrædd lagasetning eigi við um alla innlánseigendur hér á landi svo og innlánseigendur útibúa íslenskra fjármálafyrirtækja erlendis. Lagasetning af þessu tagi, sem kemur í raun með afturvirkum hætti á nýrri skipan að því er varðar rétthæð krafna, veldur vandkvæðum. Hún bætir augljóslega stöðu sumra kröfuhafa á kostnað annarra. Skoða verður sérstaklega hvort hún brjóti í bága við meginreglur laga um réttaröryggi og réttmætar væntingar og hverjar séu afleiðingar ef svo er. Reglur af þessu tagi má hugsanlega réttlæta með skírskotun í neyðarrétt, þ.e. að þær séu nauðsynlegar til að forðast stórfelldan efnahagslegan vanda í íslensku þjóðfélagi.

C.
    Íslenska ríkið hefur í hyggju að greiða íslenskum innlánseigendum fjárhæðir til að tryggja innstæður þeirra. Taki ríkið á sig slíkar skuldbindingar og greiði úr ríkissjóði myndu þær greiðslur vera umfram skyldur íslenska ríkisins í þeim tilgangi að tryggja að unnt væri að starfrækja innlenda innlánastarfsemi í framtíðinni og til að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Slíkar greiðslur koma EES-samningnum í raun réttri aðeins óbeint við enda myndu þær ekki fara fram á gildissviði hans nema í undantekningartilvikum. Evrópskar skuldbindingar felast aðeins í þeim Tryggingasjóðum sem að framan eru nefndir og þeim reglum sem um þá gilda. Þær reglur snerta einkavædda banka og Tryggingasjóð sem er sjálfstæð stofnun en ekki íslenska ríkið. Þær ráðstafanir sem ríkið gerir til að halda uppi efnahagslegum stöðugleika í framhaldi af því eru því annars eðlis. Hefði ríkið hins vegar breytt lögum um Tryggingasjóð með þeim hætti að innlánseigendum hefði verið mismunað eftir búsetu kynni slíkt að brjóta í bága við reglur EES-samningsins.

D.
    Meginniðurstöður okkar eru eftirfarandi:
    Ekki hvílir nein ábyrgð á ríkissjóði vegna stöðu innstæðna í Tryggingasjóðnum.
    Lagabreyting sem gerir ráð fyrir að innlánskröfur verði forgangskröfur getur staðist ef hana má réttlæta með skírskotun í neyðarrétt.
    Greiðslur sem ríkið tekur á sig að inna af hendi til innstæðueigenda hér á landi falla almennt utan gildissviðs EES-samningsins nema í undantekningartilvikum.


Fylgiskjal II.

Pétur Blöndal:

Ábyrgð, milljarðar og íslensk þjóð.


(Morgunblaðið, 16. október 2008. Pistlar.)



    Ekki er langt síðan allt logaði í illdeilum á Íslandi út af ríkisábyrgð fyrir Íslenska erfðagreiningu, en til stóð að ríkið ábyrgðist breytanleg skuldabréf upp á 200 milljónir dala, en þá voru það tæpir 15 milljarðar!
    Gagnrýnin fólst meðal annars í því að aðgerðir ríkisvaldsins ættu að vera almennar, en ekki ætti að veita einstökum fyrirtækjum stuðning eða fyrirgreiðslu, ekki frekar en öðrum fyrirtækjum, svo sem bönkum!
    Og 15 milljarðar eru há fjárhæð fyrir fámenna þjóð í norðri, þrátt fyrir að nú tíðkist ekki að tala um milljarða nema í hundruðum. Það er umhugsunarefni að engar deilur fóru fram um að íslensk þjóð ábyrgðist innistæður á erlendri grund upp á hundruð milljarða. Ekki fékkst heldur sérstök heimild hjá þinginu og málið kom ekki til umræðu þar.
    Auðvitað hefur komið til tals í gegnum tíðina að ríkið myndi standa á bak við bankana. Fyrst var talað um að þeir væru of fyrirferðarmiklir í íslensku efnahagslífi til þess að ríkið leyfði þeim að „bregðast“, en svo snerist umræðan um að þeir væru of stórir til að ríkið gæti komið þeim til bjargar. En alltaf var talað eins og Íslendingar ættu val um hvort þeir hlypu undir bagga eða ekki.
    Stefán Már Stefánsson prófessor og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður taka undir slík sjónarmið í Morgunblaðinu í gær. Þar telja þeir nauðsynlegt að lagagrundvöllur verði skoðaður gaumgæfilega áður en ríkið taki á sig ábyrgðir upp á hundruð milljarða. Þeir færa rök fyrir því að ríkisvaldinu beri að koma á tryggingarkerfi fyrir innistæðueigendur og fjárfesta, en að „augljóst“ sé að slíku kerfi sé ekki ætlað að takast á við allsherjar bankahrun, eins og gerst hafi hér á landi. Þvert á móti beri tryggingarkerfin ábyrgð á skuldbindingum sínum með því fjármagni sem þar finnst en öðru ekki. Vilji stjórnvöld tryggja innistæður íslenskra sparifjáreigenda umfram það með greiðslum úr ríkissjóði, þá falli það utan gildissviðs EES-samningsins, og komi því ekki breskum eða hollenskum sparifjáreigendum við.
    Eru ekki örugglega fyrirvarar í þeim samningum sem unnið er að um að ábyrgjast hundruð milljarða á erlendri grund? Þarf ekki lýðræðislega umræðu áður en tekin er ákvörðun um að leggja svo þunga byrði á komandi kynslóðir? Og hver er réttlætingin fyrir því að íslensk þjóð, sem berst fyrir tilveru sinni eftir gjaldþrot bankanna, ábyrgist líka tap stórþjóða í Evrópu?
    Það heyrist að Íslendingum sé stillt upp við vegg. IMF eða Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn neiti að koma inn nema samið hafi verið við Breta og Hollendinga. Og Rússar neiti að lána Íslendingum nema IMF komi inn. Fyrir vikið eigi Íslendingar enga aðra kosti.
    Ef það er rétt, þá minna afarkostirnir á Versalasamningana sem gerðir voru við Þjóðverja eftir fyrri heimsstyrjöldina. Og er þar þó ólíku saman að jafna – nú hefur ekkert blóð runnið.


Fylgiskjal III.

Þórður Snær Júlíusson:

Að bjóða hæst og fá sem flesta.
(Morgunblaðið, 16. október 2008. Viðskiptablað.)

    Icesave-reikningar Landsbankans voru fyrst kynntir í Bretlandi 10. október 2006. Um var að ræða óbundnar sparisjóðsbækur sem einungis var hægt að millifæra inn og út af í netbanka. Icesave bauð hæstu innlánsvexti sem þá buðust í Bretlandi á óbundnum reikningum, 5,2 prósent, og fékk mjög mikla umfjöllun sem svokallað „best buy“ á innlánamarkaði. Það þarf því ekki að koma á óvart að Bretar flykktust með sparifé sitt inn á reikninga Icesave og tíu þúsund reikningar voru stofnaðir fyrsta mánuðinn.

Útibú, ekki dótturfélag.
    Icesave var útibú frá Landsbankanum en tilheyrði ekki dótturfélagi. Þannig var Icesave einn af fáum aðilum sem tóku við innlánum í Bretlandi sem notuðu sér heimild á grundvelli EES-samningsins sem gerði bönkum kleift að stofna útibú hvar sem er innan aðildarríkja hans.
    Útibú heyra hins vegar undir innlánstryggingakerfi heimalands banka, í þessu tilfelli Íslands. Það þýðir að ef bankinn fer í þrot þarf íslenskur tryggingasjóður innistæðueigenda að greiða hverjum og einum þeirra allt að 20.887 evrur, eða um þrjár milljónir króna. Ef Icesave hefði verið í dótturfélagi, líkt og Kaupþing Edge var í Bretlandi, þá félli það á tryggingakerfi Breta að greiða ábyrgðir á innistæðum. Ísland hefði þá ekki þurft að greiða eina krónu vegna Icesave.

Verða fleiri en Íslendingar.
    Áhrif Icesave á heildarinnlán Landsbankans urðu samstundis greinileg enda jukust þau um 104 prósent á árinu 2006. Viðskiptavinum Icesave fjölgaði mjög hratt eftir þetta og voru orðnir um 63 þúsund talsins í byrjun mars 2007. Í árslok hafði fjöldinn aftur tvöfaldast og var 128 þúsund.
    Um miðjan janúar á þessu ári var ákveðið að bjóða breskum almenningi upp á nýjan skattfrjálsan innlánsreikning sem kallaðist Icesave Isa. Þar voru greiddir 6,1 prósent vextir af innlánum eða bestu mögulegu vaxtakjör sem buðust á reikningum sem þessum í Bretlandi. Um þetta leyti var íslenska Fjármálaeftirlitið (FME) farið að þrýsta á að Icesave reikningarnir yrðu settir inn í dótturfélög í Bretlandi vegna þess að því þótti innistæðurnar orðnar allt og háar.
    Í lok apríl voru viðskiptavinir Icesave orðnir 220 þúsund talsins og hafði þá fjölgað um tæplega hundrað þúsund á fjórum mánuðum. Á þessum tíma höfðu átt sér stað viðræður milli FME, Landsbankans og breska fjármálaeftirlitsins um að Icesave-innistæðurnar yrðu færðar undir dótturfélag. Bretarnir fóru fram á að eignir yrðu færðar til Bretlands til móts við skuldir. Landsbankinn taldi sig ekki geta orðið við þessu innan þess tímaramma sem bankanum var settur.
    Þess í stað opnaði bankinn Icesave útibú í Hollandi og bauð sem fyrr betri innlánsvexti en keppinautar hans. Fjórtán þúsund manns opnuðu reikninga fyrstu vikuna sem Icesave starfaði í Hollandi. Við kynningu á hálfsársuppgjöri Landsbankans um mitt þetta ár sagði Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, að viðskiptavinir Icesave væru orðnir 350 þúsund, eða fleiri en allir Íslendingar. Í tilkynningu frá bankanum vegna þessa sagði að bankinn myndi halda áfram að styrkja hlutfall innlána í fjármögnun sinni og að Icesave í Hollandi auðveldaði bankanum að sækja inn á fleiri markaði.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Áhrif Icesave á Ísland.
    FME tók yfir rekstur Landsbankans þann 7. október. Í kjölfarið fór Icesave í greiðsluþrot og því ljóst að tryggingasjóðir þyrftu að greiða út hluta af innistæðum fólks í bankanum. Eftir að misvísandi skilaboð höfðu borist frá íslenskum ráðamönnum um hvort staðið yrði við þessar skuldbindingar ákváðu bresk yfirvöld að beita hryðjuverkalögum gegn Íslandi, fyrst allra vestrænna ríkja, og frysta allar eignir Landsbankans í Bretlandi. Í kjölfarið hófst milliríkjadeila sem meðal annars er talin hafa haft mikil áhrif á að Kaupþing banki fór í þrot. Íslenskir ráðamenn hafa síðan lýst því yfir afdráttarlaust að Ísland muni standa við skuldbindingar sínar vegna Icesave.
    Árni Mathiesen fjármálaráðherra gekk svo frá samkomulagi við hollensk stjórnvöld um síðustu helgi þar sem Íslandi er veitt lán upp á 1,1 milljarð evra, 165 milljarða króna, til að gera upp við hollenska viðskiptavini Icesave. Sambærilegt samkomulag hefur verið gert við Breta þó að enn eigi eftir að skrifa undir. Það felur í sér að breska ríkið lánar því íslenska allt að þremur milljörðum evra, 450 milljarða króna, til að gera upp við innistæðueigendur. Ísland mun síðan greiða bæði lánin til baka með sölu eigna Landsbankans. Ef sala þeirra dugar ekki til mun afgangurinn lenda á ríkissjóði og eigendum hans, almenningi í landinu. Þessu til viðbótar var tilkynnt um það í vikunni að Englandsbanki ætlaði að lána þrotabúi gamla Landsbankans um nítján milljarða króna til að endurgreiða Bretum innistæður sínar.

615 milljarðar króna.
    Samanlögð skuld Íslands vegna Icesave er um 615 milljarðar króna. Hún lækkar síðan í takt við það hversu mikið tekst að selja af eignum Landsbankans. Ýmsir lögmenn hafa dregið í efa að ábyrgð íslenska ríkisins á innlánum í útibúum íslenskra banka á EES-svæðinu sé með þeim hætti að Íslandi beri að skuldbinda sig til greiðslu á hundruðum milljarða króna. Yfirlýsingar ráðamanna þjóðanna og samningsgerð við Hollendinga og Breta benda þó eindregið til þess að Ísland ætli að taka á sig þær skuldbindingar.

Icesave-lánin lánuð


    Hlutfall innlána viðskiptavina Landsbankans af útlánum til annarra viðskiptavina var 63 prósent í lok júní.
    Halldór J. Kristjánsson, fráfarandi bankastjóri Landsbankans, sagði í viðtali við Morgunblaðið hinn 9. október síðastliðinn að þeir peningar sem komu inn á Icesave-reikninganna hefðu verið notaðir til útlána í Bretlandi þar sem Landsbankinn hefði verið stór þátttakandi í atvinnulífinu.
    Eitt þeirra fyrirtækja sem Landsbankinn lánaði fé vegna fjárfestinga sinna erlendis var Baugur. Eina opinbera tilboðið sem hefur verið gert í eignir Landsbankans var einmitt gert í skuldir Baugs við bankann. Það var Phillip Green sem bauð fimm prósent af heildarandvirði skuldanna. Því tilboði var ekki tekið.

Duga eignir bankans?

    Bæði Geir H. Haarde forsætisráðherra og Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hafa ítrekað látið hafa eftir sér að þeir vonist til þess að sala eigna Landsbankans muni duga fyrir þeim ábyrgðum sem íslenska þjóðin hefur tekið á sig vegna Icesave.
    Þegar Morgunblaðið spurði FME hverjar þessar eigur væru og hvert áætlað andvirði þeirra væri sagðist það ekki ræða eignasafn einstakra fjármálafyrirtækja, en að verðmæti eigna Landsbankans lægi ekki endanlega fyrir. Í svari FME segir síðan að rétt sé „að hafa í huga að aðstæður á mörkuðum, og þar með talið verðmæti eigna, hafa gjörbreyst, bæði almennt og þegar litið er til þess að um er að ræða fyrirtæki sem í dag er í takmörkuðum rekstri miðað við það sem áður var“.
    Eignir Landsbankans voru metnar á tæpa 4.000 milljarða íslenskra króna um mitt þetta ár. Þar af voru útlán bankans 2.571 milljarður króna eða um 66 prósent af eignum bankans. Leiða má líkur að því að stór hluti þessara lána hafi verið veittur gegn veði í þeim eignum sem viðskiptavinir voru að kaupa. FME hefur staðfest að við markaðsaðstæður á borð við þær sem eru í dag liggi beint við að verðmæti eigna rýrni, og þar með fáist minna fyrir veð lánanna standi skuldarar ekki við afborganir.
    Á meðal hlutdeildarfélaga Landsbankans voru mörg fyrirtæki sem þjónusta fjármálalífið á borð við Kreditkort hf., Reiknistofa bankanna, Intrum hf. og Lánstraust hf. Þá átti Landsbankinn nokkur dótturfélög og þar á meðal stórar eignir erlendis. Fyrst ber að nefna Heritable Bank í Bretlandi, en búið er að færa allar innistæður hans yfir í hollenska bankann ING Direct eftir hrun Landsbankans. Þá frystu bresk stjórnvöld allar eigur bankans. Landsbankinn átti einnig Securities Limited og Landsbanki Kepler að fullu og 84 prósenta hlut í Merrion Landsbanka. Þessar þrjár eignir voru seldar Straumi-Burðarási fyrir 398 milljónir evra, eða tæpa 60 milljarða króna, nokkrum dögum áður en Landsbankinn fór í þrot. Félög tengd feðgunum Björgólfi Thor Björgólfssyni og Björgólfi Guðmundssyni áttu Landsbankann og eiga Straum. Straumur ákvað síðar að rifta kaupsamningnum eftir þjóðnýtingu Landsbankans. Þá er ótalinn Landsbankinn í Lúxemborg sem hefur verið settur í greiðslustöðvun og fjármálaeftirlitið í Lúxemborg hefur tekið yfir. Alls óvíst er hvað verður um þá starfsemi og því óljóst hvort hægt sé að selja hana úr þrotabúi Landsbankans.

Brást eftirlit með bönkum?

    FME hefur sagt að viðræður við Landsbankann um að færa Icesave undir dótturfélag í Bretlandi hafi staðið yfir „mestan part þessa árs“. Um nokkrar leiðir hafi verið að ræða sem unnið hafi verið að með breskum yfirvöldum.
    Einu föstu atriðin sem nefnd hafa verið sem bankinn þurfti að standa við voru yfirfærsla eigna til dótturfélagsins til jafns við þau innlán sem höfðu safnast saman á Bretlandi.
    Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, sagði í viðtali við Morgunblaðið í síðustu viku að bankinn hefði ekki talið sig fá eðlilegar forsendur hjá breskum yfirvöldum til að geta orðið við þeim kröfum sem settar voru.
    Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra bætti við á blaðamannafundi í síðustu viku að „þeir [FME] geta ekki bannað íslensku bönkunum að standa í einhverri starfsemi sem felst í bankaleyfi þeirra. Þá þyrftu þeir að svipta bankann bankaleyfi“.
    Í lögum um fjármálafyrirtæki frá árinu 2002 er sérstaklega fjallað um stofnun útibúa. Í 36. grein laganna segir að FME geti bannað stofnun útibúa „ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða hlutaðeigandi fjármálafyritækis sé ekki nægilega traust“.
    Því liggur fyrir að lögin segja ekki að FME eigi að veita leyfi, en hins vegar þarf að tilkynna eftirlitinu starfsemina áður en hún hefst og eftirlitið hefur leyfi til að banna hana. FME hefur sagt að það hafi ekki haft réttmætar ástæður til að banna starfsemi útibúa Landsbankans. Þá taldi eftirlitið ekki heldur réttmætar ástæður liggja fyrir til að banna starfsemi Icesave í Hollandi þegar hún hófst fyrir rúmum fjórum mánuðum.



Fylgiskjal IV.

Steinþór Guðbjartsson:

Ekki kveðið á um ábyrgð ríkisins.


(Morgunblaðið 22. október 2008. Innlendar fréttir.)



Tilskipunin sem lögin um Tryggingasjóð byggist á þungamiðjan í málinu.


         „Tilskipunin, sem lögin um Tryggingasjóð byggist á, kveður ekki á um ábyrgð ríkisins, ef hún er framkvæmd réttilega,“ segir Stefán Már Stefánsson prófessor.
    Á hádegisverðarfundi Orators í gær flutti Stefán Már Stefánsson erindi um neyðarlögin og EES-samninginn, skyldu ríkisins vegna EES-samningsins og þar á meðal skyldu ríkisins til efnda á inneignum bankanna erlendis.
    Í umræðum kom fram að svo virtist sem tilskipunin væri þungamiðjan í málinu, þótt hún hefði ekki verið mikið í umræðunni.
    Stefán Már sagði að tilskipunin skipti mjög miklu máli, því ef hún hefði ekki verið lögleidd eða framkvæmd réttilega gæti ríkið borið skaðabótaábyrgð.
    Í lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta (lög 98/1999) segir m.a.: „Nú hrökkva eignir viðkomandi deildar sjóðsins ekki til þess að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna, verðbréfa og reiðufjár í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum og skal þá greiðslu úr hvorri deild skipt þannig milli kröfuhafa að krafa hvers þeirra allt að 1,7 millj. kr. er bætt að fullu en allt sem umfram er þessa fjárhæð skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir hvorrar deildar hrökkva til. Fjárhæð þessi er bundin við gengi evru (EUR) miðað við kaupgengi hennar 5. janúar 1999. Sjóðurinn verður ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt tjón kröfuhafa hafi ekki verið bætt að fullu. Hrökkvi eignir sjóðsins ekki til og stjórn hans telur til þess brýna ástæðu er henni heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum.“ Spurt var hvort þessi heimild skipti ekki máli við ríkjandi aðstæður.

Heimildarákvæði
    Stefán Már sagði að hann liti á þetta sem heimildarákvæði. Eðlilegt væri að sjóðurinn tæki lán til að brúa lítið bil, en þetta tæki ekki á bankahruninu. Hins vegar sagðist hann telja að það væri grundvöllur fyrir bótaábyrgð ríkisins, ef ekki hefði verið greitt í sjóðinn samkvæmt því kerfi sem íslensk lög segðu fyrir um.

Í hnotskurn.
» Tryggingarsjóður er sjálfseignarstofnun.
» Í lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta segir að heildareign verðbréfadeildar Tryggingarsjóðsins skuli að lágmarki nema 100 milljónum króna. Heildareign innstæðudeildar skal að lágmarki nema 1% af meðaltali tryggðra innstæðna á næstliðnu ári.



Fylgiskjal V.

Magnús Ingi Erlingsson:

Breytt staða í Evrópu og á Íslandi.
(Morgunblaðið, 3. nóvember 2008. Aðsent efni. )


Réttarstaða ríkisins vegna beitingar breskra hryðjuverkalaga og
hugleiðingar um íslenska viðskiptahagsmuni í breyttri Evrópu.

    Aðild Íslendinga að sambandinu með EES-samningnum á meðal annars að tryggja að við séum öruggari innan um Evrópuþjóðirnar m.a. vegna þess að hagsmunir landanna eru sameiginlegir og samtvinnaðir. Það var tilgangur með stofnun Evrópusambandsins. Í Financial Times 23. október sl. bendir Philip Stephens á að hnattvæðing og hin nýja þjóðernisstefna stangist á. Bendir hann á að hagfræði og fjármál geti verið hnattvædd en stjórnmálin eru á hinn bóginn staðbundin. „Economics and finance may be global, but politics is still local.“ Beiting Breta á hryðjuverkalögum sýnir að öryggi okkar Íslendinga í Evrópu á grundvelli aðildar okkar með EES-samningnum er ekki borgið. Við stöndum ein gagnvart Evrópusambandinu og verðum að bjarga okkur sjálf til þess að koma í veg fyrir gjaldþrot landsins vegna aðgerða Breta sem beinast gegn íslenskum viðskiptahagsmunum. Þá baráttu hefur íslenska ríkisstjórnin og Seðlabankinn háð bæði innanlands- og á alþjóðavettvangi síðustu vikur.
    Breskir lögmenn telja að bresk stjórnvöld hafi brotið bresk lög um (mis)beitingu opinbers valds (misfeasance in public office and negligence). Fleiri brot koma hér til greina á EES-samningnum, t.a.m. almennt ákvæði 3. gr., 40. gr. um frjálsa fjármagnsflutninga og almennt ákvæði um beitingu öryggisráðstafana aðildarríkis vegna hættu eða ógnar, skv. 112. gr. samningsins.
    Bæði Landsbanki og Kaupþing banki störfuðu á grundvelli EES-samningsins og útibú Landsbankans í Bretlandi var starfrækt undir eftirliti breskra fjármálaeftirlitsins. Bresk stjórnvöld héldu því fram að íslensk stjórnvöld myndu færa lögsögu sína yfir Icesave-reikningum með því að lána bankanum fjárhæðir til þess að uppfylla tryggingaskyldu sína í Bretlandi. Ég tel að þetta sé röng staðhæfing. Rökstuðningur fyrir þeirri skoðun er að:
    Lögsaga breska fjármálaráðuneytisins tekur til lánastofnana sem starfræktar eru þar í landi. Þar á íslenska fjármálaeftirlitið ekki aðild nema með eftirliti með starfsemi móðurfyrirtækisins hér á landi. Lögsaga breska ríkisins tekur til starfsemi fyrirtækja innan breskrar lögsögu – bresks landsvæðis, það eitt fer með lögsögu innan ríkisins. Íslenska ríkið á enga lögsögu í Bretlandi. Ábyrgð þess vegna innlánsreikninga þar í landi kemur til af samningsskuldbindingu vegna EES-samningsins samkvæmt tilskipun sem tryggir lágmarksábyrgð innlánsreikninga lánastofnana sem starfa á grundvelli hans. Ábyrgð breskra stjórnvalda er að mínu mati hér bæði ótvíræð og skýr. Það var skylda breska fjármálaeftirlitsins að krefjast þess af Landsbanka að lagðar yrðu fram tryggingar vegna umfangs starfsemi bankans í Bretlandi en viðræður um það efni höfðu staðið yfir, og jafnframt var það á ábyrgð bankans að leggja þær fram. Að blanda íslenska ríkinu eða Seðlabankanum inn í þær umræður á að mínu mati ekki stoð í skuldbindingu skv. EES-samningnum þar sem lágmarksvernd hans er og hefur verið uppfyllt með yfirlýsingum íslenskra stjórnvalda og íslenska ríkið er ekki skuldbundið að þjóðarrétti til að ganga lengra en sú sameiginlega löggjöf leggur því á herðar. Landsréttir landanna, þ.e. Íslands og Bretlands, marka því réttarstöðuna á stöðu eigenda innlánsreikninga þegar skuldbindingu skv. EES-samningnum sleppir.
    Með beitingu hryðjuverkarlaga Breta var traust á stjórnvöldum og íslenskum fyrirtækjum þurrkað út á erlendum vettvangi og viðskipti við landið lömuðust. Hökt hefur verið á gjaldeyrisviðskiptum við landið. Á því tjóni bera bresk stjórnvöld ábyrgð skv. skaðabótareglum Evrópusambandsins og EES-samningsins sem þróast hafa fyrir tilstilli dómafordæma Evrópu- og EFTA-dómstólsins.
    Aðild að Evrópusambandinu hefði litlu skipt við þessar aðstæður. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefði varla gripið til aðgerða gagnvart þessum brotum við þær aðstæður úr því að hún greip ekki til aðgerða þegar í stað eftir þennan atburð. Aðild að Seðlabanka Evrópu, og upptaka evru, hefði einnig engu breytt þar sem hann er ekki þrautavaralánveitandi gagnvart bönkum sambandslandanna.
    Það virðist því vera staðreynd að þegar að kreppir í Evrópu hugsi þjóðir innan Evrópusambandsins fyrst og fremst um eigin hag. Frændur vorir á Norðurlöndum hafa á hinn bóginn rétt okkur hjálparhönd.
    Óbreytt reglukerfi Evrópusambandsins, Rómarsáttmáli og EES-samningurinn veitir hvorki efnahagslegt – né hernaðarlegt öryggi gegn efnahagsárásum. Sameiginleg viðskiptalöggjöf er þó til bóta vegna alþjóðastarfsemi fyrirtækja Íslendinga en í okkar tilviki varð hún réttlæting fyrir pólitískri efnahagsárás. Umræða um Evrópusambandsaðild við þessar aðstæður er að mínu mati tímaskekkja. Stjórnmálamenn þurfa að ræða hvaða úrræði við höfum til varnar nýrri og breyttri ógnun heimsfriðar í heimi alþjóðaviðskipta, sem rætur á að rekja til stjórnmála-, hefndar- eða efnahagslegra ástæðna. Verður það gert með tvíhliða milliríkjasamningum eða með viðskiptalöggjöf, hugsanlega samnorrænni eða tekst Evrópusambandinu og EES-samningnum að halda velli?



Fylgiskjal VI.

Dómstólaleiðin greið.


(Morgunblaðið, 7. nóvember, 2008. Innlendar fréttir.)



    Diana Wallis, varaforseti Evrópuþingsins, harmar framgöngu Breta í garð Íslendinga vegna Icesave.
    „Ég hef heyrt þennan orðróm líka, en veit ekki hvort það er fótur fyrir honum,“ segir Diana Wallis, þingmaður og varaforseti Evrópuþingsins, í samtali við Morgunblaðið. Vísar hún þar til frétta þess efnis að embættismenn ESB hafi gefið í skyn við íslenska þingmenn að lagst verði gegn lánum til Íslands meðan deila landanna vegna Icesave-reikninganna sé óútkljáð.
    „Sé þessi orðrómur réttur yrði ég fyrir miklum vonbrigðum því ég er þeirrar skoðunar að aðgerðir Breta gegn Íslendingum í nafni hryðjuverkalaga hafi aðeins gert vonda stöðu verri,“ segir Wallis og tekur fram að nú sé tími fyrir samstöðu Evrópuríkja.
    Hvorki Alan Seatter, fulltrúi framkvæmdastjórnar ESB, né Natasha Butler, fulltrúi ráðherraráðs ESB, vildu í samtölum við Morgunblaðið staðfesta frásögn íslensku þingmannanna.
    Í samtali við Morgunblaðið hvetur Wallis íslensk stjórnvöld til þess að fara með deiluna um Icesave-reikninga dómstólaleiðina. „Mér skilst að íslensk stjórnvöld hafi þegar boðið breskum stjórnvöldum að fara með málið fyrir Evrópudómstólinn en Bretar hafnað því. Væri ég í sporum íslenskra ráðamanna væri ég ekki smeyk við að fara með málið fyrir breska dómstóla, enda eru þeir ekki hræddir við að dæma eigin stjórnvöldum í óhag.“