Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 120. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.

Þskj. 319  —  120. mál.
Framhaldsnefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.    Annar minni hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar lagði fram svohljóðandi bókun á fundi nefndarinnar 11. desember sl.: „Í ljósi þess neyðarástands sem skapast hefur í atvinnumálum þjóðarinnar með ört vaxandi atvinnuleysi og fyrirsjáanlegum landflótta geri ég kröfu til þess að hagsmunaaðilar komi fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og gefi umsögn um framkomnar breytingartillögur á frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.“ Meiri hluti nefndarinnar hafnaði þessari kröfu með rökum sem 2. minni hluti telur ófullnægjandi í ljósi ríkjandi neyðarástands.
    Annar minni hluti telur mikilvægt að fjalla um frumvarpið út frá því sérstaka ástandi sem er í samfélaginu nú. Samning frumvarpsins fór fram fyrir hrun bankanna og tekur það því ekki tillit til ástands íslensks efnahags- og atvinnulífs eins og það er nú. Á næstu mánuðum mun atvinnuleysi fara stigvaxandi hér á landi og því brýnt að leita allra leiða til að ýta undir atvinnusköpun og styðja fólkið í landinu. Mikilvægt er að leita leiða til að tryggja innlenda fiskvinnslu á þessum erfiðum tímum fremur en að flytja út fisk frá atvinnulitlu Íslandi, sérstaklega til ríkja eins og Bretlands sem enn beita okkur hryðjuverkalögum. Í afstöðu sinni hefur 2. minni hluti að leiðarljósi þá samfélagslegu hagsmuni sem felast í því að tryggja störf hér á landi og hámarka gjaldeyristekjur á þessum erfiðu tímum.
    Annar minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:    Við frumvarpið bætist ákvæði til bráðabirgða sem orðist svo:
    Á tímabilinu 1. mars 2009 til 31. desember 2009 er óheimilt að flytja út óunninn afla til löndunar og sölu á fiskmarkaði erlendis, nema brýna nauðsyn beri til. Ráherra setur nánari reglur um undanþágur frá ákvæði þessu.

Alþingi, 11. des. 2008.Atli Gíslason.