Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 237. máls.

Þskj. 332  —  237. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu,
nr. 38/2001, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „ellefu hundraðshluta álags“ í 1. málsl. kemur: sjö hundraðshluta álags.
     b.      2. málsl. fellur brott.
     c.      Í stað orðanna „og 1. júlí“ í 3. málsl. kemur: 1. apríl, 1. júlí og 1. október.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skulu þau ekki koma til framkvæmda fyrr en við birtingu ákvörðunar Seðlabanka Íslands um dráttarvexti sem tekur gildi 1. janúar 2009.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í þágu heimilanna, sem kynnt var 14. nóvember sl., og ætlað er að koma til móts við fjölskyldur og heimili í landinu í kjölfar fjármálakreppunnar sem riðið hefur yfir heiminn, kemur m.a. fram að ætlunin sé að endurskoða lög um dráttarvexti með það að markmiði að dráttarvextir lækki.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/ 2001, en þar er kveðið á um hvernig skuli reikna dráttarvexti. Markmið frumvarpsins er að draga úr kostnaði fyrirtækja og heimila vegna óhóflega hárra dráttarvaxta, sem leitt getur til mikilla greiðsluerfiðleika og komið í veg fyrir að aðilar geti komið sér út úr fjárhagsvandræðum.
    Í 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu segir að dráttarvextir eigi að vera „samtala gildandi vaxta algengustu skammtímalána Seðlabanka Íslands til lánastofnana“ auk 11% álags, nema um annað sé samið. Seðlabankinn hefur heimild skv. 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. til að ákveða annað vanefndaálag ofan á viðmiðunarvexti, frá 7%–15%. Skv. 2. mgr. 6. gr. laganna er heimilt að semja um fastan hundraðshluta vanefndaálags ofan á grunn dráttarvaxta og um fastan hundraðshluta dráttarvaxta, nema þegar um neytendalán er að ræða.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum 6. gr. laganna um dráttarvexti þess efnis að dráttarvextir miðist framvegis við 7% álag ofan á algengustu skammtímalán Seðlabankans til lánastofnana. Þá er lagt til að heimild Seðlabankans til að ákveða annað vanefndaálag verði felld brott. Í tilkynningu Seðlabanka Íslands frá 26. nóvember 2008 kemur fram að dráttarvextir séu 26,5% til og með 31. desember 2008. Er grunnur dráttarvaxta 15,5% og vanefndaálag 11%. Ef frumvarp þetta nær fram að ganga leiðir það til þess að gera má ráð fyrir að dráttarvextir lækki um 4% frá því sem annars væri.
    Að miða vanefndaálag við 7% er í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/35/EB um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum, sem innleidd var í íslenskan rétt með lögum um vexti og verðtryggingu, en í d-lið 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar segir að fjárhæð vaxta af greiðsludrætti sem skuldunauti ber að greiða skuli vera samtala viðmiðunarvaxta og vaxtaálags sem nema skal a.m.k. sjö prósentustigum. Í tilskipuninni er jafnframt gert ráð fyrir að hægt sé að semja um aðra dráttarvaxtaviðmiðun en kveðið er á um í d-lið 1. mgr. 3. gr.
    Þá er með frumvarpi þessu lagt til að Seðlabankinn birti dráttarvexti fjórum sinnum á ári.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu,
nr. 38/2001, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að dráttarvextir miðist framvegis við 7% álag ofan á algengustu skammtímalán Seðlabankans til lánastofnana í stað 11%. Auk þess er lagt til að heimild Seðlabankans til að ákveða annað vanefndaálag verði felld á brott.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs muni lækka um 674 m.kr. á árinu 2009. Hins vegar verður ekki séð að frumvarpið muni hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.