Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 161. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Prentað upp.

Þskj. 265  —  161. mál.
Fylgiskjöl.Nefndarálitum till. til þál. um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Frá 2. minni hluta utanríkismálanefndar.    Þingsályktunartillaga þessi er svohljóðandi: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta áform um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á grundvelli fyrirliggjandi viljayfirlýsingar íslenskra stjórnvalda.“
    Í athugasemdum við tillöguna kemur fram að viðræður fulltrúa Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um „fyrirkomulag samstarfsins“ hafi staðið yfir „um nokkurt skeið“. Einnig kemur fram að unnið hafi verið „ítarleg efnahagsáætlun“ sem hafi þrjú meginmarkmið: „Í fyrsta lagi að endurvekja traust á íslenskum efnahag og ná stöðugu gengi krónunnar með markvissum og öflugum aðgerðum, í öðru lagi að styrkja stöðu ríkissjóðs og í þriðja lagi að endurreisa íslenskt bankakerfi.“
    Athygli vekur að í svokallaðri „efnahagsáætlun“ stjórnvalda sem kveðið er á um í þessari þingsályktunartillögu er ekki minnst einu orði á heimilin í landinu né heldur íslenskt atvinnulíf. Má enda ljóst vera að aðgerðaáætlun sú og þeir skilmálar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn krefst af íslensku þjóðinni, í „samstarfi“ við ríkisstjórnina, eru ekki endilega til þess fallin að tryggja öryggi, velsæld og atvinnustig á Íslandi heldur fyrst og fremst að aðstoða erlenda fjármagnseigendur að halda sínum hlut. Gjaldeyriskreppan svokallaða er í fyrirrúmi en sú kreppa sem ríður nú yfir heimilin í landinu og atvinnulíf er hunsuð og jafnvel gerð verri viðureignar. Leiða má líkur að því að þær tröllvöxnu skuldabyrðar sem þessu láni fylgja, og þeir skilmálar sem fyrirgreiðslunni eru settir, geri íslensku samfélagi mun erfiðara og sársaukafyllra um vik að vinna sig út úr þeirri kreppu sem nú herðir að heimilum landsmanna og atvinnulífi.

Vanvirðing við þing og þjóð og afdrifaríkar afleiðingar.
    Ekki þarf að að fara mörgum orðum um þær efnahagsþrengingar sem Íslendingar standa nú frammi fyrir. Horfurnar eru einhverjar þær verstu sem nokkru sinni hafa blasað við þjóðinni eftir að hún endurheimti sjálfstæði sitt.
    Við slíkar aðstæður er það frumskylda stjórnvalda að halda þjóð og þingi vel upplýstu um staðreyndir og gang mála, leita víðtæks samráðs á opinberum vettvangi um stórar ákvarðanir sem hafa afleiðingar langt inn í framtíðina og fylgja í einu og öllu lýðræðislegum, opnum og gagnsæjum vinnubrögðum við ákvarðanatöku. Í þessum efnum hafa stjórnvöld alfarið brugðist og með pukri og leynd leitt þjóðina inn í öngstræti þess eina úrræðis sem boðið hefur verið upp á – áframhaldandi skuldsetningu upp á annað þúsund milljarða í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og skilmála hans.
    Með því að ganga að þeim skilmálum sem þessi þingsályktunartillaga ber með sér hneppa stjórnvöld íslensku þjóðina í sársaukafulla skuldafjötra og gangast inn á skilyrði á borð við vaxtahækkanir, niðurskurð á útgjöldum hins opinbera og önnur pólitísk skilyrði sem ganga beinlínis gegn hagsmunum þjóðarinnar. Þessu tengd er alhliða uppgjöf ríkisstjórnarinnar fyrir Evrópusambandinu í nauðasamningum sem snúa að ábyrgð íslenska ríkisins á Icesave-reikningum Landsbankans. Þar með er íslenskri alþýðu gert að borga dýrum dómum fyrir áhættufíkn auðvaldsins og ábyrgðarleysi íslenskra stjórnvalda. Öll vinnubrögð í þessum efnum hafa einkennst af vanvirðingu fyrir þingræðis- og lýðræðishefðum. Alþingi Íslendinga er ítrekað sniðgengið í ákvarðanatöku um þessi feikilegu hagsmunamál og leynt og ljóst haldið frá upplýsingum. Þá er almenningi öllum, sem borga á brúsann, gert að búa við stöðugan skort á upplýsingum og misvísandi, áróðurskennd skilaboð um stöðu mála.
    Þingsályktunartillaga þessi ber í sjálfu sér með sér hvernig staðið hefur verið að málum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Alþingi er í orði kveðnu ætlað að „fela“ ríkisstjórninni það sem hún hefur þegar skrifað upp á án nokkurrar upplýsingagjafar eða samráðs. Engin opin umræða eða samráð hefur farið fram um þær forsendur sem leggja ætti til grundvallar láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða öðrum risavöxnum skuldabyrðum þjóðarinnar og engir aðrir möguleikar virðast hafa verið skoðaðir í stefnu til framtíðar. Nú þegar búið er að skrifa undir, nú þegar búið er að leggjast á hnén gagnvart erlendum lánardrottnum, er Alþingi gert að stimpla gjörninginn eftir á.
    Miklar efasemdir hafa komið fram, m.a. hjá fræðimönnum á sviði lögfræði og þjóðarréttar, að Íslendingum sé skylt að ganga að skilmálum Evrópusambandsins og því ljóst að hér er fyrst og fremst um pólitískan gjörning að ræða. Gjörning sem hefur að því er virðist þann tilgang einan að styggja ekki Evrópusambandsveldið.
    Við blasir að á síðustu dögum og vikum hefur ríkisstjórn Íslands tekið ákvörðun um að skuldsetja íslenska þjóðarbúið sem nemur allt að 1.600 milljörðum króna eða meira. Íslenskt samfélag er fyrir skuldugasta þróaða hagkerfið í heimi. Með þessum gjörningi er ótæpilegum skuldaklyfjum hlaðið á herðar komandi kynslóða og landsmanna allra, og enn reynist erfitt að fá svo mikið sem grunnupplýsingar um þau plögg sem undirrituð hafa verið fyrir hönd þjóðarinnar.
    Engin frumplögg samkomulags og viljayfirlýsinga hafa verið birt opinberlega. Leynimakkið hefur verið slíkt að það var fyrst í dagblaðinu DV 17. nóvember sl. sem þingheimur og þjóðin fékk að lesa um skilmála samkomulags íslenskra stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Að öðru leyti hefur þjóðþingið verið hunsað og skellt hefur verið skollaeyrum við þeirri eðlilegu kröfu almennings í lýðræðissamfélagi að fá að vita hvernig málum er háttað. Fréttin í DV virðist að endingu hafa neytt stjórnvöld til að upplýsa Alþingi um málið, vikum eftir að undirskrift átti sér stað.
    Nú þegar málið loks kemur á borð Alþingis er enn ýmsu haldið leyndu og mýmörgum spurningum ósvarað. Sú umræða og yfirferð sem farið hefur fram á Alþingi um málið á síðustu dögum er í reynd um orðinn hlut. Forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa jafnvel látið hafa eftir sér að vel hefði komið til álita að ganga endanlega frá málinu án nokkurrar aðkomu Alþingis yfirhöfuð! Þingsályktunartillagan nú er því í besta falli til málamynda, svo einhvers konar þingræðislegur bragur sé á þessum gerræðislegu ákvörðunum ríkisstjórnarinnar, sem munu að líkindum gera þjóðina verr í stakk búna til að vinna sig út úr kreppunni en nokkur þörf er á.

Óboðlegir skilmálar.
    Lántakan sjálf og greiðslubyrðin af henni fyrir þjóðina alla verður sem fyrr segir þungur baggi að bera fyrir ungar axlir upprennandi kynslóða og landsmenn alla. En lánið sjálft og byrðarnar sem af því leiða eru bara hluti vandans. Skilmálarnir sem hengdir eru í lánið eru jafnvel enn verri og meira eyðileggjandi fyrir íslenskt velferðarsamfélag til framtíðar. Það hefur margsannað sig víða erlendis að skilmálar sem þeir sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn boða nú á Íslandi hafa dýpkað fjármálakreppur og gert þær verri í stað þess að leysa úr þeim. Sporin hræða í þessum efnum hvort heldur eru í Evrópu, Asíu eða Suður-Ameríku. Það er óboðlegt að Alþingi Íslendinga gangi að slíkum skilmálum án vandaðri skoðunar á öllum málsástæðum og endurtaki þau mistök sem annars staðar hafa skilið eftir sig sviðna jörð.
    Einn liður „skilmálanna“ er áframhaldandi hávaxtastefna. Í kjölfarið á undirritun „samkomulagsins“ voru stýrivextir nær umsvifalaust hækkaðir í 18% hinn 28. október sl. Boðað er að þeir verði jafnvel hækkaðir enn frekar. Í kjölfarið á þessari hækkun stýrivaxta komu misvísandi skilaboð frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar, þar sem einn sagði að ríkisstjórnin hefði ákveðið hækkunina, annar að Seðlabankinn hefði gert það og enn annar að þetta væri verknaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Yfirstjórn Seðlabankans birti þá einn tölulið 19. gr. samkomulagsins, þar sem kveðið er á um hækkun vaxta, og leysti þar með úr þessari lotu misvísandi skilaboða ráðamanna, en aðeins einn töluliður samkomulagsins var birtur og allt annað í samkomulaginu hulin ráðgáta.
    Það hefur ekki heldur fengist upplýst hversu mjög reyndi á samningatækni íslenskra stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þegar kemur að hækkun vaxta. Það kæmi ekki á óvart ef stjórnvöld hefðu hreinlega skrifað blindandi upp á þetta skilyrði þar eð það er í takt við þá misheppnuðu peningamála- og hávaxtastefnu sem stjórnvöld hérlendis hafa hingað til fylgt. Þetta er landsmönnum og venjulegum almannahagsmunum hins vegar bersýnilega mjög mótdrægt og hið mesta feigðarbragð.
    Ef hagur almennings, hagur heimilanna og hagur fyrirtækjanna í landinu væri settur í forgang ætti að fara í þveröfuga átt og lækka vexti. Slíkt er lífsnauðsynlegt til að bjarga því sem bjargað verður. Önnur ríki í Evrópu og Norður-Ameríku keppast nú við að lækka stýrivexti og reka ríkissjóð með halla til að geta örvað eftirspurn í hagkerfunum og haldið uppi atvinnustigi. Undir forustu nýfrjálshygguboðskaps Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ætla íslensk stjórnvöld að keyra í þveröfuga átt með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
    Skilmálar þeir sem lúta að ríkisfjármálum eru sömuleiðis mikið áhyggjuefni og munu þegar fram í sækir vega að rótum íslenska velferðarsamfélagsins. Spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem þingheimi birtist í Morgunblaðinu á fullveldisdaginn 1. desember sl., virðist gefa til kynna að halli ríkissjóðs til ársloka 2011 verði nærri 470 milljörðum kr. og þar af verði hallinn á næsta ári hartnær 200 milljarðar kr. Áætlað er að fjármagna hallareksturinn með útgáfu skuldabréfa og varlega áætlað mun vaxtakostnaður verða um 280 milljarðar kr. Heildarkostnaður vegna hallareksturins mun því verða um 750 milljarðar kr. Reiknað er með að vergar skuldir hins opinbera verði 109% af landsframleiðslu í árslok 2009.
    Það getur með engu móti talist ráðlegt að keyra ríkissjóð niður úr kannski 200 milljörðum niður í núll á nokkrum árum þar á eftir. Slíkt felur augljóslega í sér óboðlegan niðurskurð í íslenska velferðarsamfélaginu og væntanlega hækkun skatta um leið. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætlast til að skuldirnar séu greiddar hratt og örugglega, í þágu hagsmuna alþjóðlegra fjármagnseigenda, og er þá að engu haft þótt það bitni með skelfilegum afleiðingum á innri samfélagsgerð okkar, velferðarkerfi og atvinnustigi.
    Ýmsir aðrir skilmálar í „samkomulagi“ ríkisstjórnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru álíka varhugaverðir. Þannig hlýtur til að mynda ýmsum að bregða í brún við skilyrði sem lúta að kjarasamningum og þá vekur furðu að sérstaklega sé tekið fram að ráðlegt gæti verið að einkavæða bankana sem fyrst aftur. Hvað með reynslu okkar sjálfra? Stríðir hún ekki gegn þessari blindu hugmyndafræði, höfum við þá ekkert lært? Þá hlýtur það að vera fullkomin niðurlæging og sér í lagi ólýðræðislegt að gangast undir svo mikið forræði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem „samkomulagið“ ber með sér. Með samkomulagi þessu er skrifað undir þá staðreynd að það sé í raun Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem stjórni efnhagsáherslum Íslendinga á komandi árum. Þá brennur spurningin enn frekar: Ber Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hag íslenska velferðarsamfélagsins fyrir brjósti eða stendur honum nær að passa fyrst og fremst upp á framgang alþjóðlegra fjármagnseigenda? Reynslan víða gefur skýr svör við þessari spurningu og er dapurt til þess að vita að öfl, sem ekki standa velferð íslensks samfélag nærri, skuli nú ráða hér lögum og lofum.

Hvað á að gera við peningana?
    Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins er bannað að greiða fé úr ríkissjóði nema með heimild í fjárlögum eða öðrum lögmætum fjárheimildum. Íslensk stjórnvöld hafa hins vegar skuldbundið hendur þjóðarinnar upp á að því er virðist þúsundir milljarða án þess svo mikið að gefa upp hvernig verja eigi fjármununum sem fást frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, seðlabönkum nágrannaríkja, og fleirum. Enn hafa ekki fengist svör við því hversu miklu menn eru t.d. tilbúnir að fórna af þessum fjármunum til að halda uppi gengi krónunnar. Eins og dæmin sanna annars staðar frá væri slíkt glapræði og til þess eins gert að láta fjármagnið flæða til alþjóðlegra spákaupmanna. Slíkt gerðist m.a. í kreppunni í Argentínu, Argentínumenn sáu að lokum þann kost vænstan að flýja undan viðjum Alþjóðgjaldeyrissjóðsins. Engin skýr svör hafa fengist í þessum efnum af hálfu íslenskra stjórnvalda. Ekki hefur fengist gefið upp hversu mikið á að styrkja gjaldeyrisvaraforðann né heldur með hvaða hætti á að verja fénu til endurfjármögnunar bankanna og jafnvel til skuldajöfnunar við kröfuhafa gömlu bankanna. Ljóst er hins vegar að fjármunirnir virðast ekki eiga að fara til styrktar atvinnuuppbyggingar í landinu enda ganga skilmálar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ekki út á að efla innviði íslensks samfélags.
    Það er ólíðandi að stjórnvöld skuli ekki gefa upp skýra aðgerðaáætlun um ráðstöfun fjárins og að þau skuli ekki telja nauðsynlegt að kynna haldbæra áætlun um slíkt. Þingheimur les helst um það í blöðunum hvað hugsanlega eigi að gera við peningana og hvað ekki.

Tengingin við Icesave.
    Lengi framan af héldu íslensk stjórnvöld því fram að engin tenging væri á milli ábyrgðar á Icesave-innstæðum Landsbankans í Bretlandi, Hollandi og Kaupþings í Þýskalandi o.s.frv. og hugsanlegrar fyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hið gagnstæða hefur þó ítrekað komið í ljós. Lánsumsókn íslenskra stjórnvalda hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum var haldið í gíslingu af ESB-ríkjum sem kröfðust þess að Íslendingar skuldbindu sig til að borga að fullu Icesave-reikningana. Með því má segja að íslensk stjórnvöld hafi með óréttmætum hætti látið nauðbeygja sig með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ekkert færi var gefið á því að láta á málið reyna fyrir dómstólum og krefjast sanngjarnrar málsmeðferðar. Það er því enn óljóst hverjar þjóðréttarlegar skyldur Íslands í þessum efnum voru og eru í raun. Til samanburðar má hins vegar geta þess að í nauðasamningum í Versölum á sinni tíð, sem lagðir voru á Þjóðverja eftir seinni heimsstyrjöld var hverjum einstaklingi gert að greiða sem samsvarar 0,7 kg af gulli. Íslenskri alþýðu er nú gert að borga nærri 2 kg af gulli hverjum og einum einasta manni og líklega meira þegar allt verður talið. Þessi skuldaáþján bætir sem fyrr segir olíu á þann eld sem hrun fjármálakerfisins á Íslandi hefur þegar haft í för með sér fyrir allan almenning.
    Samkvæmt reglugerðum Evrópusambandsins á bankakerfið að greiða fyrir innlánstryggingar með því að greiða 0,15% af innlánum inn í innlánstryggingarsjóð þar til 1% er náð á tæpum sjö árum. Hvergi er orð um ríkisábyrgð eða að greiðslubyrðin skuli flutt frá bankakerfinu og yfir til skattgreiðenda. Ný túlkun og stefnubreyting í þessum efnum af hálfu Evrópusambandsins er til þess eins gerð að láta Íslendinga borga fyrir traust breskra og hollenskra sparifjáreigenda á evrópska bankakerfinu, sem augljóslega er meingallað. Þannig hefur breski fjármálaráðherrann, herra Darling, lagt til breytingar á Evróputilskipuninni um innstæðutryggingar og styrkir það málstað Íslands í málinu.
    Með því að ekki var látið á málið reyna fyrir dómstólum er ljóst að ægivald eitt og aflsmunur réð för en hvorki sanngirni né réttlát málsmeðferð. Það hefði verið meiri sæmd af því af hálfu Íslendinga að verja rétt smáríkja á alþjóðlegum vettvangi og gefa þeim gott fordæmi í málum sem þessum með því að láta á málið reyna fyrir dómi. Þess í stað lyppuðust stjórnvöld niður og ætla nú að láta alþýðu fólks borga brúsann fyrir annarra manna sakir.
    Fjölmargir þættir Icesave deilunnar hafa enn ekki verið upplýstir. Ekki hefur t.d. verið upplýst hvort það var samkvæmt tilskipun, tillögu, ábendingu eða kröfu
    Evrópusambandsins eða undirstofnana þess að Seðlabankinn felldi niður innlánsbindingu í útibúum íslensku bankanna í mars sl. Í fjölmiðlum var fullyrt að svo væri og að tilgangurinn væri að styrkja samkeppnisstöðu evrópsku bankanna gagnvart þeim íslensku. Þá hefur heldur ekki verið upplýst hverju það hefði breytt ef viðskiptaráðuneytið hefði hlustað á ábendingar, m.a. frá samtökum fjármálafyrirtækja, og nýtt sér undanþágu frá skyldutryggingunni fyrir sveitarfélög og aðra lögaðila.
    Rökin sem íslensk stjórnvöld gáfu opinberlega fyrir uppgjöf sinni í Icesave-málinu voru þau að annars mundu Íslendingar ekki fá fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Á eina hlið var því haldið fram að til þess að fá lánið frá sjóðnum yrði að borga Icesave-reikninginn. Á hinn bóginn er lán sagt vera nauðsynlegt til að geta borgað Icesave. Röksemdafærslan bítur því í skottið á sér en uppi stendur fólkið í landinu með hátt á annað hundrað milljarða skuldbindingar á bakinu.

Breyttar forsendur – hvar er varaáætlunin?
    Eftir ítrekaðar fyrirspurnir virðist ljóst að íslensk stjórnvöld hafa ekki haft neina varaáætlun í málinu og engar aðrar sviðsmyndir hafa verið skoðaðar en sú að fá lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
    Engir útreikningar virðast til að mynda hafa verið gerðir á því hvort við gætum komist í gegnum þá erfiðu kreppu sem við blasir án láns frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, frjáls frá klyfjum þeirra nýfrjálshyggjuskilyrða sem sjóðurinn setur. Stjórnvöld hafa engu getað svarað um aðrar mögulegar leiðir og hafa augljóslega ekki látið kanna þær með nokkrum hætti.
    Ríkisstjórnin virðist þannig ekki hafa hugað að því að takast á við vandann á lengri tíma en hér er áætlað, með því til að mynda að leyfa viðvarandi halla á ríkissjóði til lengri tíma í stað þess að fara út á þá ómögulegu braut að reka ríkissjóð hallalausan strax árið 2012. Slíkt þýðir sem fyrir segir heiftarlegan niðurskurð á opinberri fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar, skólakerfisins og allra opinberra framkvæmda í landinu og stríðir gegn þjóðarvilja um íslenskt velferðarsamfélag.
    Í þessu samhengi er vert að geta margvíslegra sjónarmiða ólíkra fræðimanna sem hafa varað mjög eindregið við stefnu stjórnvalda og bent á að forsendur núna séu gjörbreyttar frá því að fyrst var rætt um lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Í grein sem hagfræðingarnir Daði Már Kristófersson, Jón Daníelsson og Ragnar Árnason skrifuðu 19. nóvember sl. (sjá fskj. I) benda þeir á að forsendurnar sem fyrir hendi voru 24. október sl., þegar ákveðið var að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hafi breyst verulega. Það sé því ástæða til að efast um að taka þurfi lánið.
    Í greininni segir m.a.: „Þar er fyrst til að taka, að frá því að þessi yfirlýsing íslenskra stjórnvalda var samin fyrir meira en tveimur vikum hafa aðstæður á gjaldeyrismarkaði breyst mjög mikið. Krónan sem ætlunin var að styrkja hefur á þessu tímabili fallið um nálægt 10% á innanlandsmarkaði. Erlendis hefur gengismarkaður fyrir krónuna hins vegar myndast á nýjan leik og þar hefur gangverð krónunnar hækkað og færst nær skráðu gengi innanlands. Greið alþjóðleg markaðsviðskipti með krónuna og jafnvægisgengi hennar innanlands og erlendis virðist því tiltölulega skammt undan. Það meginhlutverk lánsfjár frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að styðja við bakið á gjaldmiðli í „frjálsu falli“ er því ekki lengur til staðar. Það er því ástæða til að efast um að raunveruleg efnahagsleg þörf sé fyrir þetta lán. Að minnsta kosti eiga ýmis skilyrði sem þessu láni tengjast ekki lengur við.“
    Síðar í greininni er m.a. talað um mikilvægi þess að lækka vexti og að gera tafarlausar ráðstafanir vegna afkomu heimila og fyrirtækja, m.a. með skuldbreytingum, frestunum afborgana og lánalengingum. Slíkt er hvergi að finna í forgangsröðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda.
    Spurningin sem eftir situr er því hvort íslensk stjórnvöld hafi leitt þjóðina niður blindgötu í svokölluðum „björgunaraðgerðum“ sínum sem hún batt alfarið og eingöngu við fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
     Staðreyndir málsins virðast nefnilega þessar: Auk nauðungarkostanna sem að óbreyttu stefnir í hvað varðar lyktir Icesave-deilunnar er hugsanlegt að það sé einmitt þessi lántaka sem geti orðið okkar mesta böl. Íslendingar búa að stórkostlegum tekjuskapandi útflutningsgreinum, svo sem sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Þróunin að undanförnu hefur verið sú að innflutningur hefur minnkað en útflutningur aukist. Ef ekki væri verið að sliga íslensku þjóðina með þessum skuldaklyfjum sem ríkissjórnin hyggst nú skrifa undir, og ef ekki væri gengið að þeim ógnarskilmálum sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setur fram, ætti samfélagið ef til vill mun raunhæfari möguleika á að ná sér hratt og vel út úr kreppunni en með þeirri áþján sem hér er borin á borð. Útflutningsgreinarnar geta skilað íslensku þjóðarbúi gríðarlegum verðmætum á næstu missirum ef rétt er á málum haldið, og öflugur landbúnaður sér okkur fyrir góðri og hollri fæðu. Eftir ekki mjög langan tíma ættum við að geta unnið okkur út úr vandanum, ef stjórnvöld stíga ekki það glapræðisskref að leggja á þjóðina þúsund milljarða skuldir. Augljóst er að ef mannauðurinn fer úr landi, ef unga fólkið okkur flytur brott, hafa óafturkræf skemmdarverk verið unnin á íslensku samfélagi sem gera okkur enn síður í stakk búin að vinna okkur út úr þessum erfiðu tímum.
    Sama Fjármálaeftirlit og gaf íslensku bönkunum heilbrigðisvottorð, sami Seðlabanki og rak glórulausa peningamálastefnu og sama ríkisstjórn og sat aðgerðalaus hjá og skrifaði upp á ruglið, sama fólkið og sömu flokkarnir og hafa keyrt íslenskt samfélag í þrot, ætla nú fyrir hönd komandi kynslóða að ráðstafa þúsundum milljarða. Það var einmitt líka sá hinn sami Alþjóðagjaldeyrissjóður og nú ræður lögum og lofum á Íslandi sem lýsti sérstakri aðdáun sinni á einkavæðingu íslensku bankanna, útrás og vexti. Þegar staðreyndirnar á bak við þennan gjörning allan eru skoðaðar, þegar pukrið og ólýðræðisleg málsmeðferð situr enn í fyrirrúmi, er engan veginn hægt að skrifa upp á þessa þingsályktunartillögu. Þessi gjörningur stjórnvalda getur með engu móti verið túlkaður sem góðs viti fyrir framtíð íslenska velferðarsamfélagsins, sem nú þarf á öllu sínu þreki að halda til að vinna sig út úr kreppunni.
    Annar     minni hluti utanríkismálanefndar telur því allar forsendur skorta fyrir því að undirgangast skilyrði Alþjóðagjadeyrissjóðsins og heimila ríksstjórn að ganga til frekara samstarfs og þátttöku í þvingunarprógrammi sjóðsins. Verkefnið eigi því að vera að velja leið fyrir landið út úr þrengingunum sem feli í sér sem minnsta erlenda lántöku, áherslu á að mannauður, auðlindir og möguleikar okkar sem sjálfstæðrar þjóðar verði nýttir eftir föngum til að hefja endurreisnarskeið án þess að óbærilegur skuldaklafi og utanaðkomandi þvingunarskilmálar geri landsmönnum það verkefni óleysanlegt og óbærilegt. Með hliðsjón af framansögðu og þeim rökstuðningi sem fram hefur verið settur leggur 2. minni hluti utanríkismálanefndar til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni falið, eftir atvikum, að semja um lágmarkslánveitingar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, eða aðra alþjóðlega aðila eða ríki um þau gjaldeyrislán sem nauðsyn ber til að taka, án þess að Ísland afsali sér sjálfstjórn í innri málum.

Alþingi 5. desember 2008.

Steingrímur J. Sigfússon.Fylgiskjal I.


Daði Már Kristófersson,
Jón Daníelsson,
Ragnar Árnason :

Seðlabankinn á að hætta að reyna að stýra gengi krónunnar.


(Morgunblaðið, 19. nóv. 2008.)    Í „yfirlýsingu um áform“ sem íslensk stjórnvöld hafa sent Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og DV birti á vefnum kemur fram undir lið 19 að íslensk stjórnvöld séu „reiðubúin til að nota gjaldeyrisforðann til að koma í veg fyrir of miklar sveiflur í gengi krónunnar“. Þessi yfirlýsing bendir til þess að til standi að nota erlent lánsfé til að styðja við gengi krónunnar.
    Það er vissulega svo að fall á verði krónunnar leiðir til hækkunar verðlags innfluttra vara og hækkunar erlendra skulda í íslenskum krónum. Hvort tveggja kemur sér illa fyrir heimili og fyrirtæki, sem nú þegar eru í miklum þrengingum. Engu að síður er nauðsynlegt að vara sterklega við því að nota takmarkaðan og dýrkeyptan gjaldeyrisforða með þessum hætti.
    Þar er fyrst til að taka, að frá því þessi yfirlýsing íslenskra stjórnvalda var samin fyrir meira en tveimur vikum hafa aðstæður á gjaldeyrismarkaði breyst mjög mikið. Krónan sem ætlunin var að styrkja hefur á þessu tímabili fallið um nálægt 10% á innanlandsmarkaði. Erlendis hefur gengismarkaður fyrir krónuna hins vegar myndast á nýjan leik og þar hefur gangverð krónunnar hækkað og færst nær skráðu gengi innanlands. Greið alþjóðleg markaðsviðskipti með krónuna og jafnvægisgengi hennar innanlands og erlendis virðist því tiltölulega skammt undan. Það meginhlutverk lánsfjár frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að styðja við bakið á gjaldmiðli í „frjálsu falli“ er því ekki lengur til staðar. Það er því ástæða til að efast um að raunveruleg efnahagsleg þörf sé fyrir þetta lán. Að minnsta kosti eiga ýmis skilyrði sem þessu láni tengjast ekki lengur við.
    Í annan stað er mikilvægt að hafa í huga að umtalsverðar upphæðir í krónum bíða þess að verða breytt í erlenda mynt. Stórfelld sala Seðlabankans á gjaldeyri í skiptum fyrir krónur í því skyni að halda uppi eða jafnvel hækka gengi krónunnar mun einungis leiða til þess að þeir sem flytja fjármagn út geta selt krónur sínar á hærra verði en ella. Með öðrum orðum í slíkri viðleitni Seðlabankans felst í rauninni niðurgreiðsla á erlendum gjaldeyri til þeirra sem hyggjast flýja Ísland með sitt fjármagn.
    Í þriðja lagi er rétt að minna á þá staðreynd að hversu auðug sem stjórnvöld eru af erlendri mynt geta þau ekki haldið gengi gjaldmiðils fyrir ofan markaðsvirði hans til lengri tíma. Hversu illa sem það kann að koma við þjóðina að krónan veikist er ljóst að gengisskráning hennar verður að endurspegla framboð og eftirspurn eftir krónum. Allt annað er óraunhæft. Margföld reynsla af hliðstæðum gjaldeyriskreppum erlendis hefur sýnt að þar sem gjaldeyrisforðinn er notaður til stuðnings við gjaldmiðilinn hverfur þorri hans einfaldlega í vasa spákaupmanna, og landið situr eftir verr sett en áður.
    Miklu ódýrari og efnahagslega skynsamlegri leið er að opna gjaldeyrismarkað að nýju og leyfa krónunni að falla eins og nauðsynlegt er þar til jafnvægi næst milli framboðs og eftirspurnar. Hlutverk Seðlabankans í þessu ferli er einungis að vera viðskiptavaki. Í því felst að hann greiðir fyrir og tekur þátt í viðskiptum með krónuna á sem næst jafnvægisgengi, en án þess að auka eða minnka gjaldeyrisforða sinn að marki hvern viðskiptadag.
    Slík hlutlaus afstaða Seðlabankans gæti þýtt umtalsvert fall á genginu til skemmri tíma litið meðan það fjármagn sem býður flutnings fer úr landi. Það er hins vegar ástæða til að ætla að þetta gengisfall verði hvorki mikið né langvarandi. Grunnskilyrði þjóðarbúsins gefa til kynna að jafnvægisgengi krónunnar til lengri tíma sé að minnsta kost 25% hærra en nú gildir á innanlandsmarkaði. Nýjustu tölur um viðskiptajöfnuð sýna jafnframt mikinn afgang og horfur eru á að hann vaxi fremur en hitt. Það eru því allar líkur á að gengi krónunnar hækki aftur á nýjan leik innan tiltölulega skamms tíma sem fremur verður talinn í mánuðum en misserum. Þetta vita auðvitað þeir sem sækjast eftir að breyta krónum sínum í gjaldeyri. Þeir munu því í mörgum tilfellum kjósa að bíða gengishækkunar fremur en að kaupa gjaldeyri fyrir krónuna á óhagstæðu gengi. Þetta er auðvitað þeim mun líklegra sem krónan lækkar meira í kjölfar þess að hún verður gefin frjáls. Af þessum ástæðum er ólíklegt að gengisfallið verði mikið, nema e.t.v. í fáa daga, og það getur ekki verið langvarandi.
    Enda þótt frekara gengisfall verði tiltölulega lítið og skammvinnt og allar líkur eru á að gengið muni styrkjast mjög á næstu mánuðum, er engu að síður ljóst að hið lága gengi nú hefur afar neikvæð áhrif á kaupmátt launa, afkomu margra fyrirtækja og skuldir bæði heimila og fyrirtækja. Afar brýnt er að bregðast nú þegar við þessu með viðeigandi ráðstöfunum. Þessar ráðstafanir þurfa að fela í sér skuldbreytingar, frestanir afborgana og lánalengingar. Má hvað það snertir m.a. benda á tillögur Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoëga um björgun heimilanna og fyrirtækjanna. Í annan stað þurfa vextir að lækka sem allra fyrst og síðan hröðum skrefum niður í vexti nágrannalandanna á næstu vikum. Þetta er unnt því viðfangsefnið er ekki lengur að halda uppi óraunhæfu gengi krónunnar og falsa þannig tímabundið mælingar á verðbólgu. Í þriðja lagi á Seðlabankinn að fylgja fordæmi annarra Seðlabanka og beita öllu sínu afli til að gera lánsfé í íslenskum krónum sem ódýrast og aðgengilegast fyrir þau fyrirtæki landsmanna sem lífvænlegust eru. Þetta er nauðsynlegt til að forðast stærstu boðaföll og hörmungar kreppunnar sem hafin er.Fylgiskjal II.

Umsögn frá 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar.    Þingsályktunartillaga þessi er svohljóðandi: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta áform um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á grundvelli fyrirliggjandi viljayfirlýsingar íslenskra stjórnvalda.“
    Í athugasemdum við tillöguna kemur fram að viðræður fulltrúa Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um „fyrirkomulag samstarfsins“ hafi staðið yfir „um nokkurt skeið“. Einnig kemur fram að unnið hafi verið „ítarleg efnahagsáætlun“ sem hafi þrjú meginmarkmið: „Í fyrsta lagi að endurvekja traust á íslenskum efnahag og ná stöðugu gengi krónunnar með markvissum og öflugum aðgerðum, í öðru lagi að styrkja stöðu ríkissjóðs og í þriðja lagi að endurreisa íslenskt bankakerfi.“
    Í svokallaðri „efnahagsáætlun“ stjórnvalda sem kveðið er á um í þessari þingsályktunartillögu er ekki minnst einu orði á heimilin í landinu né heldur íslenskt atvinnulíf. Má enda ljóst vera að aðgerðaáætlun sú og þeir skilmálar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn krefst af íslensku þjóðinni, í „samstarfi“ við ríkisstjórnina, eru ekki endilega til þess fallin að tryggja öryggi, velsæld og atvinnustig á Íslandi heldur fyrst og fremst að aðstoða erlenda fjármagnseigendur að halda sínum hlut. Gjaldeyriskreppan svokallaða er í fyrirrúmi en sú kreppa sem ríður nú yfir heimilin í landinu og atvinnulíf er hunsuð og jafnvel gerð verri viðureignar. Leiða má líkur að því að þær tröllvöxnu skuldabyrðar sem þessu láni fylgja, og þeir skilmálar sem fyrirgreiðslunni eru settir, geri íslensku samfélagi mun erfiðara og sársaukafyllra að vinna sig út úr þeirri kreppu sem nú herðir að heimilum landsmanna og atvinnulífi.
    Við blasir að á síðustu dögum og vikum hefur ríkisstjórn Íslands tekið ákvörðun um að skuldsetja íslenska þjóðarbúið sem nemur allt að 1.600 milljörðum kr. eða meira. Íslenskt samfélag er fyrir skuldugasta þróaða hagkerfið í heimi. Með þessum gjörningi er ótæpilegum skuldaklyfjum hlaðið á herðar komandi kynslóða og landsmanna allra og enn reynist erfitt að fá svo mikið sem grunnupplýsingar um þau plögg sem undirrituð hafa verið fyrir hönd þjóðarinnar.

Óboðlegir skilmálar.
    Lántakan sjálf og greiðslubyrðin af henni fyrir þjóðina alla verður sem fyrr segir þungur baggi að bera fyrir ungar axlir upprennandi kynslóða og landsmenn alla. En lánið sjálft og byrðarnar sem af því leiða er bara hluti vandamálsins. Skilmálarnir sem hengdir eru í lánið geta einnig verið eyðileggjandi fyrir íslenskt velferðarsamfélag til framtíðar. Það hefur sýnt sig víða erlendis að skilmálar sem þeir sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn boðar nú á Íslandi hafa dýpkað fjármálakreppur og gert þær verri í stað þess að leysa úr þeim. Sporin hræða í þessum efnum hvort heldur er í Evrópu, Asíu eða Suður-Ameríku. Það er óboðlegt að íslensk stjórnvöld gangi að slíkum skilmálum með þeim hætti sem hér hefur verið gert og endurtaki þau mistök sem víða hafa skilið eftir sig sviðna jörð.
    Einn liður „skilmálanna“ er áframhaldandi hávaxtastefna. Í kjölfarið á undirritun „samkomulagsins“ voru stýrivextir því umsvifalaust hækkaðir í 18% hinn 28. október sl. Boðað er að þeir verði jafnvel hækkaðir enn frekar. Í kjölfarið á þessari hækkun stýrivaxta komu misvísandi skilaboð frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar, þar sem einn sagði að ríkisstjórnin hefði ákveðið hækkunina, annar að Seðlabankinn hefði gert það og enn annar að þetta væri verknaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Yfirstjórn Seðlabankans birti þá einn tölulið 19. greinar samkomulagsins þar sem kveðið er á um hækkun vaxta og leysti þar með úr þeirri lotu misvísandi skilaboða ráðamanna en aðeins einn töluliður samkomulagsins var birtur og allt annað í samkomulaginu hulin ráðgáta.
    Ef hagur almennings, hagur heimilanna og hagur fyrirtækjanna í landinu væri settur í forgang þá ætti að fara í þveröfuga átt og lækka vexti. Slíkt er nauðsynlegt til að bjarga því sem bjargað verður. Önnur ríki í Evrópu og Norður-Ameríku keppast nú við að lækka stýrivexti og reka ríkissjóð með halla til að geta örvað eftirspurn í hagkerfunum og haldið uppi atvinnustigi. Undir forustu nýfrjálshyggjuboðskapar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ætla íslensk stjórnvöld að keyra í öfuga átt með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Breyttar forsendur – hvar er varaáætlun?
    Eftir ítrekaðar fyrirspurnir virðist ljóst að íslensk stjórnvöld hafa ekki haft neina varaáætlun í málinu og engar aðrar sviðsmyndir hafa verið skoðaðar en sú að fá lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
    Engir útreikningar virðast til að mynda hafa verið gerðir á því hvort við gætum komist í gegnum þá erfiðu kreppu sem við blasir án láns frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, frjáls frá klyfjum þeirra nýfrjálshyggjuskilyrða sem sjóðurinn setur. Stjórnvöld hafa engu getað svarað um mögulegar aðrar leiðir og hafa augljóslega ekki látið kanna þær.
    Ríkisstjórnin virðist þannig ekki hafa hugað að því að takast á við vandann á lengri tíma en hér er áætlað, með því til að mynda að leyfa viðvarandi halla á ríkissjóði til lengri tíma í stað þess að fara út á þá ómögulegu braut að reka ríkissjóð hallalausan árið 2012. Slíkt boðar í reynd heiftarlegan niðurskurð á opinberri fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar, skólakerfisins og opinberra framkvæmda í landinu og stríðir gegn þjóðarvilja um íslenskt velferðarsamfélag.
    Í þessu samhengi er vert að geta margvíslegra sjónarmiða ólíkra fræðimanna sem hafa varað við stefnu stjórnvalda og benda á að forsendur núna séu gjörbreyttar frá því að fyrst var rætt um lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Í grein sem hagfræðingarnir Daði Már Kristófersson, Jón Daníelsson og Ragnar Árnason skrifuðu 19. nóvember sl. (sjá fylgiskjal) benda þeir m.a. á að forsendurnar sem fyrir hendi voru 24. október sl., þegar ákveðið var að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hafi breyst verulega. Það sé því ástæða til að efast um að taka þurfi lánið.
    Í greininni segir m.a.: „Þar er fyrst til að taka, að frá því að þessi yfirlýsing íslenskra stjórnvalda var samin fyrir meira en tveimur vikum hafa aðstæður á gjaldeyrismarkaði breyst mjög mikið. Krónan sem ætlunin var að styrkja hefur á þessu tímabili fallið um nálægt 10% á innanlandsmarkaði. Erlendis hefur gengismarkaður fyrir krónuna hins vegar myndast á nýjan leik og þar hefur gangverð krónunnar hækkað og færst nær skráðu gengi innanlands. Greið alþjóðleg markaðsviðskipti með krónuna og jafnvægisgengi hennar innan lands og erlendis virðist því tiltölulega skammt undan. Það meginhlutverk lánsfjár frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að styðja við bakið á gjaldmiðli í „frjálsu falli“ er því ekki lengur til staðar. Það er því ástæða til að efast um að raunveruleg efnahagsleg þörf sé fyrir þetta lán. Að minnsta kosti eiga ýmis skilyrði sem þessu láni tengjast ekki lengur við.“
    Síðar í greininni er m.a. talað um mikilvægi þess að lækka vexti og að gera tafarlausar ráðstafanir vegna afkomu heimila og fyrirtækja, m.a. með skuldbreytingum, frestunum afborgana og lánalengingum. Slíkt er hvergi að finna í forgangsröðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda.
    Spurningin sem eftir situr er því hvort íslensk stjórnvöld hafi leitt þjóðina niður blindgötu í svokölluðum „björgunaraðgerðum“ sínum. Ríkisstjórnin hefur alfarið bundið „björgun“ við fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og skilmála hans. Verður slíkt að teljast orka mjög tvímælis í ljósi reynslunnar annars staðar frá.

Alþingi, 2. des. 2008.

Árni Þór Sigurðsson.
Fylgiskjal III.


Umsögn frá minni hluta fjárlaganefndar.    Að beiðni utanríkismálanefndar hefur fjárlaganefnd fjallað um töluliði 12–16 í samkomulagi milli ríkisstjórnar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um skilyrði fyrir lánveitingu af hálfu sjóðsins. Efni töluliðanna varðar einkum stefnuna í opinberum fjármálum. Fjárlaganefnd fékk á sinn fund Þorstein Þorgeirsson, skrifstofustjóra efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, og hagfræðingana Gunnar Gunnarsson og Markús Möller frá Seðlabanka Íslands. Einnig Gunnar Haraldsson, forstöðumann Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.
    Í aðdraganda þess að ríkisstjórnin og Seðlabankinn tóku upp samninga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var ekkert samráð haft við Alþingi. Mikil leynd hvíldi yfir þeim samningum af hálfu íslenskra stjórnvalda og Alþingi var haldið algjörlega utan við þá vinnu. Dagblaðið DV var fyrst til að birta þinginu og þjóðinni samkomulagið og í framhaldi af því fjallaði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sjálfur opinberlega um málið. Þrátt fyrir að fram hafi komið ítrekaðar óskir á vettvangi Alþingis um upplýsingar um málið voru þær ekki veittar þinginu. Minni hlutinn gagnrýnir harðlega þessi ólýðræðislegu vinnubrögð framkvæmdarvaldsins, það að Alþingi hafi ekkert komið að undirbúningi og vinnslu málsins er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans á Alþingi.
    Áætlun ríkisstjórnarinnar og Seðlabanka Íslands og samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er eitt stærsta viðfangsefni samfélagsins til lengri og skemmri tíma litið. Það er álit minni hlutans að með þessu sé verið að leggja drög að gjörbreyttu íslensku samfélagi til langs tíma. Við blasir gríðarleg skuldsetning ríkissjóðs, með tilheyrandi kostnaði vegna lána og mjög þungri endurgreiðslubyrði. Afleiðingarnar verða mjög miklar ef litið er til ríkisrekstrarins næstu árin og munu hafa ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir heimilin og atvinnulíf í landinu. Þessi mikla skuldsetning ríkissjóðs mun hafa þau áhrif að draga verður úr ríkisútgjöldum með einkar harkalegum hætti. Slíkt setur íslenska velferðarkerfið í mikla hættu. Fyrir liggur að fara verður yfir forgangsröðun ríkisútgjalda út frá nýjum grunni og leggur minni hlutinn áherslu á að heimilin í landinu og velferðarkerfið verði sett í skilyrðislausan forgang og það varið með öllum tiltækum ráðum.
    Ekki liggur fyrir þjóðhagsspá út frá breyttum aðstæðum. Þjóðhagsspá ætti að vera grundvöllur þessarar áætlunar, en svo er ekki. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjárlaganefnd óskuðu eftir ýmsum tölulegum upplýsingum á fundum nefndarinnar. Engar slíkar upplýsingar hafa verið lagðar fram í nefndinni. Minni hlutinn gagnrýni þessa tilhögun mála. Hins vegar hefur komið fram af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að verg landsframleiðsla muni dragast saman um 9,6% árið 2009 og að frekari samdráttur verði árið 2010. Í ljósi þessa er mikilvægt að halda uppi atvinnustiginu og auka útflutnings- og nettótekjur þjóðarbúsins.
    Á fundum fjárlaganefndar kom fram hjá gestum að samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn gengur m.a. út á það, að sögn í það minnsta, að íslensk stjórnvöld geti að nokkru ráðið til hvaða aðgerða skuli grípa til þess að ná markmiðum samkomulagsins. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun hins vegar fylgjast grannt með því hvernig framkvæmdin gengur eftir og beita sínum ráðum ef honum líkar ekki framgangur mála. Lánveitingar sjóðsins verða þannig afgreiddar í samræmi við þau árangurstengdu markmið sem sjóðurinn setur ríkisfjármálunum. Fyrsti hluti lánsins, 827 milljónir bandaríkjadala, hefur nú borist til Seðlabankans og síðan verður lánið afgreitt í átta jöfnum áföngum, um 155 milljónir bandaríkjadala hvert sinn, á þriggja mánaða fresti. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun kanna hvort tiltekin árangurstengd markmið hafi náðst áður en sérhver útborgun lánsins er innt af hendi, og hefur að samþykktri þessari þingsályktunartillögu því framkvæmd efnahagsstefnunnar að ýmsu leyti í hendi sér. Minni hlutinn hefur óskað eftir upplýsingum um hver þessi árangurstengdu markmið eru og gagnrýnir að þær upplýsingar hafi ekki verið lagðar fram á fundum fjárlaganefndar. Ætlunin mun vera að greiða lánið frá sjóðnum til baka á árunum 2012–2015 en minni hlutinn bendir á að ekki hafa verið lagðar fram greiðsluáætlanir sem sýna með hvaða hætti ætlunin er að ná þeim markmiðum. Þá hefur minni hlutinn óskað eftir upplýsingum um lántökur frá öðrum aðilum en Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem ríkisstjórnin hefur kynnt og háðar voru samkomulaginu við sjóðinn, upphæð og kjör á þeim lánum, lánstíma og vaxtakjör. Engar slíkar upplýsingar hafa verið lagðar fram í nefndinni.
    Það liggur fyrir að fram undan eru mjög erfið ár í ríkisfjármálum. Það er gríðarlega stórt og erfitt viðfangsefni að ná þeim markmiðum sem áætlunin gerir ráð fyrir. Þannig má gera ráð fyrir að við gerð fjárlaga næstu ára þurfi að ráðast í sársaukafullan niðurskurð ríkisútgjalda. Ekki er ljóst hver staða og hlutverk Alþingis við að bæta verulega verklag og framkvæmd fjárlaga og eftirlit með því verður í framhaldinu. Hingað til hafa stjórnvöld haldið Alþingi markvisst frá undirbúningi og afgreiðslu mála sem lúta að þessu samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, en ljóst er að hlutverk Alþingis í þessum efnum verður að styrkja til muna. Alþingi stendur í raun frammi fyrir gerðum hlut án nokkurrar aðkomu að vinnslu þess samkomulags sem ríkisstjórn og Seðlabanki hafa nú þegar staðfest og undirritað.
    Það er augljóst að allmörg næstu ár verða tekjur ríkissjóðs mun minni en verið hefur undanfarin ár. Fyrir liggur að fjármagnstekjuskattur skili óverulegum tekjum í ríkissjóð, a.m.k. fyrstu tvö til þrjú árin. Á sama hátt munu tekjur ríkissjóðs vegna tekjuskatta lögaðila verða mun minni en verið hefur síðustu árin. Vegna fyrirsjáanlegs samdráttar í atvinnulífinu og aukins atvinnuleysis munu tekjuskattar einstaklinga dragast mikið saman, a.m.k. fyrstu árin. Vegna samdráttar einkaneyslu og minni umsvifa í hagkerfinu blasir við að neysluskattar dragist verulega saman.
    Kallað er eftir trúverðugri áætlun ríkisstjórnarinnar sem geri ráð fyrir því að sjálfbærni skulda ríkissjóðs verði náð, sbr. ákvæði í 15. lið yfirlýsingarinnar. Slík áætlun liggur ekki fyrir.
    Sú tekjuspá sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur til grundvallar er að margra mati byggð á of mikilli bjartsýni, þannig að vera kann að enn meiri þörf verði fyrir samdrátt á gjaldahlið fjárlaga næstu ára en sjóðurinn gerir ráð fyrir. Því er varað við því að innbyggður halli á fjárlögum kunni að verða meiri en gert verður ráð fyrir í áætlunum. Í þessu sambandi er mikilvægt að varast niðurskurð á útgjöldum sem muni leiða fram aukin útgjöld í framtíðinni, svo sem í heilbrigðisþjónustu vegna forvarna og læknisaðstoðar.
    Áhrifin af áfallinu munu verða mikil á rekstur sveitarfélaganna. Gera má ráð fyrir að útgjöld þeirra aukist, m.a. vegna félagsþjónustu. Einnig að framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga dragist saman, annars vegar vegna falls á skatttekjum ríkissjóðs og hins vegar vegna þess að ríkissjóður hafi minna svigrúm til að leggja Jöfnunarsjóði til sérstakar fjárveitingar. Þá má reikna með að útsvarstekjur dragist saman vegna aukins atvinnuleysis og minni umsvifa í atvinnulífinu, a.m.k. næstu 2–3 árin. Það má því ljóst vera að mörg sveitarfélög munu eiga í miklum vanda í sínum rekstri næstu árin. Það er ámælisvert að við gerð áætlunarinnar og vegna viðræðna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var ekkert samráð haft við sveitarfélögin í landinu. Engu að síður er í áætluninni fjallað um fjármál hins opinbera, þ.m.t. um fjármál sveitarfélaganna. Full ástæða er til að gagnrýna ríkisstjórnina harðlega fyrir það að hafa ekkert samráð við sveitarfélögin í þessu sambandi.
    Engin varaáætlun eða „plan B“ liggur fyrir, t.d. áætlun um það hvernig bregðast skal við ef tilraunir til að koma krónunni á „flot“ mistakast og ef efnahagserfiðleikar verða mun meiri og alvarlegri en nú er gert ráð fyrir.
    Engin áætlun liggur fyrir um hvenær ríkissjóður muni hefja þau lán sem um er að ræða, til að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans, til að endurreisa fjármálakerfið á Íslandi, né lán til að standa undir skuldbindingum vegna innstæðueigenda í útibúum íslensku bankanna erlendis. Þá liggur ekki fyrir hvaða lánakjör um er að ræða, né áætlun um afborganir viðkomandi lána.
    Engin áætlun liggur heldur fyrir um til hvers á að nota önnur þau lán sem íslenska ríkið hefur fengið heimild fyrir á grundvelli samkomulagsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Engin áætlun er um hvernig ríkissjóði verði gert kleift að endurgreiða þessi lán eða endurfjármagna eftir 2012.
    Þau skilyrði í 16. lið áætlunarinnar að ekki megi koma að fjármögnun fjármálafyrirtækja eru órökstudd. Ekki er búið að ganga frá málefnum sparisjóðanna og ekki er ljóst hvort aðstoða megi nýju viðskiptabankana lendi þeir í vandræðum. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja frá 2. desember sl. segir í lið nr. 1 um reglurnar sem starfað verður eftir: „Reglurnar taki m.a. til lengingar lána, niðurfærslu skulda, breytingar lána í eigið fé og sameiningar fyrirtækja.“ Ef skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verða túlkuð það þröngt að ríkissjóður geti ekki komið með frekari fjárhagslega fyrirgreiðslu til nýju bankanna lýsir minni hlutinn yfir áhyggjum sínum að þessi markmið nái ekki fram að ganga nema í mjög takmörkuðum mæli. Jafnframt vekur minni hlutinn athygli á yfirlýsingu formanns skilanefndar Glitnis hf. í hádegisfréttum RÚV 3. desember sl. en að hans mati eiga erlendir kröfuhafar í raun bæði gömlu og nýju bankana hér á landi.
    Minni hlutinn gagnrýnir að ríkisstjórnin skuli einhliða hafa farið þá leið til lausnar efnahagsvandanum að semja við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og gangast undir öll skilyrði hans. Ýmsir þekktir innlendir og erlendir hagfræðingar hafa bent á að við ættum aðra möguleika út úr þrengingunum, sem þó virðast ekkert hafa verið skoðaðir. Nú þegar er deilt harkalega um ýmis skilyrði sjóðsins sem eru komin til framkvæmda, svo sem vaxtahækkanir, niðurskurð og víðtæk höft á gjaldeyris viðskiptum inn og út úr landinu. Deilt er um hvort og með hvaða hætti íslenska krónan skuli sett á flot.
    Mat á valkostum í efnahagsaðgerðum, þó í erfiðri stöðu sé, vantar og enn fremur rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun sem tekin er. Aðgerðir ríkisvaldsins eru því ótrúverðugar og lítt til þess fallnar að endurvekja traust á stjórnvöldum. Að endurvinna traust er þó er eitt brýnasta viðfangsefnið bæði til skemmri og lengri tíma.
    Þeim spurningum sem minni hlutinn hefur óskað eftir að fjármálaráðuneytið svari í tengslum við lántökuna hefur ekki enn verið svarað og því margt óljósara en vera þyrfti. Fjármálaráðuneytið er strax farið að beita ákvæðum í samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn án þess að þau hafi verið samþykkt á Alþingi. Þar má nefna dreifibréf á öll ráðuneyti með skipan um 10% niðurskurð á ríkisútgjöldum á næsta ári þótt fjárlagafrumvarpið sé stjórnsýslulega í höndum fjárlaganefndar og Alþingis.
    Minni hlutinn telur að ekki hafi enn verið lögð fram þau gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að fjalla ítarlega um þessa lántöku og gagnrýnir ólýðræðisleg og ófagleg vinnubrögð stjórnvalda í þessu risamáli og enn fremur þann upplýsingaskort sem nefndarmenn þurfa að búa við. Það er því miklum erfiðleikum bundið að átta sig til hlítar á efnisþáttum og afleiðingum þessa samkomulags við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
    Ljóst er hins vegar að með þessu samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er verið að staðfesta gífurlegar skuldabyrðar á íslensku þjóðina jafnvel til næstu kynslóða. Sú staða sem nú blasir við í efnahagsmálum og þær aðgerðir sem hér er ráðgert að grípa til munu skerða lífskjör stórlega frá því sem nú er og reyna mjög á einstaklinga, heimili og atvinnulíf í landinu til margra ókominna ára. Þetta eru meðal annars afleiðingar af aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í aðdraganda bankahrunsins, sem margir höfðu varað við að gæti orðið. Ýmis teikn hafa verið á lofti undanfarna 12–15 mánuði um að válegir tímar væru í vændum í efnahagsmálum, en því miður lét ríkisstjórnin sig það engu varða.

Alþingi, 4. des. 2008.

Jón Bjarnason,
Guðjón A. Kristjánsson,
Magnús Stefánsson.Fylgiskjal IV.


IMF spáir 470 milljarða króna halla á ríkissjóði.
(Morgunblaðið, 1. des. 2008.)

    Halli ríkissjóðs til ársloka 2011 verður nærri 470 milljörðum króna, gangi spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) eftir. Þar af er gert ráð fyrir að halli ríkissjóðs árið 2009 nemi um 200 milljörðum króna.

    Halliríkissjóðs til ársloka 2011 verður nærri 470 milljörðum króna, gangi spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) eftir. Þar af er gert ráð fyrir að halli ríkissjóðs árið 2009 nemi um 200 milljörðum króna. Hallinn verður fjármagnaður með útgáfu skuldabréfa og gæti vaxtakostnaður vegna útgáfunnar numið um 280 milljörðum króna. Heildarfjármögnunarþörf ríkisins á næstu árum nemur um 1.660 milljörðum, samkvæmt spá IMF.

Spá IMF spáir miklum samdrætti.

    Margar ástæður eru fyrir þeim halla, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir að verði á rekstri ríkissjóðs á næstu árum. Tekjur ríkisins munu óhjákvæmilega dragast saman, en spáð er miklum samdrætti í efnahagslífinu, sérstaklega á næsta ári. Gerir sjóðurinn ráð fyrir því að einkaneysla dragist saman um 19,7%, samneysla um 23,7% og fjárfesting um 33,6%.
    Þá munu útgjöld aukast á sumum sviðum, einkum vegna greiðslu á atvinnuleysisbótum. Gerir sjóðurinn ráð fyrir því að árið 2009 verði atvinnuleysi 5,7%, 6,9% árið 2010 og 5,4% árið 2011. Upp úr því fari hins vegar að rofa til.
    Árið 2011 spáir sjóðurinn 4,5% hagvexti, aukningu á einka- og samneyslu og 2% verðbólgu. Afgangur verði kominn á rekstur ríkissjóðs árið 2013 og skuldir ríkisins komnar niður í 92,6% af landsframleiðslu miðað við 108,9% í ár.Fylgiskjal V.


Fjármögnunarþörf ríkisins.


(Morgunblaðið 4. des. 2008.)

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.