Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 213. máls.

Þskj. 286  —  213. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)
1. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 24. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sama gjald skal greiða fyrir stimplun aðfarargerða, kyrrsetningargerða og löggeymslu þegar endurritum úr gerðabók um þessar gerðir er þinglýst.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Innheimta stimpilgjalds fyrir fjárnámsendurrit, endurrit úr gerðabók um kyrrsetningu og um löggeymslu hefur tíðkast um langt skeið á grundvelli ákvæðis í 1. mgr. 24. gr. laga um stimpilgjald, nr. 36/1978, og er gjaldið 15 kr. fyrir hvert byrjað þúsund af fjárhæð skuldar. Fjármálaráðuneytið hefur litið svo á að fyrirmæli 1. mgr. 5. gr. laganna, um að stimpilskylda skjals réðist af þeim réttindum sem það veitti, en ekki af nafni þess eða formi, fæli í sér að krafa sem tryggð væri með fjárnámi, kyrrsetningu eða löggeymslu yrði samkvæmt efni sínu að fullu lögð að jöfnu við tryggingarbréf skv. 1. mgr. 24. gr. laganna. Í því sambandi ber einnig að hafa í huga að í 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna er ótvíræð almenn regla um að skjöl sem þinglýst er hér á landi séu ávallt stimpilskyld.
    Hinn 1. júlí 2008 sendi umboðsmaður Alþingis frá sér álit í máli nr. 4712/2006. Til þess máls var stofnað með kvörtun til umboðsmanns vegna synjunar fjármálaráðuneytisins á kröfu um endurgreiðslu stimpilgjalds af þinglýstu endurriti fjárnámsgerðar í fasteign. Í álitinu kemst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að álagning stimpilgjalds á þinglýst endurrit úr gerðabók um aðfararbeiðni og framkvæmd fjárnáms eigi sér ekki fullnægjandi lagastoð. Þar vísar hann til 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, þar sem m.a. er mælt fyrir um að engan skatt megi leggja á nema með lögum og að skattamálum skuli skipuð með lögum og að ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðunarvald um það hvort leggja skuli á skatt. Hafa þessar reglur stjórnarskrárinnar verið skýrðar svo að skattlagningarheimildir í lögum verði að vera ótvíræðar og fortakslausar, sbr. t.d. Hrd. 2005, bls. 315.
    Vegna framkomins álits umboðsmanns Alþingis og í ljósi framangreindra ákvæða stjórnarskrárinnar þykir rétt að taka af öll tvímæli um heimildir í lögum til innheimtu stimpilgjalds af fjárnámsendurritum, endurritum kyrrsetningargerða og löggeymslu. Með frumvarpi þessu, sem felur í sér breytingar að formi til og leiðir ekki til aukinnar gjaldtöku, er nýjum málslið bætt við 1. mgr. 24. gr. um stimpilskyldu aðfarargerða, kyrrsetningar og löggeymslu og er með því verið að skjóta styrkari lagastoð undir heimild til innheimtu stimpilgjalds á endurrit úr gerðabók er varða þessa gjörninga. Þess skal getið að þótt stimpilskylda sé samkvæmt gildandi lögum ekki tengd þinglýsingu skjala, heldur ráðist af efni þeirra og útgáfu, þykir rétt að miða stimpilskyldu þessara gerða við þinglýsingu endurrita úr gerðabók. Er það í samræmi við þá framkvæmd sem tíðkast hefur.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 36/1978,
um stimpilgjald, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu eru tekin af öll tvímæli um heimildir í lögum til innheimtu stimpilgjalds af fjárnámsendurritum, endurritum kyrrsetningargerða og löggeymslu. Með frumvarpinu, sem felur í sér breytingar að formi til og leiðir ekki til aukinnar gjaldtöku, er nýjum málslið bætt við 1. mgr. 24. gr. laga um stimpilgjald, um stimpilskyldu aðfarargerða, kyrrsetningar og löggeymslu og er með því verið að skjóta styrkari lagastoð undir heimild til innheimtu stimpilgjalds á endurrit úr gerðabók er varða þessa gjörninga. Er það í samræmi við þá framkvæmd sem tíðkast hefur.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.