Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 211. máls.

Þskj. 284  —  211. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




1. gr.

    Við 4. mgr. 24. gr. laganna bætist nýr málsliður, er verður 2. málsl., svohljóðandi: Sama gildir um fyrirtæki sem selja vöru og þjónustu sem fellur undir 2. mgr. 14. gr. en meiri hluti aðfanga þeirra vegna framleiðslu eða aðvinnslu ber virðisaukaskatt skv. 1. mgr. 14. gr.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði VII. kafla og 7. mgr. 20. gr. er á gjalddaga virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilsins september og október 2008, hinn 5. desember 2008, heimilt að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu allan virðisaukaskatt vegna uppgjörstímabilsins, þótt einungis hluta af gjaldföllnum virðisaukaskatti hafi á þeim tíma verið skilað, sbr. lög nr. 130/2008, um breyting á tollalögum.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar á lögum um virðisaukaskatt.
    Í fyrsta lagi er lagt til að ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lögin sem kveður á um að þrátt fyrir ákvæði VII. kafla og 7. mgr. 20. gr. laganna er á gjalddaga virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilsins september og október 2008, þann 5. desember 2008, heimilt að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu allan virðisaukaskatt vegna uppgjörstímabilsins, þó svo einungis hluta af gjaldföllnum virðisaukaskatti hafi á þeim tíma verið skilað, sbr. lög nr. 130/2008, um breytingu á tollalögum. Með þessari tímabundnu breytingu er komið til móts við aðkallandi vanda fyrirtækja vegna gjalddaga virðisaukaskatts fyrir uppgjörstímabilið september og október, en sá gjalddagi er 5. desember 2008, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/ 1988, um virðisaukaskatt. Með ákvæðinu er verið að bregðast við brýnni þörf á gjaldaaðlögun fyrirtækja vegna þess gengisfalls, samdráttar og verðbólgu sem ríkir í íslensku efnahagslífi um þessar mundir.
    Með lögum nr. 130/2008, um breyting á tollalögum, sem samþykkt voru á Alþingi 17. nóvember 2008, og gengu í gildi sama dag, var aðilum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum heimilt að óska eftir því að fyrirkomulag gjalddaga aðflutningsgjalda vegna uppgjörstímabilsins september og október 2008 verði sem hér segir:
     1.      Þriðjungi af aðflutningsgjöldum á uppgjörstímabilinu skuli skila eigi síðar en 17. nóvember 2008.
     2.      Þriðjungi af aðflutningsgjöldum á uppgjörstímabilinu skuli skila eigi síðar en 15. desember 2008.
     3.      Þriðjungi af aðflutningsgjöldum á uppgjörstímabilinu skuli skila eigi síðar en 5. janúar 2009.
    Með frumvarpi þessu er því brugðist við þeim vanda sem, að óbreyttum lögum, kemur upp í kjölfar laga nr. 130/2008 og er þess eðlis að aðila væri ekki heimilt að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu, sem skilað er ásamt virðisaukaskatti á gjalddaga 5. desember 2008, allan virðisaukaskatt vegna uppgjörstímabilsins heldur einungis þriðjung. Líta má því á frumvarp þetta sem beina afleiðingu af setningu laga nr. 130/2008 og vísast nánar í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga.
    Í öðru lagi er með frumvarpinu lagt til að fyrirtæki geti fengið heimild til þess að nota hvern almanaksmánuð sem uppgjörstímabil ef útskattur er að jafnaði lægri en innskattur.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að fyrirtæki geti fengið heimild hjá skattstjóra til þess að nota hvern almanaksmánuð sem uppgjörstímabil ef útskattur er að jafnaði lægri en innskattur. Fyrirtæki sem svo háttar til hjá hafa á tíðum mikla fjármuni bundna í virðisaukaskatti og hefur sú binding aukist eftir að hið lægra þrep virðisaukaskatts var lækkað úr 14% í 7%. Til að koma til móts við fyrirtæki sem kaupa vörur eða þjónustu með 24,5% virðisaukaskatti en selja afurðir sínar með 7% virðisaukaskatti er þessi breyting lögð til. Dæmi um fyrirtæki sem ákvæðinu er ætlað að ná til eru mjólkurframleiðendur en þeir kaupa ógerilsneydda mjólk í hærra þrepinu en selja afurðir sínar í hinu lægra.

Um 2. gr.


    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum er gjalddagi virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilsins september og október 5. desember. Að óbreyttum lögum er þeim aðilum sem notfært hafa sér frestsheimildir á grundvelli laga nr. 130/2008 einungis heimilt að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu þann hluta virðisaukaskatts vegna innflutnings sem greiddur hefur verið fyrir gjalddaga. Með frumvarpinu er verið að bregðast við þessari stöðu og tryggja að aðili sem stendur skil á virðisaukaskatti á gjalddaga 5. desember 2008 geti að fullu notið innskattsréttar vegna uppgjörstímabilsins, þrátt fyrir framangreindar breytingar á fyrirkomulagi gjalddaga á aðflutningsgjöldum.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 50/1988,
um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar á lögum um virðisaukaskatt. Í fyrsta lagi er lagt til að ákvæði til bráðabirgða verði bætt við lögin þess efnis að á gjalddaga virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilsins september til október 2008, þann 5. desember 2008, verði heimilt að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu allan virðisaukaskatt vegna uppgjörstímabilsins, þrátt fyrir að einungis þriðjungi af aðflutningsgjöldum, þ.m.t. virðisaukaskatti, hafi á þeim tíma verið skilað. Með lögum nr. 130/2008, um breytingu á tollalögum, sem samþykkt voru á Alþingi þann 17. nóvember 2008 og gengu í gildi sama dag, var aðilum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum heimilt að óska eftir að fyrirkomulag gjalddaga aðflutningsgjalda vegna uppgjörstímabilsins september til október 2008 yrði breytt. Með frumvarpi þessu er verið að bregðast við þeim vanda sem að óbreyttum lögum kemur upp í kjölfar þess að aðila væri ekki heimilt að færa til innskatts á virðisaukaskattsskýrslu allan virðisaukaskattinn heldur einungis þriðjung. Í öðru lagi er lagt til að fyrirtæki geti fengið heimild til að nota hvern almanaksmánuð sem uppgjörstímabil ef útskattur er að jafnaði lægri en innskattur.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér útgjaldaauka fyrir ríkissjóð.