Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 228. máls.

Þskj. 313  —  228. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)1. gr.

    Í stað orðsins „Skattaðila“ í 3. mgr. 15. gr. laganna kemur: Mönnum utan atvinnurekstrar.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 17. gr. laganna:
     a.      5. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      Á eftir orðinu „íbúðarhúsnæðis“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: hér á landi eða í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.
     c.      Við 8. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um hagnað af sölu búseturéttar.

3. gr.

    Við 28. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Styrkir úr Endurhæfingarsjóði Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem ganga til greiðslu kostnaðar vegna endurhæfingar, heilbrigðisþjónustu og tiltekinnar þjónustu fagaðila. Fjármálaráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd þessa ákvæðis.

4. gr.

    4. málsl. 4. mgr. 55. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „ákveðnar“ í 1. málsl. 8. mgr. A-liðar kemur: á grundvelli skattframtals.
     b.      Í stað orðanna „kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð skv. 76. gr. laga nr. 97/1993“ í 1. mgr. B-liðar kemur: búseturétti samkvæmt lögum nr. 66/2003 og kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð samkvæmt eldri lögum.

6. gr.

    Við 90. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Hafi framtalsskyldur maður ekki sinnt skyldu sinni skv. 1. málsl. 1. mgr. er skattstjóra heimilt að útbúa skattframtal á viðkomandi með fyrirliggjandi framtalsupplýsingum, enda telji skattstjóri þær fullnægjandi. Þannig gert skattframtal skal auðkennt sérstaklega og réttaráhrif þess eru þau sömu og áætlunar skv. 2. mgr. 95. gr. Um tilkynningu og kærufresti fer skv. 2. málsl. 1. mgr. 98. gr. og 99. gr.

7. gr.

    Á eftir 2. mgr. 92. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Bankar, sparisjóðir, önnur fjármálafyrirtæki og aðrir þeir aðilar skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1996, sem taka við fjármunum til ávöxtunar, skulu ótilkvaddir veita skattyfirvöldum ókeypis og í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður upplýsingar um greidda eða greiðslukræfa vexti á árinu skv. 8. gr. laga þessara og afdregna staðgreiðslu og um skuldir og innstæður eða inneignir á bankareikningum og hvers konar sjóðsreikningum í árslok.

8. gr.

    Ákvæði 1., 2., 3. og 4. gr. öðlast gildi 1. janúar 2009 og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2009.
    Ákvæði 5., 6. og 7. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda árið 2009 vegna tekna ársins 2008 og eigna og skulda í lok þess árs.
    Ákvæði 9. gr. öðlast þegar gildi.

9. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 38/2008 orðast svo:
    Ákvæði 5. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu halda gildi sínu um hagnað lögaðila skv. 1. mgr. 2. gr. sömu laga og einstaklinga í atvinnurekstri af sölu hlutabréfa sem féll til fyrir gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um tekjuskatt.
    Í fyrsta lagi er lagt til að styrkir úr Endurhæfingarsjóði ASÍ og SA sem ganga til greiðslu kostnaðar vegna endurhæfingar, heilbrigðisþjónustu og tiltekinnar þjónustu fagaðila teljist ekki til tekna. Þessi breyting er einn liður í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í febrúar sl.
    Í öðru lagi er lögð til breyting á ákvæði laganna um söluhagnað af íbúðarhúsnæði í kjölfar athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Í skattframkvæmd hefur verið litið svo á að eingöngu væri hægt að endurfjárfesta í íbúðarhúsnæði á Íslandi til lækkunar á stofnverði hinnar nýju eignar. ESA telur þessa túlkun ekki samrýmast ákvæðum EES-samningsins um frjálst flæði launþega, réttinn til búsetu og frjálst flæði fjármagns. Því er lögð til sú breyting að kveða skýrt á um það að endurfjárfesting geti farið fram hér á landi, í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.     
    Í þriðja lagi er lagt til að kaup á búseturétti samkvæmt lögum nr. 66/2003, um húsnæðissamvinnufélög, veiti rétt til vaxtabóta líkt og kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð samkvæmt þágildandi 76. gr. laga nr. 97/1993, um Húsnæðisstofnun ríkisins, gera.
    Í fjórða lagi er lagt til að tekjutengdar barnabætur verði ekki ákvarðaðar nema á grundvelli skattframtals við álagningu og því verði ákvörðun þeirra ekki byggð á áætluðum skattstofnum. Rétt þykir að taka af öll tvímæli um að tekjuviðmiðun barnabóta skuli byggjast á framtöldum tekjum.
    Í fimmta lagi er lagt til að lögfest verði heimild fyrir skattstjóra til að annast gerð skattframtala þegar fullnægjandi upplýsingar liggja fyrir. Í undirbúningi hefur verið að auðvelda framteljendum með einföld framtöl árlega vinnu við framtalsskil. Þar hefur verið gert ráð fyrir að skattstjóra verði heimilt að útbúa skattframtal fyrir framteljendur þegar talið er að fullnægjandi upplýsingar séu fyrir hendi. Lagaheimild til þess hefur ekki verið til staðar og því er umrædd tillaga komin fram.
    Að lokum er lagt til að öllum fjármálastofnunum verði gert skylt að senda árlega upplýsingar um bankainnstæður, sjóðsinnstæður og vexti sem slíkir reikningar bera. Um árabil hefur eitt helsta frávikið í skattlagningu einstaklinga hérlendis verið að bankar og sparisjóðir hafa ekki sent upplýsingar um peningalegar innstæður á sama tíma og aðrar nauðsynlegar upplýsingar vegna álagningar berast skattyfirvöldum. Tilgreining bankainnstæðna og skulda á skattframtali er því algjörlega háð vilja einstakra framteljenda til að gera grein fyrir þessum upplýsingum og gefur það því ófullkomna mynd af fjárhagslegri stöðu og brenglar auk þess alla tölfræði. Í núverandi lagaumhverfi er skattstjórum gert að byggja álagningu á þeim upplýsingum sem tilfærðar eru á framtali um innstæður og skuldir án samanburðar við ytri upplýsingar svo sem á við um laun, fasteignir og bifreiðaeign, skuldir við Íbúðalánasjóð o.fl. Það fyrirkomulag að gefa ekki upp sundurliðaðar upplýsingar um afdreginn fjármagnstekjuskatt hefur gert allt eftirlit með skatti þessum og umfangi hans nánast óframkvæmanlegt. Verði tillaga að umræddu ákvæði lögfest mun það einnig stuðla að meira jafnræði milli aðila, sérstaklega þegar réttindi eða skyldur ákvarðast á grundvelli heildartekna, hvort heldur vegna ákvörðunar bóta á grundvelli tekjuskattslaga eða löggjafar um almannatryggingar. Fyrir liggur að meira en 35 þúsund einstaklingar hafa við álagningu 2008 fengið bóta- og lífeyrisgreiðslur án þess að gerð sé grein fyrir innstæðum á skattframtölum þeirra. Tilgreining bankaupplýsinga er því einnig mikilvæg aðhalds- og mótvægisaðgerð gegn undandrætti tekna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 15. gr. laganna er kveðið á um meðferð söluhagnaðar af fasteignum sem ekki er heimilt að fyrna, þ.m.t. ófyrnanleg mannvirki, lönd, lóðir, ófyrnanleg náttúruauðæfi og réttindi tengd þessum eignum, bæði af fasteignum manna og þeim sem tilheyra atvinnurekstri. Í 3. mgr. lagagreinarinnar segir að jafnan sé heimilt að telja helming söluverðs til skattskyldra tekna. Er þessari reglu fyrst og fremst ætlað að gilda þegar stofnverð eignar liggur ekki fyrir. Lagt er til að þetta ákvæði verði með skýrum hætti einungis látið taka til fasteigna manna en ekki eigna sem tilheyra atvinnurekstri, enda er slík undantekningarregla í andstöðu við meginreglur laganna um útreikning söluhagnaðar af atvinnurekstrareignum.

Um 2. gr.

    Í 17. gr. laganna er kveðið á um útreikning og meðferð söluhagnaðar af íbúðarhúsnæði.
    Í 5. málsl. 1. mgr. 17. gr. segir að ákvæði 15. gr. gildi um meðferð söluhagnaðar af íbúðarhúsnæði í eigu hvers konar lögaðila. Sú grein gildir þó einungis um eignir sem óheimilt er að fyrna. Lagt er til að málsliðurinn verði felldur brott, enda gilda um söluhagnað eigna í eigu lögaðila eftir atvikum 13. gr., ef um ræðir fyrnanlegt íbúðarhúsnæði, og 15. gr. ef um ræðir íbúðarhúsnæði sem ekki er heimilt að fyrna.
    Í 2. mgr. 17. gr. er að finna heimild til frestunar á söluhagnaði um tvenn áramót frá söludegi. Kaupi maður annað íbúðarhúsnæði eða hefji byggingu íbúðarhúsnæðis í stað þess selda innan þess tíma færist söluhagnaðurinn til lækkunar stofnverði hinnar nýju eignar. Í skattframkvæmd hefur verið litið svo á að eingöngu sé hægt að endurfjárfesta í íbúðarhúsnæði á Íslandi til lækkunar á stofnverði hinnar nýju eignar og hafa skattyfirvöld, yfirskattanefnd og dómstólar staðfest þá framkvæmd. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) telur þessa túlkun ekki samrýmast ákvæðum EES-samningsins um frjálst flæði launþega, réttinn til búsetu og frjálst flæði fjármagns. Þannig eigi ekki að skipta máli í hvaða EES-ríki er endurfjárfest. Því er lögð til sú breyting að kveðið verði skýrt á um það að endurfjárfesting við þessar aðstæður geti farið fram hér á landi, í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.
    Rétt þykir að taka af allan vafa um að ákvæði 17. gr. laganna taki einnig til búseturéttar. Talið hefur verið að jafna mætti kaupum á búseturétti við kaup á eignarhlut í íbúðarhúsnæði. Samkvæmt því sé heimilt að færa niður á móti söluhagnaði af íbúðarhúsnæði þá fjárhæð sem nemur kaupverði búseturéttar í búsetuíbúð. Hefur verið við það miðað að þessi heimild taki einungis til kaupverðs búseturéttarins, þ.e. búseturéttargjaldsins, en ekki annars hluta stofnverðs íbúðar. Ef leigutaki á rétt á húsaleigubótum samkvæmt lögum nr. 138/1997, um húsaleigubætur, hefur verið við það miðað að niðurfærsla á stofnverði íbúðar komi ekki til álita. Er það í samræmi við það að í slíkum tilvikum er ekki fyrir hendi réttur til vaxtabóta. Í lögum um húsaleigubætur segir í 4. gr. að þeir leigjendur eigi rétt á húsaleigubótum sem leigi íbúðarhúsnæði til búsetu og eigi þar lögheimili. Í 6. gr. sömu laga er kveðið á um atriði sem girða fyrir rétt til húsaleigubóta og á það m.a. við ef umsækjandi, eða einhver sem býr í húsnæðinu með honum, nýtur réttar til vaxtabóta.

Um 3. gr.

    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar sl. í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði segir m.a. að ríkisstjórnin muni í tengslum við uppbyggingu áfallatrygginga beita sér fyrir lagabreytingum sem tryggi að greiðslur úr Endurhæfingarsjóði teljist ekki til skattskyldra tekna hjá viðkomandi einstaklingum. Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er því lagt til að við 28. gr. laganna bætist nýr töluliður sem kveður á um að styrkir úr Endurhæfingarsjóði ASÍ og SA sem ganga til greiðslu kostnaðar vegna endurhæfingar, heilbrigðisþjónustu og tiltekinnar þjónustu fagaðila samkvæmt reglugerð sem fjármálaráðherra setur verði skattfrjálsir. Í fyrrnefndri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar voru tíundaðar fleiri breytingar í átt að skattfrelsi ákveðinna styrkja. Hér er lagt til að í fyrsta áfanga verði það eingöngu styrkir úr Endurhæfingarsjóði ASÍ og SA sem ganga til greiðslu kostnaðar vegna endurhæfingar, heilbrigðisþjónustu og tiltekinnar þjónustu fagaðila sem verði skattfrjálsir. Þar sem að öðru leyti er um flókna framkvæmd að ræða þarfnast málið nánari skoðunar hvað aðra styrki varðar.

Um 4. gr.

    Ákvæði 55. gr. laganna felur í sér heimild til samsköttunar móður- og dótturfélags að uppfylltum vissum skilyrðum. Við samsköttun er unnt að nýta hagnað sem verður til á rekstrarárinu hjá einu félaganna til að jafna tap sem verður hjá öðru félagi á sama rekstrarári. Þá er gert ráð fyrir að yfirfæranlegt tap af rekstri hlutafélags sem stafar af rekstri fyrir samsköttun megi einungis nýta hjá því félagi sem myndaði tapið. Er það gert til að koma í veg fyrir misnotkun á samsköttunarreglunni þannig að móðurfélag kaupi annað dótturfélag með miklu uppsöfnuðu tapi og sæki um samsköttun og búi þannig til rétt til frádráttar á eigin hagnaði með því að draga frá honum tap dótturfélagsins frá fyrri árum. Þó er heimilt skv. 4. málsl. 4. mgr. 55. gr. laganna að nýta yfirfæranlegt tap sem myndaðist fyrir samsköttun milli móður- og dótturfélags ef uppfyllt voru öll skilyrði fyrir samsköttun við gildistöku 55. gr. laganna, sbr. lög nr. 154/1998 og skilyrði 54. gr. um sameiningu félaga. Í ljósi þess að tíu ár eru liðin frá gildistöku þessa ákvæðis og þess að skv. 8. tölul. 31. gr. laganna má einungis draga frá tekjum lögaðila eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu tíu árum á undan rekstrarári er lagt til að 4. málsl. 4. mgr. 55. gr. verði felldur brott þar sem ákvæðið hefur runnið sitt skeið á enda.

Um 5. gr.

    Í a-lið greinarinnar er lagt til að ákveða skuli barnabætur á grundvelli skattframtals við álagningu en ekki áætlunar. Í framkvæmd hafa barnabætur almennt ekki verið ákveðnar á grundvelli áætlunar en rétt þykir að taka af öll tvímæli um það.
    Í b-lið er lagt til að kaup á búseturétti samkvæmt lögum nr. 66/2003, um húsnæðissamvinnufélög, veiti rétt til vaxtabóta líkt og kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð. Í skattframkvæmd hefur verið við það miðað að jafna mætti kaupum á búseturétti við kaup á eignarhlut í kaupleiguíbúð þannig að þeir sem keypt hafi slíkan rétt gætu eftir atvikum átt rétt á vaxtabótum samkvæmt núgildandi B-lið 68. gr. laganna. Litið hefur verið svo á að um algjörlega sambærilega gjörninga væri að ræða og eingöngu hafi verið gerðar formbreytingar en ekki efnisbreytingar að þessu leyti þegar lögum um húsnæðismál var breytt á þann veg að kaupleiguíbúðakerfið var lagt af en réttindi þeirra sem áður höfðu gert slíka samninga héldu gildi sínu, sbr. bráðabirgðaákvæði V í lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál.

Um 6. gr.

    Tillaga þessi að lagabreytingu er sett fram á grundvelli reynslu grannþjóða okkar þar sem framtalsskilum þorra launþega hefur verið aflétt, enda búa þessar þjóðir við agaða upplýsingagjöf, bæði frá almennum launagreiðendum, bankastofnunum og opinberum aðilum. Á grundvelli framtals fyrra árs ásamt upplýsingum um tekjur, eignir og skuldir í lok þess árs sem almennt varða álagningu ætti framtalsskyldan nánast að vera formsatriði og atbeina skattaðila ekki þörf nema vegna einstakra atriða í undantekningartilvikum sem varða einstaklingsbundnar forsendur álagningar, svo sem beiðni um ívilnun. Telja verður að þær upplýsingar, sem tiltækar eru á rafrænu formi hjá einkaaðilum, hjá hinu opinbera og innlánsstofnunum, geri skattyfirvöldum kleift án mikils tilkostnaðar að ljúka framtalsgerð allflestra framteljenda, bæði þeirra sem hingað til hafa talið fram sem og þeirra sem sætt hafa ósundurliðaðri áætlun. Fyrst í stað verður við það látið sitja að gera ekki tillögur um róttækari breytingar en að þetta form framtalsskila verði látið ná til afmarkaðs hóps framteljenda að loknum framtalsfresti, sbr. 2. mgr. 95. gr., þó þannig að marktæk viðmið náist til að meta megi hugsanleg frávik til frekari þróunar í átt til þess að gera framtalsgerð þorra launamanna óþarfa. Þetta á við í þeim tilfellum þar sem um er að ræða einfalda framtalsgerð, svo sem hjá lífeyrisþegum, svo framarlega sem bankaupplýsingar liggja fyrir, eða hjá framteljendum sem ekki eiga hlutabréf, jafnvel þótt bankaupplýsingar liggi ekki fyrir.
    Það er forsenda fyrir þessari breytingu að upplýsingagjöf banka og annarra innlánsstofnana verði með sambærilegum hætti og annars staðar á Norðurlöndunum, sbr. nánari umfjöllun við 7. gr. hér á eftir.
    Ljóst er að þær fyrirliggjandi upplýsingar sem skattstjórar teldu jafngilda afhentu skattframtali, verður að vera unnt að leggja til grundvallar álagningu opinberra gjalda og ákvörðun bóta sem og annarra greiðslna sem byggjast á skattframtali. Skattframtal sem þetta yrði auðkennt sérstaklega, en heldur eftir atvikum gildi sínu sem slíkt gagnvart þeim sem hafa skattframtal til viðmiðunar, svo sem við ákvörðun á bóta- og lánsrétti, nema framteljandi kjósi að kæra álagningu sína við þessar aðstæður og leggja fram skattframtal. Í þeim tilvikum viki nýtt skattframtal framteljanda eldra framtali til hliðar.

Um 7. gr.

    Ákvæðið gerir ráð fyrir að öllum fjármálastofnunum, bönkum, sparisjóðum og öðrum sem atvinnu hafa af vörslu fjármuna verði gert skylt að senda skattyfirvöldum árlega upplýsingar um bankainnstæður, vexti og afdregna staðgreiðslu. Upplýsingaskyldan er afmörkuð við aðila sem falla undir ákvæði 1. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, og tekur til inneigna í árslok og vaxtatekna skv. 8. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
    Skattyfirvöld hafa margsinnis vakið athygli á að brýnt sé að upplýsingaskylda sem þessi verði lögfest þannig að betri regla komist á við skil fjármagnstekna. Ákvæðið mun því styrkja almennt eftirlit og auka aðhald með fjármagnstekjum en úrræði til þess hafa verið mjög takmörkuð. Á skattframtölum 2008 voru t.d. tæplega 92 þúsund einstaklingar með launatekjur yfir skattleysismörkum en gerðu enga grein fyrir innstæðum í fjármálastofnunum. Við ákvörðun vaxtabóta er einnig þýðingarmikið að upplýsingar um skuldir liggi fyrir um áramót á sama hátt og um innstæður og tekjur sem almennt eru hafðar til viðmiðunar við ákvörðun bótaréttar og jöfnun á greiðslugetu almennings.

Um 8. gr.

    Greinin fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.

Um 9. gr.

    Með lögum nr. 38/2008 var sú breyting gerð á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, að hagnaður félaga af sölu hlutabréfa varð frádráttarbær frá tekjum af atvinnurekstri að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
    Samhliða þessum breytingum var heimild 5. mgr. 18. gr. tekjuskattslaga felld brott enda ekki lengur forsendur fyrir því ákvæði. Samkvæmt þeirri heimild gátu lögaðilar, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, og einstaklingar í atvinnurekstri farið fram á að fresta tekjufærslu söluhagnaðar af sölu hlutabréfa (án nokkurs fyrirvara), þar á meðal skiptum á hlutabréfum, um tvenn áramót frá söludegi. Á frestunartímabilinu gat félag endurfjárfest í nýjum hlutabréfum og lækkað stofnverð þeirra um fjárhæð söluhagnaðarins. Frestaða fjárhæðin kom þannig hugsanlega fram í auknum söluhagnaði þegar nýju hlutabréfin yrðu seld. Þannig gat frestun og lækkun stofnverðs gengið koll af kolli. Alla jafna kom því ekki til þess að lögaðilar greiddu skatt af söluhagnaði hlutabréfa.
    Eftir að frumvarp það sem varð að lögum nr. 38/2008 hafði verið lagt fyrir Alþingi kom í ljós að nauðsynlegt reyndist að kveða skýrar á um gildistöku ákvæðisins þar sem skýrt kæmi fram að nýttar frestunarheimildir á árunum 2006 og 2007 vegna söluhagnaðar sem myndaðist á þeim árum væru í fullu gildi og tækju til allra sem uppfyllt hefðu skilyrði 5. mgr. 18. gr. á þeim tíma.
    Nú hefur komið í ljós að þeir lögaðilar, sem skattskyldir eru skv. 1. og 2. tölul. 2. gr., og seldu hlutabréf á tímabilinu 1. janúar 2008 til birtingardags laga nr. 38/2008 í Stjórnartíðindum þann 10. júní 2008 í félögum á t.d. lágskattasvæðum hefðu átt að eiga rétt til að fresta söluhagnaði þar sem sala þeirra er ekki frádráttarbær, enda uppfylltu þeir skilyrði 5. mgr. 18. gr. á sínum tíma. Því er lagt til að af þessari ástæðu verði réttur þeirra sem svo háttar um jafnaður með breytingu á orðalagi ákvæðis til bráðabirgða II með lögum nr. 38/2008. Að öðrum kosti væri hér um afturvirka skattskyldu að ræða sem ekki væri frestanleg og stangaðist á við ákvæði stjórnarskrár um afturvirkni skattalaga. Þá verður að telja þessa breytingu eðlilega með tilliti til þess að í núgildandi ákvæði til bráðabirgða II með lögum nr. 38/2008 er fallist á frestun á árunum 2006 og 2007.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003,
um tekjuskatt, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum um tekjuskatt. Í fyrsta lagi er lagt til að styrkir úr Endurhæfingarsjóði Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem ganga til greiðslu kostnaðar vegna endurhæfingar, heilbrigðisþjónustu og tiltekinnar þjónustu fagaðila teljist ekki til tekna. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á reglum um söluhagnað af íbúðarhúsnæði þar sem endurfjárfesting á íbúðarhúsnæði getur farið fram hér á landi eða í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu. Er þessi breyting gerð í því skyni að tryggja betur að íslenskar reglur um söluhagnað af íbúðarhúsnæði samrýmist þeim reglum sem EES-ríkin, þ.m.t. Ísland, þurfa að framfylgja. Áhrif þessa á útgjöld ríkissjóðs vegna söluhagnaðar af íbúðarhúsnæði eru talin óveruleg. Í þriðja lagi er lagt til að kaup á búseturétti samkvæmt lögum nr. 66/2003 veiti rétt til vaxtabóta líkt og kaup á eignarhlut í almennri kaupleiguíbúð. Hér er um formbreytingu að ræða sem hefur ekki áhrif á fjárhæð vaxtabóta. Í fjórða lagi er lagt til að tekjutengdar barnabætur verði ekki ákveðnar nema á grundvelli skattframtals við álagningu, en ekki samkvæmt áætluðum skattstofnum. Í fimmta lagi er lagt til að lögfest verði heimild fyrir skattstjóra til að annast gerð skattframtala þegar fullnægjandi upplýsingar liggja fyrir. Á undanförnum árum hefur átt sér stað töluvert mikil uppbygging á upplýsingakerfum sem gerir þetta mögulegt.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir því að kostnaður ríkissjóðs aukist.