Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 161. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 264  —  161. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Frá 1. minni hluta utanríkismálanefndar.


    Í umfjöllun um málið kallaði utanríkismálanefnd fulltrúa forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Seðlabanka Íslands á sinn fund. Um þá gesti sem nefndin hefur fengið á fund sinn og almenna lýsingu á efni tillögunnar vísar 1. minni hluti til umsagnar meiri hluta nefndarinnar.
    Fyrsti minni hluti telur að miðað við hvernig komið var í efnahagsmálum landsins eftir bankahrunið í byrjun október hafi verið rétt af hálfu stjórnvalda að leita eftir samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. 1. minni hluti telur að jafnvel hafi verið efni til þess að leita eftir samstarfinu fyrr, enda hefur komið fram að ríkisstjórnin hafi í nokkurn tíma verið vöruð við vægast sagt ótryggri stöðu bankakerfisins.
    Fyrsti minni hluti átelur hins vegar hvernig stjórnvöld hafa staðið að málinu og telur alvarlegt hvernig Alþingi hefur verið sniðgengið. Þetta mikilvæga mál mun fyrirsjáanlega hafa víðtæk áhrif á öll svið íslensks samfélags og á þróun þess á næstu árum og áratugum. Samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er eitt stærsta mál sem komið hefur til kasta þingsins. Sú efnahagsáætlun og þær aðgerðir sem lagðar eru til grundvallar í áætlun ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans hafa nú þegar og til framtíðar mikil áhrif á samfélag okkar. Lítið má út af að bera til þess að há skuldsetning og þung endurgreiðslubyrði sem leggst á ríkissjóð sligi heimili landsins og fyrirtæki. Hættan er sú að við missum ungu kynslóðina úr landi líkt og gerðist í fjármálakreppunni í Færeyjum á 10. áratug síðustu aldar. Því er afar brýnt að vel sé á málum haldið en framganga ríkisstjórnarinnar hingað til er ekki traustsvekjandi. Virðingarleysi fyrir þinginu hefur verið með eindæmum og upplýsingagjöf í molum.
    Í aðdraganda málsins og meðan á samningaviðræðum stóð við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hefur Alþingi ekki átt lýðræðislega aðkomu að málum. Ríkisstjórnin hefur haldið mikilli leynd yfir samningaviðræðunum en inn í þær fléttaðist dæmalaust ferli þar sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar kepptust við að lýsa því yfir að engin tengsl væru á milli fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og lausnar svokallaðrar Icesave-deilu við Breta og Hollendinga. Ríkisstjórnarflokkarnir á Alþingi og lykilstofnanir framkvæmdarvaldsins komu þessu máli í hnút þegar afgreiðslu stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var ítrekað frestað vegna krafna viðsemjenda um að fyrst yrði samið um lausn vegna Icesave-ábyrgða.
    Eftir að ríkisstjórnin náði samkomulagi við sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðins var leyndinni gagnvart þinginu ekki aflétt. Meira að segja í utanríkismálanefnd, þar sem fullur trúnaður ríkir, neitaði ríkisstjórnin að leggja fram samkomulagið þrátt fyrir lögboðið samráð við nefndina um öll meiri háttar utanríkismál. Leynd stjórnvalda á samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var fyrst aflétt eftir að dagblaðið DV hafði birt hluta skilyrðanna.
    Í dag stendur þingið frammi fyrir orðnum hlut sem ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa nú þegar staðfest með undirritun sinni. Nú er Alþingi ætlað að staðfesta orðinn hlut með þingsályktun sem í raun er þegar komin til framkvæmdar að nokkru innan stjórnsýslunnar. Með þessari framkomu hefur ríkisstjórnin sýnt yfirgang gagnvart löggjafarvaldinu. 1. minni hluti gagnrýnir þessi ólýðræðislegu vinnubrögð af hálfu framkvæmdarvaldsins og lýsir fullri ábyrgð á hendur stjórnarmeirihlutans á Alþingi.
    Við afgreiðslu þessa máls hefur verið kallað eftir upplýsingum en heildaryfirsýn skortir sárlega. Stjórnvöld hafa ekki látið meta efnahagshorfur og ný þjóðhagsspá hefur ekki verið birt sem tekur mið af gjörbreyttum aðstæðum á Íslandi eftir hrun bankakerfisins. Ómögulegt hefur reynst að fá fram tölulegar upplýsingar um hvernig til standi að nýta þau lán sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og samstarfsaðilar hans við björgun Íslands hafa boðið fram, hvenær þau verði tekin og hvernig þau verði endurgreidd.
    Þrátt fyrir að rétt hafi verið að leita eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, miðað við hvernig komið var í efnahagsmálum eftir bankahrunið í byrjun október, hefur framkvæmdarvaldið með vítaverðri framkomu sett Alþingi í þá stöðu að mjög erfitt er að átta sig til hlítar á efnisþáttum og afleiðingum þessa samkomulags um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Með vísan til framangreinds rökstuðnings mun 1. minni hluti sitja hjá við endanlega afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. des. 2008.Magnús Stefánsson.