Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 141. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Prentað upp.

Þskj. 293  —  141. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um embætti sérstaks saksóknara.

Frá allsherjarnefnd.



     1.      Við 1. gr.
                  a.      1. og 2. mgr. orðist svo:
                     Sett skal á stofn embætti sérstaks saksóknara til að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum við og kjölfar atburða er leiddu til setningar laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008, og þess ástands sem þá skapaðist á fjármálamarkaði, hvort sem það tengist starfsemi fjármálafyrirtækja, annarra lögaðila eða einstaklinga, og eftir atvikum fylgja rannsókn eftir með saksókn.
                     Rannsóknar- og ákæruheimildir embættisins taka meðal annars til efnahags-, auðgunar- og skattabrota, þar með talið brota sem rannsökuð hafa verið af Fjármálaeftirlitinu, Samkeppniseftirlitinu og skattrannsóknarstjóra ríkisins og vísað hefur verið til lögreglu. Hinn sérstaki saksóknari hefur eftir þörfum samstarf við Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið og skattrannsóknarstjóra ríkisins og aðrar réttarvörslu- og eftirlitsstofnanir. Sé þess óskað skulu þessar stofnanir veita hinum sérstaka saksóknara upplýsingar um stöðu annarra mála en greinir í 1. málsl.
                  b.      4. mgr. falli brott.
     2.      Við 2. gr. Greinin orðist svo:
                  Dómsmálaráðherra skipar sérstakan saksóknara og skal hann veita forstöðu rannsóknar- og saksóknaraembætti skv. 1. gr. Skal hinn sérstaki saksóknari fullnægja skilyrðum til skipunar í embætti héraðsdómara, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla. Heimilt er þó að víkja frá 70 ára aldurshámarki, sbr. 5. mgr. 31. gr. sömu laga. Hinn sérstaki saksóknari ræður annað starfsfólk embættisins.
                  Ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um fimm ára skipunartíma og biðlaunarétt taka ekki til hins sérstaka saksóknara. Skipun hans fellur niður þegar embættið verður lagt niður eða það sameinað annarri ríkisstofnun, sbr. 7. gr. Hinn sérstaki saksóknari heldur þá óbreyttum launum í þrjá mánuði frá þeim tíma. Nú velst dómari til starfans og skal þá dómsmálaráðherra veita honum leyfi frá störfum á skipunartímanum.
                  Hinn sérstaki saksóknari hefur stöðu og almennar heimildir lögreglustjóra samkvæmt lögreglulögum og ákæruvald skv. 1. gr. Skal staða hans vera hliðsett stöðu héraðssaksóknara skv. 18. gr. laga um meðferð sakamála, þar á meðal hefur hann og starfsmenn hans sambærilega heimild til að flytja mál fyrir dómi og héraðssaksóknari og starfsmenn hans skv. 2. mgr. 25. gr. þeirra laga. Ef háttsemi felur í sér annað eða önnur brot en þau sem hinn sérstaki saksóknari fer með skv. 1. gr. tekur ríkissaksóknari ákvörðun um það hvort hinn sérstaki saksóknari fari með málið eða hvort annar ákærandi skuli gera það. Ríkissaksóknari leysir á sama hátt úr öðrum ágreiningi sem kann að rísa um valdsvið hins sérstaka saksóknara og annarra ákærenda. Þá er hinum sérstaka saksóknara skylt að hlíta fyrirmælum ríkissaksóknara skv. 3. mgr. 21. gr. laga um meðferð sakamála eftir því sem við getur átt.
     3.      Á eftir 2. gr. komi ný grein, svohljóðandi, og breytist röð annarra greina samkvæmt því:
                  Hinn sérstaki saksóknari skal birta opinberlega upplýsingar um hlutabréfaeign sína í fjármálafyrirtækjum sem aðgerðir stjórnvalda samkvæmt lögum nr. 125/2008 hafa tekið til, skuldir hans við þau, svo og starfsleg tengsl hans, maka og náinna skyldmenna við þá sem sinnt hafa stjórnunarstörfum í umræddum fjármálafyrirtækjum eða þeim stofnunum ríkisins sem rannsókn embættisins beinist að. Sama gildir um önnur atriði sem haft geta áhrif á sérstakt hæfi hins sérstaka saksóknara. Upplýsingar þessar skulu miðast við síðastliðin fimm ár fyrir gildistöku laganna, fjárhæðir sem eru yfir fimm milljónir króna og einnig eignarhlut umfram þá fjárhæð í félögum sem átt hafa hluti í umræddum fjármálafyrirtækjum 1. september 2008.
     4.      Við 4. gr. 1. mgr. orðist svo:
                  Ríkissaksóknara er heimilt að ákveða, að uppfylltum skilyrðum 2. mgr. og að fenginni rökstuddri tillögu frá hinum sérstaka saksóknara, að sá sem hefur frumkvæði að því að bjóða eða láta lögreglu eða saksóknara í té upplýsingar eða gögn sæti ekki ákæru þótt upplýsingarnar eða gögnin leiði líkur að broti hans sjálfs.
     5.      Við 5. gr. Orðin „laga um meðferð opinberra mála en eftir brottfall þeirra ákvæði“ falli brott.
     6.      6. gr. orðist svo:
             Dómsmálaráðherra getur eftir 1. janúar 2011 lagt til, að fengnu áliti ríkissaksóknara, að embættið verði lagt niður. Skal hann þá leggja fyrir Alþingi frumvarp þess efnis. Verkefni embættisins hverfa þá til lögreglu eða ákærenda eftir almennum ákvæðum lögreglulaga og laga um meðferð sakamála.
     7.      Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðist svo:
                  Fram til 1. janúar 2009 hefur hinn sérstaki saksóknari sömu réttarstöðu og lögreglustjóri, þar á meðal hefur hann og starfsmenn hans sambærilega heimild til að flytja mál fyrir dómi og lögreglustjórar og starfsmenn hans skv. 2. mgr. 29. gr. laga um meðferð opinberra mála. Þá er hinum sérstaka saksóknara skylt að hlíta fyrirmælum ríkissaksóknara skv. 5. mgr. 27. gr. þeirra laga eftir því sem við getur átt.