Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 223. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Prentað upp.

Þskj. 301  —  223. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar



um aukið samráð Vestur-Norðurlanda um sjálfbæra nýtingu lifandi náttúruauðlinda.

Flm.: Karl V. Matthíasson, Árni Johnsen, Guðbjartur Hannesson,


Guðjón A. Kristjánsson, Jón Gunnarsson,


Birkir J. Jónsson, Jón Bjarnason.


    Alþingi skorar á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um aukið samráð á sviði sjálfbærrar nýtingar lifandi náttúruauðlinda, þ.m.t. fugla- og fiskstofna, auk spendýra.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 3/2008 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 27. ágúst 2008 í Grundarfirði. Ályktun ráðsins hljóðar svo í íslenskri þýðingu:
    „Vestnorræna ráðið styður sjálfbæra nýtingu lifandi náttúruauðlinda, þ.m.t. fugla- og fiskstofna, auk spendýra. Vestnorræna ráðið skorar því á landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands að eiga frumkvæðið að auknu samráði á sviði sjálfbærrar nýtingar vestnorrænna fugla- og fiskstofna, auk spendýra, við gerð samninga eða samkomulaga þar um. Vestnorræna ráðið bendir á samhengið sem er á milli afkomu lifandi náttúruauðlinda og loftslagsbreytinga. Vestnorræna ráðið lýsir ánægju sinni með þann fjölda verkefna sem unnið hefur verið að á sviði loftslagsrannsókna á Vestur-Norðurlöndum hin síðari ár. Vestnorræna ráðið hvetur stjórnvöld til þess að tryggja að fyrir hendi séu skiptiáætlanir milli Vestur- Norðurlanda sem ætlaðar eru nemendum, kennurum og fræðimönnum.
     Rökstuðningur.
    Hagkerfi Vestur-Norðurlanda byggist að miklu leyti á nýtingu náttúruauðlinda. Vestur- Norðurlönd eiga því sameiginlegra hagsmuna að gæta þegar kemur að því að tryggja sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda þjóðanna.
    Náttúruauðlindir þjóðanna eru takmörkuð gæði. Það er því mikilvægt að Vestur-Norðurlönd standi í sameiningu fyrir því að náttúruauðlindir séu nýttar með sjálfbærum hætti til að tryggja viðgang dýrastofna og annarra náttúruauðlinda og þar með hag framtíðarkynslóða, ekki síst sjávarútvegs- og veiðisamfélaga.
    Til að svo geti orðið er mjög mikilvægt að eiga samvinnu um nauðsynlegar málamiðlanir, sem taki mið af sjónarmiðum um sjálfbæra nýtingu og sameiginlegan hag landanna, þegar kemur að því að stjórna aðgangi að náttúruauðlindum á Vestur-Norðurlöndum.
    Enginn vafi leikur á því að Vestur-Norðurlönd hafa náð langt í því að tryggja í framkvæmd þær meginreglur sem snúa að sjálfbærri þróun og nýtingu náttúruauðlinda. Á sama tíma er ætíð svigrúm til að gera enn betur. Það er því mikilvægt að Vestur-Norðurlönd, fyrir tilstilli tvíhliða og marghliða samkomulaga, haldi áfram að vinna saman á uppbyggilegan hátt að því að tryggja sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.
    Á Vestur-Norðurlöndum er sterk hefð fyrir því að leysa sameiginlega vandamál og áskoranir sem löndin standa frammi fyrir, ekki síst á sviði nýtingar fugla- og fiskstofna, auk spendýra.
    Það er fagnaðarefni í huga Vestnorræna ráðsins að áhrif loftslagsbreytinga hafa verið sett á dagskrá allra Vestur-Norðurlandanna hin síðari ár. Til að tryggja sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda er mikilvægt að rannsaka viðgang dýrastofna, m.a. með hliðsjón af áhrifum loftslagsbreytinga. Vestnorræna ráðið skorar því á stjórnvöld Vestur-Norðurlanda að styrkja samstarf vísindamanna og rannsóknarnema enn frekar á þessu sviði og auðvelda þar með samráð um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda.“