Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 161. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 266  —  161. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Frá 3. minni hluta utanríkismálanefndar.    Miðað við þau gögn og munnlegar upplýsingar sem legið hafa fyrir í utanríkismálanefnd við afgreiðslu málsins verður nú við afgreiðslu þess að gera í upphafi þann almenna fyrirvara að flest bendir til þess að það taki þjóðina fimm til tíu ár að vinna sig út úr þeim vanda sem við blasir. Það geta liðið mörg ár þar til ríkisfjármálin verða aftur án halla á hverju ári. Það liggur því fyrir að auknar byrðar verða lagðar á almenning á næstu árum. Niðurskurður á fjárlögum mun verða staðreynd og næsta víst að greiðslubyrði vaxta og afborgun lána verður stór þáttur í fjárlögum næstu ára sem m.a. verður mætt með mismunandi tillögum um skattahækkanir. Ríkisstjórnin og Seðlabankinn tóku þá stefnu að leita samninga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Aðrar leiðir voru ekki fullreyndar. Sá skilyrðapakki sem ríkisstjórnin lýsti yfir að fjallaði um „áform íslenskra stjórnvalda vegna fjárhagslegrar fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum“ var um síðir kynntur Alþingi en hann hafði áður birst í DV.
    Öll ábyrgð málsins og meðferð þess hvílir því á herðum ríkisstjórnarinnar enda Alþingi ekki upplýst um málatilbúnað. Áætlun ríkisstjórnarinnar og samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er stærsta mál sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir í áratugi og að mörgu leyti gjörbreyttu samfélagi. Verja þarf sérstaklega heimilin og velferðarkerfið í komandi þrengingum. Auka þarf tekjur með öllum ráðum og sömuleiðis atvinnu í landinu.
    Mikið hefur skort á það að skýrar upplýsingar væru til staðar um þær heildarskuldir sem íslenska ríkið þarf að taka til sín með erlendum lántökum. Mat á vaxtabyrði liggur heldur ekki fyrir né afborgunarskilmálar. Líklegt er að yfir 400 milljarða kr. halli verði á ríkissjóði næstu þrjú árin og að samdráttur verði í þjóðarframleiðslu.
    Við tökum því mikla áhættu um framtíð okkar næstu árin og göngumst í raun undir það að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi framkvæmd efnahagsstefnunnar að miklu leyti á sínu valdi. Margt er óljóst um þau árangurstengdu markmið sem miða skal við í eftirliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
    Alþingi stendur frammi fyrir orðnum hlut að því er varðar lántöku hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og málið er þannig unnið af hálfu ríkisstjórnar og Seðlabanka að ekki verður aftur snúið og krónan komin á flot í skjóli þess gjaldeyris sem lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum veitir. Áætlun ríkisstjórnar um ferlið fram undan liggur ekki fyrir nú og jafnan er vísað á áætlanir og spár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar óskað er upplýsinga. Sjaldan hefur Þjóðhagsstofnunar verið eins saknað seinni árin og nú við mat á þeim aðstæðum sem bíða fólksins í landinu á komandi árum og munu birtast í verulega skertum lífskjörum.

Alþingi, 5. des. 2008.Guðjón A. Kristjánsson.