Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 219. máls.

Þskj. 297  —  219. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda
og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 9. gr. laganna:
     a.      4. málsl. orðast svo: Heimilt er að segja upp samningi með tveggja mánaða fyrirvara.
     b.      Við 5. málsl. bætist: enda varðar samningur ráðstöfun á lágmarksiðgjaldi skv. 2. gr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um heimild til endurgreiðslu lífeyrissparnaðar í séreign til erlendra ríkisborgara gilda ákvæði 4. mgr. 19. gr.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                   Þegar rétthafi er orðinn 60 ára er heimilt að greiða út lífeyrissparnað ásamt vöxtum.
     c.      2.–4. málsl. 4. mgr. falla brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Lífeyrissjóði er heimilt að gefa sjóðfélögum kost á að fresta eða flýta töku lífeyris enda hefjist taka lífeyris ekki fyrr en sjóðfélagi verður 60 ára.
     b.      Í stað orðanna „Í síðasta lagi sjö árum áður en taka ellilífeyris getur fyrst hafist“ í 2. tölul. 3. mgr. kemur: Áður en taka lífeyris hefst en þó eigi síðar en fyrir 65 ára aldur.

4. gr.

    Við 18. gr. laganna bætist ný málsgrein, 4. mgr., svohljóðandi:
    Lífeyrissjóðum er heimilt að skila yfirlitum sem um getur í 2. og 3. mgr. með rafrænum hætti til sjóðfélaga óski sjóðfélagi eftir því.

5. gr.

    2. málsl. 28. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

    Við 3. mgr. 29. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: að móta innra eftirlit lífeyrissjóðsins og skjalfesta eftirlitsferla.

7. gr.

    Á eftir 2. mgr. 31. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Til viðbótar framangreindum skilyrðum skulu stjórnarmenn búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt.

8. gr.

    Við 4. mgr. 34. gr. laganna bætist: og skal hann hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum í samræmi við 53. gr. laga um verðbréfaviðskipti.

9. gr.

    Í stað orðanna „skipulagningu innra eftirlits“ í 3. tölul. 1. mgr. 35. gr. laganna kemur: skipulagningu innri endurskoðunar.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „lögum nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði“ í 7. tölul. 1. mgr. kemur: eða tilskipun 85/611/EBE um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (UCITS-tilskipuninni).
     b.      Í stað orðsins „Liechtenstein“ í 2. og 3. málsl. 2. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. kemur: ríkja Evrópska efnahagssvæðisins.
     c.      Í stað hlutfallstölunnar „10%“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: 20%.
     d.      1. málsl. 5. mgr. orðast svo: Samanlögð eign sjóðsins í verðbréfum skv. 2.–9. tölul. 1. mgr. útgefnum af sama aðila, tengdum aðilum, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, eða aðilum sem tilheyra sömu samstæðunni skal ekki vera meiri en 10% af hreinni eign sjóðsins.
     e.      Á eftir 4. málsl. 5. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Eigi er lífeyrissjóði eða einstakri deild hans heimilt að hafa meira en 25% af hreinni eign sinni í verðbréfasjóðum innan sama rekstrarfélags.
     f.      Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
                   Ákvæði þessarar greinar eiga einungis við um samtryggingardeildir lífeyrissjóða.

11. gr.

    Á eftir 36. gr. laganna kemur ný grein, 36. gr. a, er orðast svo:
    Vörsluaðilar séreignarsparnaðar, skv. II. kafla, skulu móta fjárfestingarstefnu fyrir hverja fjárfestingarleið þar sem fjárfestingar, aðrar en lífeyrissparnaðarreikningar, eru sundurliðaðar með hliðsjón af 1. mgr. 36. gr. Fjárfestingarstefna vörsluaðila séreignarsparnaðar skal að öðru leyti háð eftirfarandi takmörkunum:
     a.      Ekki er heimilt að fjárfesta fyrir meira en 20% af hreinni eign hverrar fjárfestingarleiðar í verðbréfum sem ekki eru skráð á skipulegum markaði.
     b.      Samanlögð eign hverrar fjárfestingarleiðar í fjármálagerningum útgefnum af sama aðila, tengdum aðilum, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, eða aðilum sem tilheyra sömu samstæðunni skal ekki vera meiri en 20% af hreinni eign sjóðsins.
     c.      Samanlögð eign hverrar fjárfestingarleiðar má ekki vera meira en 30% af hlutdeildarskírteinum eða hlutum útgefnum af sama verðbréfasjóði eða fjárfestingarsjóði eða einstakri deild hans.
     d.      Eigi er vörsluaðila séreignarsparnaðar heimilt að hafa meira en 30% af hreinni eign sinni í verðbréfasjóðum innan sama rekstrarfélags.
     e.      Vörsluaðilum séreignarsparnaðar er ekki heimilt að fjárfesta eða eiga í fjárfestingarsjóðum skv. 7. tölul. 1. mgr. 36. gr. sem fjármagna sig með lántöku eða skortsölu.
    Vörsluaðilar séreignarsparnaðar skulu senda upplýsingar um fjárfestingarstefnu sína fyrir komandi ár til Fjármálaeftirlitsins eigi síðar en 1. desember ár hvert.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 44. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „starfsemi lífeyrissjóða“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: og vörsluaðila lífeyrissparnaðar.
     b.      Á eftir orðunum „upplýsingum lífeyrissjóða“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: og vörsluaðila lífeyrissparnaðar.
     c.      Í stað orðanna „rekstri lífeyrissjóðs og fjárhagsstöðu“ í 3. mgr. kemur: rekstri og fjárhagsstöðu lífeyrissjóðs eða vörsluaðila lífeyrissparnaðar.
     d.      Á eftir orðunum „starfsemi lífeyrissjóðs“ í 4. mgr. kemur: og vörsluaðila lífeyrissparnaðar.
     e.      Á eftir orðunum „hlutdeildarfyrirtækjum lífeyrissjóða“ í 5. mgr. kemur: og vörsluaðila lífeyrissparnaðar.

13. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 39. gr. skal lífeyrissjóði vera heimilt að hafa allt að 15% mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga vegna lífeyris miðað við tryggingafræðilega athugun fyrir árið 2008, án þess að honum sé skylt að gera breytingar á samþykktum sjóðsins. Ákvæði 1. mgr. 39. gr. um að hrein eign lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda skuli vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda á ekki við um tryggingafræðilega athugun fyrir árið 2008.
    Þegar metið er hvort lífeyrissjóður falli undir 2. málsl. 2. mgr. 39. gr. skal miða við 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga árið 2008.

14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi nema ákvæði 8. gr. sem öðlast gildi 1. janúar 2011.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Flestar þeirra var einnig að finna í frumvarpi sama efnis sem lagt var fram á Alþingi sl. vor, en hlaut ekki afgreiðslu. Það ástand sem nú ríkir á íslenskum fjármálamarkaði og leikið hefur afkomu margra lífeyrissjóða grátt kallar einnig á tilteknar breytingar á lögunum. Hér á eftir er fjallað um helstu efnisatriði frumvarpsins, en nánari skýringar er einnig að finna í athugasemdum með einstökum greinum þess.
    Í fyrsta lagi er lögð til sú meginbreyting að þeim sem náð hafa 60 ára aldri verði heimilt að taka út séreignarsparnað sinn í einu lagi í stað þess að dreifa greiðslum á sjö ár eins og kveðið er á um í gildandi lögum. Þetta fyrirkomulag, þ.e. sjö ára reglan, hefur sætt talsverðri gagnrýni á undanförnum árum, einkum þar sem um lágar fjárhæðir er að ræða, og í einhverjum tilvikum hafa rétthafar smeygt sér framhjá gildandi reglu með því að dreifa séreignarsparnaðinum á marga vörsluaðila.
    Í öðru lagi er lagt til að ekkert aldurshámark verði á því hvenær einstaklingur getur hafið töku lífeyris, en í gildandi lögum er það hámark bundið við 75 ára aldur.
    Í þriðja lagi er í frumvarpinu að finna tillögur um nokkrar breytingar á 36. gr. laganna sem fjallar um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna. Þar er meðal annars lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta fyrir allt að 20% af hreinni eign sinni í verðbréfum sem ekki eru skráð á skipulegum markaði, en í gildandi lögum er umrætt hlutfall 10%. Þessi tvöföldun á hlutfallinu skýrist fyrst og fremst af þeirri stöðu sem nú er uppi á innlendum fjármálamarkaði þar sem framboð á skráðum verðbréfum er afar takmarkað. Hún hefur leitt til þess að einstakir sjóðir hafa jafnvel farið yfir 10% mörkin án nokkurra viðskipta. Gera má ráð fyrir að þetta hlutfall verði tekið til endurskoðunar á ný þegar fjármálamarkaðurinn hefur náð ákveðnu jafnvægi. Þá eru lagðar til nokkrar aðrar breytingar á 36. gr. sem miða að aukinni áhættudreifingu.
    Í fjórða lagi er lagt til að settar verði samræmdar reglur um fjárfestingarstefnu þeirra aðila sem hafa heimild til að taka við séreignarlífeyrissparnaði. Samkvæmt núgildandi lögum er séreignarlífeyrissparnaður í vörslu lífeyrissjóða háður sömu takmörkunum varðandi fjárfestingarstefnu og samtryggingarlífeyrissjóðir á meðan aðrir vörsluaðilar hafa ótakmarkað frelsi til að móta fjárfestingarstefnu sína, jafnframt því að vera óháðir eftirliti Fjármálaeftirlitsins hvað hana varðar. Þetta ójafnræði milli vörsluaðila sem bjóða upp á sambærilega þjónustu er talið miður heppilegt. Auk þess eru nú að koma í ljós ýmis dæmi þess að hið ótakmarkaða frelsi til fjárfestinga sem einstakir vörsluaðilar hafa notið hafi leitt til óvarlegra fjárfestinga með tilheyrandi skaða fyrir eigendur séreignarsparnaðarins. Því er lagt til, bæði í varúðarskyni og til að gæta samræmis, að allir vörsluaðilar séreignarlífeyrissparnaðar verði bundnir tilteknum lágmarksskilyrðum varðandi fjárfestingar. Það þýðir að fjárfestingarammi lífeyrissjóða gagnvart séreignarsparnaði verður rýmri frá því sem er í gildandi lögum samhliða því að frelsi annarra vörsluaðila séreignarlífeyrissparnaðar verður takmarkað.
    Að lokum eru lagðar til nokkrar breytingar til að auka sveigjanleika við útgreiðslu á lífeyrissparnaði í séreign, ráðstöfun lífeyrisréttinda og greiðslu ellilífeyris, jafnframt því sem kröfur til þekkingar stjórnarmanna lífeyrissjóða og þeirra sem sinna eignastýringu verðbréfasafna lífeyrissjóða eru hertar, auk nokkurra smærri breytinga.
    Í frumvarpinu er einnig að finna bráðabirgðaákvæði þess efnis að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna skuli lífeyrissjóðum vera heimilt að hafa allt að 15% neikvæðan mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyris miðað við tryggingafræðilega athugun fyrir árið 2008, án þess að þeim sé skylt að gera breytingar á samþykktum sjóðsins. Samkvæmt gildandi lögum eru mörkin –10%. Þetta þýðir að þeir sjóðir sem eru reknir innan við –15% samkvæmt tryggingafræðilegu mati munu ekki þurfa að skerða lífeyrisréttindi á næsta ári lagalega séð.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


     Um a-lið.
    Hér er lagt til að uppsagnarfrestur samnings um viðbótartryggingavernd eða séreignarsparnað verði styttur úr sex mánuðum í tvo. Rétt þykir að auka sveigjanleika aðila til ráðstöfunar þess iðgjaldshluta sem er umfram iðgjaldshluta til öflunar lágmarkstryggingaverndar með því að stytta uppsagnarfrestinn.
     Um b-lið.
    Hér er lagt til að skylda þess sem segir upp samningi um ráðstöfun viðbótariðgjalds til þess að tilkynna hana til þess lífeyrissjóðs sem ráðstafar iðgjaldi hans til lágmarkstryggingaverndar verði felld brott. Þannig fellur skylda til tilkynningar niður ef samningur varðar einvörðungu greiðslu viðbótariðgjalds umfram lágmarksiðgjald skv. 2. gr. laganna.

Um 2. gr.


     Um a-lið.
    Lagt er til að tekinn verði af allur vafi um rétt erlendra ríkisborgara til endurgreiðslu iðgjalda vegna öflunar lífeyrisréttinda í séreign þegar þeir flytjast úr landi enda sé slíkt ekki óheimilt samkvæmt milliríkjasamningi sem Ísland á aðild að. Ákvæði þess efnis er í III. kafla laganna þar sem kveðið er á um lífeyrissparnað í sameign. Rétt þykir að sömu endurgreiðsluheimildir gildi um iðgjöld til öflunar lífeyrisréttinda í séreign. Því er lagt til að vísað verði til 4. mgr. 19. gr. í II. kafla þar sem fjallað er um lífeyrissparnað í séreign.
     Um b- og c-lið.
    Í b- og c-lið eru lagðar til breytingar sem stefna að auknum sveigjanleika við útgreiðslu á lífeyrissparnaði í séreign. Annars vegar er lagt til að heimilt verði að greiða lífeyrissparnað ásamt vöxtum í séreign út í einu lagi við 60 ára aldur. Nú er reglan sú að hefja má útborgun lífeyrissparnaðar við 60 ára aldur með jöfnum árlegum greiðslum á ekki skemmri tíma en sjö árum eða á þeim tíma sem rétthafa vantar upp á 67 ára aldur. Þegar 67 ára aldri er náð má hins vegar greiða allan sparnaðinn út í einu. Þetta fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt, sérstaklega þar sem um er að ræða minni fjárhæðir sem er þá verið að greiða út í allt að sjö ár. Tekið skal fram að flestir velja þá leið að fá lífeyrissparnaðinn greiddan út á lengri tíma og hér er eingöngu um heimildarákvæði að ræða.
    Hins vegar er lagt til að felldar verði niður þær hömlur sem eru á útgreiðslu lífeyrissparnaðar í séreign við andlát sem er afleidd breyting af þeirri sem fjallað er um í b-lið. Jafnframt hefur reynslan sýnt að það kemur erfingjum í mörgum tilvikum mun betur að fá lífeyrissparnaðinn greiddan út í einu lagi frekar en að greiðslum sé dreift á tiltekinn fjölda ára. Ekki þykir hins vegar ástæða til að breyta fyrirkomulagi við útgreiðslu séreignarsparnaðar til öryrkja sem einnig er fjallað um í 11. gr. laganna.

Um 3. gr.


     Um a-lið.
    Hér er lagt til að svigrúm sjóðfélaga til að flýta töku lífeyris verði aukið úr fimm árum í allt að tíu ár eftir því hvenær sjóðfélagi getur hafið töku lífeyris samkvæmt almennri reglu, þ.e. sjóðfélagi geti í fyrsta lagi hafið töku lífeyris 60 ára. Þá er með hliðsjón af síhækkandi meðalaldri og bættri heilsu fólks lagt til að lífeyrissjóðum séu ekki sett mörk við því hversu lengi þeir geti heimilað mönnum að fresta töku lífeyris. Með þessum hætti geta lífeyrissjóðir boðið sjóðfélögum, sem eiga réttindi í fleiri en einum sjóði, að hefja töku ellilífeyris úr báðum eða öllum sjóðunum á sama tímapunkti.
     Um b-lið.
    Hér er lagt til að heimildir sjóðfélaga og maka hans eða eftir atvikum fyrrverandi maka til þess að ákveða með gagnkvæmum hætti að verðmæti uppsafnaðra ellilífeyrisréttinda þeirra skuli allt að hálfu renna til hins verði rýmkaðar þannig að svigrúm til slíkrar ákvörðunar verði aukið. Það er skilyrði í núgildandi lögum að slík ákvörðun liggi fyrir í síðasta lagi sjö árum áður en taka lífeyris getur fyrst hafist. Heimildin hefur verið lítið notuð og það kann að vera vegna þessa tímaskilyrðis. Því er lagt til að heimildin verði rýmkuð þannig að heimildin gildi uns taka lífeyris hefst en þó eigi lengur en til 64 ára aldurs, þ.e. samningur þarf að liggja fyrir áður en 65 ára aldri er náð í síðasta lagi. Með hliðsjón af mikilli atvinnuþátttöku, bæði karla og kvenna, og að almennt er ekki mikill aldursmunur á hjónum ætti rýmkunin ekki að hafa mikil fjárhagsleg áhrif í raun.

Um 4. gr.


    Í greininni er lagt til að lífeyrissjóðir geti boðið sjóðfélögum upp á að afþakka hefðbundin pappírsyfirlit enda miðli lífeyrissjóður viðeigandi upplýsingum til þeirra með sannanlegum og tryggum hætti á lokuðu vefsvæði eða með öðrum sambærilegum rafrænum hætti. Upplýsingagjöf lífeyrissjóða til sjóðfélaga í gegnum lokuð vefsvæði hefur stóraukist á síðastliðnum árum og því er lagt til að sjóðfélögum verði veitt heimild til þess að afþakka hefðbundin pappírsyfirlit telji þeir hinn vefræna aðgang fullnægjandi.

Um 5. gr.


    Í 28. gr. laganna er að finna heimild til samtaka lífeyrissjóða til þess að geta tilkynnt breytingar á samþykktum í umboði aðildarsjóða sinna. Reynslan hefur sýnt að ekki er þörf á slíkri heimild og því er lagt til að hún verði felld brott.

Um 6. gr.


    Í 35. gr. laganna er kveðið á um að eftirlitsaðili eða innri endurskoðunardeild skuli gera tillögu að skipulagningu innra eftirlits. Með frumvarpi þessu er lagt til að þessir aðilar geri tillögu að skipulagningu innri endurskoðunar, sbr. 9. gr. frumvarpsins. Samt sem áður þurfa að vera til staðar hjá sjóðnum skjalfestir eftirlitsferlar. Hér er lagt til að stjórn lífeyrissjóðs móti innra eftirlit og eftirlitsferla fyrir viðkomandi lífeyrissjóð.

Um 7. gr.


    Í 1. og 2. mgr. 31. gr. gildandi laga segir að stjórnarmenn í lífeyrissjóði skuli vera lögráða, fjár síns ráðandi, hafa óflekkað mannorð og megi ekki á síðustu fimm árum hafa í tengslum við atvinnurekstur fengið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld. Að öðru leyti fari um hæfi þeirra til meðferðar máls eftir ákvæðum II. kafla stjórnsýslulaga.
    Hér er lagt til að bætt sé aftan við 2. mgr. 31. gr. laganna nýrri málsgrein þess efnis að til viðbótar framangreindum skilyrðum skuli stjórnarmenn búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt. Sambærilegt ákvæði er að finna í 2. mgr. 52. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Lífeyrissjóðir falla ekki undir lög um fjármálafyrirtæki, en hafa engu að síður umsjón með verulegum fjármunum sem eru í eigu almennings. Þegar haft er í huga að þeir fjármálagerningar sem lífeyrissjóðirnir eru að fjárfesta í verða sífellt flóknari að gerð þykir fullt tilefni til að herða á kröfum um þekkingu stjórnarmanna þeirra.

Um 8. gr.


    Í greininni er lagt til að gert verði að skilyrði að þeir sem sinni eignastýringu verðbréfasafna lífeyrissjóða hafi staðist próf í verðbréfaviðskiptum í samræmi við 53. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Í lögum um fjármálafyrirtæki er kveðið á um að starfsmenn fjármálafyrirtækis, sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með fjármálagerninga skv. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, skuli hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum. Undir framangreindan 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki falla öll viðskipti og þjónusta með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti, þar með talin eignastýring og rekstur verðbréfasjóða. Hefur þessu ákvæði verið beitt með þeim hætti að Fjármálaeftirlitið hefur krafist þess að allir sjóðstjórar verðbréfasjóða hafi staðist prófið. Sem fyrr segir falla lífeyrissjóðir ekki undir lög um fjármálafyrirtæki, en samanlögð fjárhæð þeirra verðbréfasafna sem eru í sjóðastýringu lífeyrissjóðanna er í mörgum tilvikum mun hærri en hjá verðbréfasjóðum. Er því ekki óeðlilegt að gerðar séu sömu kröfur til menntunar og kunnáttu þeirra sem fara með sjóðastýringu lífeyrissjóða og gerðar eru til sjóðstjóra verðbréfasjóðanna.

Um 9. gr.


    Í 3. tölul. 1. mgr. 35. gr. laganna segir að endurskoðunardeild eða eftirlitsaðili lífeyrissjóðs skuli m.a. annast það verkefni að gera tillögu til stjórnar um skipulagningu innra eftirlits og annast sérstakar úttektir á virkni innra eftirlits. Með þessu orðalagi er því bæði verið að fela endurskoðanda lífeyrissjóðs að gera tillögu um innra eftirlit og gera samtímis úttektir á virkni þess. Þessi háttur fellur illa að þeirri kröfu sem að jafnaði er gerð um óhlutdrægni og óhæði endurskoðenda. Jafnframt bendir orðalag þetta til þess að verið sé að hræra saman innra eftirliti og innri endurskoðun. Það er ekki í samræmi við hlutlægnissjónarmið innri endurskoðenda að þeir bæði geri tillögu að skipulagningu innra eftirlits lífeyrissjóðsins og fari síðan yfir og gagnrýni það skipulag í innri endurskoðunarvinnu, þar sem í þeirri vinnu felst þá gagnrýni á eigin verk.
    Með frumvarpi þessu er því lagt til að stjórn lífeyrissjóðs skuli móta innra eftirlit lífeyrissjóðsins og skjalfesta eftirlitsferla, sbr. 6. gr. frumvarpsins, og í þessari grein er lagt til að endurskoðunardeild eða eftirlitsaðili lífeyrissjóðs skuli m.a. annast það verkefni að gera tillögu til stjórnar um skipulagningu innri endurskoðunar.

Um 10. gr.


     Um a-lið.
    Í ákvæðinu er lagt til að gerð verði sú breyting að verðbréfasjóðir sem byggjast á lögum nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, og evrópskir sjóðir sem byggjast á tilskipun 85/611/EBE verði lagðir að jöfnu við fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Í reynd er ekki um mikla breytingu að ræða því lögin hafa verið túlkuð á þennan hátt þar sem lög nr. 30/ 2003 eru byggð á framangreindri tilskipun.
     Um b-lið.
    Með ákvæðunum er lögð til breyting sem leiðir af samningsskuldbindingum okkar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningnum). Hún felst í því að tryggja lífeyrissjóðum heimild til að fjárfesta í verðbréfum sem skráð eru eða eftir atvikum gefin út af aðilum í EES-ríkjum með sama hætti og aðilum innan OECD, en ein níu EES-ríki eru ekki aðilar að stofnuninni.
     Um c-lið.
    Lagt er til að lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta fyrir allt að 20% af hreinni eign í verðbréfum, sem falla undir 1., 2., 5., 6., 8. og 9. tölul. 1. mgr. 36. gr. og ekki eru skráð á skipulegum markaði, en í gildandi lögum er þetta hlutfall 10%. Þær aðstæður sem skapast hafa á fjármálamarkaði hér á landi að undanförnu gera það að verkum að fjárfestingarkostir lífeyrissjóða innan lands hafa minnkað verulega. Þá hafa hlutföll í eignasöfnum lífeyrissjóðanna riðlast verulega þannig að hlutfall óskráðra bréfa hefur vaxið hjá mörgum sjóðanna eingöngu vegna framangreinds ástands á fjármálamarkaðinum og þykir því eðlilegt að bregðast við þeirri stöðu með hækkun hlutfallsins. Á hinn bóginn má búast við því að þetta hlutfall verði endurskoðað þegar betra jafnvægi kemst á fjármálamarkaðinn.
     Um d-lið.
    Í 5. mgr. 36. gr. segir að samanlögð eign lífeyrissjóðs í verðbréfum, öðrum en ríkisvíxlum, ríkisskuldabréfum og skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs, sem útgefin eru af sama aðila eða aðilum sem tilheyra sömu samstæðunni skuli ekki vera meiri en 10% af hreinni eign sjóðsins. Í ákvæðinu er lagt til að hlutfall þetta skuli vera óbreytt, en að samanlögð eign lífeyrissjóðs í verðbréfum útgefnum af sama aðila, tengdum aðilum, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, eða aðilum sem tilheyra sömu samstæðunni, skuli vera innan þessara marka. Breytingin hér felst í því að tengdum aðilum, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, er bætt við ákvæðið. Er þá miðað við þann skilning sem lagður er í hugtakið skv. 2. mgr. 18. gr. og 2. og 3. tölul. 2. mgr. 40. gr. a laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, en þar eru það taldir tengdir aðilar ef annar aðilinn fer með bein eða óbein yfirráð yfir hinum eða fer með minnst 20% hlutafjár eða atkvæðisrétt.
     Um e-lið.
    Í 5. mgr. 36. gr. núgildandi laga segir að lífeyrissjóði sé ekki heimilt að eiga meira en 25% af hlutdeildarskírteinum eða hlutum útgefnum af sama verðbréfasjóði eða fjárfestingarsjóði eða einstakri deild hans. Verðbréfasjóðir og fjárfestingarsjóðir eru gjarnan reknir af rekstrarfélögum verðbréfasjóða, sem í flestum tilfellum eru dótturfélög annarra fjármálastofnana. Hvert rekstrarfélag rekur fjölda sjóða. Algengt er að stjórnendur fjármálastofnana hafi sjálfir setið í stjórn rekstrarfélaganna. Nokkrir lífeyrissjóðir eru tengdir fjármálastofnunum rekstrarlegum böndum, m.a. vegna þess að þeir hafa verið stofnaðir að tilstuðlan þessara fjármálastofnana og stjórnir margra annarra sjóða hafa falið fjármálastofnunum eignastýringu sjóðanna. Þetta fyrirkomulag getur boðið upp á hagsmunaárekstra. Af þessum sökum er í ákvæðinu lagt til að nýjum málslið verði bætt við 5. mgr. 36. gr. þar sem kveðið er á um að lífeyrissjóði eða einstakri deild hans sé eigi heimilt að hafa meira en 25% af hreinni eign sinni í verðbréfasjóðum innan sama rekstrarfélags.
     Um f-lið.
    Til að taka af öll tvímæli er lagt til að bætt sé málsgrein við 36. gr. þar sem sérstaklega er tekið fram að ákvæði greinarinnar eigi aðeins við um samtryggingardeildir lífeyrissjóðanna en að fjárfestingar séreignardeilda lífeyrissjóða falli undir 36. gr. a, sbr. 11. gr. frumvarpsins.

Um 11. gr.


    Samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi er séreignarlífeyrissparnaður í vörslu lífeyrissjóða háður sömu takmörkunum varðandi fjárfestingarstefnu og samtryggingarlífeyrissjóðirnir, skv. 36. gr. laganna. Séreignarlífeyrissparnaður sem er í vörslu annarra aðila sem heimild hafa til að taka við slíkum sparnaði skv. 3. mgr. 8. gr. laganna er hins vegar ekki háður sömu takmörkunum. Hér ríkir því ákveðið ójafnræði milli aðila sem bjóða upp á sömu þjónustu.
    Þetta misræmi er talið miður heppilegt, einkum í ljósi þess að aðrir vörsluaðilar en lífeyrissjóðir skuli hafa ótakmarkað frelsi til að móta fjárfestingarstefnu í tilviki séreignarsparnaðar. Hér er því lagt til að allur séreignarsparnaður verði felldur undir lágmarksskilyrði um fjárfestingarstefnu. Lagt er til að vörsluaðilar séreignarsparnaðar skuli móta fjárfestingarstefnu þar sem fjárfestingar eru sundurliðaðar með hliðsjón af 1. mgr. 36. gr. laganna, en sé að öðru leyti háð tilteknum takmörkunum.
    Gert er ráð fyrir að ekki verði heimilt að fjárfesta fyrir meira en 20% af hreinni eign sjóðsins í verðbréfum sem ekki eru skráð á skipulegum markaði.
    Þá er gert ráð fyrir að samanlögð eign sjóðsins eða einstakra deilda séreignarsparnaðar í fjármálagerningum útgefnum af sama aðila, tengdum aðilum, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, eða aðilum sem tilheyra sömu samstæðunni skuli ekki vera meiri en 20% af hreinni eign sjóðsins.
    Jafnframt er gert ráð fyrir að fjárfestingarheimild vörsluaðila séreignarsparnaðar verði takmörkuð með þeim hætti að samanlögð eign sjóðsins eða einstakra deilda hans megi ekki vera meira en 30% af hlutdeildarskírteinum eða hlutum útgefnum af sama verðbréfasjóði eða fjárfestingarsjóði eða einstakri deild hans og að vörsluaðilum sé eigi heimilt að hafa meira en 30% af hreinni eign sinni í verðbréfasjóðum innan sama rekstrarfélags.
    Þá er lagt til að 8. mgr. 36. gr. skuli einnig eiga við um fjárfestingarleiðir lífeyrissparnaðar en þar er kveðið á um að lífeyrissjóðum sé ekki heimilt að fjárfesta eða eiga í fjárfestingarsjóðum skv. 7. tölul. 1. mgr. 36. gr. laganna sem fjármagna sig með lántöku eða skortsölu.
    Í 2. mgr. greinarinnar er lagt til að vörsluaðilar séreignarsparnaðar skuli senda upplýsingar um fjárfestingarstefnu sína fyrir komandi ár til Fjármálaeftirlitsins eigi síðar en 1. desember ár hvert. Er það í samræmi við 37. gr. laganna þar sem kveðið er á um upplýsingagjöf lífeyrissjóðanna um fjárfestingarstefnu sína til Fjármálaeftirlitsins.

Um 12. gr.


    Í 44. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er kveðið á um eftirlit Fjármálaeftirlitsins með lífeyrissjóðum. Í ákvæðinu er hvergi vikið sérstaklega að vörsluaðilum lífeyrissparnaðar, skv. II. kafla laganna, þótt litið hafi verið svo á að Fjármálaeftirlitið hafi sömu heimildir til að afla upplýsinga frá þeim aðilum sem taka við lífeyrissparnaði og lífeyrissjóðunum sjálfum, enda eru vörsluaðilarnir jafnan fjármálafyrirtæki eða tryggingafélög sem eru eftirlitsskyld samkvæmt öðrum lögum. Hér er því lagt til að tekið sé fram að Fjármálaeftirlitið hafi sömu eftirlitsskyldu gagnvart öllum þeim aðilum sem taka við lífeyri eða lífeyrissparnaði.

Um 13. gr.


    Í 39. gr. laganna er kveðið á um að hrein eign lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda skuli vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda. Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að meira en 10% munur er á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga er hlutaðeigandi lífeyrissjóði skylt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins. Í því felst að samþykktunum skal breytt á þann hátt að í lífeyrissjóðum, án ábyrgðar annarra, verði lífeyrisréttindi skert en í lífeyrissjóðum með ábyrgð ríkis eða sveitarfélaga verði inngreiðslur ábyrgðaraðila hækkaðar verulega.
    Útlit er fyrir að einhverjir lífeyrissjóðir verði með meira en 10% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga. Þeir sjóðir munu þurfa að skerða lífeyrisréttindi sem þessu nemur að óbreyttum lögum. Þetta mun koma niður á þeim sem eru þegar komnir á lífeyrisaldur. Hér er því lagt til að sett verði bráðabirgðaákvæði sem gildir aðeins í eitt ár, þess efnis að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna skuli lífeyrissjóðum vera heimilt að hafa allt að 15% mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyris miðað við tryggingafræðilega athugun fyrir árið 2008, án þess að þeim sé skylt að gera breytingar á samþykktum sjóðsins. Ákvæði 1. mgr. 39. gr. um að hrein eign lífeyrissjóðs til greiðslu lífeyris ásamt núvirði framtíðariðgjalda skuli vera jafnhá núvirði væntanlegs lífeyris vegna þegar greiddra iðgjalda og framtíðariðgjalda á ekki við um tryggingafræðilega athugun fyrir árið 2008.
    Ákvæði þetta er heimildarákvæði sem stjórnir lífeyrissjóða geta nýtt sér ef þær vilja minnka og jafna áhrifin af eignatapinu. Lífeyrissjóður sem hefur allt að 15% mun á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga getur þá frestað skerðingunni árið 2009, en lífeyrissjóður sem er með meira en 15% mun verður að skerða réttindin niður að því marki eins og munurinn hafi ekki verið meiri en 15%.
    Í 2. málsl. 2. mgr. 39. gr. laganna er kveðið á um að lífeyrissjóði sé skylt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins ef munur samkvæmt tryggingafræðilegum athugunum á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár. Í ljósi aðstæðna er lagt til að þegar litið sé til ársins 2008 sé miðað við 10% mun.

Um 14. gr.


    Í greininni er kveðið á um að lögin taki þegar gildi við birtingu nema 8. gr. sem taki gildi 1. janúar 2011. Í 8. gr. er lagt til að gert verði að skilyrði að þeir sem sinni eignastýringu verðbréfasafna lífeyrissjóða hafi staðist próf í verðbréfaviðskiptum í samræmi við 53. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Rétt þykir að gefa þessu ákvæði nokkurn aðlögunartíma til þess að þeir sem sinna þessum störfum í dag og uppfylla ekki skilyrðið fái færi á því.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 129/1997,
um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða,
með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í fyrsta lagi er lagt til að sett verði bráðabirgðaákvæði sem gildir aðeins í eitt ár, þess efnis lífeyrissjóðum muni vera heimilt að hafa allt að 15% mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyris miðað við tryggingafræðilega athugun fyrir árið 2008 án þess að þeim sé skylt að gera breytingar á samþykktum sjóðsins, en mörkin eru 10% í dag. Þetta þýðir að þeir sjóðir sem eru með innan við 15% muni ekki þurfa að skerða lífeyrisréttindi bótaþega á næsta ári. Í öðru lagi eru lagðar til nokkrar breytingar varðandi fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðanna. Meðal annars er lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta fyrir allt að 20% af hreinni eign sjóðsins í verðbréfum sem ekki eru skráð á skipulegum markaði í stað 10%. Að auki er lagt til að settar verði sérstakar reglur um fjárfestingarstefnu þeirra aðila sem hafa heimild til að taka við lífeyrissparnaði í séreign. Auk þess eru nokkrar breytingar sem stefna að auknum sveigjanleika við útgreiðslu á lífeyrissparnaði í séreign, ráðstöfun lífeyrisréttinda og greiðslu ellilífeyris til að gera lífeyrisþegum aðgang að réttindum sínum auðveldari.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.