Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 120. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 276  —  120. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurgeir Þorgeirsson og Kristján Frey Helgason frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Illuga Gunnarsson, formann starfshóps sem ráðherra skipaði um málefnið, Steingrím Leifsson, Þorgrím Leifsson og Albert Svavarsson frá Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda, Guðberg Rúnarsson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Friðrik Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Arthur Bogason og Örn Pálsson frá Landssambandi smábátaeigenda.
    Umsagnir bárust frá Reiknistofu fiskmarkaða, Samtökum fiskvinnslustöðva, Náttúrufræðistofnun Íslands, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnuninni, Landssambandi smábátaeigenda, Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Matís ohf., Háskólanum á Akureyri, viðskipta- og raunvísindadeild, Sjómannasambandi Íslands, Starfsgreinasambandi Íslands og Veiðimálastofnun.
    Samkvæmt frumvarpinu getur ráðherra heimilað útflutning óvegins ísfisks, enda sé fiskurinn seldur á opinberum markaði sem vottaður hefur verið af Fiskistofu. Frumvarpið tekur á þáttum sem til þess eru fallnir að bæta aðgengi fiskkaupenda að afla sem fyrirhugað er að flytja úr landi og byggist á vinnu starfshóps sem ráðherra skipaði samhliða afnámi útflutningsálags á óunninn botnfiskafla sem fluttur var úr landi. Lagt er til að útgerðarmönnum sem hyggjast flytja afla úr landi sé gert skylt að senda upplýsingar um afla til Fiskistofu sem sendir upplýsingarnar til birtingar á opnum uppboðsvef uppboðsmarkaðar með sjávarafla. Auk þess er gert ráð fyrir að gefið sé upp lágmarksverð fyrir aflann.
    Lögð er áhersla á auknar kröfur til vigtunarbúnaðar hjá fiskmörkuðum erlendis. Talið er nauðsynlegt að tryggja fullnægjandi eftirlit með þessari tegund af útflutningi á afla og í því skyni rýmkaðar heimildir Fiskistofu til að innheimta kostnað sem hlýst af eftirliti erlendis. Loks er lagt til að leyfi erlends markaðar til að taka á móti íslenskum afla verði afturkallað sé ekki farið að ákvæðum III. kafla laganna.
    Á fundum sínum ræddi nefndin tillögu þá sem lögð er til í frumvarpinu og telur meiri hlutinn ráðstöfunina vera vænlegan kost til að koma til móts við innlenda fiskkaupendur og til þess fallna að bæta aðgengi þeirra að afla sem flytja á úr landi. Telur meiri hlutinn að skráning afla sem flytja á út á uppboðsmarkað á þann hátt sem mælt er fyrir um í frumvarpinu auki jafnræði milli innlendra og erlendra aðila og tryggi frekari möguleika innlendra fiskverkenda á að bjóða í fisk sem ella yrði fluttur úr landi óunninn. Meiri hlutinn kom einnig inn á mikilvægi þess að styrkja innlenda fiskverkun m.a. vegna þess fjölda starfa sem þar getur skapast og skiptir miklu máli þegar atvinnuleysi er að aukast.
    Fjallað var um skilyrði frumvarpsins um lágmarksverð og möguleg áhrif þess á viðskipti, auk þess sem rætt var um vigtunarreglur í tengslum við heimild ráðherra til að heimila útflutning óvegins afla og eftirlit Fiskistofu með þeim útflutningi.
    Loks var rætt um tæknilegar útfærslur á uppboðsferlinu. Fram komu sjónarmið um að lengri tíma þyrfti til að undirbúa jarðveginn, prufukeyra uppboðskerfið og samhæfa aðgerðir til að tryggja að ferlið gangi hnökralaust þegar farið verður af stað. Að mati meiri hlutans gefst ekki tími til að vinna þessa undirbúningsvinnu ef miðað væri við núverandi gildistökuákvæði frumvarpsins.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    3. gr. orðist svo:
    Lög þessi öðlast gildi 1. febrúar 2009.

    Atli Gíslason skrifar undir álitið með fyrirvara og áskilur sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið.
    Gunnar Svavarsson og Jón Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. des. 2008.



Arnbjörg Sveinsdóttir,


form., frsm.


Atli Gíslason,


með fyrirvara.


Kjartan Ólafsson.



Helgi Hjörvar.


Valgerður Sverrisdóttir.


Karl V. Matthíasson.