Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 222. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Prentað upp.

Þskj. 300  —  222. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar



um árlegan samráðsfund sjávarútvegsráðherra Vestur-Norðurlanda.

Flm.: Karl V. Matthíasson, Árni Johnsen, Guðbjartur Hannesson,
Guðjón A. Kristjánsson, Jón Gunnarsson,
Birkir J. Jónsson, Jón Bjarnason.


    Alþingi skorar á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um árlegan samráðsfund sjávarútvegsráðherra Vestur-Norðurlanda. Á samráðsfundunum yrði fjallað um sjávarútveg og veiðar í löndunum þremur og stefnu landanna í sjávarútvegsmálum gagnvart Evrópusambandinu.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2008 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 27. ágúst 2008 í Grundarfirði. Ályktun ráðsins hljóðar svo í íslenskri þýðingu:
    „Vestnorræna ráðið skorar á landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands að gera með sér samkomulag um að haldinn sé árlegur fundur sjávarútvegsráðherra landanna um sjávarútveg og veiðar í löndunum og stefnu þeirra í sjávarútvegsmálum gagnvart Evrópusambandinu. Vestnorræna ráðið skorar jafnframt á sjávarútvegsráðherra landanna að gefa Vestnorræna ráðinu skýrslu af árlegum fundi sínum fyrir ársfund Vestnorræna ráðsins til að sjónarmið stjórnvalda landanna í sameiginlegum hagsmunamálum gagnvart Evrópusambandinu séu Vestnorræna ráðinu ávallt kunn.
     Rökstuðningur.
    Ekkert Vestur-Norðurlanda á aðild að Evrópusambandinu. Löndin eru þó öll tengd sambandinu með sínum hætti: Grænland fyrir tilstilli fyrirkomulags Evrópusambandsins um lögsögur handan hafsins, Ísland með aðild að EES-samningnum og Færeyjar með viðskiptasamningi við sambandið.
    Sögulega hafa Vestur-Norðurlönd verið háð útflutningi sjávarafurða og svo er enn. Þrátt fyrir mikilvægi sjávarútvegs fyrir afkomu landanna og tengingu við Evrópusambandið hafa þau enn sem komið er ekki sett sér sameiginlega stefnu gagnvart Evrópusambandinu um sjávarútvegsmál. Sökum mikilvægis sjávarútvegs og veiða fyrir Vestur-Norðurlönd og margvíslegra sameiginlegra hagsmuna og sjónarmiða í þeim málaflokki er tímabært að löndin móti sameiginlega stefnu í sjávarútvegsmálum gagnvart framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
    Það er ekki síst tímabært í ljósi þeirra afleiðinga sem tilfinningablandin umræða um sjávarútveg og veiðar hefur og getur haft fyrir viðkvæm hagkerfi Vestur-Norðurlanda. Mikið af þeim ranghugmyndum sem hafa komið fram í umræðunni er hægt að fyrirbyggja, a.m.k. upp að vissu marki, ef löndin kæmu sjónarmiðum sínum og stefnu sameiginlega á framfæri við Evrópusambandið.
    Horfast verður í augu við það að ákvarðanir Evrópusambandsins varðandi sjávarútveg hafa víðtækar afleiðingar fyrir Vestur-Norðurlönd. Vestur-Norðurlönd ættu þess vegna í sameiningu að leitast við að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru innan Evrópusambandsins varðandi sjávarútveg og hafa áhrif á sjávarútveg og veiðar á Vestur-Norðurlöndum.
    Einnig er mikilvægt að Evrópusambandið viðurkenni verðmæti og möguleika þeirrar sérstöku þekkingar og reynslu af sjávarútveg sem er að finna á Vestur-Norðurlöndum. Hvað viðvíkur stefnu í fiskveiðimálum og útflutningi sjávarafurða eiga því Vestur-Norðurlönd og Evrópusambandið margs konar sameiginlegra hagsmuna að gæta.
    Vestnorræna ráðið telur mjög mikilvægt að vera upplýst um hvaða sjónarmið og stefna á við um samband Vestur-Norðurlanda og Evrópusambandsins. Það er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að í lok árs 2007 komst formleg samvinna á milli Vestnorræna ráðsins og Evrópuþingsins sem ráðið hyggst nýta til að koma á framfæri vestnorrænum sjónarmiðum í þágu sameiginlegra hagsmuna Vestur-Norðurlanda.
    Vestur-Norðurlönd standa sterkari að vígi gagnvart Evrópusambandinu í þeim tilvikum sem næst fram sameiginleg afstaða landanna í einstökum málaflokkum. Vestnorræna ráðið hvetur því sjávarútvegsráðherra Vestur-Norðurlanda til að halda árlegan samráðsfund til að ræða sjávarútveg og veiðar í löndunum og móta sameiginlega afstöðu í þeim málum gagnvart Evrópusambandinu, sem og að halda Vestnorræna ráðinu upplýstu um niðurstöður af árlegu fundum sjávarútvegsráðherra landanna.“