Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 343, 136. löggjafarþing 120. mál: umgengni um nytjastofna sjávar (útflutningur óunnins afla).
Lög nr. 144 16. desember 2008.

Lög um breytingu á lögum nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.


1. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Öllum afla, sem íslensk skip veiða úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands, skal landað innan lands og hann veginn í innlendri höfn.
     Ráðherra getur með reglugerð heimilað að ísfiski sé landað í erlendum höfnum eða hann fluttur úr landi án þess að hafa verið endanlega veginn, enda sé fiskurinn seldur á opinberum fiskmarkaði sem hlotið hefur leyfi Fiskistofu. Sé fyrirhugað að flytja út óunninn afla til sölu á fiskmarkaði erlendis sem ekki hefur verið endanlega vigtaður og skráður í aflaskráningarkerfi Fiskistofu skal útgerð og skipstjóri fiskiskips tryggja að Fiskistofu séu sendar upplýsingar um aflann eigi síðar en 24 klukkustundum áður en aflinn fer um borð í flutningsfar eða skip fer af miðum, sigli fiskiskip með eigin afla. Útgerð skal einnig upplýsa hvaða lágmarksverðs er krafist fyrir afla. Upplýsingar þessar skulu birtar á opnum uppboðsvef uppboðsmarkaðar fyrir sjávarafla þar sem aflinn skal boðinn upp. Ráðherra skal kveða á um uppboðsskilmála og framkvæmd uppboðs í reglugerð.
     Þá getur ráðherra heimilað með reglugerð að afla sem veiddur er úr íslenskum deilistofnum sé landað erlendis, enda sé eftirlit með löndun afla og vigtun hans talið fullnægjandi.
     Þegar sérstaklega stendur á, t.d. vegna alvarlegrar vélarbilunar, getur Fiskistofa heimilað að skip sem vinna afla um borð landi erlendis.
     Fiskistofa skal innheimta af fiskmarkaði erlendis kostnað sem til fellur við upphaflega úttekt á fiskmarkaði í kjölfar umsóknar, vegna launa eftirlitsmanna erlendis og við sérstakar eftirlitsúttektir af hálfu Fiskistofu. Enn fremur er Fiskistofu heimilt að innheimta af útgerð skips sem landar afla sínum erlendis, sbr. 3. og 4. mgr., kostnað vegna ferðar eftirlitsmanns til að fylgjast með löndun úr skipinu erlendis. Ráðherra setur nánari reglur um greiðslu kostnaðar samkvæmt ákvæði þessu.

2. gr.

     Við 17. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Fiskistofa skal afturkalla leyfi erlends fiskmarkaðar til að móttaka afla íslenskra fiskiskipa sem ekki hefur verið endanlega veginn ef fyrirsvarsmenn fiskmarkaðar, starfsmenn eða aðrir þeir sem í þágu hans starfa hafa brotið gegn ákvæðum III. kafla eða reglum settum samkvæmt þeim. Hið sama á við standi erlendur fiskmarkaður ekki í skilum með greiðslu kostnaðar skv. 5. mgr. 5. gr.

3. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. febrúar 2009.

Samþykkt á Alþingi 12. desember 2008.