Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 209. máls.

Þskj. 282  —  209. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum um verslun með áfengi og tóbak, nr. 63/1969,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)
1. gr.

    Í stað orðanna „11. gr.“ í 1. málsl. 5. gr. laganna kemur: 10. gr.

2. gr.

    Á eftir 7. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
    Álagning Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á áfengi með 22% eða lægra hlutfall af vínanda að rúmmáli skal vera 18% en álagning áfengis með meira en 22% hlutfall af vínanda að rúmmáli skal vera 12%. Við ákvörðun á áfengisinnihaldi vísast til laga um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, með síðari breytingum.
    Álagning Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á tóbak skal vera 18%.
    Álagning Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins skal lögð á innkaupsverð vöru.

3. gr.

    Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
    Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er heimilt að innheimta gjald af birgjum vegna kostnaðar sem leiðir af töku nýrrar vöru til sölu. Skal gjaldið eingöngu standa straum af þeim kostnaði sem til fellur vegna skráningar, könnunar og annarra nauðsynlegra ráðstafana af hálfu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins við að taka nýja vöru til sölu.

4. gr.

         Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um verslun með áfengi og tóbak sem snúa að álagningu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á áfengi og tóbak. Breytingarnar taka mið af áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5035/2007, frá 17. nóvember 2008, sem fjallar um heimild ÁTVR til að láta álagningu skila arði í ríkissjóð sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 883/2005, um áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, sem er svohljóðandi:
    „Verð á áfengi frá vínbúð skal ákveðið þannig að við afhendingarverð frá birgjum skal bætt álagningu, sem ákveðin er með tilliti til kostnaðar við smásöludreifingu og þess að hún skili arði sem telst hæfilegur m.a. með tilliti til þeirra eigna sem bundnar eru í rekstri ÁTVR. Álagningarhlutfallið skal vera hið sama innan hvers álagningarflokks, sbr. 21. gr.“
    Niðurstaða umboðsmanns er sú að núgildandi lagaumhverfi heimili ekki að álagning ÁTVR sé ákveðin með þeim hætti sem nú er gert. Í kjölfarið hefur umboðsmaður beint þeim tilmælum til fjármálaráðherra að hugað verði að því að endurskoða framangreint reglugerðarákvæði um álagningu ÁTVR og að kanna hvort nauðsynlegt sé að leggja til á vettvangi Alþingis að núgildandi ákvæðum laga um verslun með áfengi og tóbak, nr. 63/1969, verði breytt í kjölfar álitsins.
    Með frumvarpi því sem hér er lagt fram er styrkari stoðum skotið undir núverandi framkvæmd álagningar Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á áfengi og tóbak að því undanskyldu að lagt er til að sama álagning verði á áfengi í reynslusölu og annað áfengi.
    Að auki er með frumvarpinu lagt til að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins geti innheimt sérstakt þjónustugjald vegna þess kostnaðar sem leiðir af töku nýrrar vöru til sölu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með greininni er lagt til að lagfærð verði tilvísun í áfengislög, nr. 75/1998, sem ekki er rétt í núgildandi lögum.

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að álagning Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins miðist einungis við hlutfall af vínanda í rúmmáli óháð tegund áfengis. Álagning áfengis með 22% eða lægra hlutfall af vínanda skal vera 18% en 12% á annað áfengi. Í greininni er enn fremur tekið fram að við ákvörðun á áfengisinnihaldi skuli gilda ákvæði laga um gjald af áfengi og tóbaki, nr. 96/1995, með síðari breytingum. Þar segir m.a. að áfengismagn og áfengisinnihald skuli ákveðið við 20°C.
    Með 2. mgr. er lagt til að álagning á tóbak verði lögbundið 18% en það er sú álagning sem Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur lagt á allt tóbak um allangt skeið. Álagningin leggst á innkaupsverð tóbaks.
    Með innkaupsverði er átt við að varan sé komin í vöruhús ÁTVR með öllum kostnaði sem þá er fallinn á hana, þ.e. verð frá framleiðenda, flutningur, innflutningsgjöld og álag heildsala.

Um 3. gr.


    Þegar nýjar vörur er teknar til sölu hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins fellur ævinlega til nokkur kostnaður vegna skráningar, könnunar og annarra nauðsynlegra ráðstafana. Ekki þykir rétt að stofnunin beri í öllum tilvikum þann kostnað og því er lagt til að Áfengis- og tóbaksverslunin geti innheimt gjald vegna þess kostnaðar sem leiðir af töku nýrrar vöru til sölu. Gjaldið skal þó ekki vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem leiðir af töku nýrrar vöru til sölu.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki útskýringa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 63/1969,
um verslun með áfengi og tóbak, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um verslun með áfengi og tóbak sem snúa að álagningu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á áfengi og tóbak. Breytingarnar taka mið af áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5035/2007, frá 17. nóvember 2008, sem fjallar um fyrirkomulag álagningar ÁTVR á áfengi og tóbak. Með frumvarpinu er styrkari stoðum skotið undir núverandi framkvæmd álagningar Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á áfengi og tóbak. Að auki er með frumvarpinu lagt til að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins geti innheimt sérstakt þjónustugjald vegna þess kostnaðar sem leiðir af töku nýrrar vöru til sölu.
    Starfsemi ÁTVR telst til B-hluta ríkissjóðs og verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér kostnað fyrir A-hluta ríkissjóðs.