Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.

Þskj. 337  —  1. mál.
Nefndarálitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2009.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.    Miklar breytingar hafa orðið á íslensku efnahagsumhverfi frá því að frumvarpið var lagt fram á Alþingi 1. október sl. Hin snöggu umskipti hafa eðlilega sett mark sitt á störf fjárlaganefndar og ríkisstjórnar í fjárlagaferlinu. Nefndin hóf störf strax í byrjun september sl. og átti viðtöl við fulltrúa sveitarfélaga sem gerðu henni grein fyrir erindum sínum.
    Frá því að nefndin hóf störf við afgreiðslu frumvarpsins hefur hún haldið á fimmta tug funda og átt viðtöl við fjölmarga aðila. Að þessu sinni skipti fjárlaganefndin sér í þrjár undirnefndir, þar sem hver og ein tók fyrir afmörkuð málefnasvið. Sú vinna gekk vel að mati nefndarmanna. Einnig voru á annað hundrað viðtöl við hagsmunaaðila um umsóknir þeirra um fjárveitingar til tiltekinna verkefna.
    Fulltrúar frá fjármálaráðuneyti komu á fund nefndarinnar til viðræðna um tekjuhlið frumvarpsins. Þá hefur nefndin kallað fyrir fulltrúa ráðuneyta og einstakra stofnana.
    Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga um þingsköp Alþingis getur fjárlaganefnd vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Með bréfum dags. 9. október og 20. nóvember sl. óskaði nefndin eftir álitum fastanefnda þingsins um þá þætti frumvarpsins sem varða málefnasvið hverrar um sig. Nefndirnar hafa skilað álitum og eru þau birt sem fylgiskjöl með nefndarálitinu eins og fyrir er mælt í þingsköpum. Álit nefnda um úthlutun úr safnliðum verða birt í þingskjölum við 3. umræðu samkvæmt ákvörðun fjárlaganefndar.
    Nefndin hefur lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem henni bárust. Breytingartillögur þær munu allar verða til umfjöllunar við 3. umræðu samkvæmt ákvörðun fjárlaganefndar. Unnið er að frekari áætlunum um vissa útgjaldaliði frumvarpsins sem þurfa frekari skoðunar við, m.a. vaxtagjöld af auknum skuldum sem ríkissjóður þarf að taka á sig í kjölfar áfalla í fjármálakerfi landsins. Einnig er unnið að endurmati á verðlags- og gengisforsendum frumvarpsins. 5. og 6. gr. bíða enn fremur 3. umræðu fjárlaga.
    Þær breytingartillögur sem nú eru lagðar fram við 2. umræðu eru tillögur þær sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og voru teknar til umfjöllunar í fjárlaganefnd í annarri viku desember. Þar að auki er í breytingartillögunum sá hluti tillagna forsætisnefndar um fjárheimildir Alþingis 2009 sem lýtur að rekstri þingsins og stofnana þess.
    Hér verður fyrst gerð grein fyrir meginbreytingum sem varða tekjuhlið frumvarpsins. Þá er gerð grein fyrir þeim breytingum sem lagðar eru til á sundurliðunum.
    Í endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis er gert ráð fyrir að tekjur verði 395,8 milljarðar kr. sem er 54,6 milljarða kr. lækkun frá frumvarpinu. Tekjujöfnuður verður -93,1 milljarður kr. sem er hækkun um -36,2 milljarða kr.
    Að lokum er gerð grein fyrir breytingu á B- og C-hluta stofnunum.
    Breytt verkaskipting milli heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis, m.a. um öldrunarmál í upphafi ársins, hefur í för með sér flutning á milli liða í fjárlögum. Skiptingu og útfærslu fjárheimilda til rekstrar öldrunarþjónustu milli ráðuneytanna er ekki lokið og nú er fyrirhugað að tillögur um það efni komi fram við 3. umræðu frumvarpsins
    Meiri hlutinn þakkar fulltrúum stjórnarandstöðunnar í nefndinni fyrir mjög gott samstarf, svo og starfsfólki nefndasviðs Alþingis sem lagt hefur á sig ómælda vinnu. Þá hefur nefndin notið aðstoðar Ríkisendurskoðunar, Fjársýslu ríkisins og fjármálaráðuneytis. Einnig hafa einstök ráðuneyti og fagstofnanir veitt nefndinni upplýsingar og aðstoð.

Alþingi, 12. des. 2008.Gunnar Svavarsson,


form., frsm.


Kristján Þór Júlíusson.


Ármann Kr. Ólafsson.Guðbjartur Hannesson.


Ásta Möller.


Steinunn Valdís Óskarsdóttir.Herdís Þórðardóttir.


Illugi Gunnarsson.

Fylgiskjal I.


Álitum frv. til fjárlaga 2009 (01 Forsætisráðuneyti og 06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti).

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um þá hluta frumvarps til fjárlaga sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 20. nóvember 2008. Á fund nefndarinnar komu Halldór Árnason og Óðinn Helgi Jónsson frá forsætisráðuneyti og Þorsteinn Geirsson og Jón Magnússon frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
    Heildargjöld forsætisráðuneytis árið 2009 eru áætluð 2.416 m.kr. á rekstrargrunni en frá dragast sértekjur að fjárhæð 110 m.kr. Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 1.737 m.kr. og hækka um 229 m.kr. frá fjárlögum ársins 2008.
    Heildargjöld dómsmálaráðuneytis árið 2009 eru áætluð 29.333 m.kr. á rekstrargrunni en frá dragast sértekjur að fjárhæð 2.145 m.kr. Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 19.081 m.kr. og hækka um 2.022 m.kr. frá fjárlögum ársins 2008.
    Í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru í efnahagslífi þjóðarinnar og tengjast hruni bankanna standast ekki þær áætlanir sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu og hafa ráðuneytin unnið að endurskoðun þeirra.
    Á fundi nefndarinnar gerðu fulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytis nokkra grein fyrir því hvernig ráðuneytið hyggst leggja til að þessum áföllum verði mætt í fjárlagafrumvarpinu. Fram kom að ráðuneytið gerir tillögur um 10% lækkun útgjalda. Stærsta verkefnið sem lagt er til að verði frestað er afhending og greiðsla fyrir nýja eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar sem átti að afhenda í júlí 2009 og fellur þá niður framlag upp á 1.700 m.kr. Þá kom fram að unnið væri að frestun á afhendingu og tveimur greiðslum vegna lokauppgjörs á nýju varðskipi og fellur þá niður liður að fjárhæð 700 m.kr. en í ljósi gengisþróunar undanfarið er verulegt hagræði fólgið í frestun þessara útgjalda. Þá kom fram að útgjöld Landhelgisgæslunnar eru mjög háð gengisbreytingum og fjárhagsstaðan því mjög slæm. Nefndin telur nauðsynlegt að skoðað verði hvernig unnt er að mæta því.
    Fram kom að fallið hefði verið frá því að byggja nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu og að heildaruppbygging fangelsa yerði í stað þess á Litla-Hrauni. Á höfuðborgarsvæðinu verði því eingöngu gæsluvarðhald og skammtímavistun fanga í tengslum við nýja lögreglustöð. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir tímabundnu framlagi til uppbyggingar á Litla-Hrauni að fjárhæð 350 m.kr. en í hagræðingartillögun ráðuneytisins er gert ráð fyrir að framlagið lækki um 250 m.kr. og að af þeim 100 m.kr. sem eftir standi fari 80 m.kr. í að styrkja rekstur Fangelsismálastofnunar sem er nauðsynlegt vegna aukins fjölda fanga. Nefndin hefur í álitum sínum sl. ár lagt sérstaka áherslu á fjárveitingar til fangelsismála og gerir það einnig nú.
    Nefndin fagnar því að ekki er gerð tillaga um útgjaldalækkun til löggæslu og dómstóla en til meðferðar hjá nefndinni er frumvarp um stofnun embættis sérstaks saksóknara til að rannsaka refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum við og í kjölfar þeirra atburða er leiddu til setningar laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008. Frumvarpið hefur í för með sér útgjaldaaukningu en á fundinum kom fram að til þess að mæta þeirri hækkun yrði lagt til að nýtt embætti héraðssaksóknara tæki ekki til starfa á næsta ári, eins og gert er ráð fyrir í lögum um meðferð sakamála sem taka gildi 1. janúar 2009.
    Nefndin telur að við útfærslur hagræðingartillagna sem þessara sé almennt nauðsynlegt að líta til þess hvort um atvinnuskapandi verkefni er að ræða og hvort um gjaldeyrisskapandi verkefni er að ræða. Þá telur nefndin auk þess mikilvægt að almennt verði litið til þess hvernig unnt er að hagræða í rekstri stofnana og embætta með samstarfi og samhæfingu verkefna.

Alþingi, 8. des. 2008.

Birgir Ármannsson, form.,
Ágúst Ólafur Ágústsson,
Ellert B. Schram,
Ólöf Nordal,
Karl V. Matthíasson.
Fylgiskjal II.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2009 (01 Forsætisráðuneyti og 06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti).

Frá 1. minni hluta allsherjarnefndar.    Fyrsti minni hluti er ekki samþykkur áliti meiri hlutans. Þar er lagður til niðurskurður sem stafar af þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að ganga til samninga við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og taka ábyrgð á Icesave-reikningunum.Vísar 1. minni hluti um rökstuðning til nefndarálita Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um tillögu til þingsályktunar um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (þskj. 265, 161. mál), og tillögu til þingsályktunar um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu (þskj. 260., 177. mál), sem afgreiddar voru 5. des. sl. Auk þess telur 1. minni hluti að unnt sé að hagræða innan forsætisráðuneytis og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og stofnana þess án niðurskurðar. Vísar 1. minni hluti þar sérstaklega til fjárveitinga og skiptingar þeirra til löggæslumála, sérstaklega til ríkislögreglustjóra annars vegar og lögreglustjóraembætta hins vegar. 1. minni hluti vísar enn fremur til álit síns um fjárlög fyrir árið 2008 (sjá þskj. 338 á 135. löggjafarþingi). Þá harmar 1. minni hluti sérstaklega niðurskurð til fangelsismála.

Alþingi, 8. des. 2008.Atli Gíslason.
Fylgiskjal III.


Álitum frv. til fjárlaga 2009 (01 Forsætisráðuneyti og 06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti).

Frá 2. minni hluta allsherjarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um þá hluta frumvarps til fjárlaga sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 20. nóvember 2008. Á fund nefndarinnar komu Halldór Árnason og Óðinn Helgi Jónsson frá forsætisráðuneyti og Þorsteinn Geirsson og Jón Magnússon frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
    Heildargjöld forsætisráðuneytis árið 2009 eru áætluð 2.416 m.kr. á rekstrargrunni en frá dragast sértekjur að fjárhæð 110 m.kr. Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 1.737 m.kr. og hækka um 229 m.kr. frá fjárlögum ársins 2008.
    Heildargjöld dómsmálaráðuneytis árið 2009 eru áætluð 29.333 m.kr. á rekstrargrunni en frá dragast sértekjur að fjárhæð 2.145 m.kr. Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 19.081 m.kr. og hækka um 2.022 m.kr. frá fjárlögum ársins 2008.
    Í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru í efnahagslífi þjóðarinnar og tengjast hruni bankanna standast ekki þær áætlanir sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu og hafa ráðuneytin unnið að endurskoðun þeirra.
    Á fundi nefndarinnar gerðu fulltrúar dóms- og kirkjumálaráðuneytis nokkra grein fyrir því hvernig þau hyggjast leggja til að þessum áföllum verði mætt í fjárlagafrumvarpinu. Fram kom hjá fulltrúum dóms- og kirkjumálaráðuneytis að ráðuneytið gerir tillögur um 10% lækkun útgjalda. Stærsta verkefnið sem lagt er til að verði frestað er afhending og greiðsla fyrir nýja eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar sem átti að afhenda í júlí 2009 og fellur þá niður framlag upp á 1.700 m.kr. Þá kom fram að unnið væri að frestun á afhendingu og tveimur greiðslum vegna lokauppgjörs á nýju varðskipi og fellur þá niður liður að fjárhæð 700 m.kr. Fram kom við yfirferðina að æfingar Landhelgisgæslunnar, t.d. í þyrluflugi, eru í lágmarki. 2. minni hluti telur afar brýnt að þess verði gætt að fjárframlög til Landhelgisgæslunnar nægi til að tryggja öryggi í starfsemi stofnunarinnar.
    Upplýsingar komu fram um að fallið hefði verið frá því að byggja nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu og að heildaruppbygging fangelsa yrði í stað þess á Litla-Hrauni. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir tímabundnu framlagi til uppbyggingar á Litla-Hrauni að fjárhæð 350 m.kr. en í hagræðingartillögun ráðuneytisins er gert ráð fyrir að framlagið lækki um 250 m.kr. og að af þeim 100 m.kr. sem eftir eru fari 80 m.kr. í að styrkja rekstur Fangelsismálastofnunar sem er nauðsynlegt vegna aukins fjölda fanga.
    2. minni hluti hefur ítrekað bent á að núverandi húsakostur fangelsa í landinu er óviðunandi. Benda má á að starfsemi Hegningarhússins við Skólavörðustíg hefur um langt skeið verið rekin á undanþágum frá heilbrigðiseftirlitinu. Leggur 2. minni hluti áherslu á að gera þurfi átak í uppbyggingu fangelsisaðstöðu í landinu.
    Löggæslan er ein af grunnstoðum réttarríkisins og þarf að geta sinnt starfsemi sinni á öruggan hátt.
    2. minni hluti leggur áherslu á að fjárveitingar til löggæslumála verði að tryggja eðlilega starfsemi lögreglunnar.

Alþingi, 8. des. 2008.

Siv Friðleifsdóttir.Fylgiskjal IV.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2009 (02 Menntamálaráðuneyti).

Frá menntamálanefnd    Menntamálanefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, og bréf fjárlaganefndar til menntamálanefndar, dags. 20. nóvember 2008.
    Á fund nefndarinnar komu Auður Björg Árnadóttir, Gísli Þór Magnússon og Jenný Bára Jensdóttir frá menntamálaráðuneytinu.
    Heildargjöld menntamálaráðuneytisins árið 2009 eru áætluð um 67.464 m.kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 5.655 m.kr. en þær nema 8,4% af heildargjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru 61.809 m.kr. og af þeirri fjárhæð eru 57.428 m.kr. fjármagnaðar með beinu framlagi úr ríkissjóði og 4.382 m.kr. innheimtar af ríkistekjum. Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 39.588 m.kr. og hækka um 5.487 m.kr. frá fjárlögum þessa árs.
    Nefndin gerir sér grein fyrir því að það frumvarp til fjárlaga 2009 sem nú liggur fyrir mun taka breytingum í ljósi þess að þjóðarbúskapur Íslendinga stendur frammi fyrir mjög alvarlegri fjármálakreppu.
    Nefndin telur nauðsynlegt að fyrirkomulag við úthlutun fjárveitinga af safnliðum verði tekið til gagngerrar endurskoðunar. Þá telur nefndin að úthlutun fjárveitinga til einstakra verkefna á sviði lista og menningar, sem og á sviði íþrótta- og æskulýðsmála, eigi að vera í höndum sjóða sem komið hefur verið á í þeim tilgangi. Með þeim hætti verði úthlutun fjármuna byggð á faglegri forsendum en með núverandi fyrirkomulagi. Þá vekur nefndin athygli á menningarsamningum sem gerðir hafa verið við sveitarfélög en margar umsóknir sem nefndinni hafa borist ættu að mati nefndarinnar að falla undir slíka samninga. Þá hefur nefndin aflað sér gagna frá menntamálaráðuneytinu um framlög sem ráðuneytið úthlutar í formi styrkja og samninga. Nefndin beinir þeim tilmælum til fjárlaganefndar að fara yfir þessi fjárframlög menntamálaráðuneytisins. Með því móti er komið í veg fyrir að menntamálanefnd leggi til úthlutun fjár til þeirra sem einnig fá úthlutað í gegnum menntamálaráðuneytið.
    Nefndin leggur áherslu á að hækka þurfi fjárveitingu til Heimilis og skóla svo að samtökin geti eflt ráðgjöf og kynningu á foreldrastarfi og uppeldis- og menntunarskilyrðum. Með tilkomu nýju framhaldsskólalaganna hefur umfang ráðgjafar til skólastjórnenda og kennara stóraukist.
    Nefndinni hafa borist 168 umsóknir um fjárveitingar og komu 37 umsækjendur á fund nefndarinnar. Nefndin leggur til að 91 umsækjendur fái styrk. Hvað varðar safnlið 02-989- 1.90, ýmis íþróttamál, þá telur nefndin að umsókn GolfIceland, sem varðar markaðsetningu á íslenskum golfvöllum, falli bæði undir íþrótta- og ferðamál og heyri því einnig undir iðnaðarráðuneytið.
    Nefndin áréttar það sjónarmið sitt varðandi umsókn Þórbergsseturs að gera þurfi samstarfssamning við setrið líkt og menntamálaráðherra hefur gert við Gunnarsstofnun. Að sama skapi telur meiri hlutinn í tengslum við umsókn Leikminjasafns Íslands að mikilvægt sé að gerður verði samningur við stjórn safnsins um framtíðaruppbyggingu þess.
    Nefndin leggur til að Sagnamiðstöð Íslands, 5 m.kr., og Melrekkasetur Íslands, 3 m.kr., fái úthlutað samkvæmt lið 02-919-6.90, Söfn, ýmis stofnkostnaður, eins og í fyrra, en ekki samkvæmt lið 02-919-1.90, Söfn, ýmis framlög. Kjarvalsstofa fái úthlutað 3 m.kr. samkvæmt sama lið og í fyrra, 02-999-6.90, Ýmis stofnkostnaður, en ekki samkvæmt lið 02-999-1.90, Ýmis framlög. Þá leggur nefndin til að Mats Wibe Lund, heimildasafn, 3 m.kr., fái úthlutað samkvæmt lið 02-999-1.90, Ýmis framlög. Draumasmiðjan fái úthlutað 3 m.kr. samkvæmt lið 02-982-1.22, Listir, starfsemi áhugaleikhúsa, og Gríman fái úthlutað 3 m.kr. samkvæmt lið 02-999-1.90, Ýmis framlög. Að lokum leggur nefndin til að Handverk og hönnun ses. fái úthlutað 17,5 m.kr. samkvæmt lið 02-999-1.90, Ýmis framlög, en ekki samkvæmt lið 02-982-1.90, Listir. Tillögur nefndarinnar um skiptingu safnliða koma fram í sérstöku fylgiskjali.
    Kolbrún Halldórsdóttir og Katrín Jakobsdóttir gera svohljóðandi fyrirvara við afgreiðslu málsins:
    „Vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar hefur vinna við fjárlagafrumvarpið í nefndum þingsins verið ómarkviss og í lágmarki. Vegna þess hversu óvissan í fjárreiðumálum þjóðarinnar er mikil teljum við illgerlegt að taka ábyrga afstöðu til einstakra málasviða frumvarpsins, enda forsendur þess brostnar. Upplýsingar sem nefndunum hafa borist eru af skornum skammti og því skortir sárlega heildaryfirsýn. Ekki liggur fyrir ný þjóðhagsspá sem tekur mið af þeim aðstæðum sem nú ríkja. Stjórnvöld hafa ekki látið meta efnahagshorfur í ljósi breyttra aðstæðna og því byggst núverandi fjárlagavinna hvorki á traustum né ábyrgum grunni. Tillögur um niðurskurð liggja ekki fyrir en ljóst er að í skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir lánveitingu eru fólgnar kröfur um að skorið verði niður á fjölmörgum sviðum samfélagsins, enda á ríkissjóður að vera rekinn án halla árið 2012. Slíkt mun koma illa niður á opinberri fjármögnun í velferðarkerfi þjóðarinnar, þ.m.t. í menntakerfi okkar og menningarstofunum.
    Með vísan til framangreinds rökstuðnings og hversu lítið er vitað um hvernig meðferð fjárlagafrumvarpsins á Alþingi verður háttað gerum við ákveðinn fyrirvara við afgreiðslu þessa álits.“
    Illugi Gunnarsson skrifar undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.
    Kolbrún Halldórsdóttir skrifar undir álitið með fyrirvara.
    Guðbjartur Hannesson, Höskuldur Þórhallsson, Katrín Jakobsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 5. des. 2008.

Sigurður Kári Kristjánsson, form.,
Einar Már Sigurðarson,
Illugi Gunnarsson, með fyrirvara,
Katrín Júlíusdóttir,
Kolbrún Halldórsdóttir, með fyrirvara.
Fylgiskjal V.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2009 (03 Utanríkisráðuneyti).

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.    Utanríkismálanefnd hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. þingskapa og bréf fjárlaganefndar frá 20. nóvember sl. Nefndin fékk á sinn fund Benedikt Jónsson, Pétur Ásgeirsson og Hrein Pálsson frá utanríkisráðuneyti.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að heildarrekstrargjöld utanríkisráðuneytis árið 2009 nemi tæpum 1.470 m.kr. á rekstrargrunni, sem samsvarar ríflega 33% aukningu frá fjárlögum 2008. Vegna áfalla í íslensku efnahagslífi þarf hins vegar að endurskoða fjárlagaheimildir ráðuneytisins frá grunni.
    Kynntar hafa verið tillögur ráðuneytisins um sparnað og hagræðingu í rekstri og útgjöldum utanríkisþjónustunnar sem nemur 2,2 milljörðum kr. eða um 20% m.v. fjárlagafrumvarpið. Í þeim tillögum ber helst að nefna að sendiskrifstofum verður lokað og hagrætt í rekstri annarra, auk þess sem dregið verður úr kostnaði við þátttöku Íslands í alþjóðlegum verkefnum. Í fjárlögum 2008 var í fyrsta skipti gert ráð fyrir sérstökum fjárlagaliðum vegna varnarmála og reksturs Ratsjárstofnunar. Þessir liðir hafa nú verið sameinaðir undir liðnum Varnarmálastofnun. Tillögur ráðuneytisins hafa í för með sér að framlög til varnarmála verða lækkuð um 257 milljónir kr.
    Í fjárlögum 2008 voru framlög til þróunarmála aukin verulega en samkvæmt tillögum ráðuneytisins verða útgjöld til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu nú dregin saman tímabundið og munu nema 0,24% af vergri þjóðarframleiðslu. Nefndin telur þessa nálgun óhjákvæmilega í ljósi aðstæðna en ítrekar þó mikilvægi þess að áfram verði stefnt að því að framlög til þróunarmála verði 0,35% af vergri þjóðarframleiðslu til lengri tíma litið. Nefndin bendir á að 74% af þeim niðurskurði sem ráðuneytið leggur til stafa af sparnaði vegna útgjalda til þróunarmála og friðargæslu. Þetta er í samræmi við vægi þessara þátta í starfsemi ráðuneytisins.
    Þá fagnar nefndin þeirri stefnu utanríkisráðuneytis að skoðað verði hvernig hægt sé að hagræða í húsnæðiskosti sendiskrifstofa þannig að söluhagnaði verði skilað, og eins því að ráðuneytið hyggst leggja áherslu á hagræðingu í almennum rekstri og skoða þar m.a. útgjöld til ferðalaga, risnu og húsnæðis.
    Siv Friðleifsdóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 3. des.2008.

Bjarni Benediktsson, form.,
Árni Páll Árnason,
Ásta R. Jóhannesdóttir,
Siv Friðleifsdóttir, með fyrirvara,
Guðfinna S. Bjarnadóttir,
Lúðvík Bergvinsson,
Arnbjörg Sveinsdóttir.Fylgiskjal VI.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2009 (03 Utanríkisráðuneyti).

Frá minni hluta utanríkismálanefndar.    Minni hluti utanríkismálanefndar er sammála ýmsum þeim sparnaði í rekstri utanríkisþjónustunnar sem stefnt er að og fjallað er um í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Minni hlutinn telur hins vegar að spara mætti mun meiri fjármuni með því að leggja Varnarmálastofnun niður og hætta öllum fjárútlátum til hernaðartengdra verkefna. Þeim fjármunum ætti að verja í að halda því hlutfalli sem rennur til þróunarsamvinnu og mannúðar- og hjálparstarfs að lágmarki hinu sama miðað við þjóðarframleiðslu og á þessu ári.
    Guðjón A. Kristjánsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er sammála áliti þessu.

Alþingi 3. des. 2008.

Steingrímur J. Sigfússon.Fylgiskjal VII.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2009 (04 Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti).

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.    Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 20. nóvember 2008.
    Nefndin fékk á sinn fund Arndísi Steinþórsdóttur og Sigurgeir Þorgeirsson frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti auk þess sem nokkur fjöldi gesta kom til fundar við nefndina vegna umsókna um fjárveitingu af safnliðum.
    Heildarútgjöld sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis árið 2009 eru áætluð 18.906,7 m.kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 1.122,8 m.kr. en þær nema 5,9% af heildargjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru 17.783,9 m.kr. og af þeirri fjárhæð eru 16.910,1 m.kr. fjármagnaðar með beinu framlagi úr ríkissjóði og 946,8 m.kr. inheimtar af ríkistekjum. Mismunurinn, 73 m.kr., færist til lækkunar á á viðskiptahreyfingum ríkissjóðs. Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 4.916,5 m.kr. og hækka því um 536,9 m.kr. milli ára. Neyslu- og rekstrartilfærslur hækka um 818,6 m.kr. og verða 12.674 m.kr. Munar þar mest, auk launa- og verðhækkana, um verðlagsuppfærslu búvörusamninga, þar sem gert er ráð fyrir að greiðslur vegna mjólkurframleiðslu hækki um 326,3 m.kr. og sauðfjárframleiðslu um 265,8. Gert er ráð fyrir að skuldbindandi samningar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur gert nemi um 10.612,0 m.kr. árið 2009. Samtals munu samningarnir því nema um 59,7% af heildarútgjöldum ráðuneytisins á næsta ári.
    Nefndin tók fyrir skiptingu safnliðar 04-190-1.90, Ýmis verkefni, samkvæmt beiðni fjárlaganefndar. Tillögur nefndarinnar eru í meðfylgjandi fylgiskjali. Nefndin leggur til að safnlið 04-190-1.90 verði skipt samkvæmt sundurliðuninni en gerir ekki tillögu um ráðstöfun 13,3 m.kr. af fjárveitingunni. Nefndin ræddi mikilvægi þess að fé væri varið í verkefni sem ekki eru fjárfrek en eru líkleg til atvinnusköpunar og hafði það að leiðarljósi við úthlutun. Nefndin vekur athygli fjárlaganefndar á því að umsóknir Landverndar eru á safnlið hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og telur þær eiga heima hjá umhverfisráðuneyti. Nefndin gerir sömu athugasemdir við umsóknir samtakanna Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs og Gróður fyrir fólk í Fjarðabyggð og telur þær einnig eiga heima hjá umhverfisráðuneyti. Fjármálaráðherra hefur farið fram á að ráðuneytin leggi fram áætlun um 10% samdrátt í rekstri, en þær tillögur um niðurskurð liggja ekki fyrir hjá ráðuneytinu. Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að við niðurskurðinn sé lögð áhersla á að halda inni verkefnum sem líkleg eru til að skapa atvinnu og gjaldeyristekjur en takmarka fjölda nýrra verkefna sem ráðist verður í.
    Jón Gunnarsson og Gunnar Svavarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Reykjavík, 5. desember 2008.

Arnbjörg Sveinsdóttir, form.,
Karl V. Matthíasson, varaform.,
Kjartan Ólafsson,
Helgi Hjörvar,
Atli Gíslason,
Valgerður Sverrisdóttir,
Grétar Mar Jónsson.Fylgiskjal VIII.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2009 (07 Félags- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá félags- og tryggingamálanefnd.    Félags- og tryggingamálanefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, og bréf fjárlaganefndar til félags- og tryggingamálanefndar frá 20. nóvember 2008.
    Á fund nefndarinnar komu fulltrúar félags- og tryggingamálaráðuneytis, Ragnhildur Arnljótsdóttir, Sturlaugur Tómasson og Einar Njálsson.
    Heildarútgjöld félags- og tryggingamálaráðuneytis og stofnana þess árið 2009 eru áætluð um 105.754 m.kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 3.274 m.kr. en þær nema 3,1% af heildargjöldum ráðuneytisins.
    Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 12.201 m.kr. og hækka um 1.896 m.kr. frá fjárlögum þessa árs. Auk launa- og verðlagshækkana munar þar mest um 429 m.kr. til málefna fatlaðra, 114 m.kr. til verkefna í þágu barna og ungmenna, 25 m.kr. til aðgerðaráætlunar um málefni innflytjenda og 20 m.kr. til aðgerða gegn mansali. Á móti koma 300 m.kr. sem eru áætlaðar hreinar vaxtatekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs af inneign hjá ríkissjóði vegna óráðstafaðra tekna af atvinnutryggingagjaldi. Einnig hafa rekstrarfjárveitingar ýmissa stofnana sem heyra undir ráðuneytið verið lækkaðar, alls um 18 m.kr. vegna áforma um hagræðingu í rekstrarkostnaði.
    Neyslu- og rekstrartilfærslur hækka um 14.197 m.kr. og verða 85.168 m.kr. en eru 71.971 m.kr. í fjárlögum ársins 2008. Þyngst vega 4.107 m.kr. aukin útgjöld til lífeyristrygginga.
    Viðhalds- og stofnkostnaður er áætlaður 5.112 m.kr. og er það 975 m.kr. hækkun milli ára. Þar munar mest um 1.100 m.kr. skuldbindingu ríkissjóðs vegna niðurgreiðslu á vöxtum til lána á leiguíbúðum.
    Greiðslur ráðuneytisins samkvæmt samningi við samtök, einkaaðila og sveitarfélög um rekstrarverkefni eru samtals áætlaðar um 3.289 m.kr. árið 2009. Það svarar til 30,7% af rekstrargjöldum ráðuneytisins á árinu 2009.
    Nefndin hefur tekið til umfjöllunar og meðferðar þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem snýr að nefndinni og leggur ekki til neinar breytingar á þeim hluta sem snýr að félags- og tryggingamálaráðuneytinu og stofnunum þess enda eðlilegt að heildarsýn sé hjá fjárlaganefnd. Fullur skilningur er á því innan nefndarinnar að draga þurfi úr ríkisútgjöldum vegna þess ástands sem nú ríkir og mikilvægt að gera velferðarkerfið sem skilvirkast. Nefndin vekur athygli á að undir ráðuneytið heyra stofnanir sem mikið reynir á í því efnahagsástandi sem nú ríkir og má gera ráð fyrir hækkun framlaga til málaflokka eins og Atvinnuleysistryggingasjóðs, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og til lífeyrisgreiðslna við endanlega afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins. Nefndin leggur því áherslu á að lækkun útgjalda í velferðarkerfinu verði haldið í lágmarki og að staðið verði við lögbundin og samningsbundin verkefni. Jafnframt minnir nefndin á að fækkun starfsfólks við núverandi aðstæður leiðir til aukinna greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem einnig heyrir undir ráðuneytið og skilar því ekki þeim ávinningi sem niðurskurður gerði við aðrar aðstæður. Gæta þarf vel að hag þeirra lífeyrisþega sem hafa einungis grunnlífeyri og hag fatlaðra og barna í því ástandi sem hefur skapast.
    Fjárbeiðnir, sem sendar voru til umsagnar félags- og tryggingamálanefndar vegna safnliðarins 07-999-1.90, voru samtals 50 og komu 14 aðilar á fund nefndarinnar. Nefndin leggur til að 31 umsækjandi fái styrk. Nokkrir aðilar sækja um fé til nefndarinnar ásamt því að vera með fjárveitingar samkvæmt samningi. Telur nefndin eðlilegt að samningar séu gerðir með það í huga að um heildarframlag sé að ræða og úthlutar því að jafnaði ekki til þessara aðila.
    Almennt reyndi nefndin að halda þessum lið í lágmarki og er að mestu miðað við óbreyttar fjárveitingar að krónutölu frá árinu 2008 og er flestum nýjum verkefnum hafnað. Að teknu tilliti til framangreinds gerir nefndin meðfylgjandi tillögu um skiptingu safnliða á milli umsækjenda. Nefndin gerir tillögu um úthlutun 87,6 m.kr. eða um 74% af þeim 118,4 m.kr. sem hún hefur til ráðstöfunar samkvæmt frumvarpi og lætur fjárlaganefnd eftir mismuninn.
    Nefndin ítrekar þá skoðun sína að við aðhald og samdrátt í útgjöldum sé þess gætt að draga ekki úr nauðsynlegri velferðarþjónustu.
    Guðbjartur Hannesson og Ármann Kr. Ólafsson skrifa undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd. Þá skrifa Pétur H. Blöndal, Árni Þór Sigurðsson og Helga Sigrún Harðardóttir einnig undir með fyrirvara.
    Kristinn H. Gunnarsson og Árni Johnsen voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. des. 2008.

Guðbjartur Hannesson, form., með fyrirvara,
Ármann Kr. Ólafsson, með fyrirvara,
Pétur H. Blöndal, með fyrirvara,
Jón Gunnarsson,
Ásta R. Jóhannesdóttir,
Árni Þór Sigurðsson, með fyrirvara,
Helga Sigrún Harðardóttir, með fyrirvara.Fylgiskjal IX.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2009 (08 Heilbrigðisráðuneyti).

Frá meiri hluta heilbrigðisnefndar.    Heilbrigðisnefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 20. nóvember 2008.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hrönn Ottósdóttur og Dagnýju Brynjólfsdóttur frá heilbrigðisráðuneyti, Björn Zoëga og Huldu Gunnlaugsdóttur frá Landspítala, Svanhvíti Jakobsdóttur, Lúðvík Ólafsson og Jónas Guðmundsson frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Sigríði Snæbjörnsdóttur og Elís Reynarsson frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Guðjón Brjánsson frá Sjúkrahúsinu og heilsugæslunni á Akranesi, Magnús Skúlason frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Halldór Jónsson, Þorvald Ingvarsson og Vigni Sveinsson frá Sjúkrahúsinu á Akureyri, Pétur Magnússon og Ásgerði Björnsdóttur frá Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og Arnþór Jónsson, Ásgerði Björnsdóttur, Valgerði Rúnarsdóttur og Ingunni Hansdóttur frá Samtökum áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann. Nefndin hélt einnig símafund með Einari Rafni Haraldssyni, Stefáni Þórarinssyni og Þórhalli Harðarsyni frá Heilbrigðisstofnun Austurlands.
    Í tengslum við skiptingu safnliða hefur nefndin fengið á sinn fund Sigurð Þór Sigursteinsson frá Endurhæfingarhúsinu Hver, Auði Ólafsdóttur og Mundínu Kristinsdóttur frá Félagi íslenskra sjúkraþjálfara, Þóri Steingrímsson og Pétur Rafnsson frá Heilaheill, Ásgeir Þór Árnason frá Hjartaheill, Björn Ófeigsson frá Hjartaneti, Sigurbjörgu Ármannsdóttur og Berglindi Guðmundsdóttur frá MS-félagi Íslands, Dagnýju Jónsdóttur frá Parkinsonsamtökunum á Íslandi, Valgerði Auðunsdóttur og Helgu Guðmundsdóttur frá Samtökum psoriasis- og exemsjúklinga, Sigríði Jóhannsdóttur frá Samtökum sykursjúkra, Jón Eiríksson og Árna Geir Árnason frá Samtökum endurhæfðra mænuskaddaðra og Jórunni Sörensen frá Félagi nýrnasjúkra.
    Heildargjöld heilbrigðisráðuneyts árið 2009 eru áætluð 124.572 millj. kr. Gjöld umfram sértekjur eru 119.371 millj. kr. og er það 17% hækkun frá fjárlögum þessa árs.
    Helstu útgjaldabreytingar eru raktar í fjárlagafrumvarpi ársins og að frátöldum launa- og verðlagsbreytingum varða þær helstu hækkun rekstrargjalda vegna starfsemi sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana, heilsugæslu, öldrunarstofnana og heimahjúkrunar. Þá hækka framlög til sjúkratrygginga auk þess sem lögð er til fjárveiting til nýrrar stofnunar, Sjúkratryggingastofnunar. Loks er gert ráð fyrir að fjárveiting til viðhalds- og stofnkostnaðar lækki sem öðrum þræði skýrist af því að umsjón með fasteignum heilbrigðisstofnana er færð til Fasteigna ríkisins.
    Áföll í efnahagslífi þjóðarinnar hafa þegar haft víðtæk áhrif á ríkisfjármálin og er meiri hlutanum ljóst að gera þarf viðamiklar breytingar á fjárlagafrumvarpinu sem mun varða öll svið opinberrar stjórnsýslu og opinberrar þjónustu með skipulagsbreytingum og beinum niðurskurði.
    Meiri hlutinn bendir á að ákveðnar líkur eru á aukinni aðsókn í heilbrigðisþjónustuna vegna áhrifa þrenginga í samfélaginu og áfalla sem tengist núverandi ástandi á heilsufar. Á það ekki síst við í grunnþjónustunni.
    Góð og aðgengileg heilbrigðisþjónusta er mikilvægur þáttur í að efla öryggiskennd með einstaklingum og fjölskyldum og leggur meiri hlutinn áherslu á að þær breytingar sem gera þarf í heilbrigðisþjónustunni leiði ekki til hins gagnstæða. Meiri hlutinn bendir á að ný lög um heilbrigðisþjónustu sem samþykkt voru á vorþingi 2007 fela í sér breytta verkaskiptingu innan heilbrigðisþjónustunnar og sameiningu heilbrigðisstofnana í heilbrigðisumdæmum en þær skipulagsbreytingar sem mælt er fyrir í lögunum hafa ekki að fullu gengið eftir. Þar felast ákveðin tækifæri sem þegar upp er staðið geta leitt til bættrar þjónustu með minni tilkostnaði. Á það ekki síst við um endurskoðun á verkaskiptingu milli umdæmissjúkrahúsa og sérhæfðra sjúkrahúsa eins og slíkar stofnanir eru skilgreindar í lögunum, svo og hlutverk heilsugæslunnar.
    Meiri hlutinn leggur áherslu á að í stað flats niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu verði aukinni hagkvæmni náð með skipulagsbreytingum, auknu samstarfi heilbrigðisstofnana, betri stjórnun og ýtrustu varúð í meðferð fjármuna á heilbrigðisstofnunum. Ný sjúkratryggingastofnun sem hefur það hlutverk að sjá um kaup á heilbrigðisþjónustu getur þar haft mikið að segja. Bendir meiri hlutinn á í því sambandi að á fundum nefndarinnar lögðu samtök fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu sérstaka áherslu á gerð þjónustusamninga og gæðaeftirlits en innan þeirra raða eru meðal annars öldrunarstofnanir og SÁÁ. Þá telur meiri hlutinn að samfara aukinni hagræðingu verði ekki hjá því komist að endurskoða launakostnað sem er stærsti útgjaldaliður heilbrigðisstofnana.
    Fram kom í nefndinni það sjónarmið að launakostnaður verði ekki lækkaður nema með beinni launalækkun starfsmanna, fækkun starfsmanna með uppsögnum eða ráðningastoppi eða kerfisbundinni minnkun starfshlutfalls hvers og eins. Í tilfelli launalækkunar verði þess gætt að hlífa þeim sem lægstu launin hafa. Varðandi fækkun starfsmanna var bent á að miklu betra er að minnka starfshlutfall hvers og eins t.d. um 10% en að segja 10% starfsmanna upp að fullu. Var vísað til reynslu Finna af því að atvinnuleysi vegna kreppu gengur ekki til baka að lokinni kreppu.
    Heilbrigðisnefnd hefur fengið upplýsingar um fjárhagslega stöðu heilbrigðis- og öldrunarstofnana fyrstu níu mánuði ársins. Staða þeirra er mismunandi, en ljóst má vera að miklar gengisbreytingar íslensku krónunnar hafa haft mikil áhrif á afkomu margra stofnana á árinu til hins verra. Ekki liggur fyrir hvernig brugðist verður við þeim vanda þar sem frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2008 hafa ekki verið lögð fram. Fjárhagslega standa einna verst Heilbrigðisstofnun Austurlands sem stefnir í tæplega 20% halla eða um 350 millj. kr. halla á árinu og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja með um 12% halla sem samsvarar meira en 200 millj. kr. Á fundum nefndarinnar kom fram að heilbrigðisráðuneytið hefur látið gera úttekt á stöðu þessara stofnana, en niðurstöður liggja ekki fyrir. Ef skýringin liggur í skekkju í reiknilíkani fyrir þessar stofnanir leggur meiri hlutinn áherslu að það verði leiðrétt á fjáraukalögum. Þá liggur fyrir að verulegur uppsafnaður halli er á rekstri heilsugæslunnar í Reykjavík, en hann stefnir í tæpar 700 millj. kr. á þessu ári. Fram kom á fundum nefndarinnar að þegar hafi verið gripið til viðtækra ráðstafana til að bregðast við honum sem þó munu ekki duga til. Meiri hlutinn vekur einnig athygli á miklum halla í rekstri heilsugæslustöðvar Borgarness á árinu sem þörf er á að bregðast við eftir atvikum með endurskoðun á reiknilíkani. Enn fremur hefur nefndin verið upplýst um að áætlaður rekstrarhalli öldrunarstofnana fyrir árið 2008 er u.þ.b. 1 milljarður kr. Burtséð frá þessum leiðréttingum ítrekar meiri hlutinn nauðsyn þess að lækka kostnað í heilbrigðiskerfinu vegna áfallanna í hagkerfinu.
    Á fundum með gestum heilbrigðisnefndar komu fram ýmsar upplýsingar um rekstrarvanda einstakra heilbrigðisstofnana, hvernig hann væri tilkominn og möguleg tækifæri til hagræðingar. Fram kom að ráðuneytið ynni að því í samstarfi við hlutaðeigandi stofnanir að koma rekstri undir fjárlagarammann.
    Meiri hlutinn fagnar sérstaklega því sem fram kom á fundi með forsvarsmönnum Landspítala að góður árangur hafi náðst í rekstri Landspítalans það sem af er ári ef frá eru talin áhrif gengislækkunar.
    Að lokum ítrekar meiri hlutinn áherslur sínar um uppbyggingu rafrænnar sjúkraskrár sem fram koma í áliti meiri hluta nefndarinnar um fjárlagafrumvarp síðasta árs.
    Ásta Möller og Kristján Þór Júlíusson skrifa undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.

Safnliður.
    Nefndinni bárust samanlagt fjörtíu og fimm erindi í tengslum við safnlið 08-399-1.90, Ýmis framlög, en þar af áttu sumir umsækjendur fleiri en eina umsókn. Fjárhæð þessa liðar er samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 87,2 millj. kr. Tillögur nefndarinnar um ráðstöfun fjárins eru í sérstöku skjali.

Alþingi, 8. des. 2008.

Ásta Möller, form., með fyrirvara,
Ágúst Ólafur Ágústsson,
Árni Páll Árnason,
Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Ellert B. Schram,
Kristján Þór Júlíusson, með fyrirvara.
Fylgiskjal X.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2009.

Frá minni hluta heilbrigðisnefndar.    Vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar hefur vinna við fjárlagafrumvarpið í nefndum þingsins verið ómarkviss og í lágmarki. Vegna þess hversu óvissan í fjárreiðumálum þjóðarinnar er mikil teljum við illgerlegt að taka ábyrga afstöðu til einstakra málasviða frumvarpsins, enda forsendur þess brostnar. Upplýsingar sem nefndum hafa borist eru af skornum skammti og heildarsýn skortir. Ekki liggur fyrir ný þjóðhagsspá sem tekur mið af þeim aðstæðum sem nú ríkja. Stjórnvöld hafa ekki látið meta efnahagshorfur í ljósi breyttra aðstæðna og því byggist núverandi fjárlagavinna hvorki á traustum né ábyrgum grunni. Tillögur um niðurskurð liggja ekki fyrir en ljóst er að í skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir lánveitingu eru fólgnar kröfur um að skorið verði niður á fjölmörgum sviðum samfélagsins, enda á ríkissjóður að vera rekinn án halla árið 2012. Slíkt mun koma illa niður á opinberri fjármögnun í velferðarkerfi þjóðarinnar, þ.m.t. í heilbrigðisþjónustu sem er um 10% af heildarútgjöldum þjóðarinnar.
    Eina leiðsögnin sem frá stjórnvöldum hefur komið eru bréfleg fyrirmæli frá fjármálaráðuneyti um 10% niðurskurð frá fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Heilbrigðisráðuneytið framsendi þau fyrirmæli til heilbrigðisstofnana og á fundum nefndarinnar upplýstu forstöðumenn nokkurra stofnana hverjar tillögur þeirra um 10% niðurskurð eru. Heilbrigðisráðherra hefur hins vegar afneitað þeim áformum og fulltrúar ráðuneytisins sem komu á fund nefndarinnar veittu engar upplýsingar um boðaðan niðurskurð eða forgangsröðun.
    Á fundum heilbrigðisnefndar með forstöðumönnum heilbrigðisstofnana kom fram að þær glíma nú við yfir 2.200 millj. kr. halla. Munar þar mest um áætlaðan rekstrarhalla öldrunarstofnana, um það bil 1.000 millj. kr., Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu stefnir í 700 millj. kr. halla, Heilbrigðisstofnun Austurlands í 350 millj. kr. og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í 200 millj. kr. Þessi halli var fyrirsjáanlegur þegar við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2008 eins og minni hlutinn benti þá á. Þá kemur fram í yfirliti heilbrigðisráðuneytis um rekstrarhorfur heilbrigðisstofnana að staða Landspítala í árslok 2007 var neikvæð sem nemur 449.975 millj. kr. og áætluð rekstrarafkoma þessa árs stefnir í að vera neikvæð upp á 1.958.300 millj. kr. Þessi rekstrarstaða verður ekki bætt með hagræðingu innan stofnunarinnar nema til komi umtalsverður niðurskurður á starfsemi og fækkun starfsmanna og /eða að kostnaði verði velt yfir á sjúklinga. Minni hlutinn bendir einnig á að samkvæmt yfirlitinu er áætluð rekstrarafkoma heilbrigðisstofnana á árinu 2008 neikvæð upp á 3.452.313 millj. kr.
    Nú verður ekki lengur undan því vikist að horfast í augu við framangreindar staðreyndir og leiðrétta stöðu þessara stofnana með fjáraukalögum nú fyrir áramót. Árviss og áralangur uppsafnaður halli í rekstri heilbrigðisstofnana veldur ekki aðeins miklum og óþörfum kostnaði fyrir ríkissjóð vegna vanskila og dráttarvaxta og óvissu fyrir starfsmenn og sjúklinga, heldur hefur hann einnig í för með sér mikla erfiðleika og fjárhagslegt tap fyrir fyrirtæki og einstaklinga sem selja þessum ríkisstofnunum vöru og þjónustu.
    Starfsemi nýrrar Sjúkratryggingastofnunar virðist nú skyndilega stefnt í annan farveg en fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp miðast við, sem og lög um stofnunina en þau gera ráð fyrir samnýtingu Sjúkratryggingastofnunar og Tryggingastofnunar á ýmsum þáttum þjónustu og innri starfsemi, m.a. tölvukerfi. Brýnt er að fá forstjóra beggja stofnana til fundar við heilbrigðisnefnd til að upplýsa um áform stjórnar og forstjóra Sjúkratryggingastofnunar sem kynnt hafa verið um að stofnunin verði eftir áramót rekin sem sjálfstæð eining. Upplýsa þarf nefndina um forsendur þessarar ákvörðunar og hvernig ætlunin er að fjármagna þann kostnaðarauka sem slíkt hefði í för með sér.

Alþingi, 8. des. 2008.

Þuríður Backman,
Álfheiður Ingadóttir,
Eygló Harðardóttir.


Fskj.

Bréf til ráðuneyta frá fjármálaráðuneytinu.
(14. nóvember 2008.)
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal XI.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2009 (10 Samgönguráðuneyti).

Frá meiri hluta samgöngunefndar.    Samgöngunefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar, dags. 20. nóvember 2008. Nefndin fékk á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Unni Gunnarsdóttur og Odd Einarsson frá samgönguráðuneyti til að gera grein fyrir þeim liðum fjárlagafrumvarpsins sem snerta ráðuneytið.
    Heildarútgjöld samgönguráðuneytisins árið 2009 eru áætluð 63.527 m.kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 6.211 m.kr. en þær nema 9,8% af heildargjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru 57.316 m.kr. og af þeirri fjárhæð eru 24.469 m.kr. fjármagnaðar með beinu framlagi úr ríkissjóði og 32.772 m.kr. innheimtar af ríkistekjum. Mismunurinn, 75 m.kr., færist til hækkunnar á viðskiptahreyfingum ríkissjóðs. Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 8.737,5 m.kr. og hækka því um 964,6 m.kr. Neyslu- og rekstrartilfærslur lækka um 1.393,8 m.kr. og verða 14.786,1 m.kr. en eru 16.179,9 m.kr. í fjárlögum síðasta árs. Þyngst vegur 1.700 m.kr. lækkun sérstakra viðbótarframlaga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem skýrist að mestu af niðurfellingu tímabundinna framlaga. Gert er ráð fyrir að skuldbindandi samningar sem samgönguráðuneytið hefur gert nemi um 3.198,2 m.kr. árið 2009, samtals munu samningarnir því nema um 5% af heildarútgjöldum ráðuneytisins á næsta ári.
    Meiri hlutinn bendir á að samkvæmt frumvarpinu er ráðgert að framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga lækki um sem nemur um 1.700 m.kr frá fjárlögum þessa árs. Hér vegur þyngst að tímabundin viðbótarframlög frá ríkinu falla niður. Einnig er ljóst að sjóðurinn mun dragast saman vegna samdráttar í samfélaginu. Framlög sjóðsins skipta sköpum í rekstri margra sveitarfélaga, sérstaklega minni sveitarfélaga, og mun þessi lækkun koma þungt niður á rekstri þeirra. Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að tryggja afkomu sveitarfélaganna og brýnt verkefni er að finna aðrar leiðir og nýja tekjustofna fyrir sveitarfélögin. Sveitarfélögin hafa lengi bent á möguleika þess að fá hlutdeild í öðrum sköttum og vill nefndin ítreka mikilvægi þess að endurskoða almenna tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga
    Í ljósi þess að farið hefur verið fram á það við ráðuneytin að þau leggi fram áætlun um 10% samdrátt í rekstri, vekur meiri hlutinn athygli á að slík aðgerðaráætlun liggur ekki fyrir hjá samgönguráðuneytinu, og hafa hugmyndir þess efnis ekki verið kynntar fyrir nefndinni. Auk þess hefur samgönguáætlun í heild sinni ekki komið fyrir nefndina. Áliti þessu er því skilað með fyrirvara um að þessar upplýsingar liggja ekki fyrir. Meiri hlutinn leggur áherslu á að halda inni verkefnum sem ekki eru fjárfrek en líkleg eru til að skapa atvinnu. Áður en þessu nefndaráliti er skilað hefur samgöngunefnd ekki fengið tækifæri til að fjalla um samgönguáætlun með fjárlagafrumvarpinu sem er óásættanlegt en skiljanlegt í ljósi þess óvenjulega ástands sem uppi er í samfélaginu. Nefndin mun fjalla um nýja samgönguáætlun á næstu dögum.
    Ólöf Nordal var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. des 2008.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, form.,
Herdís Þórðardóttir,
Karl V. Matthíasson,
Árni Johnsen,
Ármann Kr. Ólafsson.
Fylgiskjal XII.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2009 (10 Samgönguráðuneyti).

Frá minni hluta samgöngunefndar.    Fjárlaganefnd vísaði til umfjöllunar samgöngunefndar þeim hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á málasviði nefndarinnar í samræmi við ákvæði þingskapalaga.
    Minni hluti samgöngunefndar leggur áherslu á mikilvægi Jöfnunarsjóðs fyrir rekstur sveitarfélaganna í landinu. Sérstaklega eru framlög sjóðsins þýðingarmikil fyrir smærri sveitarfélög vítt og breitt um landið til að hægt sé að tryggja rekstur þeirra og grunnþjónustu. Skerðing á viðbótarframlagi sjóðsins mun hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir þau sveitarfélög sem mest reiða sig á stuðning hans. Minni hlutinn telur því nauðsynlegt að halda viðbótarframlagi í Jöfnunarsjóð, sem nú stendur til að afnema, óskertu.
    Farið hefur verið fram á það við ráðuneytin að þau leggi fram áætlun um 10% samdrátt í rekstri en slíkar hugmyndir hafa ekki verið kynntar fyrir nefndinni. Auk þess hefur samgönguáætlun ekki komið fyrir nefndina. Minni hlutinn telur það marklaust að fjalla um samgöngumálin af alvöru fyrr en samgönguáætlun verður lögð fyrir nefndina og telur brýnt að nefndin gefi sér góðan tíma til að fara yfir hana áður en endurskoðað fjárlagafrumvarp kemur til umfjöllunar.

Alþingi, 9. des 2008.

Árni Þór Sigurðsson,
Birkir J. Jónsson,
Guðjón A. Kristjánsson.
Fylgiskjal XIII.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2009 (11 Iðnaðarráðuneyti).

Frá iðnaðarnefnd.    Iðnaðarnefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 20. nóvember 2008.
    Nefndin fékk á sinn fund Kristján Skarphéðinsson og Ingu Ósk Jónsdóttur frá iðnaðarráðuneytinu.
    Heildargjöld iðnaðarráðuneytis árið 2009 eru áætluð um 7.460 m.kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 980 m.kr. en þær nema 13,1% af heildargjöldum ráðuneytisins.
    Rekstrargjöld ráðuneytisins hækka um 298,6 m.kr. frá fjárlögum þessa árs. Auk launa- og verðlagshækkana munar þar mest um að gert er ráð fyrir 157 m.kr. tímabundnu framlagi til vísindaþáttar djúpborunarverkefnis, 58,8 m.kr. tímabundnu framlagi vegna undirbúnings greinargerðar til landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna um mörk landgrunns Íslands utan 200 sjómílna. Aðrar helstu breytingar varða m.a. hækkun á fjárveitingu til Samtaka iðnaðarins í samræmi við endurskoðun á tekjuáætlun iðnaðarmálagjalds. Þá falla niður tímabundin framlög til Orkustofnunar.
    Neyslu- og rekstrartilfærslur hækka um 683,2 m.kr. frá fjárlögum þessa árs. Auk launa- og verðlagshækkana munar þar mest um 100 m.kr. tímabundna fjárveitingu til eflingar atvinnuþróunarfélögum á landsbyggðinni og 90 m.kr. til Tækniþróunarsjóðs í samræmi við ákvörðun stjórnvalda um eflingu samkeppnissjóða á sviði vísinda og tækni. Loks er gert ráð fyrir fjárveitingu til uppbyggingar og eflingar íslenskri ferðaþjónustu og endurgreiðslna til kvikmyndagerðar á Íslandi.
    Iðnaðarnefnd gerir sér grein fyrir því að það frumvarp til fjárlaga sem nú liggur fyrir mun taka breytingum í ljósi þess að þjóðarbúskapur Íslendinga stendur frammi fyrir mjög alvarlegri fjármálakreppu.
    Á fundi nefndarinnar kom fram að nauðsynlegt væri að styðja við uppbyggingu Tækniþróunarsjóðs svo tvöföldun hans náist sem allra fyrst. Nefndin vísar til þess að hann er undirstaða þróunar í hátækniiðnaði um land allt. Þá telur nefndin nauðsynlegt að styðja við sprotafyrirtæki sem sprottin eru upp úr rannsókna- eða þróunarverkefnum og byggjast á sérhæfðri þekkingu og tækni.
    Nefndin telur mjög mikilvægt að efla ferðaþjónustuna og eðlilegt að horft verði til hennar á næstunni þar sem hún er gríðarlega mikilvægur drifkraftur í byggðum landsins og er ein besta og hagkvæmasta leiðin til að fjölga störfum og auka gjaldeyristekjur landsins.
    Í frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir að Byggðastofnun fái úthlutað 528 m.kr. Nefndin leggur áherslu á að Byggðastofnun hefur gegnt mikilvægu hlutverki í byggðastefnu stjórnvalda og mikilvægt er að því hlutverki verði sinnt áfram til að auka stuðning við nýsköpun og þróun nýrra atvinnutækifæra og starfsemi.
    Í tengslum við umsóknir Markaðsstofu Austurlands, Markaðsstofu Vestfjarða og Ferðamálasamtök Suðurlands tekur nefndin fram að hún styður hugmynd og viðleitni þessara aðila um að sameinast og stofna regnhlífasamtök. Í ljósi þess að samtökin hafa ekki litið dagsins ljós telur nefndin ekki rétt að úthluta til þeirra sem einnar heildar.
    Nefndin bendir á mikilvægi þess að efla þau úrræði sem iðnaðarráðuneytið býr yfir til stuðnings atvinnulífinu.
    Kristján Þór Júlíusson og Björk Guðjónsdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.
    Álfheiður Ingadóttir og Eygló Harðardóttir skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Herdís Þórðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. des. 2008.

Katrín Júlísdóttir, form.,
Kristján Þór Júlíusson, með fyrirvara,
Einar Már Sigurðarson,
Eygló Harðardóttir, með fyrirvara,
Rósa Guðbjartsdóttir,
Björk Guðjónsdóttir, með fyrirvara,
Grétar Mar Jónsson,
Álfheiður Ingadóttir, með fyrirvara
Fylgiskjal XIV.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2009 (12 viðskiptaráðuneyti).

Frá viðskiptanefnd    Viðskiptanefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á málefnasviði hennar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, og bréf fjárlaganefndar frá 20. nóvember 2008.
    Á fund nefndarinnar komu Jónína S. Lárusdóttir og Helga Óskarsdóttir frá viðskiptaráðuneyti, Páll Gunnar Pálsson frá Samkeppniseftirlitinu, Helga Sigurðardóttir frá Neytendastofu og Gísli Tryggvason talsmaður neytenda og gerðu grein fyrir þeim hluta fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2009 sem fellur undir málefnasvið ráðuneytisins og undirstofnana þess. Þá komu fulltrúar Fjármálaeftirlitsins til nefndarinnar í tengslum við frumvarp til laga um breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi (þskj. 28, 28. mál) og í þeirri umfjöllun var m.a. fjallað um fjármál eftirlitsins.
    Heildargjöld viðskiptaráðuneytis árið 2009 eru áætluð 2.768,9 m.kr. á rekstrargrunni en frá dragast sértekjur, 40 m.kr. Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum hækka um 407,7 m.kr. og eru áætluð 2.204,4 m.kr. Auk launa- og verðlagshækkana munar þar mest um hækkun á fjárheimild til Einkaleyfastofu og til Neytendastofu. Þó er í þessum tilfellum um að ræða hækkun á rekstrarfjárveitingu í samræmi við samsvarandi hækkun ríkistekna samkvæmt endurskoðaðri tekjuáætlun stofnananna. Þá er gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til aðalskrifstofu ráðuneytisins sem skýrist meðal annars af kostnaði eftir skiptingu iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis í tvö ráðuneyti. Felst sú hækkun í auknum húsnæðiskostnaði og nýjum störfum rekstrarstjóra, bókara, skjalavarðar og ritara.
    Vegna breyttra aðstæðna og þess ástands sem nú ríkir hefur nefndin fullan skilning á því að draga þurfi úr ríkisútgjöldum. Á fundum nefndarinnar kom fram að fjárlagafrumvarpið fæli nú þegar í sér niðurfellingu fjárlagaliðar, þ.e. niðurfellingu jöfnunar á kostnaði við vöruflutninga sem nam 150 m.kr. á árinu 2008. Hvað varðar aðrar leiðir til þess að draga úr ríkisútgjöldum vegna þessa málaflokks hefur sjónarmiðum um takmörkun fjárveitinga til stofnana sem hafa beinar tekjur, þ.e. til Einkaleyfastofu og Neytendastofu, helst verið hreyft fyrir nefndinni.
    Þá kom það sjónarmið fram á fundum nefndarinnar að um 70% fjárveitinga til viðskiptaráðuneytisins falli undir rekstrargjöld og því valdi lækkun á fjárveitingum aðeins fækkun starfsfólks. Staðan sé hins vegar sú að verkefnum ráðuneytisins hafi fjölgað og miklar annir verið hjá starfsfólki. Því sé ekki svigrúm til mikilla lækkana nú.
    Sérstaklega ber að tiltaka breyttar fjárheimildir Fjármálaeftirlitsins en frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2009 gerði ráð fyrir að framlög til stofnunarinnar yrðu 1.116 m.kr. sem jafngildi 180,3 m.kr. hækkun að raungildi vegna aukinna verkefna og fjölgunar starfsmanna hjá stofnuninni. Útgjöld Fjármálaeftirlitsins skyldu vera fjármögnuð með hækkun á eftirlitsgjaldi í samræmi við frumvarp til laga um breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi (þskj. 28, 28. mál). Vegna verulega breyttra forsendna hefur Fjármálaeftirlitið sett fram breytta rekstraráætlun og einnig breytta tillögu að skiptingu eftirlitsgjaldsins og mun frumvarpið þannig taka nokkrum breytingum í meðförum viðskiptanefndar. Gert er ráð fyrir að framlög til stofnunarinnar aukist lítið sem ekkert frá fjárlögum ársins 2008 enda þykir sýnt að eftirlit með fjármálafyrirtækjum vegna starfsemi þeirra erlendis muni dragast saman þar sem sú starfsemi íslenskra fjármálastofnana verður lítil sem engin. Að sama skapi áætlar eftirlitið að fresta stækkun á húsnæði og fjölgun starfsmanna þrátt fyrir yfirtöku nýrra verkefna. Rétt þykir að minnast á að fjárheimildir Fjármálaeftirlitsins hafa hækkað verulega frá árinu 2006 en þá tæplega tvöfölduðust þær milli ára og síðan varð hækkunin rúm 50% árið þar á eftir. Í breyttri áætlun Fjármálaeftirlitsins er gert ráð fyrir að framlög innheimt með álagningu eftirlitsgjalds nemi 812,7 m.kr. árið 2009 og að greiðsluhlutfall viðskiptabanka og Íbúðalánasjóðs hækki. Auk þess er gert ráð fyrir fastri gjaldheimtu að fjárhæð 4 m.kr. frá Kaupþingi banka hf., Glitni banka hf. og Landsbanka Íslands hf. Þó ber að halda því til haga að núverandi ástand á fjármálamörkuðum og óvissa sú sem nú ríkir gerir það að verkum að erfitt er að setja fram staðfestar tölur um hverjar raunverulegar tekjur stofnunarinnar af eftirlitsgjaldinu verða og er því um aðeins áætlun að ræða. Þá er ljóst að breytt álag verður hjá Fjármálaeftirlitinu vegna ástandsins á fjármálamörkuðunum.
    Þá vill viðskiptanefnd benda á mikilvægi þess að tryggð verði sanngjörn fjárframlög til Samkeppniseftirlitsins, enda telur nefndin að aldrei hafi verið mikilvægara að standa vörð um samkeppni og leikreglur á þeim vettvangi en einmitt nú. á þeim erfiðu tímum sem uppi eru.
    Að lokum vill viðskiptanefnd tiltaka mikilvægi þess að ákveðið aðhald verði sýnt í fjárlögum fyrir árið 2009 og leggur því til við fjárlaganefnd að hún yfirfari og skoði mögulegar leiðir til hagræðingar. Þó telur viðskiptanefnd að ávallt skuli gætt að grunnstofnunum og þá ekki síst stofnunum eins og Samkeppniseftirlitinu sem stendur vörð um virka samkeppni á markaði.
    Þeir Höskuldur Þórhallsson, Birkir J. Jónsson og Jón Bjarnason ásamt Jóni Magnússyni áheyrnarfulltrúa voru fjarverandi við afgreiðslu þessa álits.

Alþingi, 5. desember 2008.

Ágúst Ólafur Ágústsson, form.,
Guðfinna S. Bjarnadóttir,
Birgir Ármannsson,
Árni Páll Árnason,
Jón Gunnarsson,
Björk Guðjónsdóttir.Fylgiskjal XV.


Álitum frv. til fjárlaga fyrir árið 2009 (14 Umhverfisráðuneyti).

Frá umhverfisnefnd.    Umhverfisnefnd hefur að beiðni fjárlaganefndar fjallað um þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem er á málefnasviði nefndarinnar, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, og bréf fjárlaganefndar til umhverfisnefndar, dags. 20. nóvember 2008.
    Á fund nefndarinnar kom Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir frá umhverfisráðuneytinu.
    Heildarútgjöld umhverfisráðuneytis árið 2009 eru áætluð 9.412,0 m.kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 2.195,0 m.kr. en þær nema 23,3% af heildargjöldum ráðuneytisins.
    Rekstrargjöld ráðuneytisins að frádregnum sértekjum eru áætluð 4.468 m.kr. og hækka um 743 m.kr. frá fjárlögum þessa árs. Auk launa- og verðlagshækkana munar þar mest um 73 m.kr. hækkun hjá Landgræðslu ríkisins, þar af 68 m.kr. vegna umsjónar með fyrirhleðslum sem nú flyst frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis í samræmi við breytta verkaskiptingu ráðuneyta Stjórnarráðsins. Í öðru lagi 72 m.kr. hækkun hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, þar af 47 m.kr. tengdar flutningi stofnunarinnar í nýtt húsnæði. Í þriðja lagi 69 m.kr. hækkun vegna ýmissa mála hjá Umhverfisstofnun og í fjórða lagi 50 m.kr. hækkun hjá Úrvinnslusjóði á móti samsvarandi hækkun tekna af úrvinnslugjaldi.
    Meðal helstu breytinga í frumvarpinu er 127,4 m.kr. hækkun á fjárveitingum Umhverfisstofnunar, 99,3 m.kr. hækkun til Vatnajökulsþjóðgarðs og 189,9 m.kr. hækkun til Landgræðslu ríkisins. Að þessum liðum frátöldum eru óverulegar breytingar á þeim fjárlagalið ráðuneytisins sem fjármagnaður er af ríkissjóði.
    Nefndin leggur áherslu á að leitað sé leiða til að lækka útgjöld umhverfisráðuneytis enda er það brýnt í því ástandi sem nú ríkir og miðað við þær spár sem hafðar hafa verið uppi um fjárlagahalla næsta árs. Umhverfisráðuneytið kynnti nefndinni tillögur sínar til útgjaldalækkunar sem námu samtals 5,2% eða 296,7 m.kr. Telur nefndin mikilvægt að ná sem næst 10% lækkun útgjalda. Nefndin leggur þó ekki til sérstakar breytingar hvað þetta varðar og telur eðlilegra að fjárlaganefnd fari í slíka vinnu enda sé þar heildaryfirsýn. Telur nefndin þó rétt að benda á að samkvæmt fjárlagafrumvarpi er úthlutað 209,0 m.kr til nýrra verkefna. Frá ráðuneytinu fengust þær upplýsingar að sú upphæð lækkar um 47,0 m.kr. sem gert var ráð fyrir í flutning Náttúrufræðistofnunar Íslands í nýtt húsnæði. Eftir standa þó enn 162,0 m.kr. sem nefndin leggur áherslu á að verði lækkað eftir megni.
    Nefndinni hafa borist 23 umsóknir um fjárveitingu af safnlið 14-190-1.90, Ýmis verkefni, og komu fimm umsækjendur á fund nefndarinnar. Gerir nefndin að tillögu sinni að tólf umsækjendur fái styrk. Í tengslum við umsókn Náttúrufræðistofu Kópavogs vísar nefndin til álits síns vegna fjárlaga 2008 og ítrekar sjónarmið sem þar komu fram um að rétt sé að skoða hvort ekki sé ástæða til að stofan heyri undir lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992.
    Nefndin reyndi að halda þessum lið í lágmarki og miða tillögur að mestu við styrki í fjárlögum þessa árs þó að jafnframt séu styrkir lækkaðir nokkuð. Þá er flestum nýjum verkefnum hafnað. Nefndin gerir tillögu um úthlutun 22,8 m.kr. eða um 74% af þeim 30,8 m.kr. sem hún hefur til ráðstöfunar samkvæmt frumvarpinu. Tillögur nefndarinnar um skiptingu safnliðarins koma fram í sérstöku fylgiskjali.
    Björk Guðjónsdóttir skrifar undir álitið með fyrirvara vegna setu í fjárlaganefnd.
    Kolbrún Halldórsdóttir og Árni Þór Sigurðsson skrifa undir álitið með eftirfarandi fyrirvara:
    „Vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar hefur vinna við fjárlagafrumvarpið í nefndum þingsins verið ómarkviss og í lágmarki. Vegna þess hversu óvissan í fjárreiðumálum þjóðarinnar er mikil teljum við illgerlegt að taka ábyrga afstöðu til einstakra málasviða frumvarpsins, enda forsendur þess brostnar. Upplýsingar sem nefndunum hafa borist eru af skornum skammti og því skortir sárlega heildaryfirsýn. Ekki liggur fyrir ný þjóðhagsspá sem tekur mið af þeim aðstæðum sem nú ríkja. Stjórnvöld hafa ekki látið meta efnahagshorfur í ljósi breyttra aðstæðna og því byggist núverandi fjárlagavinna hvorki á traustum né ábyrgum grunni. Tillögur um niðurskurð liggja ekki fyrir en ljóst er að í skilyrðum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir lánveitingu eru fólgnar kröfur um að skorið verði niður á fjölmörgum sviðum samfélagsins, enda á ríkissjóður að vera rekinn án halla árið 2012. Slíkt mun koma illa niður á opinberri fjármögnun í velferðarkerfi þjóðarinnar og hætt við að umhverfismálin verði sérstaklega illa úti í þeim niðurskurði.
    Með vísan til framangreinds rökstuðnings og hversu lítið er vitað um hvernig meðferð fjárlagafrumvarpsins á Alþingi verður háttað höfum við eindreginn fyrirvara við afgreiðslu þessa álits.“
    Guðfinna S. Bjarnadóttir og Illugi Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. desember 2008.

Helgi Hjörvar, form.,
Kjartan Ólafsson,
Kolbrún Halldórsdóttir, með fyrirvara,
Höskuldur Þórhallson,
Björk Guðjónsdóttir, með fyrirvara,
Karl V. Matthíasson,
Árni Þór Sigurðsson, með fyrirvara.

Viðauki I. Skýringar á breytingartillögum við sundurliðun 2.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Viðauki II. Skýringar á breytingartillögum við sundurliðun 3 og sundurliðun 4.Sundurliðun 3 (Fjármál ríkisfyrirtækja í B-hluta).


29 Fjármálaráðuneyti

101    Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.
        Áætlað er að fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum hækki um 50 m.kr. frá áætlun frumvarpsins og stafar hækkunin fyrst og fremst af verðlagshækkunum sem leiða til aukins kostnaðar í fjárfestingum. Búist er við að kostnaður vegna nýrrar vínbúðar í Reykjanesbæ hækki frá upphaflegri áætlun og auk þess stendur til að stækka verslun ÁTVR á Akureyri sem kallar á auknar fjárfestingar. Þá mun hluti kostnaðar vegna byggingar vöruskemmu stofnunarinnar færast á árið 2009.

31 Iðnaðarráðuneyti

301    Íslenskar orkurannsóknir
        Í endurskoðaðri áætlun fyrir starfsemi stofnunarinnar er gert ráð fyrir minnkandi umsvifum og að ársveltan verði um 1.050 m.kr. í stað 1.300 m.kr. og rekstrargjöld lækki um 10 m.kr. frá fyrri áætlun. Gert er ráð fyrir 130 m.kr. tapi af rekstrinum á árinu 2009 í stað 100 m.kr. hagnaðar. Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum eru nú áætlaðar 40 m.kr. í stað 150 m.kr. og fjárfesting í áhættufjármunum 30 m.kr. sem ekki var gert ráð fyrir í fyrri áætlun. Jafnframt er reiknað með að handbært fé í árslok verði 5 m.kr. og lækki um 135 m.kr. frá fyrri áætlun.


Sundurliðun 4 (Fjármál lánastofnana í C-hluta).


42 Menntamálaráðuneyti

872    Lánasjóður íslenskra námsmanna.
        Áætlanir sjóðsins hafa verið endurskoðaðar. Helstu breytingar eru þær að útlán sjóðsins árið 2009 eru áætluð 14.476 m.kr. og aukast um 300 m.kr. frá frumvarpi til fjárlaga 2009. Breytingarnar skýrast í fyrsta lagi af því að nú er gert ráð fyrir að lánþegum fjölgi um 5% en ekki 15,5% eins og í fjárlagafrumvarpinu. Þetta leiðir til 1.139 m.kr. minni útlána. Í öðru lagi er nú gert er ráð fyrir 1.214 m.kr. meiri útlánum en samkvæmt frumvarpinu vegna gengisþróunar þar sem miðað er við gengisvísitöluna 194,6 stig í stað 150 áður. Í þriðja lagi skýrist hækkun af breytingum sem voru gerðar á úthlutunarreglum í nóvember síðastliðnum til að koma til móts við námsmenn vegna alvarlegra aðstæðna í íslensku efnahagslífi. Reglurnar leiða til 220 m.kr. meiri útlána vegna breytinga á viðmiðunargengi lána til skiptinema erlendis, lækkunar á tekjuviðmiði hjá þeim sem hefja lánshæft nám á vormisseri 2009 og þá eru sérstök aukalán. Að auki var vaxtastyrkur hækkaður og er áætlað að framlagsþörf sjóðsins hafi aukist við það um 109 m.kr. þannig að 308 m.kr. verði varið til slíkra styrkja. Framangreindar breytingar leiða til þess að framlag ríkisins til sjóðsins þarf að hækka um 465 m.kr. frá frumvarpinu. Í fjórða er lagt til vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar um hvernig brugðist verði við aðstæðum í efnahagsmálum að lækka framlag ríkisins frá því sem ella hefði orðið um 1.000 m.kr. og auka lántökur þannig að þær nemi 10.000 m.kr. Í fimmta lagi er gert ráð fyrir að sjóðurinn innheimti 5.300 m.kr. í afborganir af veittum löngum lánum sem er 120 m.kr. minna en í fjárlagafrumvarpinu.

47 Félagsmálaráðuneyti

Íbúðalánasjóður.
    Útlán sjóðsins eru áætluð 171,4 milljarðar kr. sem er hækkun um 87,7 milljarða kr. frá frumvarpinu. Nýjar lántökur verða 159,7 milljarðar kr. en voru áætlaðar 72,9 milljarðar kr., sem er hækkun um 86,8 milljarða kr.
    Fjármunatekjur eru áætlaðar 153 milljarðar kr. sem er hækkun um 91,1 milljarð kr. frá frumvarpinu. Fjármagnsgjöld voru áætluð 58,5 milljarður kr. en verða 149,9 milljarðar kr. sem er hækkun um 91,4 milljarða kr.
    Í afskriftasjóð útlána er áætlað að leggja 805 m.kr. sem er hækkun um 181 m.kr.
    Hreinar fjármunatekjur eru áætlaðar 2.287 m.kr. sem er lækkun um 493 m.kr. Hagnaður af starfsemi sjóðsins var áætlaður 2.322 m.kr. en verður 1.842 m.kr. og lækkar um 480 m.kr.
Afborganir af veittum löngum lánum og uppgreiðsla eldri lána eru áætlaðar 27,9 milljarðar kr. og hækka um 4,1 milljarð kr. Afborganir af teknum lögnum lánum voru áætlaðar 25,3 milljarðar kr. en verða 29,1 milljarður kr. og hækka um 3,8 milljarða kr.

201    Íbúðalánasjóður, húsbréfadeild.
        Fjármunatekjur húsbréfadeildar voru samkvæmt frumvarpinu 19,2 milljarðar kr. en verða 45,5 milljarðar kr. og hækka því um 26,2 milljarða kr. Fjármagnsgjöld verða 44,1 milljarður kr. og hækka um 27,6 milljarða kr. Framlag í afskriftasjóð útlána verður 154 m.kr. Hreinar fjármunatekjur voru áætlaðar 2.616 m.kr. en verða 1.190 m.kr. Rekstrartekjur deildarinnar verða 36 m.kr. og rekstrargjöld 21 m.kr. Hagnaður ársins var áætlaður 2.607 m.kr. en verður 1.205 m.kr. og lækkar um 1.402 m.kr. Afborganir veittra lána hækka um 2,7 milljarða kr. og verða 14,5 milljarðar kr. Afborganir útgefinna húsbréfa voru áætlaðar 6,7 milljarðar kr. en verða 7,4 milljarðar kr. og hækka því um 0,7 milljarða kr.

205    Íbúðalánasjóður, leiguíbúðir.
        Fjármunatekjur eru áætlaðar 18,7 milljarðar kr. og hækka um 9,4 milljarða kr. frá frumvarpinu. Fjármunagjöld eru áætluð 18.1 milljarður kr. og hækka um 8,5 milljarða kr. Heildarlánveitingar til leiguíbúða og annarra lánaflokka voru 33 milljarðar kr., verða 26,8 milljarðar kr. sem er lækkun um 6,2 milljarða kr. Í stað áforma um lánveitingar til allt að 750 leiguíbúða á árinu 2009 er áfram miðað við 400 íbúðir. Niðurgreiðsla vaxta vegna leiguíbúða verður 414 m.kr. Sjóðsstaða deildarinnar verður jákvæð um 3,1 milljarð kr.

211    Íbúðalánasjóður, viðbótarlán.
        Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld hækka í samræmi við spá um hærri verðbólgu. Áætlaður hagnaður lækkar um 34 m.kr. og verður 118 m.kr. Gert er ráð fyrir 152 m.kr. aukningu í afborgunum af veittum lánum en 25 m.kr. hækkun á afborgunum af teknum lánum sjóðsins. Sjóðsstaða í árslok er áætluð 2.004 m.kr. og batnar um 567 m.kr. frá fyrri áætlun.

215    Íbúðalánasjóður, byggingarsjóðir ríkisins og verkamanna.
        Tap af rekstri sjóðanna verður 2.196 m.kr. og hækkar um 1.228 m.kr. frá því sem áætlað var í frumvarpinu. Sjóðsstaða var áætluð 8.658 m.kr. en verður 1.937 m.kr. og lækkar því um 6.721 m.kr.

219    Íbúðalánasjóður, íbúðalánadeild.
        Fjármunatekjur voru áætlaðar 25,6 milljarðar kr. en verða 70,7 milljarðar kr. og hækka um 45,1 milljarð kr. Fjármagnsgjöld verða 67,5 milljarðar kr. og hækka um 43,7 milljarða kr. Heildarútlán deildarinnar verða 144,7 milljarðar kr. og hækka um 93,9 milljarða kr. Áætlað er að almenn lán lækki frá frumvarpinu en gert er ráð fyrir að Íbúðalánasjóður yfirtaki 100 milljarða kr. í fasteignaveðlánum frá fjármálastofnunum í samræmi við heimildir í neyðarlögum ríkisstjórnarinnar. Í lögunum fá fjármálastofnanir heimild til að óska eftir því að Íbúðalánasjóður kaupi af þeim fasteignveðlán. Óvissa ríkir um að hve miklu leyti sú heimild verður nýtt. Ný lán eru áætluð 130 milljarðar kr. sem er hækkun um 87,5 milljarða kr. frá frumvarpinu.

51 Iðnaðarráðuneyti

101    Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.
        Í endurskoðaðri áætlun um rekstur Nýsköpunarsjóðs er gert ráð fyrir að fjármunatekjur sjóðsins verði 300 m.kr. sem er 88 m.kr. lækkun frá fyrri áætlun. Ráðgert er að leggja 160 m.kr. í afskriftasjóð og er það 58 m.kr. hækkun frá fyrri áætlun. Rekstrarkostnaður skrifstofu sjóðsins er nú áætlaður 120 m.kr. en það er 23 m.kr. hækkun. Endurskoðuð áætlun gerir ráð fyrir 18 m.kr. hagnaði á rekstri sjóðsins og er það 169 m.kr. lækkun frá áætlun fjárlagafrumvarpsins. Í áætlun sjóðsins er nú gert ráð fyrir að verja 1.000 m.kr. til áhættufjárfestinga og er það lækkun um 500 m.kr. frá fyrri áætlun. Gangi framangreint eftir verður handbært fé í árslok 2009 um 1,6 milljarðar kr. í stað 2,3 milljarða kr. í fyrri áætlun.

371    Orkusjóður.
        Í endurskoðaðri áætlun fyrir rekstur Orkusjóðs á árinu 2009 er gert ráð fyrir að fjármunatekjur lækki um 6,5 m.kr. frá því sem áætlað var í fjárlagafrumvarpinu og verði 8,5 m.kr. Á árinu 2008 var Orkubúi Vestfjarða veitt 102 m.kr. jarðhitalán og er í endurskoðaðri áætlun ekki gert ráð fyrir lánveitingum né framlagi í afskriftasjóð útlána á árinu 2009. Gert er ráð fyrir að handbært fé í árslok verði 91,5 m.kr.

411    Byggðastofnun.
        Í endurskoðaðri áætlun um rekstur Byggðastofnunar á árinu 2009 er gert ráð fyrir að fjármagnstekjur hækki um 650 m.kr. frá fyrri áætlun og fjármagnsgjöld hækki um 550 m.kr. Framlag í afskriftasjóð útlána hækkar um 100 m.kr. og rekstrarframlag ríkissjóðs lækkar um 40 m.kr. vegna sparnaðarkröfu. Gert er ráð fyrir að innheimtar afborganir af veittum lánum lækki um 300 m.kr. frá fyrri áætlun og verði 1.200 m.kr. og afborganir af teknum lánum lækki um 600 m.kr. og verði 1.100 m.kr. Gangi framangreint eftir verður handbært fé í árslok 1.623 m.kr. sem er 505 m.kr. hækkun frá fyrri áætlun.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.