Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 224. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Prentað upp.

Þskj. 302  —  224. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar



um samkomulag milli Íslands og Grænlands um skipti á útsendum sendifulltrúum og milli Færeyja og Grænlands um skipti á opinberum sendifulltrúum.

Flm.: Karl V. Matthíasson, Árni Johnsen, Guðbjartur Hannesson,


Guðjón A. Kristjánsson, Jón Gunnarsson,


Birkir J. Jónsson, Jón Bjarnason.


    Alþingi skorar á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórn Grænlands um að löndin skiptist á útsendum sendifulltrúum. Færeyjar og Grænland eru jafnframt hvött til að skiptast á opinberum sendifulltrúum.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2008 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 27. ágúst 2008 í Grundarfirði. Ályktun ráðsins hljóðar svo í íslenskri þýðingu:
    „Færeyjar og Ísland hafa sett upp sendiskrifstofur í löndum hvort annars. Vestnorræna ráðið skorar á landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands að gera með sér sams konar samkomulag um stofnun sendiskrifstofa þar sem starfi útsendir sendifulltrúar á vegum utanríkisþjónustu landanna. Vestnorræna ráðið skorar einnig á landsstjórn Færeyja og Grænlands að skiptast á opinberum sendifulltrúum. Löndin eru hvött til þess að koma sér upp sameiginlegum skrifstofum eftir því sem tök eru á.
     Rökstuðningur.
    Löng hefð er fyrir jákvæðu og víðtæku samstarfi vestnorrænna þjóða. Þær eru nánustu nágrannar og hafa öldum saman átt með sér góð vináttu- og nágrannatengsl. Jafnframt hefur verið nokkuð algengt að íbúar hafi flust milli landanna, starfað þar og haft búsetu.
    Ríki stofna jafnan ræðis- og sendiskrifstofur sem og sendiráð í löndum sem þau tengjast nánum böndum í krafti víðtæks samstarfs og/eða viðskipta. Undanfarin ár hafa tengslin og samstarfið milli vestnorrænu landanna vaxið stöðugt að umfangi, ekki síst fyrir tilstilli Vestnorræna ráðsins.
    Til að styrkja enn frekar böndin á milli þeirra telur Vestnorræna ráðið mikilvægt að koma á gagnkvæmu og formlegu stjórnmálasambandi milli Vestur-Norðurlanda enda hafi það ótvírætt gildi fyrir íbúa landanna sem og vöxt og viðgang vestnorræns iðnaðar og atvinnulífs að geta leitað eftir aðstoð sendi- eða ræðismannsskrifstofa þegar kemur að viðskiptum, ferðalögum og búferlaflutningum milli landanna.
    Þar sem aðildarlönd Vestnorræna ráðsins eru ekki öll sjálfstæð ríki þá getur verið nauðsynlegt að koma á annars konar formlegu sambandi en eiginlegu stjórnmálasambandi í formi sendiskrifstofu þar sem starfi útsendir sendifulltrúar frá utanríkisþjónustu landanna. Vestnorræna ráðið telur að stofnun sendiskrifstofu með útsendum sendifulltrúum á vegum utanríkisþjónustu landanna í tilviki Íslands og Grænlands og skrifstofu opinberra sendifulltrúa í tilviki Færeyja og Grænlands sé eðlilegt framhald á langri og góðri samvinnu milli Vestur- Norðurlanda og skorar því á stjórnvöld landanna að vinna í því að koma slíku á fót.“