Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 120. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Prentað upp.

Þskj. 318  —  120. mál.
Formbreyting.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt á l. nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.



    Fyrsti minni hluti teldi eðlilegt að lögin tækju eigi gildi síðar en 1. janúar 2009 og tekið yrði saman sérstakt yfirlit af hálfu Fiskistofu fyrir miðjan febrúar 2009 um hvernig til hefði tekist með það markmið að koma fiski sem fyrirhugað væri að selja á ferskfiskmarkaði erlendis til sölu á innanlandsmarkaði. Tilgangur frumvarpsins er einmitt sá að auka framboð á ferskfiski til innlendrar fiskvinnslu.
    Það er mat 1. minni hluta að til þess að ná því markmiði að gera innlenda fiskkaupendur jafnsetta þeim sem bjóða í fisk á erlendum ferskfiskmörkuðum væri eðlilegt að setja stýrireglu. Regla þessi ætti að byggjast á því að ef ásett lágmarksverð eiganda fiskaflans, þ.e. útgerðar, sem ávallt hefur verið x%, reynist hærra en söluverð fisksins á erlendum ferskfiskmarkaði yfir eins mánaðar tímabil, þá verði viðkomandi útgerð óheimilt að skrá lágmarksverð næstu tvo mánuði á sinn ferskfisk sem flytja á úr landi. Eigandi fisksins, þ.e. útgerðin, verður þar með að una því næstu tvo mánuðina að sætta sig við hæsta verð sem berst í aflann, eins og aðrir seljendur ferskfisks á mörkuðum. Undanþáguheimild ráðherra frá þessum skyldum ætti því að fella út úr frumvarpinu.
    Frumvarpinu er ætlað að auka atvinnumöguleika fiskvinnslufyrirtækja og fiskvinnslufólks. Ekki mun veita af eins og nú árar. Þau 56 þúsund tonn af fiski sem flutt voru út óunnin á síðasta ári gætu, ef þau væru unnin hér á landi, aukið atvinnu í fiskvinnslu og einnig aukið verðmæti útflutnings á sjávarfangi. Ferskfiskverð erlendis getur stundum verið hærra en hér og ætti fyrirkomulag lágmarksverðs sem tekur mið af hæsta verði erlendis að tryggja að þeir markaðir sem best verð gefa verði nýttir enda verð stundum afar hátt, t.d. um jól og áramót og páska. Of hátt lágmarksverð getur orðið til þess að innlend tilboð ná ekki lágmarksverði útgerðar og fiskurinn þar með ávallt farið úr landi.
    Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið gerir 1. minni hluti þá tillögu að inn í lögin verði sett ákvæði sem kveður á um að ákveðið lágmarksverð útgerðar megi ekki vera hærra yfir mánaðartímabil en nemur 15% mun á útgefnu lágmarksverði útgerðar og því brúttóverði sem fékkst fyrir fiskinn á erlendum uppboðsmarkaði ferskfisks undanfarinn mánuð. Verði meiri munur en ofangreind 15% þarf viðkomandi útgerð að una því að fá ekki að setja lágmarksverð á afla sinn vegna skyldu til uppboðs á innlendum ferskfiskmarkaði næstu tvo mánuði.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Á eftir 3. málsl. 2. efnismgr. 1. gr. komi tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Ákveðið lágmarksverð útgerðar má ekki vera hærra yfir mánaðartímabil en nemur 15% mun á útgefnu lágmarksverði útgerðar og brúttóverði sem fékkst fyrir fiskinn á erlendum uppboðsmarkaði undanfarinn mánuð. Verði meiri munur en 15% verður viðkomandi útgerð óheimilt að setja lágmarksverð á afla sinn vegna skyldu til uppboðs á innlendum markaði næstu tvo mánuðina.

Alþingi, 10. des. 2008.



Grétar Mar Jónsson.