Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 28. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 351  —  28. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.

Frá viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kjartan Gunnarsson frá viðskiptaráðuneyti, Jónas Fr. Jónsson, Ragnar Hafliðason og Þorstein E. Marinósson frá Fjármálaeftirlitinu, auk fulltrúa frá samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Guðjón Guðmundsson frá Sambandi íslenskra sparisjóða og Guðmund Örn Gunnarsson, forstjóra VÍS og fulltrúa vátryggingafyrirtækja. Umsagnir bárust nefndinni um málið frá Viðskiptaráði Íslands, Fjármálaeftirlitinu, Félagi stórkaupmanna, Kauphöll Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum verslunar og þjónustu.
    Með frumvarpinu er kveðið á um breytingar á álagningarstofnum eftirlitsskyldra fjármálastofnana. Breytingar þær sem frumvarpið felur í sér skýrast af lögbundnu endurmati á kostnaðarskiptingu vegna reksturs Fjármálaeftirlitsins, þróun álagningarstofna eftirlitsskyldra aðila og mati á kostnaðardreifingu. Vegna atburða þeirra sem orðið hafa í íslenskum fjármálaheimi frá því að frumvarp þetta var lagt fram hefur þurft að fara fram endurmat á kostnaðaráætlun Fjármálaeftirlitsins og liggur það nú fyrir. Ljóst er að töluverðar breytingar verða á rekstrarumhverfi eftirlitsins og að umfang þess mun breytast talsvert, m.a. vegna þess að erlend starfsemi íslenskra fjármálastofnana verður mjög lítil á næstu árum auk þess sem fyrirsjáanlegur er samdráttar í útgáfu hluta- og skuldabréfa. Þannig hefur Fjármálaeftirlitið reiknað með að álagningarþörfin fyrir árið 2009 verði 825,7 millj. kr. en ekki 1.116 millj. kr. eins og gert var ráð fyrir í upphaflegu frumvarpi. Samkvæmt upphaflegum útreikningi hefði hækkun eftirlitsgjaldsins orðið um 22% eða 201 millj. kr. og átti sú hækkun að koma til móts við aukinn kostnað við eftirlit stofnunarinnar, stækkun húsnæðis Fjármálaeftirlitsins og nýtt hlutverk þess samkvæmt innheimtulögum, nr. 95/2008.
    Eðli málsins samkvæmt hefur frumvarpið tekið nokkrum breytingum í meðförum viðskiptanefndar en nefndin hefur fengið á fund sinn hagsmunaaðila til þess að ræða hver eðlileg skipting eftirlitskostnaðar geti talist miðað við breyttar forsendur. Nokkuð var rætt í nefndinni um hækkandi hlutfall eftirlitsgjalds á viðskiptabanka og var þeim sjónarmiðum meðal annars hreyft að ekki ætti að koma til sams konar hækkunar á eftirlitsgjaldi sparisjóða og annarra lánastofnana, m.a. þar sem slíkar fjármálastofnanir beri sem hluta af efnahagsreikningum sínum endurhverf viðskiptabréf gagnvart gömlu bönkunum sem nýju viðskiptabankarnir bera ekki. Auk þessa komu þau sjónarmið fram fyrir nefndinni að hlutfallsleg hækkun á fjárhæð eftirlitsgjalds lífeyrissjóða og vátryggingafélaga væri ekki eðlileg þar sem hrun á fjármálamarkaði komi mest niður á eftirliti með viðskiptabönkum og lánastofnunum. Þá var því sjónarmiði hreyft fyrir nefndinni að eðlilegt væri að þátttaka Íbúðalánasjóðs í eftirlitskostnaði væri hærri, m.a. vegna fyrirsjáanlegs aukins umfangs í starfsemi sjóðsins á næstu missirum.
    Að auki hefur Fjármálaeftirlitinu, frá því að frumvarp þetta var lagt fram, verið falið mikilvægt nýtt hlutverk á grundvelli laga nr. 134/2008, um breytingu á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál. Eru Fjármálaeftirlitinu þar falin ný verkefni á sviði gjaldeyriseftirlits en benda má að sérstök deild, með fjölda starfsmanna, starfaði í þessum tilgangi hjá Seðlabanka Íslands meðan gjaldeyrishömlur ríktu síðast hér á landi. Má telja víst að verkefni þetta feli því í sér jafngildi að minnsta kosti eins stöðugildis og er varlega áætlaður kostnaður við slíkt stöðugildi 13 millj. kr. Í breytingartillögum er þess vegna gert ráð fyrir að þeim kostnaði verði dreift á fjármálafyrirtæki sem heimild hafa til gjaldeyrisviðskipta með hreyfingum á álagningarprósentum hvers aðila, en fast lágmarksgjald á þessa aðila þótti ekki fýsilegt þar eð slíkt gjald kæmi líklega hlutfallslega þyngra niður á minni fjármálafyrirtækjum.
    Nefndin leggur því til eftirfarandi breytingar:
    Í fyrsta lagi leggur nefndin til breytingu sem færir tilvísun sem finna má í 4. gr. laganna til rétts vegar vegna tilfærslu á málsgreinum 5. gr. í frumvarpinu.
    Í öðru lagi leggur nefndin til viðbætur við 3. mgr. 4. gr. laganna þannig að tiltekið sé að byggja skuli eftirlitsgjald nýrra eftirlitsskyldra aðila á stofnefnahagsreikningi liggi hann fyrir.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir hækkun á hlutfallsskiptingu eftirlitsgjaldsins úr 0,00682% í gildandi löggjöf í 0,00774% fyrir viðskiptabanka. Vegna sparisjóða, lánafyrirtækja og rafeyrisfyrirtækja er lögð til hækkun úr 0,0061% í gildandi lögum í 0,00686%. Hið upprunalega frumvarp gerði hins vegar ráð fyrir lækkun gjaldsins úr 0,00682% á viðskiptabanka og 0,00661% á sparisjóði og aðrar lánastofnanir niður í 0,00603% á hvern aðila fyrir sig. Eins og áður segir er með hækkun þessari, meðal annars, komið til móts við aukinn kostnað Fjármálaeftirlitsins af eftirliti með gjaldeyrisviðskiptum þessara fjármálafyrirtækja sem leyfi hafa til slíkra viðskipta.
    Þá er lagt til að eftirlitsgjald það sem Kaupþing banki hf., Glitnir banki hf. og Landsbanki Íslands hf. greiði verði föst fjárhæð, 4 millj. kr. á hvern banka.
    Í fimmta lagi er gert ráð fyrir hækkun á álagningarhlutfalli sem Íbúðalánasjóður greiðir og að það hlutfall hækki úr 0,00275% í 0,0032% vegna aukinna umsvifa Íbúðalánasjóðs við yfirtöku íbúðalána frá viðskiptabönkunum. Mun þannig eftirlit með stofnuninni aukast.
    Að lokum leggur nefndin til breytingu sem felur í sér álagningu fastagjalds vegna nýrra verkefna Fjármálaeftirlitsins á sviði eftirlits með innheimtuaðilum, sbr. lög nr. 95/2008 sem taka gildi nú um áramót. Breytingartillagan gerir ráð fyrir að fastagjald að fjárhæð 600.000 kr. verði lagt á aðila sem fá innheimtuleyfi samkvæmt innheimtulögum.
    Þá vill nefndin árétta að áætluð heildarálagning eftirlitsgjalds fyrir árið 2009, með breytingum, mun skila lægri fjárhæð til eftirlitsins en upphaflega var reiknað með. Stafar sú lækkun af þróun og breytingum á íslenskum fjármálamarkaði og því að fallið er frá stækkun húsnæðis eins og áður hefur verið rakið. Fjárheimildir Fjármálaeftirlitsins hafa hins vegar, á síðustu árum, aukist verulega og nam eftirlitsgjald ársins 2006 alls um 435 millj. kr., árið 2007 nam það síðan 602,6 millj. kr. og loks er áætlað að fyrir árið 2008 nemi eftirlitsgjaldið 915 millj. kr. Eins og fyrr segir er gert ráð fyrir að eftirlitsgjald ársins 2009 verði 825,7 millj. kr. sem er um 37% hækkun frá árinu 2007 og um 90% hækkun frá árinu 2006. Því er ljóst að fjárheimildir eftirlitsins hafa aukist verulega á stuttum tíma og er það mat nefndarinnar að sú skerðing sem nú er áætluð á fjárheimildum eftirlitsins sé ekki veruleg með tilliti til breyttra aðstæðna og hlutfalls lækkunarinnar nú miðað við hækkanir síðustu þriggja ára.
    Birkir J. Jónsson, Höskuldur Þórhallsson og Björk Guðjónsdóttir, ásamt Jóni Magnússyni áheyrnarfulltrúa, voru fjarverandi við afgreiðslu máls þessa.
    Álfheiður Ingadóttir er samþykk áliti þessu með fyrirvara.

    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku skjali.

Alþingi, 12. des. 2008.



Ágúst Ólafur Ágústsson,


form., frsm.


Guðfinna S. Bjarnadóttir.


Birgir Ármannsson.



Árni Páll Árnason.


Jón Gunnarsson.


Álfheiður Ingadóttir,


með fyrirvara.