Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 208. máls.

Þskj. 281  —  208. mál.Frumvarp til laga

um skattlagningu kolvetnisvinnslu.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)
I. KAFLI
Almennt.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi taka til skattlagningar á tekjum af leit, rannsóknum og vinnslu kolvetnis og afleiddrar starfsemi:
     a.      í landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunni Íslands,
     b.      á samliggjandi hafsvæði þar sem kolvetnisauðlind nær yfir miðlínu annars ríkis þegar réttur til kolvetnis fellur til Íslands samkvæmt samningi við hitt ríkið,
     c.      fyrir utan svæðið sem nefnt er í a-lið, enda hafi Ísland rétt til að skattleggja þá starfsemi og vinnu samkvæmt almennum rétti eða sérstökum samningum við erlent ríki.
    Lögin taka einnig til vinnslu og annarrar meðhöndlunar á kolvetni á svæðum skv. 1. mgr., þar með talið til flutnings í leiðslum, skipum eða með öðrum hætti óháð uppruna kolvetnisins.

2. gr.
Skilgreiningar.

     Kolvetni merkir í lögum þessum jarðolía, jarðgas eða annars konar kolvetni sem er til staðar í jarðlögum undir hafsbotni frá náttúrunnar hendi og nýtanlegt er í loftkenndu eða fljótandi formi.
     Leyfishafi merkir í lögum þessum sá aðili sem fengið hefur leyfi til leitar, rannsókna eða vinnslu kolvetnis samkvæmt lögum nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis.
     Landgrunn merkir í lögum þessum hafsbotninn og neðansjávarsvæði utan landhelgi, sem eru framlenging landsvæðisins, allt að ytri mörkum landgrunnssvæðisins, þó að 200 sjómílna fjarlægð frá grunnlínum landhelginnar þar sem ytri mörk landgrunnssvæðisins ná ekki þeirri fjarlægð, sbr. lög nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Milli Íslands annars vegar og Færeyja og Grænlands hins vegar, þar sem minna en 400 sjómílur eru milli grunnlína, afmarkast efnahagslögsaga og landgrunn Íslands af miðlínu.
     Tunna eða ígildi hennar merkir í lögum þessum mælieining fyrir jarðolíu þar sem ein tunna jafngildir 0,15898 rúmmetrum eða samsvarandi magn af öðru kolvetni með sama orkuinnihaldi, svo sem af jarðgasi.

3. gr.
Skattskyldir aðilar.

    Skylda til að greiða skatta og gjöld, eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum, hvílir á þeim aðilum sem fengið hafa leyfi til leitar, rannsókna og/eða vinnslu kolvetnis á svæði skv. 1. gr., svo og öðrum aðilum sem taka með beinum eða óbeinum hætti þátt í vinnslu og dreifingu kolvetnisafurða. Skattskyldir samkvæmt lögum þessum eru þannig lögaðilar, sjálfstætt starfandi menn og launþegar sem afla tekna við starfsemi sem fram fer á svæði skv. 1. gr.

4. gr.
Almenn skattskylda.

    Af tekjum sem verða til í þeirri starfsemi sem fjallað er um í 1. gr., þ.m.t. launum, skal auk skatta og gjalda samkvæmt lögum þessum greiða alla aðra skatta og önnur opinber gjöld sem almennt eru lögð á hér á landi eftir þeim lögum og reglum sem um þau gilda á hverjum tíma.

II. KAFLI
Vinnslugjald.
5. gr.
Gjaldskylda.

    Skattskyldur leyfishafi skv. 3. gr. skal greiða sérstakt vinnslugjald sem reiknast af því magni í tunnum talið sem hann vinnur árlega af kolvetni á grundvelli hinnar leyfisskyldu starfsemi. Með vinnslu er átt við allt það kolvetni sem afhent er úr auðlindinni, þar á meðal til framhaldsvinnslu og eigin nota.
    Ekkert vinnslugjald reiknast af fyrstu 10 milljón tunnunum eða ígildi þeirra á hverju tekjuári.

6. gr.
Viðmiðunarverð vinnslugjalds.

    Fjármálaráðherra skipar þrjá menn í nefnd til fimm ára í senn og jafnmarga til vara til að ákvarða viðmiðunarverð á kolvetni og skulu þeir hafa þekkingu á sviði lögfræði, hagfræði eða kolvetnisvinnslu. Nefndin skal í upphafi hvers mánaðar ákvarða viðmiðunarverð á kolvetni fyrir næstliðinn mánuð. Viðmiðunarverðið skal taka mið af meðalverði á kolvetni eins og það var á viðurkenndum alþjóðlegum markaði með sambærilegar kolvetnisafurðir, m.a. að teknu tilliti til sölukostnaðar og afhendingarstaðar.
    Ákvarðanir viðmiðunarverðsnefndar sæta ekki stjórnsýslukæru. Ráðherra setur nánari reglur um ákvörðun viðmiðunarverðs og störf nefndarinnar.

7. gr.
Gjaldhlutfall, gjaldstofn og fjárhæð vinnslugjalds.

    Vinnslugjald skv. 5. gr. er stighækkandi miðað við unnið magn leyfishafa af kolvetni. Gjaldhlutfall þess er ákvarðað með eftirfarandi hætti miðað við milljón tunnur eða ígildi þeirra: (Unnið magn í milljónum tunna – 10 milljónir tunna) / 1.000.000 * 0,5.
    Gjaldstofn vinnslugjalds miðast við verðmæti heildarvinnslu leyfishafa á hverju ári og ákvarðast sem margfeldi unnins magns og viðmiðunarverðs skv. 6. gr.
    Fjárhæð vinnslugjalds er margfeldi gjaldhlutfalls skv. 1. mgr. og gjaldstofns skv. 2. mgr.

8. gr.
Um skil á vinnslugjaldi.

    Hvert uppgjörstímabil vinnslugjalds er einn mánuður.
    Fyrir árslok skal gjaldskyldur aðili senda ríkisskattstjóra áætlun um áformaða heildarvinnslu kolvetnis á næsta ári og skal hún staðfest af Orkustofnun. Áætlunin skal endurskoðuð ársfjórðungslega og skulu leiðréttingar vera staðfestar af Orkustofnun.
    Áætlunin skv. 2. mgr. skal vera ákvarðandi um gjaldhlutfall, gjaldstofn og fjárhæð vinnslugjalds sem skilað er í staðgreiðslu uns endanlegt uppgjör eða álagning hefur farið fram skv. 6. mgr. Mánaðarleg staðgreiðsla miðast við einn tólfta af áætlaðri heildarvinnslu kolvetnis, sbr. 2. mgr.
    Gjaldskyldir aðilar skulu eftir lok hvers uppgjörstímabils greiða ótilkvaddir til innheimtumanns ríkissjóðs það vinnslugjald sem þeim ber að standa skil á samkvæmt skilagrein sem ríkisskattstjóri ákveður. Gjalddagi vinnslugjalds er 1. dagur hvers mánaðar og eindagi 14 dögum síðar.
    Að öðru leyti fer um staðgreiðslu vinnslugjalds eftir lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, en hvað varðar viðurlög og málsmeðferð gilda ákvæði VI. kafla þeirra laga eftir því sem við á.
    Samhliða álagningu opinberra gjalda samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal fara fram endanlegt uppgjör eða álagning vinnslugjalds fyrir næstliðið ár eftir því sem við á. Frávik sem verður á milli áætlunar skv. 2. mgr. og endanlegs unnins magns skal gert upp á meðalviðmiðunarverði ársins.

III. KAFLI
Kolvetnisskattur.
9. gr.
Gjaldskylda.

    Þegar skattskyldur hagnaður aðila skv. 3. gr. nær 20% af skattskyldum rekstrartekjum hans á heilu skattári skal á þann hagnað lagður sérstakur kolvetnisskattur sem kemur í stað vinnslugjalds hjá þeim sem það hafa greitt.

10. gr.
Skattskyldar rekstrartekjur.

    Til skattstofns kolvetnisskatts teljast allar tekjur skv. B- og C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Hafi mánaðarleg sala á kolvetni farið fram á lægra verði en viðmiðunarverði skv. 6. gr. skal við útreikning skattstofns miða við viðmiðunarverðið.
    Við ákvörðun á skattstofni kolvetnisskatts skal að öðru leyti en framan greinir miða við ákvæði laga nr. 90/2003 eftir því sem við getur átt.

11. gr.
Frádráttur frá skattskyldum rekstrartekjum.

    Frá tekjum skv. 10. gr. er heimilt að draga rekstrarkostnað skv. 31. gr. og niðurfærslu eigna skv. 32. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með þeim undantekningum sem fram koma í lögum þessum.
    Við ákvörðun á stofni til kolvetnisskatts er þó eigi heimilt að draga frá tekjum ársins hærri fjármagnskostnað en sem nemur 5% af stöðu skulda að frádregnum peningalegum eignum, þar með talið kröfum og birgðum, í lok viðkomandi reikningsárs. Ráðherra er heimilt að hækka eða lækka viðmiðunarhlutfallið með hliðsjón af starfrækslu- og fjármögnunargjaldmiðli leyfishafa og almennu vaxtastigi í viðkomandi mynt. Við útreikning á þeim stofni skal ekki telja til skuldar reiknaðan ógreiddan tekjuskatt eða reiknaðan ógreiddan kolvetnisskatt. Sama gildir um reiknaðar skattskuldbindingar og skattinneignir vegna varanlegs tímamismunar á reikningsskilum og skattskilum. Til fjármagnskostnaðar teljast öll vaxtagjöld, verðbætur, afföll og gengismunur af bókfærðum skuldum, sbr. 49. gr. laga nr. 90/2003, eftir að frá þeim hafa verið dregnar vaxtatekjur, verðbætur, afföll og gengismunur af bókfærðum eignum í samræmi við 8. gr. sömu laga. Falli slíkur fjármagnskostnaður til við öflun annarra eigna en þeirra sem nýttar eru í hinni leyfisskyldu starfsemi skal honum skipt í réttu hlutfalli við eftirstöðvar skattalegs fyrningarverðs allra fyrnanlegra eigna í lok árs og kemur þá sá hluti fjármagnskostnaðarins sem tengist eignum sem ekki eru nýttar til kolvetnisvinnslu ekki til frádráttar tekjum við ákvörðun á skattstofninum.
    Óheimilt er að færa til frádráttar tekjum hærri leigu af mannvirkjum eða búnaði sem nýttur er til leitar, rannsóknar eða öflunar á kolvetni en sem nemur eðlilegum afskriftum og vöxtum af viðkomandi eignum miðað við nýtingartíma á hverju ári. Við mat á því hvað skuli telja eðlilegar afskriftir og vexti skal taka mið af ákvæðum laga nr. 90/2003 og öðrum þeim reglum sem settar hafa verið með vísan til þeirra laga. Sé búnaður leigður af tengdum aðila geta skattyfirvöld hafnað gjaldfærslu á leigunni nema leigutaki framvísi upplýsingum og gögnum um kostnaðarverð og uppsafnaðar afskriftir slíks búnaðar í hendi leigusala þannig að hægt sé að ganga úr skugga um að framangreindum skilyrðum sé fullnægt.
    Kostnað við leigu á vinnuafli er því aðeins heimilt að færa til frádráttar tekjum að starfsmannaleigan hafi skráð sig hér á landi, sbr. 3. og 4. mgr. 7. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.
    Á því ári sem vinnslusvæði er lokað, sbr. 16. gr. laga nr. 13/2001, er heimilt að færa 10% af rekstrartekjum næstliðins árs til tekjufærslu á því ári.

12. gr.
Gjaldstofn kolvetnisskatts.

    Gjaldstofn kolvetnisskatts er skattskyldar rekstrartekjur skattskylds aðila skv. 10. gr., að frádregnum rekstrarkostnaði skv. 11. gr. Sé mismunur jákvæður myndast skattskyldur hagnaður af leyfisskyldri starfsemi. Nemi sá hagnaður 20% af skattskyldum rekstrartekjum leyfishafa á heilu skattári skal á þann hagnað lagður sérstakur kolvetnisskattur sem kemur í stað vinnslugjalds, sbr. 9. gr.
    Við ákvörðun á gjaldstofni kolvetnisskatts er eigi heimilt að draga frá eftirtalinn kostnað og frádráttarliði:
     a.      Vinnslugjald skv. 5. gr.
     b.      Tap af sölu eigna til tengdra aðila.
     c.      Hvers konar gjafir og framlög, svo sem til líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og íþróttafélaga.
     d.      Niðurfærslu viðskiptakrafna og vörubirgða.
     e.      Tap eða kostnað af starfsemi sem fellur utan gildissviðs laga þessara.
     f.      Tap af leyfisskyldri starfsemi verður hvorki flutt á milli leyfishafa né einstakra leyfissvæða.
     g.      Tap eða kostnað sem myndast hefur fyrir gildistöku laga þessara.

13. gr.

Gjaldhlutfall og fjárhæð kolvetnisskatts.

    Gjaldhlutfall kolvetnisskatts er stighækkandi og reiknast með eftirfarandi hætti: (Hagnaðarhlutfall mælt í prósentustigum skv. 9. gr. og 1. mgr. 12. gr. – 10 prósentustig) * 0,55.
    Fjárhæð kolvetnisskatts er margfeldi gjaldhlutfalls skv. 1. mgr. og gjaldstofns skv. 12. gr.

14.      gr.
Um skil á kolvetnisskatti.

    Álagning kolvetnisskatts skal fara fram samhliða álagningu opinberra gjalda samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, á því framtalsformi sem ríkisskattstjóri ákveður. Komi í ljós að kolvetnisskattur skv. III. kafla verði lagður á tekjur þess árs sem vinnslugjald hefur verið greitt af skal fjárhæð vinnslugjaldsins skoðast sem fyrirframgreiðsla upp í álagðan kolvetnisskatt.
    Skattskyldur leyfishafi sem vinnur árlega meira en 50 milljón tunnur á ári getur sótt um til ríkisskattstjóra að vinnslugjald sem hann greiðir sem bráðabirgðagreiðslu upp í kolvetnisskatt miðist við vinnslu upp á 50 milljón tunnur enda sýni hann fram á að skilyrði 1. mgr. séu uppfyllt.
    Rekstraraðilar sem ekki hafa greitt vinnslugjald en sæta álagningu kolvetnisskatts skulu greiða fyrirframgreiðslu upp í væntanlega álagningu kolvetnisskatts með sama hætti og áskilið er um fyrirframgreiðslu tekjuskatts í lögum nr. 90/2003.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði um tekjur.
15. gr.

    Varði kostnaður, annar en fjármagnskostnaður, í senn bæði öflun tekna af hinni leyfisskyldu starfsemi og öflun annarra tekna, að frátöldum fjármagnstekjum, skal skipta kostnaðinum í réttu hlutfalli við tekjurnar.

16. gr.

    Hagnaður af sölu varanlegra rekstrarfjármuna vegna hinnar leyfisskyldu starfsemi skal ákvarðaður og skattlagður með sama hætti og af fyrnanlegum eignum samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
17. gr.

    Leyfishafar sem greiða skatt samkvæmt lögum þessum skulu halda tekjum og gjöldum af leyfisskyldri starfsemi sinni aðgreindum frá tekjum og gjöldum af annarri starfsemi í bókhaldi sínu.

18. gr.

    Reikningsár lögaðila eða útibús sem skráð er hér á landi vegna starfsemi skv. 1. gr. skal vera almanaksárið. Skattskylda aðila samkvæmt lögum þessum hefst frá og með því almanaksári þegar leyfinu sem starfsemin byggist á var úthlutað.

19. gr.

    Leyfishafa er óheimilt að úthluta tekjuafgangi ef það verður til þess að hlutfall eigin fjár verður lægra en 15% af skattalegu bókfærðu verði heildareigna.

VI. KAFLI
Framtöl, skýrslugjafir, álagning, eftirlit, kærur, innheimta o.fl.
20. gr.

    Að öðru leyti en greinir í þessum lögum skulu um framtöl, skýrslugjafir, álagningu, eftirlit, kærur, og innheimtu vinnslugjalds og kolvetnisskatts gilda ákvæði IX.–XIV. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en varðandi viðurlög er sérstaklega vísað til XII. kafla þeirra laga.

21. gr.
Álagning, innheimta og ábyrgð á skattgreiðslum.

    Skattar samkvæmt lögum þessum skulu lagðir á af skattstjóranum í Reykjavík og renna í ríkissjóð. Tollstjórinn í Reykjavík hefur á hendi innheimtu þeirra.
    Allir aðilar sem inna af hendi greiðslur vegna starfsemi skv. 1. gr., og viðtakandinn er ekki skattskyldur skv. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu halda eftir afdráttarskatti í samræmi við ákvæði A-liðar 2. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.
    Fjármálaráðherra getur krafist þess að skattskyldir aðilar samkvæmt lögum þessum setji tryggingu fyrir væntanlegum sköttum sínum og gjöldum svo og fyrir skattgreiðslum annarra aðila sem þeir eru ábyrgir fyrir.

22. gr.

    Fjármálaráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga, svo sem um nánari ákvörðun tekna og eigna, störf skattstjóra, skattrannsóknarstjóra ríkisins, ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar og um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna.
    Ráðherra getur í reglugerð kveðið á um sérstakt bókhald framtalsskyldra aðila, þar á meðal birgðabókhald. Einnig getur hann kveðið á um form reikningsskila og geymslu bókhalds og annarra gagna er varða skattframtöl.

23. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2009.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frá árinu 1997 hefur með markvissum hætti verið kannað hvort olía eða gas finnist á landgrunni Íslands. Þær kannanir benda til þess að líkur séu á að olía eða gas, hér eftir í einu nafni nefnt kolvetni, finnist á landgrunninu. Á árinu 2001 voru að frumkvæði iðnaðarráðuneytisins samþykkt á Alþingi lög nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Í lögunum eru meðal annars ákvæði um eignarrétt, ýmsa öryggisþætti, stjórnsýslu og gjaldtöku vegna útgáfu leyfa og eftirlits sem tengist kolvetnisvinnslu.
    Í mars 2006 samþykkti ríkisstjórn Íslands að hefja undirbúning að útgáfu leyfa til rannsókna og vinnslu kolvetnis í lögsögu Íslands, nánar tiltekið á svokölluðu Drekasvæði. Þegar hefur verið ákveðið að fyrstu leyfin til rannsókna á vinnslu kolvetnis verði boðin út 15. janúar 2009. Það frumvarp sem hér er kynnt er lagt fram í beinum tengslum við komandi útboð enda afar mikilvægt að reglur um skattlagningu kolvetnisvinnslu liggi fyrir gagnvart þeim aðilum sem hug hafa á að bjóða í leyfin.
    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að sérlög gildi um skattskyldu og skattlagningu kolvetnisvinnslu enda um mjög sérhæfða vinnslu að ræða. Þannig er lagt til að á aðila sem stunda kolvetnisvinnslu eða taka með beinum hætti þátt í öflun og dreifingu kolvetnis verði lagður sérstakur skattur, annaðhvort í formi vinnslugjalds, sem er óháð afkomu vinnslunnar, eða í formi kolvetnisskatts, þegar vinnslan er farin að skila tilteknum lágmarkshagnaði.
    Í frumvarpinu er miðað við að aðilar sem verða skattskyldir samkvæmt þessum lögum greiði einnig skatta og önnur gjöld sem almennt eru lögð á atvinnurekstur hér á landi óháð lögum þessum. Það kallar óhjákvæmilega á breytingar á öðrum skattalögum eins og lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en miðað er við að tillögur að breytingum á þeim lögum verði lagðar fyrir á næstkomandi vorþingi.
    Sérstakur starfshópur sem fjármálaráðherra skipaði vann að framangreindri útfærslu, en hann skipuðu Ingvi Már Pálsson og Þórður Reynisson frá fjármálaráðuneytinu og Aðalsteinn Hákonarson og Ingvar Rögnvaldsson frá ríkisskattstjóra. Með starfshópnum starfaði einnig Björn Ragnar Björnsson frá fjármálaráðuneytinu. Við mótun og útfærslu frumvarpsins hafði starfshópurinn náið samstarf við iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun.
    Það frumvarp sem hér er lagt fram er í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um skattlagningu kolvetnisvinnslu og voru eftirtalin meginmarkmið höfð að leiðarljósi við mótun á þeim tillögum sem fram koma í frumvarpinu:
     *      Að ríkinu verði tryggð ásættanleg hlutdeild í þeim hagnaði sem fellur til vegna nýtingar á takmarkaðri auðlind í eigu þjóðarinnar.
     *      Að Ísland verði í skattalegu tilliti samkeppnishæft við nágrannaríki okkar (Noreg, Færeyjar, Kanada, Írland og Grænland).
     *      Að skattlagning kolvetnisvinnslu á Íslandi verði einföld og skilvirk.

Sérstaða kolvetnisvinnslu.
    Fyrirtæki í kolvetnisvinnslu greina á milli ríkja eftir því hversu vel kannaðar olíulindir þeirra eru, hversu auðvelt er að nálgast þær, hvað er vitað um jarðlög og hver skattheimta ríkjanna er. Eigi að laða hingað til lands fyrirtæki til að vinna kolvetni þarf skattlagning á starfsemi þeirra hérlendis að vera vel samkeppnishæf við skattareglur annarra ríkja um sambærilega starfsemi. Sérstaða kolvetnisvinnslu liggur fyrst og fremst í mjög löngum tíma og kostnaði vegna leitar og vinnslu en á móti kemur að ábatinn getur verið gríðarlegur ef vel gengur.
    Orkustofnun hefur bent á að óraunhæft sé að ætla að styttri tími en níu ár líði frá því kolvetnisvinnslufyrirtæki fær leyfi til leitar og rannsóknar þar til vinnsla getur hafist. Þá er óvarlegt að ætla að fjárfestingar þessara fyrirtækja, sem eru í eðli sínu langtímafjárfestingar, skili hagnaði fyrr en að nokkrum tíma liðnum eftir að vinnsla hefst. Með hliðsjón af þessu hefur almennt verið talið að önnur sjónarmið gildi um skattlagningu þessa iðnaðar enda getur ábati ríkisins verið mikill ef vel tekst til. Samhliða þarf að tryggja að ríkið fái ásættanlega hlutdeild í þeim hagnaði sem verður af nýtingu á þessari takmörkuðu þjóðarauðlind.

Skattlagning kolvetnisvinnslu.
    Sem fyrr segir er skattaumhverfið einn af þeim ákvörðunarþáttum sem vinnslufyrirtæki horfa gjarnan til þegar þau standa frammi fyrir því að bjóða í leitarleyfi í einstökum ríkjum. Starfshópur fjármálaráðherra kannaði sérstaklega með hvaða hætti nágrannalönd okkar hafa skattlagt slíka starfsemi. Almennt má segja að hægt sé að skipta skattlagningu á kolvetnisvinnslu upp í þrjá meginflokka:
     *      Svæðisgjöld:
             Það eru gjöld sem greidd eru fyrir leitarleyfi á ákveðnu svæði og miðast fjárhæð gjaldsins vanalega við stærð leitarsvæðisins. Jafnframt getur leitarleyfið veitt mismunandi heimildir og í sumum ríkjum eru svæðisgjöld vegna leitarleyfis töluvert hærri ef leyfið felur í sér borunarleyfi. Hér á landi eru ákvæði um svæðisgjöld í lögum nr. 13/2001.
     *      Vinnslugjald:
             Vinnslugjald, þ.e. ákveðið gjaldhlutfall, þar sem gjaldstofninn miðast við það söluverð sem fæst fyrir þá olíu sem dælt er úr auðlindinni á hverjum tíma. Vinnslugjaldið er óháð afkomu kolvetnisvinnslunnar og tekjur af því tiltölulega öruggar eftir að vinnsla hefst. Í því þarf þó að felast hvati til frekari vinnslu með eðlilegum ábata.
     *      Skattur af hagnaði:
             Hagnaður kolvetnisvinnslu (olíu- og gasfyrirtækja) vegna nýtingar á olíuauðlindum þjóða getur orðið gríðarlega mikill beri leit árangur. Því þykir rökrétt að slík vinnslufyrirtæki greiði hærri skatt en almenn fyrirtæki af hagnaði sínum. Í nágrannalöndum okkar er skattlagning á hagnað olíufyrirtækja mun hærri en á hagnað fyrirtækja almennt og hafa flest þeirra farið þá leið að leggja sérstakan skatt á þessi fyrirtæki, svokallaðan kolvetnisskatt. Sem dæmi má nefna að í Noregi er kolvetnisskatturinn 50% sem leggst ofan á almennan fyrirtækjaskatt, sem er 28%, þannig að hagnaður olíufyrirtækja þar í landi ber samanlagt 78% skatt. Þá er gjaldstofn kolvetnisskatts gjarnan annar en almenna tekjuskattsins vegna mismunandi frádráttarliða.
    Þær tekjur sem íslenska ríkið ætlar sér af kolvetnisvinnslu eru fyrst og fremst kolvetnisskattur og tekjuskattur Ef ekki reynist unnt að vinna kolvetni með hagnaði hefur ríkið takmarkaða hagsmuni af vinnslunni. Því er lagt til að greitt verði vinnslugjald af magni kolvetnis ef hagnaður er lítill eða enginn. Í þessu felst hvatning til vinnsluaðila að starfsemin skili hagnaði og jafnframt fæst afgjald fyrir eyðingu hinnar takmörkuðu auðlindar ef hagnaður er óverulegur eða enginn.

Efnahagsleg áhrif kolvetnisvinnslu.
    Ef olía finnst við Ísland í nægilegu magni til vinnslu má gera ráð fyrir að efnahagsleg áhrif þess á íslenskan þjóðarbúskap verði umtalsverð. Áætlað lágmarksmagn olíu til vinnslu úr einni olíulind með hagnaði er á bilinu 10–20 milljónir rúmmetra, sem gerir 63–126 milljónir tunna. Bein og óbein starfsemi vegna olíuvinnslu hefði áhrif til að stórauka tekjustreymi í ríkissjóð. Reikna má með að eigi færri en 200 manns hefðu beina atvinnu af slíkri starfsemi. Á sama tíma má jafnframt gera ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs aukist vegna olíuvinnslunnar, svo sem vegna eftirlits með vinnslu, vinnuöryggi og umhverfi. Í sumum olíuvinnsluríkjum hefur verið lagt eftirlitsgjald á olíufyrirtæki til að standa undir slíkum kostnaði. Gera má ráð fyrir að útgjöld hins opinbera vegna olíustarfsemi hér á landi verði aðeins lítið brot af þeim tekjum sem búast má við að skili sér í beinum og óbeinum sköttum í ríkissjóð takist að vinna olíu hér við land.
    Að mati sérfræðinga geta leit og rannsóknir tekið 9–12 ár. Áætlað er að kostnaður vinnsluaðila við leitina nemi tugum milljarða króna hvort sem kolvetnisauðlindir finnast eður ei. Áhrifin á umsvif í hagkerfinu verða þó óveruleg ef leit gengur illa. Finnist ekkert kolvetni á Drekasvæðinu verða áhrif á þjóðartekjur nærri núlli.
    Í stuttu máli má segja að möguleikarnir í efnahagslegu tilliti séu eftirfarandi:
     1.      Leit skilar engu. Óveruleg áhrif á ríkissjóð og íslenskt efnahagslíf almennt.
     2.      Vinnsluhæfar kolvetnislindir finnast í hóflegu magni 9–13 árum eftir að leit hefst, þ.e. 2019–2023. Skatttekjur skila sér ekki í verulegum mæli fyrr en að einhverjum tíma liðnum. Innheimta vinnslugjalds hefst þó um leið og vinnsla hefst. Vinnslu gæti lokið á 10 árum. Tekjur ríkissjóðs gætu numið einhverjum tugum milljarða króna umfram kostnað og áhrif þess á íslenskt efnahagslíf yrðu tiltölulega hófleg.
     3.      Vinnsluhæfar kolvetnislindir finnast í miklu magni. Vinnsla hefst 2019–2023, eins og áður, en efnahagsleg áhrif, jafnt á ríkissjóð sem þjóðarbúið í heild, yrðu hlutfallslega miklu meiri. Finnist einnig gas gæti það lengt heildarvinnslutímann með tilheyrandi margfeldisáhrifum á íslenskan efnahag. Við slíkar aðstæður mundu tekjur ríkissjóðs margfaldast frá því sem nú er.
    Engin leið er að segja til um það með einhverri vissu hve mikil umsvif möguleg kolvetnisvinnsla á Drekasvæðinu muni skapa í íslensku efnahagslífi, ef frá eru taldar áætlaðar skatttekjur. Ef vel gengur má ætla að þau nemi að lágmarki einhverjum hundruðum milljóna króna árlega í formi keyptrar þjónustu eða afleiddrar starfsemi. Á móti kemur kostnaður í tengslum við eftirlit, þjónustu og öryggisviðbúnað sem íslensk stjórnvöld munu væntanlega þurfa að taka á sig, nema lögð verði á umrædda vinnslu gjöld í takt við veitta þjónustu. Ýmis rök hníga í átt að því að reynt verði að ljúka vinnslu á sem stystum tíma þegar um er að ræða svæði þar sem sjávardýpi er jafn mikið og á Drekasvæðinu. Það er því mögulegt að finnist vinnsluhæfar olíulindir, en í litlum mæli, þá ljúki vinnslu á örfáum árum.

Tillögur frumvarpsins að skattlagningu kolvetnisvinnslu.
    Eins og áður sagði taka tillögur frumvarpsins mið af stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um skattlagningu kolvetnisframleiðslu. Lagt er til að af slíkri starfsemi verði greitt annaðhvort vinnslugjald eða kolvetnisskattur auk almenns tekjuskatts af hagnaði starfseminnar óháð frumvarpi þessu og án nokkurra sérreglna líkt og gildir um önnur fyrirtæki.
    Vinnslugjaldið er stighækkandi gjald sem tekur mið af verðmæti þess magns af kolvetni sem nýtt er úr auðlindinni óháð kostnaði vinnsluaðila. Ekkert vinnslugjald er greitt af fyrstu 10 milljón tunnunum á hverju ári en gjaldhlutfallið hækkar með aukinni vinnslu. Gjaldhlutfallið er ákvarðað með eftirfarandi hætti: Unnið magn í milljónum tunna að frádregnum 10 milljónum tunna. Í þá fjárhæð er deilt með milljón og sú útkoma er margfölduð með stuðlinum 0,5. Fjárhæð vinnslugjaldsins er margfeldi gjaldhlutfallsins og verðmætis unnins magns. Í eftirfarandi töflu eru tekin dæmi af útreikningi vinnslugjalds við mismunandi magn vinnslu og miðað við viðmiðunarverðið 10.000 krónur á hverja tunnu.

Unnið magn af kolvetni (millj. tunna) 20 40 50 60 80 100 125
Gjaldhlutfall 5% 15% 20% 25% 35% 45% 58%
Gjaldstofn vinnslugjalds í milljörðum króna
miðað við viðmiðunarverð 10.000 kr. á tunnu

200

400

500

600

800

1.000

1.250
Vinnslugjald (milljarðar kr.) 10 60 100 150 280 450 719

    Þegar árleg kolvetnisvinnsla leyfishafa er farin að skila hagnaði umfram 20% af skattskyldum rekstrartekjum fer hann að greiða kolvetnisskatt í stað vinnslugjalds.
    Kolvetnisskattur er greiddur af hagnaði og er stighækkandi eftir því sem hagnaður eykst. Gjaldhlutfall hans reiknast þannig að frá hagnaðarhlutfalli eru dregin 10 prósentustig og sá munur margfaldaður með stuðlinum 0,55. Í eftirfarandi töflu eru tekin dæmi af útreikningi kolvetnisskatts hjá aðila með 500 milljarða króna í rekstrartekjur á ári.

Rekstrartekjur (milljarðar kr.) 500 500 500 500 500 500 500
Rekstrargjöld (milljarðar kr.) 400 350 300 250 200 100 50
Hagnaðarhlutfall 20% 30% 40% 50% 60% 80% 90%
Gjaldhlutfall 5,5% 11,0% 16,5% 22,0% 27,5% 38,5% 44,0%
Kolvetnisskattur (milljarðar kr.) 5,5 16,5 33 55 82,5 154 198

Tekju- og skattaflæði í sviðsmyndum ásamt samanburði við Noreg.
    Til að gefa hugmynd um tekju- og skattaflæði hefur eftirfarandi sviðsmyndum verið stillt upp sem sýna tekjur og skatta, í samræmi við tillögur frumvarpsins, ásamt samanburði við norska skattlagningu sömu starfsemi. Sviðsmyndirnar eru byggðar á sviðsmyndum úr skýrslu iðnaðarráðuneytisins um olíuleit og vinnslu á Drekasvæðinu frá árinu 2006 og þess vegna eru þær merktar sem sviðsmyndir 3.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Fyrri sviðsmyndin er miðuð við 50 dollara á olíutunnu og síðari við 80 dollara á tunnu. Miðað er við 6,5 norskar krónur á dollar og 20 íslenskar krónur fyrir hverja norska.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.

    Í I. kafla er að fjallað um gildissvið laganna, skilgreiningar á helstu hugtökum og hverjir teljast skattskyldir aðilar.

Um 1. gr.

    Í þessu upphafsákvæði frumvarpsins er kveðið á um gildissvið laganna og er lagt til að það taki til skattlagningar á tekjum vegna leitar, rannsóknar og vinnslu kolvetnis og annarrar starfsemi. Þetta ákvæði laganna ber að túlka rúmt enda taka þau skv. 2. mgr. einnig til allra afleiddra tekna af vinnslu og annarrar meðhöndlunar kolvetnis á nánar tilgreindum svæðum óháð uppruna kolvetnisins þegar réttur til þess fellur til íslenska ríkisins á grundvelli samninga við annað ríki.

Um 2. gr.

    Í greininni er að finna orðskýringar þar sem helstu hugtök sem fram koma í frumvarpinu eru skilgreind. Í lögum nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, eru skýrð hugtök sem fram koma í þessu frumvarpi en ekki þykir ástæða til að skýra þau hugtök jafnframt í þessu frumvarpi.

Um 3. gr.

    Í þessari grein er fjallað um skattskylda aðila, þ.e. þá aðila sem bera skyldu til að greiða skatt og gjöld samkvæmt lögum þessum. Skattskylda samkvæmt lögum þessum nær til þeirra aðila sem hafa fengið leyfi til leitar, rannsóknar og/eða vinnslu kolvetnis á þeim svæðum sem skilgreind eru í 1. gr. Skattskyldan nær einnig allra annarra aðila sem taka með beinum hætti þátt í öflun og dreifingu kolvetnisafurða. Sem dæmi má nefna að greinin tekur til þeirra aðila sem hafa með dælingu og flutning á kolvetni að gera en þeir eru ótvírætt skattskyldir aðilar samkvæmt frumvarpinu. Aðili sem fær leyfi til leitar og leigir eða selur leitarniðurstöðurnar sínar til rannsóknar- og vinnsluleyfishafa eða aflar sér slíkra leyfa sjálfur er skattskyldur samkvæmt greininni. Skattskyldan samkvæmt þessari grein tekur jafnframt til starfsmanna þeirra fyrirtækja sem starfa á grundvelli 1. gr. og bera þeir því skattskyldu af launum sínum hér á landi í samræmi við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Um 4. gr.

    Með greininni eru tekin af öll tvímæli um það að skattskyldum aðilum samkvæmt frumvarpi þessu ber að greiða alla skatta og önnur gjöld sem lögð eru á hér á landi óháð lögum þessum. Skattskylda aðila samkvæmt frumvarpinu hefur ekki áhrif á skattskyldu þeirra samkvæmt öðrum lögum og viðkomandi aðila ber til dæmis að greiða tekjuskatt samkvæmt lögum þar um án tillits til laga þessara. Skattar og gjöld sem lögð eru á samkvæmt frumvarpinu eru vinnslugjald og kolvetnisskattur. Þessir skattar eru annars vegar lagðir á unnið kolvetni og hins vegar hagnað af kolvetnisvinnslu. Sá sem nýtir auðlindina greiðir þannig eftir atvikum vinnslugjald eða kolvetnisskatt af slíkum tekjum og að auki önnur opinber gjöld, svo sem þau sem lögð eru á á grundvelli laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þjónustuaðilar og launamenn sem skattskyldir verða vegna starfa sinna á landgrunninu samkvæmt lögum þessum og bera hvorki vinnslugjald né kolvetnisskatt yrðu þannig skattlagðir á grundvelli laga nr. 90/2003.

Um II. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um vinnslugjald sem leggst á verðmæti unnins magns af kolvetni. Ólíkt kolvetnisskatti er vinnslugjald óháð kostnaðarliðum í rekstri gjaldskylds aðila og miðast fjárhæð gjaldsins við unnið magn og verðmæti þess kolvetnis sem nýtt er úr auðlindinni á hverju gjaldtímabili.

Um 5. gr.

    Með greininni er lagt til að skattskyldur leyfishafi greiði vinnslugjald af því kolvetni sem hann vinnur á grundvelli hinnar leyfisskyldu starfsemi. Með vinnslu er átt við allt það kolvetni sem afhent er úr auðlindinni, þar á meðal til framhaldsvinnslu og eigin nota. Skattskyldan tekur því til alls þess kolvetnis sem varanlega er tekið úr auðlindinni.
    Með 2. mgr. er áréttað að ekkert vinnslugjald er greitt af fyrstu 10 milljón tunnunum á hverju ári. Sama á við um ígildi tunna, t.d. ef um er að ræða gasvinnslu.

Um 6. gr.

    Í greininni er fjallað um viðmiðunarverð kolvetnis þegar fjárhæð vinnslugjaldsins er reiknuð. Áþekk ákvæði tíðkast í þeirri löggjöf grannríkja sem höfð hefur verið til hliðsjónar. Mikilvægt er að til grundvallar útreikningi vinnslugjalds sé miðað við raunverulegt verðmæti kolvetnis, þ.e. það verð sem telja má að leyfishafi geti fengið fyrir það kolvetni sem hann nýtir úr auðlindinni. Líkur er taldar á því að leyfishafar selji unnið kolvetni til tengdra aðila og verð í viðskiptum tengdra aðila getur orkað tvímælis. Því er lagt til að við útreikning á vinnslugjaldi verði notað viðmiðunarverð sem ákvarðað er af þriggja manna nefnd sem fjármálaráðherra skipar til fimm ára í senn. Í upphafi hvers mánaðar birtir nefndin ákvarðað viðmiðunarverð fyrir næstliðinn mánuð. Verðið miðast við meðalverð á sams konar kolvetni og um ræðir eins og það var í viðskiptum óháðra aðila á frjálsum markaði næstliðinn mánuð. Nefndin skal við ákvörðun á viðmiðunarverði taka tillit til sölukostnaðar, afhendingarstaðar og eftir atvikum annars kostnaðar sem fallið hefur á afurðina eða á eftir að falla á hana. Þar sem kolvetni er nokkuð einsleit vara sem seld er á mörkuðum víða í Evrópu má ætla að kolvetnisverð á slíkum mörkuðum endurspegli raunverulegt verðmæti þess kolvetnis sem nýtt er úr auðlindum Íslands. Enn fremur skal nefndin birta stuðul fyrir ígildisafurðir jarðolíu. Með því er til dæmis átt við jarðgas og aðrar kolvetnistegundir sem nýttar eru úr auðlindinni.
    Í 2. mgr. er lagt til að ákvarðanir viðmiðunarnefndar séu endanlegar á stjórnsýslustigi og sæti ekki stjórnsýslukæru. Ráðgert er að ráðherra setji nánari reglur um ákvörðun viðmiðunarverðs kolvetnis samkvæmt greininni.

Um 7. gr.

    Í greininni er gert grein fyrir útreikningi á gjaldhlutfalli, gjaldstofni og fjárhæð vinnslugjalds. Það er stighækkandi miðað við unnið magn af kolvetni á ári umfram 10 milljónir tunna. Sé árleg vinnsla kolvetnis af viðkomandi svæði undir 10 milljónum tunna greiðist ekkert vinnslugjald af þeirri vinnslu. Prósentutala gjaldsins er reiknuð þannig að frá unnu magni í milljónum tunna eru dregnar 10 milljónir tunna og deilt í útkomuna með milljón. Sú niðurstaða er margfölduð með 0,5. Ef unnið heildarmagn væri 50 milljón tunnur reiknaðist vinnslugjaldsprósentan þannig: (50.000.000 – 10.000.000) / 1.000.000 x 0,5 þannig að vinnslugjaldsprósentan yrði 20%.
    Í eftirfarandi töflu má sjá fleiri dæmi um útreikning á gjaldhlutfalli vinnslugjaldsins:

Unnið magn (millj. tunna) 10 20 30 40 60 80 100 120 150 200
Gjaldhlutfall vinnslugjalds 0% 5% 10% 15% 25% 35% 45% 55% 70% 95%

    Leiða má að því líkur að vinnslugjaldsprósentan verði ekki mjög há í raun því þegar vinnslan er orðin töluverð má gera ráð fyrir að kolvetnisskattur leggist á í stað vinnslugjalds.
    Með 2. mgr. er áréttað að gjaldstofn vinnslugjalds miðast við verðmæti heildarvinnslu leyfishafa á hverju ári en verðmæti heildarvinnslu er margfeldi unnins magns og viðmiðunarverðs eins og það er ákvarðað á hverjum tíma, sbr. 6. gr. frumvarpsins.
    Til að taka af öll tvímæli um fjárhæð vinnslugjaldsins er í 3. mgr. tekið fram að það sé margfeldi gjaldhlutfalls skv. 1. mgr. og gjaldstofns skv. 2. mgr. Sem dæmi má nefna að ef unnið magn er 40 milljónir tunna er gjaldhlutfall vinnslugjaldsins 15%. Ef viðmiðunarverð umrædds kolvetnis væri 10.000 á tímabilinu væri gjaldstofn vinnslugjaldsins 400 milljarðar króna (40 millj. x 10.000). Fjárhæð vinnslugjaldsins miðað við framangreindar forsendur væri því 60 milljarðar króna.

Um 8. gr.

    Í þessari grein er fjallað um skil á vinnslugjaldi. Miðað er við að hvert uppgjörstímabil sé almanaksmánuðurinn.
    Með 2. mgr. er tekið fram að fyrir árslok skuli gjaldskyldur aðili senda ríkisskattstjóra áætlun um áformaða heildarvinnslu á kolvetni fyrir næsta ár. Þessi áætlun skal hljóta staðfestingu Orkustofnunar og endurskoðast ársfjórðungslega.
    Í 3. mgr. kemur fram að áætlunin skuli vera ákvarðandi um það gjaldhlutfall vinnslugjalds sem skila á í staðgreiðslu. Endanlegt uppgjör vinnslugjaldsins miðast þó við unnið heildarmagn á árinu.
    Samkvæmt 4. mgr. skulu gjaldskyldir aðilar eftir lok hvers uppgjörstímabils, þ.e. í hverjum mánuði, greiða ótilkvaddir til innheimtumanns ríkissjóðs það vinnslugjald sem þeim bera að standa skil á samkvæmt skilagrein sem ríkisskattstjóri ákveður.
    Samkvæmt 5. mgr. fer að öðru leyti um staðgreiðslu vinnslugjalds eftir lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Hvað varðar viðurlög og málsmeðferð skulu gilda ákvæði VI. kafla laga nr. 45/1987 eftir því sem við á.
    Samkvæmt 6. mgr. skal endanlegt uppgjör eða álagning vinnslugjalds fyrir næstliðið ár fara fram samhliða álagningu opinberra gjalda samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Um III. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um kolvetnisskatt sem kemur í stað vinnslugjalds þegar hagnaður nær 20% af skattskyldum rekstrartekjum á heilu skattári.

Um 9. gr.

    Samkvæmt greininni skal skattskyldur aðili samkvæmt lögum þessum greiða sérstakan kolvetnisskatt í stað vinnslugjalds ef hagnaður hans nær 20% eða meira af skattskyldum rekstrartekjum hans á heilu skattári. Vinnslugjald skal eftir sem áður greitt í hverjum mánuði eins og fram hefur komið.

Um 10. gr.

    Í greininni er fjallað um skattskyldar rekstrartekjur. Í greininni kemur fram að til skattstofns kolvetnisskatts teljist allar tekjur skv. B- og C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Sem dæmi um slíkar tekjur má nefna endurgjald fyrir selt kolvetni, þjónustu, ráðgjöf, umboðslaun, þóknanir, leigutekjur, arð, vexti, verðbætur, afföll, gengishagnað, hagnað af sölu eigna og aðrar tekjur sem eru ekki sérstaklega undanþegnar í lögum nr. 90/2003 eða sérlögum. Einnig kemur fram í greininni að ef mánaðarleg sala á kolvetni fer fram á lægra verði en viðmiðunarverði eins og það er ákvarðað af þar til bærri nefnd skv. 6. gr. skal hækka skattstofninn um fjárhæð sem nemur þeim mismun. Sem dæmi má nefna að hafi sala á kolvetni í júní farið fram á 70 bandaríkjadölum á hverja tunnu en viðmiðunarverð fyrir þann mánuð sbr. 6. gr. var 85 bandaríkjadalir á hverja tunnu skal hækka skattstofninn sem nemur þessum mismun eða um 21,43%. Gert er ráð fyrir að við mat á söluverði og viðmiðunarverði í þessu samhengi sé til þess horft að söluverðið sé samanburðarhæft við markaðsverðið þannig að tekið sé tillit til áfallins kostnaðar eða óáfallins kostnaðar við sölu eins og t.d. afsláttar, flutningsgjalda, sölu- og umboðslauna sbr. 6. gr. eftir því sem við á.

Um 11. gr.

    Í greininni er fjallað um frádrátt frá skattskyldum tekjum til kolvetnisskatts. Að meginstofni gilda sömu reglur og um almennan rekstrarkostnað í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, en þar er heimilaðan frádrátt að finna í 31. og 32. gr. laganna. Fyrri greinin fjallar almennt um rekstrarkostnað en hin síðari um gjaldfærslu stofnkostnaðar og undirbúningskostnaðar sem til fellur m.a. við starfsemi eins og þessa. Í stórum dráttum má segja að leyfishafar geti að eigin vali gjaldfært allan stofnkostnað og rekstrarkostnað jafnóðum og hann fellur til og myndað með því tap sem yfirfæranlegt er í 10 ár eða eignfært kostnaðinn og gjaldfært hann þegar tekjuöflunin hefst.
    Aðilar sem koma að kolvetnisvinnslu eru venjulega fyrirtæki sem eru hluti af fjölþjóðlegum félagasamstæðum. Með því að selja afurðir til félaga innan samstæðunnar eða kaupa af þeim þjónustu er hægt að flytja til hagnað innan samstæðunnar og hafa þannig áhrif á hvar skattlagningin fer fram. Því þótti nauðsynlegt að setja ákveðin milliverðlagsákvæði inn í greinina til að tryggja sem best skattlagningu á raunhagnaði leyfishafans. Í greininni eru t.d. ákvæði um að ekki sé heimilt að gjaldfæra hærri vexti í starfsemi leyfishafans en sem nemur 5% af nettóskuldum. Þessu hlutfalli getur ráðherra þó breytt með hliðsjón af starfrækslu- og fjármögnunargjaldmiðli leyfishafans. Þá eru ákvæði sem takmarka leigugreiðslur fyrir mannvirki, búnað og vinnuafl nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í stað þess að endurgreiða hluta af kostnaði við lokun á vinnslusvæðum, eins og gert er í sumum öðrum löndum, er farin sú leið að heimila frestun á tekjufærslu á árinu fyrir lokun með það fyrir augum að þær tekjur nái að dekka þann kostnað sem til fellur við lokunina.

Um 12. gr.

    Í greininni er fjallað um gjaldstofn kolvetnisskatts en hann er skattskyldar tekjur skattskylds aðila skv. 10. gr. að frádregnum rekstrarkostnaði skv. 11. gr.
    Þrátt fyrir að frádráttarheimildir í kolvetnisskatti séu í meginatriðum þær sömu og í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, þótti engu að síður ástæða til, m.a. með hliðsjón af reynslu annarra þjóða, að heimila ekki frádrátt á tilteknum rekstrarkostnaði. Í 2. mgr. eru talin upp í sjö stafliðum gjöld og kostnaður sem ekki verða dregin frá við ákvörðun á gjaldstofni kolvetnisskatts. Í fyrsta lagi má nefna vinnslugjaldið sem fellur niður sem skattur þegar kolvetnisskattur leggst á. Ekki þótti eðlilegt að það gjald hefði áhrif á hvenær skattheimtan færðist yfir í arðsemistengda skattlagningu. Tap af sölu eigna til tengdra aðila verður ekki frádráttarbært og eru þá milliverðlagningarsjónarmið höfð í huga. Gjafir og framlög hvers konar verða ekki heimiluð til frádráttar en reynsla annarra ríkja sýnir að óheppilegt geti verið að heimila slíkan frádrátt. Þá er ekki heimiluð aukaniðurfærsla á birgðum eða viðskiptakröfum í kolvetnisskattlagningu. Slík gjaldfærsla fer einungis fram ef birgðir þarf að afskrifa eða kröfur tapast endanlega. Þá verður ekki heimilað að færa til gjalda kostnað sem til hefur fallið í annarri starfsemi, kostnað sem til hefur fallið fyrir gildistöku laga þessara og tap verður ekki flutt á milli leyfishafa eða leyfissvæða, hvorki í formi sameiningar né samsköttunar.

Um 13. gr.

    Greinin fjallar um gjaldhlutfall og fjárhæð kolvetnisskatts. Gjaldhlutfall kolvetnisskattsins er stighækkandi og hækkar með auknum hagnaði, þ.e. árlegum heildarhagnaði gjaldskylds aðila. Gjaldhlutfall kolvetnisskattsins reiknast þannig að frá hagnaðarhlutfalli gjaldskylds aðila eru dregin 10 prósentustig og sú samtala er margfölduð með stuðlinum 0,55. Þannig má sem dæmi nefna að ef hagnaðarhlutfall gjaldskylds aðila er 50% þá verður kolvetnisskatturinn 22% sem reiknast þannig: (50–10) x 0,55.
    Í eftirfarandi töflu má sjá hvernig kolvetnisskatturinn er reiknaður samkvæmt greininni:

Hagnaðarhlutfall 10 20 30 40 50 60 70 80 90
Gjaldhlutfall kolvetnisskatts 0 5,5 11 16,5 22 27,5 33 38,5 44

    Með 2. mgr. er áréttað að fjárhæð kolvetnisskatts er margfeldi gjaldhlutfallsins sem greint var frá í 1. mgr. og gjaldstofns skv. 12. gr.

Um 14. gr.

    Í 1. mgr. er tekið fram að álagning kolvetnisskatts skuli fara fram samhliða álagningu tekjuskatts skv. lögum nr. 90/2003 og gert er ráð fyrir að ríkisskattstjóri ákveði framtalsform sérstaklega fyrir aðila sem eru skattskyldir samkvæmt lögum þessum. Komi í ljós að kolvetnisskattur skv. III. kafla verði lagður á tekjur þess árs sem vinnslugjald hefur verið greitt af skal líta á greitt vinnslugjald fyrir viðkomandi skattár sem fyrirframgreiðslu upp í álagðan kolvetnisskatt.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að skattskyldur leyfishafi sem vinnur árlega meira en 50 milljón tunnur á ári geti sótt um til ríkisskattstjóra að vinnslugjald sem hann greiðir sem bráðabirgðagreiðslu upp í kolvetnisskatt miðist við vinnslu upp á 50 milljón tunnur. Hann þarf þó að sýna fram það með rökstuðningi að verulegar líkur séu til þess að skilyrði 1. mgr. séu uppfyllt.
    Ekki er loku fyrir það skotið að aðrir aðilar en þeir sem greiða vinnslugjald sæti álagningu kolvetnisskatts enda séu ákvæði 9. gr. uppfyllt. Í 3. mgr. er því tekið fram að rekstraraðilar sem ekki hafa greitt vinnslugjald en sæta álagningu kolvetnisskatts skuli greiða fyrirframgreiðslu upp í væntanlega álagningu kolvetnisskatts með sama hætti og áskilið er um fyrirframgreiðslu tekjuskatts í lögum nr. 90/2003.

Um IV. kafla.

    Í kaflanum er að finna almenn ákvæði um tekjur þeirra aðila sem eru skattskyldir samkvæmt lögum þessum.

Um 15. gr.

    Kostnaði öðrum en fjármagnskostnaði, svo sem stjórnunarkostnaði, sem varðar heildartekjuöflun í rekstri félags, sem stundar starfsemi sem skattskyld er samkvæmt frumvarpi þessu og aðra starfsemi, skal skipt í réttu hlutfalli við tekjur.

Um 16. gr.

    Söluhagnaður af sölu varanlegra rekstrarfjármuna skal reiknaður með sama hætti og af fyrnanlegum eignum, sbr. 13. gr. tekjuskattslaga. Við þann útreikning skal lagt til grundvallar stofnverð að teknu tilliti til lækkunar vegna reiknaðra fyrninga og niðurfærslu vegna söluhagnaðar annarra eigna.

Um V. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um ýmis ákvæði sem varða meðal annars bókhald, reikningsár og arðsúthlutanir.

Um 17. gr.

    Gerð er krafa um aðgreiningu tekna og gjalda í kolvetnisvinnslu annars vegar og annarri starfsemi hins vegar, sé slíkri annarri starfsemi til að dreifa. Rekstrarkostnaður eða tap af annarri starfsemi verður ekki dreginn frá gjaldstofni kolvetnisskatts.

Um 18. gr.

    Með greininni er lagt til að reikningsár lögaðila eða útibús sem skráð er hér á landi vegna starfsemi skv. 1. gr. frumvarpsins sé almanaksárið.

Um 19. gr.

    Með greininni er lagt til að settar verði skorður við úthlutun arðs með þeim hætti að leyfishafa er óheimilt að úthluta tekjuafgangi ef það verður til þess að hlutfall eigin fjár verður lægra en 15% af skattalegu bókfærðu verði heildareigna.

Um VI. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um framtöl, skýrslugjafir, álagningu, kærur, innheimtu o.fl.

Um 20. gr.

    Lagt er til að ákvæði laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, gildi um framtöl, skýrslugjafir, álagningu, eftirlit, kærur og innheimtu skatta og gjalda samkvæmt frumvarpinu svo fremi sem ekki er greint með öðrum hætti frá í frumvarpinu. Sérstaklega er tekið fram að um viðurlög vegna brota gegn frumvarpinu gildi ákvæði XII. kafla laga nr. 90/2003.

Um 21. gr.

    Greinin fjallar um álagningu, innheimtu og ábyrgð á skattgreiðslum. Gert er ráð fyrir að skattstjórinn í Reykjavík annist álagningu skatta samkvæmt lögunum og annarra opinberra gjalda sem lögð eru á viðkomandi aðila nema um sé að ræða einstaklinga sem heimilisfastir eru í öðrum skattumdæmum.
    Með 2. mgr. er áréttað að allir aðilar sem skattskyldir eru samkvæmt lögunum skulu halda eftir afdráttarskatti ef viðtakandi greiðslunnar er ekki skattskyldur skv. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Afdráttarskyldan tekur þannig til allra launamanna og annarra aðila sem selja þjónustu til skattskyldra rekstraraðila skv. 3. gr. frumvarpsins.

Um 22. gr.

    Með greininni er lagt til að fjármálaráðherra hafi víðtæka heimild til að setja reglugerð um framkvæmd frumvarpsins.
    Í 2. mgr. er lagt til að ráðherra geti með reglugerð kveðið á um að framtalsskyldir aðilar samkvæmt frumvarpinu haldi sérstakt birgðabókhald og sett nánari reglur um form reikningsskila og geymslu bókhalds og annarra gagna er varða skattframtöl.

Um 23. gr.

    Með greininni er lagt til að lögin taki gildi 1. janúar 2009.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um skattlagningu kolvetnisvinnslu.

    Með frumvarpi þessu er lögð til sérstök skattlagning á kolvetnisframleiðslu. Þeir aðilar sem stunda kolvetnisvinnslu eða taka með beinum hætti þátt í öflun og dreifingu kolvetnis verða skattlagðir sérstaklega annaðhvort í formi vinnslugjalds eða kolvetnisskatts. Frumvarpið miðast við að aðilar sem eru skattskyldir samkvæmt þessu frumvarpi greiði eftir sem áður skatta og önnur gjöld hér á landi óháð lögum þessum.
    Fyrirhugað er að fyrstu leyfin til rannsókna kolvetnis verði boðin út 15. janúar 2009 og mikilvægt er að form skattlagningar kolvetnisvinnslu liggi fyrir áður en framangreind leyfi verða boðin út. Bjóðendur munu þannig geta gert sér grein fyrir fyrirhugaðri skattlagningu finnist kolvetni í vinnanlegu magni. Frumvarpið gerir ráð fyrir að finnist kolvetni muni viðmiðunarverð verða ákveðið mánaðarlega af þriggja manna nefnd sem fjármálaráðherra skipar og mun nefndin vera sjálfstæð í störfum sínum og úrskurðir hennar sæta ekki stjónsýslukæru. Á þessu stigi er óvíst hvort komi til skipunar í nefndina og þá hvenær.
    Ef hafin verður vinnsla kolvetnis má reikna með að það leiði til einhvers eftirlitskostnaðar hjá skattayfirvöldum. Sá kostnaður eykst með auknum umsvifum kolvetnisvinnslu en reikna má með að tekjur ríkisins verði verulega hærri af þeirri starfsemi en kostnaður við skattaeftirlit og umsýslu. Það mun taka nokkur ár að komast að því hvort kolvetni í nýtanlegu magni er að finna í lögsögu landsins og er ekki gert ráð fyrir því að meðan á tilraunaborunum stendur hafi það í för með sér kostnað fyir ríkissjóð.