Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 212. máls.

Þskj. 285  —  212. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 9. gr. laganna geta félög sótt um heimild ársreikningaskrár fyrir 15. desember 2008 til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli annars vegar vegna reikningsárs sem hefst 1. janúar 2008 eða síðar á því ári og hins vegar vegna reikningsársins sem hefst 1. janúar 2009.
    Í samræmi við 8. gr. laganna veitir ársreikningaskrá heimild skv. 1. mgr. til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli á viðkomandi reikningsári, að uppfylltum skilyrðum laganna og reglugerðar nr. 101/2007, um veitingu heimildar til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli.
    

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram í ljósi þess ástands sem nú ríkir í efnahagslífi landsins og þeirra breytinga sem átt hafa sér stað á gengi íslensku krónunnar á árinu 2008. Sú þróun kann í sumum tilfellum að vekja upp spurningar um hvaða starfrækslugjaldmiðill, í skilningi laga um ársreikninga, gefur í raun rétta mynd af afkomu og efnahag félaga á reikningsárinu 2008. Samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum skulu stjórnendur þeirra fyrirtækja sem fara eftir alþjóðlegum reikningsskilastöðlum leggja mat á, við gerð ársreiknings, hvaða starfrækslugjaldmiðill gefi sem gleggsta mynd af rekstri félagsins. Í tengslum við fall íslensku krónunnar á árinu 2008, gagnvart öðrum gjaldmiðlum, kann eigið fé félags í íslenskum krónum, við gerð ársreiknings í lok árs 2008, í sumum tilvikum ekki að gefa rétta mynd af raunverulegri stöðu viðkomandi félags, þ.e. í þeim tilvikum þegar íslenska krónan er ekki sá gjaldmiðill sem vegur hlutfallslega mest allra gjaldmiðla í viðskiptum viðkomandi félags á árinu.
    Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um ársreikninga skal umsókn um heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli berast ársreikningaskrá tveimur mánuðum fyrir upphaf viðkomandi reikningsárs. Verða skilyrði laganna fyrir veitingu slíkrar heimildar að vera uppfyllt þegar í upphafi reikningsársins.
    Með frumvarpinu er lagt til nýtt ákvæði til bráðabirgða sem veitir ársreikningaskrá heimild til að taka til meðferðar umsóknir um heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli, annars vegar fyrir reikningsár sem hefst 1. janúar 2008 eða síðar á því ári og hins vegar fyrir reikningsárið sem hefst 1. janúar 2009, jafnvel þótt slík umsókn berist ekki ársreikningaskrá fyrr en 15. desember 2008. Með öðrum orðum er ársreikningaskrá annars vegar heimilað að samþykkja afturvirkt slíkar beiðnir félaga fyrir reikningsárið 2008 og hins vegar er framlengdur umsóknarfrestur fyrir reikningsárið 2009. Skilyrði fyrir veitingu heimildar ársreikningaskrár eru eftir sem áður þau sem fram koma í 8. gr. laganna, sbr. og reglugerð nr. 101/2007, um veitingu heimildar til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli. Verða þau skilyrði að vera uppfyllt á umræddu reikningstímabili, þ.e. í tilviki ársins 2008 þegar í upphafi þess reikningsárs sem og samkvæmt síðasta tiltæka árshlutauppgjöri fyrir árið 2008. Í tilviki reikningsársins 2009 þurfa skilyrði laganna að vera uppfyllt þegar í upphafi reikningsársins, þ.e. 1. janúar 2009, sbr. 9. gr. laganna.
    Með frumvarpinu er því tímabundið, með vísan til núverandi ástands efnahagsmála, opnað fyrir að þeim félögum sem sannanlega uppfylla skilyrði ársreikningalaga til þess að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli á reikningsárinu 2008, en sóttu ekki um heimild til þess á árinu 2007, verði gert kleift að fá slíka heimild afturvirkt. Til jafnræðis er að sama skapi framlengdur umsóknarfrestur til 15. desember fyrir þau félög sem óska eftir að færa bókhald og semja ársreikning í erlendum gjaldmiðli á reikningsárinu 2009.
    Verði frumvarpið að lögum og fái félag slíka afturvirka heimild fyrir reikningsárið 2008 gilda að öðru leyti ákvæði ársreikningalaga um þá heimild, þ.m.t. ákvæði 9. gr. laganna um að viðhalda þeirri aðferð í a.m.k. fimm ár og að tilkynna ef félagið telur sig ekki lengur uppfylla skilyrði 8. gr. laganna.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 3/2006,
um ársreikninga, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er, með vísan til núverandi ástands efnahagsmála, lagt til að við lög um ársreikninga bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem veitir ársreikningaskrá heimild til að taka til meðferðar umsóknir um heimild til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli. Sú heimild gildi annars vegar fyrir reikningsár sem hefst 1. janúar 2008 eða síðar á því ári og hins vegar fyrir reikningsárið sem hefst 1. janúar 2009, jafnvel þótt slík umsókn berist ekki ársreikningaskrá fyrr en 15. desember 2008. Skilyrði fyrir veitingu heimildar ársreikningaskrár eru eftir sem áður þau sem fram koma í 8. gr. laganna, sbr. og reglugerð nr. 101/2007 um veitingu heimildar til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli. Verða þau skilyrði að vera uppfyllt á umræddu reikningstímabili.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.